08.05.1974
Efri deild: 124. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4326 í B-deild Alþingistíðinda. (3904)

8. mál, skólakerfi

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs við þessa umr, og það er þó vissulega ekki gert í þeim tilgangi að lengja umr. að nokkru marki. Ég vil aðeins víkja að þeirri brtt., sem við flytjum 6 nm, í menntmn. við 3. gr. þessa frv. Í þeirri grein stendur: „Grunnskóli er fyrir börn og unglinga frá aldrinum 7–16 ára og er þeim skylt að sækja hann.“ Nú leggjum við sexmenningarnir til, að orðin „og er þeim skylt að sækja hann“ falli niður, sem sé að skólaskyldan verði ekki bundin í þessu frv. eða þessum lögum. Ég tel, að með samþykkt þessarar brtt. standi það alveg opið að ákveða skólaskylduna í þeim lögum, sem fjalla um skyldunámsstigið, sem sé í grunnskólalögunum. Mér hafði jafnvel dottið í hug sú brtt., ef þetta þætti orka tvímælis, — þessi breyting, sem við sexmenningarnir leggjum til, — að það væri eðlilegt að flytja brtt., sem orðaðist eitthvað á þá leið, að grunnskólinn væri fyrir börn og unglinga á aldrinum 7–16 ára, en skólaskyldan skyldi ákveðin í lögum um grunnskóla, og bera það þá fram sem varabrtt. Ég hef samt ekki horfið að því ráði.

Ég vil aðeins taka það fram, að þessi brtt., sem við lögðum til, mundi ekki hafa nein áhrif og hún mundi ekki segja neitt til um skólaskylduna, og er þannig meinlaust að samþykkja hana.

Ég þarf auðvitað ekki að taka það fram sem flm. þessarar till., að ég mun greiða henni atkv. Mun þá á það reyna í atkvgr., hvort brtt. verði samþ. Aðrar brtt. eru ekki bornar fram við frv. Menntmn. hefur mælt með samþykkt frv., en 6 nm. þó flutt þessa brtt. við frv. Annað, sem ég hefði getað sagt við þessa umr., geymi ég mér, þar til grunnskólafrv. verður tekið til umr. á fundinum.