08.05.1974
Neðri deild: 128. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4411 í B-deild Alþingistíðinda. (3993)

9. mál, grunnskóli

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austf., Sverrir Hermannsson, hefur nú flutt allítarlega ræðu um það mál. sem hér er á dagskrá. Ræða hans, sem nú hefur staðið í fulla 5 klukkutíma, var hvort tveggja í senn fræðilegur fyrirlestur um sögu fræðslumála hér á landi frá því um miðja 19. öld og nákvæm sundurgreining á því frv., sem hér liggur fyrir, og hörð gagnrýni á ýmis atriði þess og málsmeðferð alla. Þessi ræða hefur, að mér virðist, enda vakið slíka athygli heyrenda, að fá dæmi eru, ef nokkur, ef hafa má hliðsjón af því, hver kyrrð og ítarleg athygli hefur verið í ásýnd þeirra mörgu pallagesta, sem hér hafa setið þolinmóðir í kvöld. Einnig minnist ég þess ekki að hafa séð starfsmenn sjónvarps og útvarps svo þolinmóða undir öðru máli. Þetta m.a. sannar það, hvað hér var flutt gagnmerk og ítarleg ræða, og á þessi hv. ræðumaður hrós skilið.

Þrátt fyrir það, að hv. ræðumaður hafi þannig farið vítt yfir og vikið að mörgum efnum, sem ég get í flestu eða öllu lýst samþykki mínu við og tekið undir, þá er þó æríð margt ósagt. Nægir þar að vitna til þess t.d., svo að farið sé lengra aftur í sögu en hv. 4. þm. Austf. gerði, að ég hygg, að hin fyrsta tilskipun, sem gefin var út um fræðslu barna á Íslandi, sé frá 20. maí 1636, en sú tilskipun var þrykkt á Hólum í Hjaltadal og gefin út af Kristjáni VI. Danakonungi. Ég gæti, ef ég ætlaði mér þann hlut í þessum umr, að flytja fræðilegan fyrirlestur á borð við þann, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur nú flutt, rakið þessa tilskipun og þær aðrar, er síðar hafa komið, til þess tíma, er hv. 4. þm. Austf. hóf að rekja söguna, en ég mun þó ekki hverfa að því ráði. Ég vil einnig segja það með tilliti til þess, að hv. 4. þm. Austf. hefur þegar kvatt sér hljóðs að nýju, að það minnir mig á, að eitt sinn í umr. á Alþ. fyrir allmörgum árum hafði hv. þm. Vestmannaeyja, Jóhann Þ. Jósefsson, sem nú er látinn fyrir allmörgum árum, talað ærið lengi, en þar kom, að hann tjáði, að nú væri hann kominn að lokakafla sinnar ræðu, og þessi lokakafli ræðu Jóhanns Þ. Jósefssonar stóð í 3 klukkutíma. Við megum því vænta þess, að enn sé mikið efni í fórum flokksbróður míns og félaga, Sverris Hermannssonar, hv. 4. þm. Austf., þá er hann tekur að nýju til máls. Vænti ég, að pallagestir, sjónvarpsmenn og aðrir þeir, er hér hlýða á umr., hafi biðlund nokkra til þess að missa eigi af þeim þætti málsins.

Ég hef í umr. um þetta mál tekið til máls alloft og gagnrýnt það með sterkum rökum, Ég skal ekki hér fara að endurtaka það, sem ég hef um þetta sagt, að miklu leyti og tala fremur stutt mál. Ég vil þó segja það í upphafi, að meðferð þessa máls öll hefur vakið nokkra undrun þingheims og ég hygg annarra þeirra, sem fylgst hafa með. Það er þingvenja hér á hv. Alþ. að þegar komið er að lokum Alþ., séu þau mál eigi keyrð til úrslita, sem vitað er, að mikill ágreiningur er um, heldur er reynt að fá afgreiðslu á þeim frv., sem vitað er, að menn geta í mörgum efnum orðið sammála um og verða ekki til þess að tefja tíma Alþ. á síðustu dögum þess. Þessi venja er nú gersamlega brotin, þegar reynt er með ofurkappi að knýja í gegnum Alþ. á síðustu klukkustundum, sem því er ætlað að starfa, mál þetta, sem vakið hefur miklar deilur, harða gagnrýni margra þm. og mjög mikla óánægju fjölmargra aðila í þjóðfélaginu. Hér er um að ræða ofurkapp þess ráðh., sem hér er í forsvari, hæstv, menntmrh., og er það nokkurt undrunarefni með hliðsjón af því, að þessi hæstv. ráðh. hefur nú tekist á hendur viðameiri verkefni og fleiri málaflokka en nokkur ráðh, hefur gert á síðari árum, en hann fer nú með yfirstjórn a.m.k. þriggja rn.

Ég álít, að skyldara hefði verið með hliðsjón af því, að þessi hæstv. ráðh. gegnir nú m.a. embætti samgrh., að freista þess að fá afgreiðslu Alþ. á vegáætlun, svo sem skylt er samkv. lögum. Þessari skyldu virðist hæstv. ráðh. ekki hafa í hyggju að sinna, ef marka má þann orðróm, sem væntanlega verður staðfestur á næsta fundi Sþ., að sú sé ætlun hæstv. forsrh. að senda Alþ. heim.

Mörg önnur mál hefði verið ástæða til að taka tíma Alþ. til þess að fjalla um nú á síðustu dögum, sem ætla má, að ýmsir þm, a.m.k. teldu brýna nauðsyn til að afgreiða. Ég skal ekki fara út í að rekja þau, en ég vek athygli á þessu til þess að sýna fram á frekar en hv. 4. þm. Austf. hefur þegar gert, hversu mikið ofurkapp er lagt á að afgreiða þetta mál, sem virðist til þess eins gert, að tiltekinn hæstv, ráðh. geti notað það sem rós í sitt hnappagat, en sú mun vera skoðun hans, að það fylgi afgreiðslu málsins.

