07.05.1974
Neðri deild: 122. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4259 í B-deild Alþingistíðinda. (3857)

291. mál, almannatryggingar

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Þótt mjög skammt sé nú að öllum líkindum eftir af þingtímanum, er það vitanlega alveg óviðunandi starfsaðferð og ill meðferð á mikilvægum málum, að ætlast sé til, að þau séu tekin til umr. með afbrigðum í þd., án þess að þeim sé fylgt úr hlaði með skýringum. Þess vegna var það ágætt, að hæstv. ráðh. flutti nokkrar skýringar með frv.

Ég vil geta þess, að ég gleðst yfir því að sjá í þessu frv., að nú loksins hefur verið tekið undir þá till. okkar sjálfstæðismanna, að ekki beri að skerða tekjutryggingu aldraðra eða öryrkja að fullu sem svarar hverri krónu, sem þeir vinna sér inn fyrir utan lífeyri sinn. Það er sannarlega ánægjuefni, að hæstv. ráðh. skuli nú vera orðinn þessarar skoðunar. Ég vil þó benda á, þegar þetta mál verður athugað í n., að það væri að mínu viti eðlilegra, að miðað væri við það, að sú tekjuupphæð, sem lífeyrisþeginn ynni sér inn, væri sem svarar vissum hluta elli eða örorkulífeyrisins fremur en bundin við vissa upphæð, því að eins og dæmin sanna einmitt nú þessa dagana, eru upphæðirnar mjög á reiki í okkar þjóðfélagi, og það gerir málin ekki einfaldari að fjölga þessum mismunandi upphæðum frá því, sem nú er í tryggingalögum, og einfaldara væri fyrir almenning að átta sig á því, hvað um er að vera, ef miðað væri við einhverjar hámarksgrunnupphæðir og síðan brot eða hlutfall af þeim. Að öðru leyti mun ég ekki ræða mörg atriði þessa frv. efnislega. Til þess gefst tækifæri í n. og við 2. umr. — Ég hafði satt að segja ekki vænst þess, að þetta frv. yrði hér á dagskrá í dag.

Ég vil aðeins geta þess, að ég undrast það, að nú loks þegar kemur fyrir þingsins sjónir árangur af endurskoðunarstarfi á almannatryggingalögum og eftir þær yfirlýsingar og gagnrýni, sem oft hafa verið uppi hafðar í sambandi við greiðslu fjölskyldubóta, þá skuli það, sem fyrirhugað er að breyta á því sviði, ekki vera fólgið í öðru en því, sem hér stendur.

Það hefur oft komið til athugunar og umr., að miklu eðlilegra væri að hafa allt annan hátt á í sambandi við greiðslu fjölskyldubóta, að þær væru einfaldlega út úr tryggingakerfinu numdar og felldar inn í skattkerfið. Þannig gætu þær með vissum ráðstöfunum nýst betur þeim, sem mest þyrftu á þessum bótum að halda. Það atriði er hins vegar mjög flókið og viðamikið og kallar á breyt. á fleiri l., og mun ég þess vegna ekki fara út í það núna.

En óneitanlega virðist manni það dálítið einkennilegt, að þessar breyt. skuli, fyrst út í þær er farið á annað borð, ekki vera sem neinu nemur og engan veginn óumdeilanlegar, ef þær eru framkvæmdar á þann hátt, sem þarna er lagt til. Þær eru ósköp einfaldlega gerðar til þess að geta með einhverjum hætti sagt, að nú sé hafið það fyrirkomulag að greiða tannlæknaþjónustu að einhverju leyti á vegum almannatrygginga. En sá hængur er á þessari breyt., að það er sérstaklega tekið fram, að breyt., sem felst í 4. gr., eigi ekki að hafa áhrif á kaupgreiðsluvísitölu. Þess vegna virðist mér útkoman verða sú, að tannlækningarnar muni gegna þessu hlutverki, ef þetta frv. verður samþ. eins og það nú er.

Eitt atriði enn, sem er allflókið og getur kallað á ýmsar athuganir, er það, sem felst í 5. gr. um lyfjagreiðslurnar, og ég tel sjálfsagt, að n. í Nd. fái ýmsar sérfræðilegar upplýsingar þar að lútandi svo og í sambandi við önnur atriði þessa máls. Það er vitanlega ekki hægt að búast við því, að n. í Nd. sé búin að kynna sér öll atriði máls, sem hefur verið til meðferðar í Ed. Til þess var ekki ætlast, þegar málið var lagt fyrir, og ég vænti þess, að þetta mál verði ekki afgr. úr n. í Nd., nema henni gefist tími til þess að athuga, hvað um er að vera. Sannleikurinn er nefnilega sá í sambandi við ákaflega mörg viðamikil almannatryggingafrv., sem hafa verið afgreidd á Alþ. á undanförnum árum, að þau hafa flogið í gegnum þingið á mettíma, ef svo má segja, í þinglok, þegar nokkrir klukkutímar eru til stefnu og varla gefst tími til athugunar á neinu í því sambandi.

Þessi atriði vildi ég láta koma fram, áður en málið færi til nefndar.