07.11.1973
Efri deild: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

69. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ekki er vafi á því, að l. þau sem sett voru á þinginu í fyrra, urðu til þess að auka nýtingu loðnuflotans og bæta afkomu margra loðnuverksmiðja. Í umr. um það mál gat ég þess, að það væri ástæða til að ranasaka, hvort ekki væri hægt að auka nýtingu flotans í enn ríkari mæli með því að greiða fyrir loðnuflutningum með bifreiðum, þegar loðnan væri komin vestur með landi. Um það bil sem loðnan er komin það vestarlega, að þrengjast fer í Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn, eru næstu möguleikar að sigla með loðnuna fyrir Reykjanes, þar eð bræðsluskilyrði eru mjög lítil í Grindavík, og þarna er um langa og erfiða sjóferð að ræða, sem tekur langan tíma. Aftur á móti er kostnaðarauki við flutninga með stórum vöruflutningabifreiðum frá Þorlákshöfn til Faxaflóahafnanna alls ekki geigvænlegur, og þess vegna eru það tilmæli mín til hæstv. sjútvn., að hún athugi gaumgæfilega, hvort ekki væri rétt að setja það ákvæði inn, að heimilað væri að greiða niður flutninga með bifreiðum. En þar sem svo er, að verð á loðnu er bundið við löndunarhöfn, yrðu líklega að koma til ákvæði um þetta atriði og taka það með í verðákvörðun. Ég held, að hér gæti verið um aukna nýtingu fiskskipaflotans að ræða, ef loðnan heldur sig lengi og í stórum mæli á þessum slóðum, kringum Vestmannaeyjar og þar fyrir vestan, og enn fremur, ef bræðslurnar hér við sunnanverðan Faxaflóa gætu hafið vinnslu, þótt ekki væri nema nokkrum dögum eða viku fyrr en ella, þá mundi nýting á allan hátt verða betri, þannig að hér sé mál, sem vert sé að athuga.

Að öðru leyti vil ég segja það, að ég tel, að þessi i. hafi reynst mjög nauðsynleg og mjög heppileg. Annað mál er það, hvort með þeirri breytingu, sem sett var inn á Alþingi og nú á að taka til baka, hafi ekki verið heldur hart í sakirnar farið, og verður það vafalaust rannsakað freka.r af hv. sjútvn.