30.04.1974
Sameinað þing: 80. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4015 í B-deild Alþingistíðinda. (3634)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í málflutning af þessu tagi, vegna þess að þetta eru sannast sagna dauðateygjur ríkisstj., og þess vegna er þetta orðið harla ómerkilegt. En það eru önnur atriði, sem ég vil aðeins ræða örlítið, og það var það, sem kom fram hjá hæstv, iðnrh., þar sem hann lét orð falla á þá leið, að hér í þingsölunum væri snúist gegn öllum málum ríkisstj. af slíku ofstæki, að fátítt væri í þingsögunni. Það fól í sér, að ríkisstj, væri ofsótt.

Hvernig standa nú málin í raun og veru? Þau standa þannig, að hér liggur fyrir á næstunni að gera till. um að skerða gildandi kjarasamninga, taka vísitöluna úr sambandi o.s.frv. Þannig hefur efnahagsástandið undir stjórn núv. ríkisstj. verið. Svo kemur þessi hæstv. ráðh. hér og heldur, að það sé bara af mannvonsku og illvilja, sem menn samþykki ekki ýmsar till. ríkisstj. í efnahagsmálum.

Það er dálítið skemmtilegt, þegar fulltrúi Alþb., sem telur sig vera verkalýðsflokk, hefur staðið þannig að málum, að láglaunafólkið í þjóðfélaginu stendur verr að vígi eftir gerða samninga en áður, og nú þegar farið er að tala um vísitöluskerðingu og annað, þá skuli slíkir menn leyfa sér að halda því fram, að hér séu allar till. ríkisstj. felldar bara af tómri mannvonsku og ofstæki. Ég skal ekki fara nánar út í þetta. En á meðan menn sjá ekki betur frá sér en þetta, þá er von, að illa fari.

Annað, sem ég vil víkja að, eru nokkur orð til hv. þm. Hannibals Valdimarssonar. Hann telur, að þingrof sé fráleitt, því að það þurfi að ráða fyrst við efnahagsvandann, En ég verð að segja það, að stjórnarflokkunum er lítt treystandi til að leysa þennan vanda, og það er auðvitað spurning, hvort það sé ekki best, að þessi ríkisstj. fari frá sem fyrst, svo að unnt sé að taka á þessum vanda, a.m.k. er sýnt, að stjórn þessara mála hefur ekki verið björguleg. Mér sýnist því langeðlilegast og heppilegast fyrir alla, bæði stjórn og stjórnarandstöðu og ekki síst fyrir þjóðina, að það sé gengið til kosninga sem fyrst, til þess að menn geti tekið á þessum málum af nokkurri djörfung. Hitt skal ég svo fræða hæstv, iðnrh. um, að hann er að gutla í sams konar ráðstöfunum og viðreisnarstjórnin og aðrir hafa gert og hann hefur gagnrýnt mest allra manna, og er það mjög góð lýsing á, hvernig ástandið er.

Svo að lokum gamanmál. Hérna sitja nú tveir hv. þm. Annar heitir Hannibal Valdimarsson, hinn heitir Gylfi Þ. Gíslason. Þeir eru að sameinast í einhverjum flokki og eru ósammála bæði í utanríkismálum og öllum meginþáttum innanlandsmálanna og efnahagsmálum. Er nú furða, að almenningur sé undrandi á þessum skopleik í íslenskum stjórnmálum, þegar þessir herrar eru að reyna að fallast í faðma, en eru ósammála eiginlega um öll atriði, sem máli skipta? Ég verð að segja, að það er von, að maður hlýði ekki með lotningu á svona menn. Ég held, að þeir ættu fyrst að hreinsa til í eigin búi, áður en þeir koma hér upp og eru að deila á ýmsa hluti. Þetta er hlægilegt, og það er von, að almenningur sé orðinn hundleiður á þessum stjórnmálamönnum.