02.05.1974
Efri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4033 í B-deild Alþingistíðinda. (3664)

174. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í tilefni af orðum hv. 6. þm. Reykv., Auðar Auðuns, sé ég mig neyddan til að minna á, að með samþykkt þessa frv. er um að ræða algjöra eðlishreytingu á starfsemi þessara skóla frá því, sem áður var. Fram að þessu hafa þessir skólar að vísu fengið nokkurn stuðning við rekstur sinn frá ríkisvaldinu, en sá stuðningur hefur verið ólögbundinn og aðeins hluti af þeim kostnaði, sem við þessa skóla hefur verið. En hér er um að ræða, að við erum að ákveða lögbundna skyldu ríkisvaldsins til að greiða allan rekstrarkostnað þessara skóla, hvorki meira né minna, og 80% af rekstrarkostnaði heimavistanna. Hér er því um að ræða algjöra eðlisbreytingu á rekstri þessara skóla. Varðandi stofakostnað þeirra hefur ekkert framlag komið frá ríkinu til byggingar þessara skóla, en nú á ríkið að taka að sér að greiða 80% af stofnkostnaði. Er því ljóst, að einnig á þessu sviði er um algjöra eðlisbreytingu að ræða. Dettur mönnum þá í hug, að eðlisbreyting af þessu tagi hljóti ekki að hafa einhverjar aðrar afleiðingar, að starf þessara skóla verði nákvæmlega hið sama eftir sem áður og afskipti ríkisvaldsins öll með sama frumstæða hættinum og þau áður voru? Segir það sig ekki sjálft, að þegar slík eðlisbreyting verður á rekstri þessara skóla, þá verður líka að gera breytingu á skipan skólanefnda?

Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. þm., að ég vissi ekki nákvæmlega, hverjir eiga sæti í skólan. viðkomandi skóla, þó að ég hefði að sjálfsögðu nokkra hugmynd um það, að við þessa skóla væru starfandi skólanefndir. En ég taldi, að það væri atriði, sem í raun og veru skipti ekki neinu máli, við yrðum að taka þessa hlið málsins til algjörrar endurskoðunar og meta, hvað væri óhjákvæmilegt, miðað við þessar breyttu aðstæður.

Það er að minni hyggju tómt mál að tala um, að það hafi verið samkomulag í n., sem undirhjó frv., um þetta eða hitt. Þingið verður að meta og vega málið alveg sjálfstætt, átta sig á því, hvort fullnægt er eðlilegum skilyrðum, sem verður að setja. Við getum ekki bara strikað yfir rétt þingsins með því einfaldlega að vísa í, að það hafi verið samkomulag með einhverjum ákveðnum mönnum, sem áttu sæti í ákveð inni n., sem undirbjó frv. Ég fer ekki leynt með það, að ég hefði talið það stórfelld mistök, ef frv. væri samþ. óbreytt. Ég leyni því ekki, að ég hefði talið það nálgast að vera mjög alvarleg mistök. Ég tel óhjákvæmilegt að breyta frv. og leiðrétta þessi mistök, þannig að frv. sé sæmilega úr garði gert.

Ég vil að lokum spyrja hv. þm., hvort það sé skoðun þm., að brtt. okkar við 9. gr. frv. sé óeðlilegar. Er það raunveruleg skoðun þm., að hér eigi að vera um styrkveitingar að ræða upp á kannske tugi millj. á hverju ári, sem verði eign viðkomandi aðila? Þá á ég auðvitað sérstaklega við, að ef þessir skólar færu út í að byggja nýjar skólabyggingar, þá ætti ríkið að afsala sér eignarrétti á því fjármagni, sem það léti af hendi. Hvaða fordæmi væri fyrir því í okkar skólalöggjöf eða yfirleitt í okkar fjármálakerfi? Það væri algjörlega án fordæmis og að sjálfsögðu algjörlega óverjandi. Ég hélt satt að segja, að þær brtt., sem við höfum lagt fram og snerta 9. gr., væru þess eðlis, að allir gætu verið sammála um, að þær væru óhjákvæmilegar og væru fyrst og fremst komnar fram til að afstýra misskilningi. Ég ætlaði því varla að trúa mínum eigin eyrum, þegar ég heyrði, að þm. var að gera því skóna, að það væri eðlilegt að hafa þetta óbreytt og hér yrði um styrkveitingar að ræða af hálfu ríkisins til skóla, sem reknir væru af einkaaðilum. Ég vil þá spyrja, hvort það sé skoðun hv. þm., að hvaða aðili sem er geti ákveðið að koma upp skóla og gert kröfu um það til ríkisins að fá 80% af kostnaðinum greiddan úr ríkissjóði. Ég er hræddur um, að það kæmi svipur á menn, ef aðrir aðilar, — því að það eru margir fleiri ágætir aðilar í þjóðfélaginu en Verslunarráð eða samvinnuhreyfingin, sem er auðvitað alveg sérstaklega alls góðs makleg, — það eru margir fleiri aðilar í þjóðfélaginu, sem gætu látið sér til hugar koma að koma upp sérskólum upp á þessi býti. Dettur mönnum þá í hug að skapa hér það fordæmi, að menn ættu kröfu til að fá 80% af byggingarkostnaði þeirra skóla afhentan úr ríkissjóði?

Ég vil að lokum undirstrika það, að þær brtt., sem við höfum lagt hér fram, eru algjörlega óhjákvæmilegar út frá heilbrigðri skynsemi, vegna þess að hér er um eðlisbreytingu á skólunum að ræða. Ég vil mótmæla því, að með þessum brtt. sé verið að skerða sjálfstæði skólanna alvarlega. Hér er ekki um það að ræða. Samkv. frv. er sjálfstæði þessara skóla varðveitt, að svo miklu leyti sem hægt er að tala um, að skólar af þessu tagi geti verið algjörlega sjálfstæðir í þjóðfélaginu. Það geta þeir að sjálfsögðu aldrei verið. Þeir verða að taka tillit til margra laga og margra reglna, sem settar eru til samræmingar, og þeir verða að sjálfsögðu að beygja sig fyrir því, að ef þeir hljóta að miklum meiri hluta styrk úr ríkissjóði til rekstrar og til stofnkostnaðar, þá hafi ríkisvaldið einhverja lágmarksmöguleika til þess að fylgjast með því, hvernig því fé er varið. En að það sé verið að skerða sjálfstæði þessara skóla með því, að menntmrn. megi skipa einn fulltrúa af kannske fimm fulltrúum í skólanefnd, er að sjálfsögðu algjörlega fráleitt.