Það hefur komið hér fram við þessa umr., að við 4 þm, í þessari hv. d. fluttum dagskrártill. við þetta frv. við 3. umr. þessa máls hér í d. Þessi dagskrártill, var studd þeim rökum, sem lýst hefur verið af hv. 4. þm. Austf. og ekki er þörf á að endurtaka. En ég vil ítreka það enn, að sú dagskrártill. hafði þann megintilgang, að Alþingi Íslendinga afgreiddi eftir nánari athugun en þegar hefur farið fram það frv., sem hér liggur fyrir, og að undangenginni þeirri athugun yrði afgreidd fræðslulög, sem í væri það hesta, sem mönnum sýndist, að unnt væri að ná, og þá væri ekki hafður í huga heiður eða hrós einhvers einstaks hæstv. ráðh., heldur hitt, að ná fram sem bestri löggjöf, sem hefði það að markmiði að veita skólaæskunni í landinu hesta fræðslu og þann öruggasta og hesta ramma um skólastarf, sem unnt væri að ná fram. Því miður var þessi dagskrártill. felld, og sýnir það eitt út af fyrir sig skammsýni. Sú dagskrártill„ þótt samþ. hefði verið, hefði ekki haft áhrif á gildistöku þessa frv. og þeirra l., sem hér er verið að fjalla um, ef samþykkt verða. Svo segir í ákvæðum til bráðabirgða í þessu frv., að 10 ára aðlögunartími sé fyrir höndum frá samþykkt þessa frv., þar til l. eigi að fullu að vera komin til framkvæmda. Þetta er að undanskildu einu atriði í málinu, þ.e. ákvæðinu um lengingu skólaskyldunnar, sem taka eiga gildi 6 árum frá því, að frv. þetta yrði samþ. Sem frsm. dagskrártill. hér við 3. umr. lýsti ég því, að ég teldi fullkomlega eðlilegt, ef sú till. yrði samþ. og þm: nefnd fjallaði um málið til þess að freista þess að fá samstöðu Alþ. um þetta mikilvæga mál, þá yrði þessi aðlögunartími styttur og það yrði þess vegna ekki til þess að fresta því, að lög þau, sem samþ. yrðu að lokinni þeirri endurskoðun, kæmu til framkvæmda. Þannig er það augljóst mál. að hér er einungis um að ræða, að verið er að knýja í gegn af ofurkappi, en án fyrirhyggju og án nokkurra ástæðna, frv. þetta, sem enn er í því formi, að það veldur stórfelldum deilum hér á Alþ. og mikilli óánægju þjóðarinnar.

Það er og enda við þessa málsmeðferð enn að athuga, að hér á kvöldfundi á síðasta degi þessa yfirstandandi Alþ. er ætlunin að knýja frv. í gegn á örskömmum tíma, eftir að hv. Ed. hefur um það fjallað við 2. umr. s.l. nótt og í morgun og samþ. við 2. umr. breyt, við hvorki meira né minna en 28 af gr. frv. Þær breyt. ,eru hér fjölritaðar á 14 síðum. En við 3. umr, þessa máls voru samþykktar breyt. í hv. Ed. við sex gr. þessa frv. til viðbótar. Þær breyt. eru hér fjölritaðar á þremur heilsíðum. Að loknum svo miklum breyt., sem hv. Ed. hefur á frv. gert nú fyrir örfáum klukkutímum, er það ætlun hæstv, menntmrh. og hæstv. forseta þessarar d. og stjórnarmeirihl. að því er virðist í heild að knýja fram afgreiðslu þessa máls með þeim hætti, að hv. þm. í þessari d. hafi enga aðstöðu til þess að gera sér grein fyrir því, í hverju þessar breyt, eru fólgnar. Þetta kalla ég ósæmilega og óviðunandi málsmeðferð. Það er því ekki að furða, þó að hér sé höfð uppi nokkur gagnrýni á þessa málsmeðferð alla. Það er enn ljóst, að unnt er að snúa frá þessari villu. Hv. 4. þm. Austf. bauð hvað eftir annað í ræðu sinni hér áðan, að samkomulag næðist um það við hæstv. menntmrh. að fresta afgreiðslu þessa máls. Ég vil enn hefna þeirri áskorun til hæstv, ráðh., enda þótt hann nú sé flúinn af hólminum, að þetta mál verði þegar að loknum umræðum þeirra manna, sem kvatt hafa sér hljóðs, tekið út af dagskrá og afgreiðslu þess frestað og tóm gefið til þess að taka upp þá endurskoðun, sem um var fjallað í dagskrártill. okkar fjórmenninga við 3. umr. þessa máls hér í hv. deild.

Enn vil ég ítreka það, að slíkur dráttur á afgreiðslu þessa máls, sem væntanlega yrði þá afgreitt á næsta Alþ., þyrfti ekki að verða til þess að fresta því, að ákvæði frv. kæmu til framkvæmda, með því að stytta þann aðlögunartíma, sem gildistaka þess hefur samkv. ákvæðum í frv. sjálfu. Hér er því ekki um að ræða af hálfu okkar, sem viljum enn freista þess að sníða þessum lögum betri búning, að við séum að hindra það eða tef ja, að ákvæði þessa frv., sem við teljum, að séu til heilla, komi til framkvæmda. Þetta hygg ég, að hv. d. ætti nú að vera orðið ljóst.

Ég hef, eins og ég hef þegar greint frá, haldið uppi allsterkri gagnrýni á þetta frv. á yfirstandandi Alþ. og Alþ. í fyrra og tafið hinar ýmsu umr. í hvert sinn. Ég skal ekki fara út í þessa gagnrýni hér að öðru leyti en því að minna á þau höfuðatriði, sem þessi gagnrýni mín hefur beinst að. Hún hefur beinst í fyrsta lagi að lengingu skólaskyldu, í öðru lagi að lengingu skólaársins, í þriðja lagi að óhóflegu stjórnunarbákni, sem sett er upp í skólakerfinu með þessu frv., í fjórða lagi, hversu frv. er hroðvirknislega unnið, óhæfilega langt og ítarlegt, svo að stappar nærri, að tekið sé fram fyrir sjálfstæða hugsun þeirra manna, sem starfa eiga að skólamálum þjóðarinnar, í fimmta lagi, að frv. þessu fylgi alls ekki sú dreifing valds, sem látið er í veðri vaka. Fræðsluskrifstofurnar, sem til er ætlast, að settar verði upp í kjördæmunum, hafa ekki völd, eru eins konar selstöður ríkisvaldsins. Valdið er enn í höndum rn. og í höndum hæstv. ráðh. Í sjötta lagi hef ég talið vafasamt það net sérfræðinga, sem upp er sett til aðstoðar skólastarfinu og um leið rýrð ábyrgð þeirra, sem eiga að réttu lagi og samkv. gildandi l. að hafa á hendi stjórn skóla, þ.e. skólastjóra og kennara. Í sjöunda lagi hef ég gagnrýnt harkalega, að þessu frv. fylgir allsendis ófullnægjandi grg. í sambandi við kostnaðarauka í rekstri og í öðru lagi engin tilraun gerð til þess að láta koma fram, hvaða kostnaðarauki verður af samþykkt þessa frv. í sambandi við stofnkostnað skóla.

Þessi eru þau meginatriði, sem ég hef gagnrýnt í þessu frv., og þá gagnrýni hafa hv. dm. hlýtt á í þeim umr., sem fram hafa farið um þetta mál, bæði nú á Alþ. í vetur og eins í fyrravetur, og skal ég ekki rekja hana mikið. Ég vil þó aðeins víkja að einum þætti þessa máls nokkuð til viðbótar við það, sem ég hef áður gert, og það er í sambandi við síðasta liðinn, sem ég hef hér getið um, en það er í sambandi við kostnaðarauka af þessu frv.

