07.05.1974
Efri deild: 118. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4238 í B-deild Alþingistíðinda. (3826)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Frsm. meiri hl. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur verið rætt á fundum sjútvn. þessarar hv. d. N. varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Allir nm. nema einn leggja til, að frv. verði samþ., eins og það liggur hér fyrir, en minni hl., Jón Árm. Héðinsson, gefur út sérálit um málið og vill vísa því til ríkisstj.

Frv. þetta um nýtt sérstakt útflutningsgjald af loðnuafurðum, þ.e.a.s. af loðnulýsi, loðnumjöli og frystri loðnu til manneldis, var lagt fram í Nd. og var afgr. þaðan samhljóða. Hér er um að ræða frv. til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 11. jan. s.l. Þau brbl. voru sett til þess að ákvarða í lögum ákveðið samkomulag, sem hafði orðið á milli fiskseljanda og fiskkaupenda í sambandi við ákvörðun á fiskverði um s.l. áramót. En það samkomulag um fiskverðið, er gilti á vetrarvertíð eða fram til maíloka, byggðist þó á því, að m.a. yrðu gerðar ráðstafanir þær, sem eru í þessu frv.

Gert var ráð fyrir 5% gjaldi af loðnuafurðum, og sú upphæð var talin mundu nema ca. 250 millj. kr. Að sjálfsögðu var þar lagt til grundvallar áætlað aflamagn og ákveðið verð á þessum vörum.

Í samkomulaginu, sem gert var um áramótin, var gert ráð fyrir því, að 25 millj. af þessari fjárhæð rynnu í Lífeyrissjóð sjómanna og að sú fjárhæð ætti að auðvelda með breyttum ákvæðum um eftirlaunaaldur, að sjómenn, sem starfað hafa tiltekinn tíma, komist á eftirlaun á allmiklu lægri aldri en verið hefur áður.

Meginhluta hins nýja útflutningsgjalds skyldi varið til að halda niðri verði á brennsluolíu til fiskiskipaflotans, jafnt þess skipaflota, sem stundar þorskveiðar sem loðnuveiðar. Þetta var gert til að leysa vandann á vetrarvertíðinni.

Eins og ég sagði í upphafi, leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég held, að öll n. hafi verið sammála í raun og veru um, að þær ráðstafanir, sem gerðar voru, hafi greitt verulega fyrir fiskverðsákvörðuninni um áramótin. Ágreiningur er ekki um það, heldur að hér er að nokkru breytt um, hvernig gjaldið er innheimt og hverjir greiða það. Ég skal ekki fara nánar út í það, það er annað mál.

Ég vil endurtaka, að meiri hl. sjútvn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það liggur hér fyrir.