07.05.1974
Neðri deild: 121. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4257 í B-deild Alþingistíðinda. (3847)

324. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á l. nr. 80 frá 16. sept. 1971, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, er fyrst og fremst fólgið í því, að fæðisgreiðslur til sjómanna hækka. Eins og öllum er kunnugt, hafa þessir liðir hækkað mjög mikið síðan þessar tölur voru ákveðnar síðast, og er nauðsynlegt, að af þeirri hækkun verði. Ég vil leyfa mér — með leyfi forseta — að lesa hluta af aths. við frv., þannig að hv. þm. átti sig á því hvað hér er um að ræða:

„Samninganefnd Landssambands ísl. útvegsmanna, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Sjómannasambands Íslands samþykktu nýlega í viðræðum um kaup og kjör sjómanna á fiskibátum að fara þess á leit við ríkisstj., að hún beitti sér fyrir því, að fæðisgreiðslum til sjómanna yrði breytt eins og lagt er til í lagafrv. þessu. Eru í frv. teknar óbreyttar óskir þessara aðila, eins og þær eru settar fram í bréfum til sjútvrh., dags. 9, mars og 3. apríl 1974, sem undirrituð eru af Kristjáni Ragnarssyni, f.h. Landssambands ísl. útvegsmanna, Ingólfi Stefánssyni, f.h. Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, og Jóni Sigurðssyni, f.h. Sjómannasambands Íslands.“

Eins og fram kemur af þessu, er þarna um samningsatriði að ræða frá síðustu samningum um kaup og kjör sjómanna. Sjútvn. leggur einróma til, að frv. verði samþ. til þess að við þessa samninga verði staðið.