Í grg. frv. er rakið nokkuð, hver ætla megi, að verði kostnaðarauki af rekstri grunnskóla við samþykkt þessa frv. Þar stendur í samandregnu yfirliti, að vænta megi þess, að aukning kostnaðar verði 289 millj. kr. Þetta kemur fram í grg. frv., eins og það er lagt fram árið 1973, og þessi tala stóð í frv. fyrr eða a.m.k á árinu 1972. Þessi tala er vitaskuld úrelt orðin. Það er enda nokkuð ljóst, að mjög vægilega er í sakir farið í sumum liðum, svo að stappar nærri, að maður furði sig á, að þeir, sem sett hafa saman þá grg., sem frv. fylgir, skuli hafa látið slíkt frá sér fara. Enn hefur það skeð í meðferð þessa máls, að samþykktar hafa verið brtt., er fela í sér stórkostlegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, ef frv. verður afgr. í því formi, sem það nú er. Að vísu er það rétt, sem fram kom hjá hæstv. menntmrh. við 3. umr. í þessari hv. d., að niður hafa verið felldir ákveðnir póstar, sem höfðu kostnaðarauka í för með sér, og er þar einkanlega sá þáttur, sem hér er nefndur fagnámsstjórn, sem er felldur niður, en í grg. frv. er gert ráð fyrir, að sá þáttur kosti 2 millj. kr. Þar var því ekki um stórvægilega lækkun útgjaldaaukningar að ræða.

Ef litið er á þennan kostnað nokkru nánar, þá er gert ráð fyrir því í grg, og sagt, að samkv. frv. til fjárl. fyrir árið 1973 verði launagreiðslur á því ári vegna kennslu og annarra starfa, sem um er fjallað, áætlaðar 1000 millj. kr. eða 1 milljarður, og er þá miðað við barnaskóla án forskóladeilda og gagnfræðaskóla án framhaldsdeilda, en það eru þeir þættir skólakerfisins, sem falla mundu undir grunnskólastigið. Þar er einnig sagt, að hækkun á þessum lið mundi verða um 126 millj. kr. Nú er svo gert ráð fyrir í fjárl. fyrir yfirstandandi ár að þessi launaliður, sem árið 1973 var áætlaður 1000 millj. kr., verði á yfirstandandi ári einn milljarður 606 millj. 605 þús. kr. Hér er því um mikla hækkun að ræða eða rúmlega 60%. En þess er enn að geta, að fjárl. voru afgreidd í des, s.l. og síðan hafa feikn og undur gerst á sviði launamála og verðlagsþróunar, svo sem landslýð öllum er kunnugt, svo að þessar tölur eru gersamlega úreltar. Það má geta nærri, að í samræmi við þetta muni hækka sá launaliður, sem frv. hefur í för með sér, frá því, sem segir í grg. frá árinu 1973 og 1972.

Ef þetta er skoðað nokkru nánar, þá er gert ráð fyrir því í þessu frv. að færa skólastarfið í miklu meira mæli inn í skólana heldur en tíðkast í dag. Það er gert ráð fyrir því, að nemendur geti unnið allt sitt nám í skóla. Sá hluti námsins, sem nú fer fram í heimahúsum, á að flytjast inn í skólana. Það mundi þýða í fyrsta lagi aukið húsnæði og í annan stað, sem hvergi hefur verið getið um í þessu frv. eða grg. þess og alltaf vikið sér undan að fjalla um af þeim, sem mælt hafa með þessu frv., að slíku námi, lestri undir tíma og annarri vinnu nemenda, sem nú fer fram í heimahúsum, mundi fylgja það, að kennarar og annað starfslið skóla þyrfti að sitja yfir nemendum í skólunum allan þann tíma. Það mundi að sjálfsögðu hafa í för með sér mjög aukna vinnu kennara og skólastjóra og þýða væntanlega aukið starfslið, en þó fyrst og fremst, að fram kæmi stórkostlega aukin yfirvinna hjá kennurum og skólastjóra í hverjum skóla. Þessum þætti málsins er hvergi vikið að í þessari grg., og á þessu hefur hvergi verið vakin athygli af þeim mönnum, sem barist hafa fyrir framgangi þessa máls. Hér hygg ég, að sé póstur, sem nemi álitlegri upphæð og nokkuð aukinn fjölda millj. í útgjaldaauka fyrir ríki og sveitarfélög, sem að skólamálum standa. Marga slíka pósta má benda á, sem ýmist hafa ekki verið nefndir í þeim kostnaðaráætlunum, sem fylgja þessu frv., og eins, að sumir kostnaðarliðir eru stórlega vantaldir.

Í frv. þessu er talað um það, að afnám svokallaðrar víxlkennslu hafi í för með sér 12 millj. kr. kostnaðarauka, — 12 millj. kr. Nú geri ég ráð fyrir því, að allir hv. alþm. geri sér grein fyrir því, hvað hin svokallaða víxlkennsla er. Sá er háttur víða í heimavistarskólum, ekki síst í strjálbýli, að nemendur í yngri bekkjum skyldunáms sækja skóla til skiptis. Því er háttað þannig, að annað tveggja sækja þessir nemendur skóla annan hvorn dag og er þá ekið í skólann til skiptis, sumir nemendur koma t.d. á mánudegi, en aðrir á þriðjudegi og svo á víxl, eða þá að þeir sækja skóla sína vikuna hvor eða sinn hálfan mánuðinn hvor hópur. Þetta hefur það í för með sér í fyrsta lagi, að þessir nemendur, sem stunda nám með þessum hætti, þurfa að leggja á sig aukið starf í heimahúsum, en því fylgir einnig, að mikill kostnaður sparast í byggingu skólahúsnæðis og í starfsliði skóla. Í frv. er einungis gert ráð fyrir því, að afnámi þessarar víxlkennslu fylgi 12 millj. kr. aukinn kostnaður. Þvílíkt sýnist raunsæi þeirra manna, sem búið hafa út þessa grg.****

fleira kemur hér til. Í einum lið í sambandi við kostnað þann, er af samþykkt þessa frv. mundi hljótast í rekstri, er fjallað um annan rekstrarkostnað, þ. á m. um aksturskostnað nemenda í skóla og frá og til heimilis. Afnámi þessarar víxlkennslu mundi fylgja það, að öllum þeim nemendum, sem nú er ekið til skiptis í skóla, þyrfti að aka daglega milli heimilis og skóla tvær ferðir. Það mundi með slíka nemendur verða tvöföldun á þeim kostnaði, sem af slíkum akstri mundi hljótast. Ef akstur slíkra nemenda væri lagður niður, þá gefur auga leið, að í stað heimanakstursins yrði þá að byggja upp tvöfalt skólahúsnæði miðað við það, sem nú er, og er ærinn kostnaðarauki.

Ég tek það fram, að í frv. er sagt, að áætlaður kostnaður við heimanakstur nemenda samkv. því, sem var 1972, er 144 millj. kr., þ.e.a.s. það kemur í hlut ríkissjóðs, en til viðbótar kemur talsverður hluti á herðar sveitarfélaganna. Þessi fjárhæð mun auðvitað stórkostlega hækka, í fyrsta lagi á milli ára eftir áætlun um yfir 60%, sbr. fjárl., og síðar frá því að fjárl. voru afgreidd með hliðsjón af öllum þeim launahækkunum, sem orðið hafa á því tímabili, og rekstrarkostnaði ökutækja, en sá rekstrarkostnaður er gífurlegur, og eru þar þó ekki öll kurl til grafar komin, eftir því sem vænta má, til þess tíma, er næsta skólaár hefst. Hér er því um stórkostlega mikinn kostnaðarauka að ræða, sem er fádæmalega vantalinn í þessu frv., því að þar er sagt, að hluti ríkissjóðs í þessum kostnaðarauka muni einungis nema 15 millj. kr. Það verður að segja, að varlega hafa reiknað þeir sérfræðingar hæstv. ráðh., sem búið hafa þessa grg. í hans hendur. Það var reyndar svo, að hann taldi hér við 3. umr. þess máls, að kostnaðarauki væri óverulegur og varla orð á hafandi. Er það að mínum dómi ábyrgðarleysi og óþingleg vinnubrögð af hæstv. ráðh. að láta slíkar yfirlýsingar frá sér fara og hafa ekki kannað þá grg., sem hér liggur fyrir, betur en ég hef nú lýst.

Einhver var að hvísla því hér áðan, að fjárhagsstaða ríkissjóðs væri ekki sérstaklega sterk um þessar mundir. Því var einnig lýst af hæstv. forsrh. í sjónvarpi í gærkvöld, að efnahagsástand þjóðarinnar væri ekki með sem álitlegustum hætti nú á þessum síðustu tímum. Því hefur verið marglýst af hæstv. forsrh. og fleiri forustumönnum núv, hæstv. ríkisstj., hversu válega horfir í fjármálum þjóðarinnar og efnahagsmálum í heild. Þar ríkir sannkallað hættuástand, svo að notuð séu þeirra eigin orð, og það er ljóst, að stefnir í hreina ófæru, verði ekki gripið til gagngerðra ráðstafana. Ég skal ekki fara út í að rekja hér þetta ástand þjóðmála. Það er öllum ljóst, að það er með þeim hætti, að átt hefur sennilega sterkasta þáttinn í því að liða sundur þá skútu, sem hæstv. ríkisstj. hefur fleytt sér á til þessa um nálega þriggja ára skeið. Þegar skútan liðaðist í sundur, hafði hæstv. menntmrh. þau orð yfir hér í þessum ræðustól, að hann hefði ekki geð í sér til þess að hlaupa frá borði í brimróðrinum, þótt nokkuð á bjátaði, þótt ýmsir sínir fyrri félagar hlypu frá borði. Ég held, að hæstv. ráðh. hefði átt að huga að fjármálum þjóðarinnar, fjárhagsstöðu ríkissjóðs og stöðu efnahagsmála í heild, áður en hann gefur fljótfærnislegar yfirlýsingar hér á Alþ. um, að kostnaðarauki af þessu frv. muni verða óverulegur, og treystir einungis þeim grunnfærnislegu ályktunum, sem eru í þessari grg.

Ég hef margsinnis í umr. um þetta mál beint áskorunum til hæstv. ráðh. og til þeirrar n., sem um málið hefur fjallað hér í þessari hv. d., en engar, alls engar upplýsingar hafa verið gefnar um það, hver kostnaðarauki muni af þessu frv. verða í stofnkostnaði skóla. Það er þó, að ég hygg, öllum ljóst, að sá kostnaðarauki er gífurlegur og hefur af ýmsum þeim mönnum, sem telja sig þekkja vel til þeirra mála, ýmist verið talinn í hundruðum millj. eða milljörðum. Það er því í fyllsta máta réttmæt gagnrýni, sem við ýmsir þm. höfum haldið uppi á meðferð þessa þáttar í þessu nafntogaða grunnskólafrv. Ég hygg, að sá mikli kostnaðarauki, sem af samþykkt þessa frv. mundi leiða, ætti að verða mönnum hvatning til þess að fara sér hægar, meðan verið er að kanna ýmsa þætti málsins, sem mikilli gagnrýni valda og stór hluti þjóðarinnar er óánægður með. Enn er þetta sterk röksemd fyrir því, að afgreiðslu þessa frv. nú verði hafnað og það tekið til nýrrar endurskoðunar, endurskoðunar þm.- nefndar, þar sem fram komi sjónarmið þeirra manna, sem eru meðmæltir samþykkt þessa frv. í því formi, sem nú er, og eins hinna, sem eru andvígir ýmsum gr. þess. Ég hygg, að ef þessir þm. legðu sig í líma við að ná samkomulagi með það markmið eitt fyrir augum að setja löggjöf, sem yrði skólaæsku landsins til heilla og þar með framtíð þjóðarinnar til farsældar, þá treysti ég því, að þeir mundu komast að sameiginlegri niðurstöðu. Enn skal það ítrekað, að sú málsmeðferð þyrfti ekki að hafa í för með sér það, að gildistaka þessa frv. tefðist.

Ég hef einnig í umr, um þetta mál lagt það til, um leið og ég hef gert till. um, að meginefni þessa frv. verði frestað, að tekin væri út úr því nokkur þau atriði, sem allir eru sammála um, að séu til hins betra og yrðu til heilla fyrir skólastarfið. Þær gr. yrðu samþ. og felldar inn í gildandi lög, þ.e. fræðslulögin frá 1946, sem menn athugi, að enn eru ekki komin til framkvæmda í öllum skólahverfum landsins. Þessu hefur ekki verið sinnt og virðist, að sá sé einn tilgangur að sækja þetta mál með slíku ofurkappi, að engar viðvaranir séu teknar til greina.

Ég skal ekki hér með hliðsjón af því, að ég hef svo margsinnis rakið röksemdir mínar ítarlega í sambandi við þau atriði, sem ég gagnrýndi í þessu frv., fara að fjalla um þau miklu nánar. Ég hef hér aðeins vikið að einum þætti þeirra mála, en það er í sambandi við kostnaðar auka, sem af samþykkt þessa frv. mundi hljótast, og sýnt fram á, hvað hann er stórkostlega vantalinn í grg. þessa frv. og í öllu tali meðhaldsmanna frv., sem hafa um það fjallað í þessum ræðustól.

Ég vil vekja athygli á því, að ég hef ásamt þremur öðrum þm, hér í hv. d. lagt fram brtt. við þetta frv. á lokastigi, og eru þær brtt. nákvæmlega shlj. brtt., sem 6 hv. nm. menntmn. Ed. lögðu fram þar við 2. umr., en drógu síðan til baka af einhverjum óskiljanlegum hvötum. Þessar till., sem að vísu fjalla ekki nema um einn tiltekinn þátt þessa máls, þ.e. um lengd skólaskyldu, og að vísu einnig um þátttöku nemenda í atvinnulífinu, eru að mínu mati til mikilla bóta, enda þótt það sé ekkert launungarmál, að ég teldi hyggilegt og æskilegt, að skólaskylda yrði einu ári skemmri en þessar brtt. gera ráð fyrir. Í hv. Ed. voru þessar brtt., eins og ég áður sagði, fluttar af 6 nm. í hv. menntmn., en það voru þeir hv. þm. Ragnar Arnalds, 4, þm. Norðurl. v., hv. þm. Steingrímur Hermannsson, 1. þm. Vestf., hv. 5. þm. Reykn., Jón Árm. Héðinsson, hv. 1. þm. Vesturl., Áageir Bjarnason, hv. 6. þm. Reykv., Auður Auðuns, og hv. 5. þm. Vestf., Hildur Einarsdóttir. Þessar till., sem fluttar voru af þessum hv. nm. menntmn. í Ed., voru eins og ég sagði, með óskiljanlegum hætti dregnar til baka, og undrast ég það. Þm. þeir, sem fluttu þessar till. voru úr þremur stjórnmálaflokkum. Ég hef hér á þskj. 909 leyft mér ásamt hv. þm. Ellert B. Schram, Eyjólfi K. Jónssyni og Lárusi Jónssyni, að taka þessar till, upp til að ganga úr skugga um það, hvort hv. Nd. vill á þær fallast eða ekki, ef svo fer, að frv. þetta verður knúið til atkvgr. Þessar till. eru í stuttu máli á þessa lund:

1. Fyrirsögn I. kafla frv. breytist úr „Markmið og skólaskylda“ í: Markmið grunnskólans.

2. Í 1. mgr. 1. gr. verði felld niður orðin „á nefndum aldri“, en í staðinn komi: á aldrinum 7–15 ára. Þetta þýðir það, að í stað þess, að frv. gerir ráð fyrir því, að skólaskylda sé á aldrinum 7–16 ára, verði skólaskylda á aldrinum 7–15 ára, sem sé, skólaskylda verði einu ári skemmri en frv. nú gerir ráð fyrir og jafnlöng og hún er í dag.

3. Brtt. við 49. gr. frv., þar sem segir, að 1. mgr. orðist svo, með leyfi forseta: „Börnum og unglingum er bæði rétt og skylt að sækja grunnskóla, fái þau ekki hliðstæða kennslu annars staðar í samræmi við 1. gr. um fræðsluskyldu og skólaskyldu, sbr. þó 7., 51., 52. og.75. gr. þessara laga“

Ég gleymdi að geta þess í sambandi við brtt. um skólaskylduna að gert er ráð fyrir því, að fræðsluskyldan gildi í efsta bekk grunnskóla, þ.e. á 16. aldursári, og það þýðir, að opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum, sé skylt að halda uppi aðstöðu fyrir nemendur á þessu aldursstigi til náms. Og það er sú leið, sem ég tel heillavænlega og vinna að betri anda í skólastarfi, eins og ég hef margoft rakið, en skólaskylda, sem hefur ákaflega óheppileg uppeldisáhrif á þá nemendur, sem henni hlíta.

Í b-lið 3. brtt. segir, að í stað orðsins „skyldunámi“ í 1. málsl. 3. mgr. 49. gr. komi: grunnskólanámi, — þ.e. því námi, sem stundað er í grunnskóla og er skyldunám í fyrstu átta bekkjum, en um fræðsluskyldu að ræða í efsta bekk. „e. 4. mgr. orðist svo:

„Nemandi, sem óskar að ljúka grunnskólanámi eftir að hafa horfið frá námi að loknum 8. bekk, á rétt á að fá þátttöku sína í atvinnulífinu metna til jafns við nám í tilteknum valgreinum 9. bekkjar.“

Hér er með ákveðnum hætti gerð tilraun til þess að festa á blað reglu, sem unnt væri að fara eftir í sambandi við það, hvernig meta ætti störf nemenda í atvinnulífinu í efstu bekkjum grunnskóla til jafns við nám. Þetta er ein af þeim ábendingum, sem ég gerði við 2. umr. málsins í hv. d., þegar fram hafði komið óljós og þokukennd till. frá hv. menntmn. um að taka það upp, að störf að atvinnuháttum þjóðarinnar skyldu metin til jafns við skólanám. Ég varpaði þá því fram þeim spurningum, hvernig það yrði metið við próf eða annað námsmat, ef unglingar færu úr efstu bekkjum grunnskóla, t.d. í apríl og maí, til þess að vinna í fiskiðnaði eða á annan hátt að hjálpa til við verðmætasköpun í þjóðfélaginu, eða þá unglingar úr sveit hyrfu til þess að hjálpa við sauðburð á búi foreldra sinna, svo að nokkuð væri nefnt. Ég fékk vitaskuld engin svör, vegna þess að enginn af nm. hafði gert sér nokkra grein fyrir því, hvernig þetta yrði framkvæmt. Hér er þó í þessari brtt., sem ég flyt hér ásamt þremur öðrum hv. þm., gerð tilraun til þess að kveða á um einn þátt þessa máls, hvernig með skuli farið, og ég hygg, að það sé mjög til bóta frá því, sem hið loðna orðalag og óljósa greinir nú í frv., eins og það er.

Ég skal ekki fara miklu fleiri orðum um þessar brtt. Ég tel, að ef svo fer fram sem horfir, að hæstv. menntmrh. og hæstv. forseti hyggist knýja fram afgreiðslu á þessu máli hér í lok þessarar umr., þá vænti ég þess, að þær till., sem ég hef hér mælt fyrir, fái hljómgrunn meðal hv. dm., vegna þess að ég hygg, að flestum muni sýnast, að þær séu eindregið og alfarið til bóta.

Ég vil minna á það í sambandi við 1. brtt. á þskj. 909, að nokkuð sambærileg till. var flutt hér við meðferð skólakerfisfrv. í hv. d., enda þótt hún væri ekki eins og henni fylgdu ekki þær sjálfsögðu brtt., sem hér fylgja á eftir og nauðsynlegt er að samþykkja, til þess að samræmi sé í málinu í heild. En ég minni á það, að lenging skólaskyldunnar var í þessari hv. d. samþ. með 17:16 atkv., 3 sátu hjá og 4 voru fjarstaddir. Þessi veigamikla ákvörðun hér í hv. d. var þann veg tekin af minni hl. þm. í d. Ég tel því fulla ástæðu til þess að gera mér vonir um, komi þetta frv. til lokaafgreiðslu hér í lok þessarar umr., að fylgi fáist við þær brtt., sem ég hef hér lýst.

Ég hef í ræðum um þetta mál, bæði við umr. nú í vetur og eins á þingi í fyrra, margsinnis lýst skoðunum mínum í sambandi við langa skólaskyldu og óheppileg áhrif hennar og sýnt fram á það með ljósum rökum, að hún er ekki einasta óþörf með tillíti til skólasóknar, hún er einnig skaðleg með tilliti til alls skólastarfsins og þeirra margvíslegu neikvæðu verkana, sem hún hefur á nemendur og allt starf skóla og þar með á framtíð þeirra nemenda, sem við eiga að búa. Ég hef í þessum umr. stundum vitnað til umsagna ýmissa aðila, sem um þetta mál hafa fjallað og sent umsagnir til Alþingis. Ég hef þó ekki hirt um að hafa þessar umsagnir fyrir framan mig eða rekja þær nákvæmlega, svo að þær mættu komast inn í þskj. Ég tek það fram, að ég tel, að þegar um svo viðurhlutamikið mál er að ræða sem þetta mál er og svo þýðingarmikið fyrir æsku landsins og framtíð þjóðarinnar, þá væri ómaksins vert, að sú þn., sem um mál þetta fjallar, tæki það upp að birta umsagnir, sem borist hafa um svo þýðingarmikið mál sem þetta, sem fskj. með nál. Ég vænti þess, að það, að þetta skuli ekki hafa verið gert, stafi af óaðgæslu þeirrar hv. n., sem um mál þetta hefur fjallað, og því, að þetta er ekki tiltakanlega ríkjandi venja, fremur en það hafi stafað af því, að hv. n. hafi kosið að leyna þeim umsögnum, sem fyrir liggja. En ég skal ekki vera með neinar getsakir um það. Ég tel. að þegar um svo þýðingarmikil mál er fjallað sem þetta, þá ætti það að vera regla að birta umsagnir, sem nefndum berast, sem fskj. með nál. til þess að fá þær umsagnir allar inn í þskj. og hv. alþm. ættu greiðan aðgang að því að kynna sér slíkar umsagnir, meðan mál eru til meðferðar í Alþ. Það er nú einu sinni þannig með störf okkar þm., að þau eru ærin, enda þótt sú skoðun heyrist stundum utan þingsala, að þingmannsstarfið sé ekki viðamikið, en þá er reynslan sú, að við höfum í ýmsu að snúast og hliðrum okkur jafnvel við að ganga ýmis þau spor, sem ástæða væri til að stíga. Þess vegna mun það fara svo fyrir flestum, sem um mál fjalla hér á hv. Alþ. og ekki skipa þá þn., sem sérstaklega fjallar um það mál, sem er á dagskrá, að þeir hirða ekki að kynna sér þær umsagnir, sem borist hafa um hið tiltekna mál, enda þótt þær liggi fyrir með plöggum Alþ. hér í næsta húsi eða svo gott sem. Þess vegna tel ég, að það sé og ætti að vera viðtekin regla að hirta umsagnir, þegar um viðamikil mál er að ræða, sem fskj. með nál. Þessu beini ég m.a. til formanns þeirrar hv. n., sem um mál þetta hefur fjallað. Ég þykist þess fullviss, að eftir þá ábendingu, sem ég hef hér gert, að ef hv. form. menntmn., hv. 3. þm. Vestf., mundi öðru sinni fjalla um svo þýðingarmikið og veigamikið mál sem hér er á ferðinni, þá mundi hann taka þetta til greina og birta allar umsagnir.

Í ræðum um þetta mál á undanförnum þingum hef ég stundum vitnað til fundar skólastjóra gagnfræða-, héraðs- og miðskóla, sem haldinn var dagana 24.–26. júní 1971 að Reykjum í Hrútafirði. Ég hef vitnað til álits þessara manna fyrst og fremst vegna þess, að hér er um menn að ræða, sem kunnugri eru skólastarfi á því stigi skólakerfisins, sem hér er um fjallað, heldur en nokkrir aðrir menn. Skólastjórar á miðskólastigi og héraðsskólastigi eru öllum öðrum mönnum kunnugri meðferð skólamála og þeim vanköntum, sem eru á ríkjandi fræðslulögum. Og þeir hafa betri aðstöðu en allir menn aðrir að gera sér þess grein, hvaða vankantar hafa verið og eru á því frv., sem hér er til meðferðar. Þess vegna hef ég talið það veigameira að vitna til álits þessara manna heldur en ýmissa annarra, þótt góðir og gildir séu, en ég hef hér fyrir framan mig þær umsagnir, sem menntmn. hv. Nd. hafa horist undir meðferð þessa máls.

Vegna þess að ég hef ekki í hyggju hér að tefja störf Alþ. við meðferð þessa máls, svo að neinu nemi eða að óþörfu, þá ætla ég ekki að hverfa að því að rekja þessar umsagnir að neinu marki. En vegna þess að ég tel. að álit stjórnenda skóla á því stigi skólakerfisins, sem hér varðar mestu, þ.e. á gagnfræða-, héraðs- og miðskólastiginu, varði það miklu, að ástæða sé til, að það komist inn í þskj., þá vil ég leyfa mér með leyfi hæstv. forseta — að lesa þessa umsögn. Hér er um að ræða fund skólastjóra gagnfræða-, héraðs- og miðskóla dagana 24.–26. júní 1971 í héraðsskólanum að Reykjum í Hrútafirði.

„1. Fundarsetning. Nöfn þátttakenda: Fimmtudaginn 24. júní 1971 kl. 10 árdegis setti fræðslumálastjóri, Helgi Elíasson, boðaðan fund með skólastjórum héraðs-, mið- og gagnfræðaskóla í Héraðsskólanum að Reykjum í Hrútafirði. Ávarpaði hann skólastjóra og bauð þá velkomna til fundarins, skipaði fundarstjóra Ólaf H. Kristjánsson, Reykjum, Ólaf Þ. Kristjánsson, Hafnarfirði, og Jóhann Jóhannsson, Siglufirði. Fundarritarar voru tilnefndir Björn Jónsson, Reykjavík, og Sigurjón Jóhannesson, Húsavík.“ — Ég tek það fram, að ég rek þetta til þess að vekja athygli á því, hvaða menn hér er um að ræða og hvaða menn það eru, sem áttu sæti á þessum fundi. — „Ólafur H. Kristjánsson bauð gesti velkomna til staðarins, kvaðst vænta þess, að þeir ættu ánægjulega daga að Reykjum. Þessir sóttu fundinn:

Ástráður Sigursteindórsson, skólastj., Rvík.

Bergur Felixson, skólastjóri, Blönduósi.

Björn Jónsson, skólastjóri, Reykjavík.

Guðrún Magnúsdóttir, frú, Reykjavík.

Eyjólfur Pálsson, skólastjóri, Vestmannaeyjum.

Friðbjörn Benónýsson, skólastjóri, Reykjavík.

Guðmundur Hansen, skólastjóri, Kópavogi.

Sigrún Gísladóttir, frú, Kópavogi.

Guðmundur Magnússon, skólastjóri, Reykjavík.

Anna A. Frímannsdóttir, frú, Reykjavík.

Gunnlaugur Sigurðsson, skólastj., Garðahreppi.

Gylfi Pálsson, skólastj., Brúarlandi, Mosf.sveit.

Halldór Gunnarsson, skólastjóri, Lundi.

Helgi Elíasson, fræðslumálastjóri, Reykjavík.

Helgi Þorláksson, skólastjóri, Reykjavík.

Helgi Þorsteinsson, skólastjóri, Dalvík.

Jóhann Jóhannsson, skólastjóri, Siglufirði.

Aðalheiður Halldórsdóttir, frú, Siglufirði.

Jón Á. Gissurarson, skólastjóri, Reykjavík.

Anna Þórðardóttir, frú, Reykjavík.

Jón H. Jónsson, skólastjóri, Hlíðardalsskóla.

Jón Pálsson, skólastjóri, Skagaströnd.

Jónas B. Jónsson, fræðslustjóri, Reykjavík.

Guðrún Ögmundsdóttir, frú, Reykjavík.

Kristmundur B. Hannesson,skólastj., Reykjanesi

Kristinn Jóhannsson, skólastjóri, Ólafsfirði.

Magnús Jónsson, skólastjóri, Reykjavík.

Oddur A. Sigurjónsson, skólastjóri, Kópavogi.

Ólafur Haukur Árnason, deildarstjóri, Kópavogi.

Björg Hansen, frú, Kópavogi.

Ólafur H. Kristjánsson, skólastjóri, Reykjum.

Sólveig Kristjánsdóttir, frú, Reykjum.

Ólafur Þ. Kristjánsson, skólastjóri, Hafnarfirði.

Ragnheiður Gísladóttir, frú, Hafnarfirði.

Ólafur óskarsson, yfirkennari, Reykjavík.

Ragnar Guðjónsson, skólastjóri, Vopnafirði.

Rögnvaldur Sæmundsson, skólastjóri, Keflavík.

Sigurður Kristjánsson, skólastjóri, Laugum.

Sigurður K. G. Sigurðsson, skólastj., Ísafirði.

Sigurjón Jóhannesson, skólastjóri, Húsavík.

Sigurþór Halldórsson, skólastjóri, Borgarnesi.

Kristín Guðmundsdóttir, frú, Borgarnesi.

Steinn Stefánsson, skólastjóri, Seyðisfirði.

Soffía Jónsdóttir, frú, Seyðisfirði.

Sverrir Pálsson, skólastjóri, Akureyri.

Sveinn Kjartansson, skólastjóri, Hvammstanga.

Vilhjálmur Einarsson, skólastjóri, Reykholti.

Þorkell Steinar Ellertsson, skólastj., Eiðum.“

Þar með eru taldir þeir skólastjórar og aðrir skólamenn, sem sæti áttu á þeim fundi, sem þá ályktun hefur samþykkt, sem hér á eftir verður nokkuð rakin. Ég hygg, að ekki sé ofmælt, þótt þarna sé um að ræða þá menn, sem gerst hafa kynnst því stigi skólakerfisins, sem um er fjallað í því frv., sem hér er til umr. Þessir menn hafa í starfi sínu kynnst náið þeim vandkvæðum, sem við er að etja í skólastarfi, og eru öllum öðrum mönnum bærari þess að veita umsögn um nýja fræðslulöggjöf. Þess vegna tel ég ríka ástæðu til, að umsagnir þessara manna verði hér raktar og komist inn í þskj. og hv. þdm. kynni sér þessar umsagnir.

Næsti liður í þessari umsögn greinir frá umr. um grunnskólafrv. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Gengið til dagskrár um grunnskólafrv., frsm. Helgi Elíasson fræðslumálastjóri. Reifaði hann frv. í stórum dráttum, lagði síðan til. að þátttakendum yrði skipt í þrjá umræðuhópa til að fjalla um frv. Hófust síðan almennar umr, til kl. 12, og tóku þessir til máls:

Oddur Sigurjónsson gagnrýndi val þeirra manna, sem unnið hefðu að samningu grunnskólafrv. Hann ræddi síðan um skólaskyldu, taldi, að hún næði ekki tilgangi sínum gagnvart 8–10% nemenda, sem getuminnstir væru, og þótti fráleitt að lengja skyldunámið. Hins vegar bæri að auka skyldu hins opinbera til að aðstoða einstaklinginn, hvenær sem hann leitaði eftir hjálp. Oddur lýsti yfir ánægju sinni með stofnun bókasafna, en gagnrýndi annars flesta meginþætti frv., ekki síst 91. gr.

Ástráður Sigursteindórsson ræddi um 1. gr. frv., sem fjallar um markmið grunnskólans. Hann gagnrýndi, að þar væri ekkert tekið fram um kristilegan grundvöll skólans. Hann bað menn að gera sér grein fyrir, hvað vantaði og hvað í húfi gæti verið.

Magnús Jónsson gagnrýndi fyrirhugaða lengingu skólaskyldunnar og taldi hana ekki tímabæra. Enn fremur áleit hann stjórnunarkafla frv. varhugaverðan í núv. mynd, þar sem dregið væri úr valdi skólastjóra. Hann vildi, að reglugerð væri sett um stjórnun, en ekki lögbinding. Magnús taldi nauðsynlegt, að sálfræðingar og skólastjórar hefðu starfsreynslu sem kennarar.

Steinn Stefánsson gagnrýndi nafn grunnskólans og taldi vafasamt, að skipting landsins í kjördæmi og fræðsluumdæmi færi alltaf vel saman. Hann kvaðst vera á móti langri skólaskyldu og vildi láta afnema hana á gagnfræðaskólaaldri.

Jón Á. Gissurarson ræddi um lengingu skólaskyldunnar og taldi hana óþarfa og neikvæða. Helgi Þorláksson gagnrýndi undirbúning grunnskólafrv., þar sem starfandi skólamenn og fulltrúar dreifbýlisins hefðu ekki verið hafðir nægilega með í ráðum. Hann taldi æskilegt, að sami starfstími væri fyrir allan hinn almenna skóla, eins og tekið er fram í frv., en hins vegar væru ekki jafnhreinar linur með lengingu skólaskyldunnar. Hann minntist á starfstíma skólastjóra og námsstjóra og áleit vafasamt að skipa í slíkar stöður ævilangt. Helgi vék að markmiði skólans og taldi, að taka bæri skýrt fram um undirstöðu kristinnar siðfræði í skólastarfinu. Hann vakti athygli á góðu starfi sálfræðinga í þágu skólanna og minnti á sálfræðiþjónustu skóla í Reykjavík. Helgi óskaði eftir nánari útskýringu á framkvæmd skólastarfs samkv. grunnskólafrv.

Jónas B. Jónsson benti á nokkur atriði, sem æskilegt væri að ræða í starfshópum, þ.e. lengingu skólaskyldunnar og vald skólastjóra. Enn fremur svaraði hann lauslega fsp. Helga Þorlákssonar.“

Er hér er komið sögu, þá er greint frá því í umsögn þessari, að mönnum er skipað í starfshópa og unnið í starfshópum til kvölds og fyrirhuguð skemmtiferð umhverfis Vatnsnes, sem ég vænti, að skólastjórar hafi notið með ágætum. Þá kemur að því, að flutt eru framsöguerindi starfshópa:

„Voru þar taldar upp breyt., er óskað var, að gerðar yrðu á einstökum gr. grunnskólafrv. Frsm. voru Ástráður Sigursteindórsson, Guðmundur Magnússon og Ólafur Þ. Kristjánsson. Að loknum framsöguerindum hófust frjálsar umr.

Helgi Þorláksson gerði aths. við 34. gr. frv. og lagði til, að kennarafundir yrðu á starfstíma kennara, gjarnan settir á stundaskrá að hausti. Hann ræddi enn fremur um æskilega menntun og starfsreynslu manna í menntmrn.

Slík ábending hefur t.d. í þessum umr. hvergi komið fram, svo að mér sé kunnugt, sem kemur þarna fram frá þessum merka skólamanni, að það kunni að vera æskilegt, að þeir menn, sem valdir eru til starfa í menntmrn., hafi einhverja starfsreynslu. Það a.m.k. kemur ekki fram, hvort þessu hefur verið fylgt og þetta haft í huga hingað til. En ábyggilega væri þörf á því, að það yrði haft í huga þá framvegis.

„Friðbjörn Benónýsson ræddi um skólaskyldu og fræðsluskyldu, en benti á, að vegna ágalla á grunnskólafrv. væri athugandi að fjölga mönnum í n. Hann lýsti þeirri skoðun sinni, að kirkjan væri helst til ágeng að koma viðhorfum sínum inn í frv. Minnst var á 91. gr. og óskað eftir styttingu hennar, en jafnframt mælst til þess, að rétti nemandans yrði haldið á loft.

Helgi Þorsteinsson talaði um fyrirhugaða samþjöppun námsefnis og spurði, hvernig henni skyldi hagað. Hann taldi vafasamt, að unnt yrði að flýta náminu að nokkru ráði í yngri bekkjum barnaskólans. Öðru máli gegndi um eldri bekki barnaskólans, en þar þyrfti að vinsa úr námsefni.

Helgi Elíasson ræddi um niðurstöður samstarfshópanna og ýmis atriði grunnskólafrv. Hann taldi gott fyrir n., er starfa mundi áfram að frv., að fá ábendingar þær, sem fram hefðu komið. Hann mælti með 9 ára fræðsluskyldu, þar sem hún væri lágmarksmenntun vegna framhaldsnáms.“

Athugandi er, að Helgi Elíasson fræðslumálastjóri mælir með 9 ára fræðsluskyldu, en ekki 9 ára skólaskyldu. Og er það nákvæmlega í samræmi við þær skoðanir, sem ég hef mælt fyrir við umr. um þetta mál hér á undanförnum þingum.

„Vilhjálmur Einarsson minnti á styrk ríkisins við gagnfræðaskóla dreifbýlisins. Hann taldi frv. sniðið eftir erlendum fyrirmyndum, sem ættu ekki við hér á landi í mörgum tilvikum. Hann benti á, að lenging skólaársins skerti þann tíma, sem menn hefðu til að afla sér fjár til vetrarins. Þá yrði a.m.k. að koma til öflugur fjárhagslegur stuðningur ríkisvaldsins við nemendur.“

Það skyldi þó ekki vera, að þarna lægi enn ótalinn gildur póstur, sem yrði til þess að stórhækka útgjöld ríkisins til skólamála, ef frv. verður samþ. En þessum þætti hefur ekki verið gefinn gaumur við meðferð þessa máls, svo að mér sé kunnugt, og ekki í umr. hér á Alþ.

„Jón Á. Gissurarson minntist á ólíka aðstöðu dreifbýlis og þéttbýlis og taldi, að taka yrði tillit til þessa atriðis.

Jónas B. Jónsson svaraði ýmsum fsp., sem beint hafði verið til nm.

Magnús Jónsson kom með aths. um starfstíma skólastjóra.

Steinn Stefánsson talaði um lengd skólaskyldu og jöfnun á aðstöðu dreifbýlis og þéttbýlis. Hann harmaði; að verknám hefði orðið útundan í grunnskólafrv., og óttaðist, að ýmsar nýjungar kynnu að verða erfiðar í framkvæmd. Steinn vildi lækka leyfilegt meðaltal úr 15 í 12 í bekkjardeild, til þess að heimilt yrði að starfrækja skóla í dreifbýli.“

Þá kemur þar í frásögn af þessum fundi og áliti þessa fundar, að skipuð er n. til að gera till. um breyt. á frv. og fundarhlé gefið. Er fundur hófst að nýju, var frsm. n. Kristinn Jóhannsson. Lagði hann fram fjölritað álit n. Þessir tóku til máls:

„Helgi Elíasson taldi, að tryggja þyrfti hag nemenda í dreifbýli á 9. ári skólagöngunnar, ef skyldunámið yrði einungis 8 ár. Bergur Felixson taldi vafasamt að lækka leyfilegt lágmark nemenda í deildum, fremur bæri að sameina smáar einingar. Ástráður Sigursteindórsson ræddi um störf n., og Gylfi Pálsson gerði aths. við orðalag. Magnús Jónsson benti á, að ekki bæri að rýra rétt Reykjavíkur til sjálfstæðis í málum sínum, heldur ætti að efla rétt annarra landshluta til svipaðs sjálfstæðis. Helgi Þorláksson ræddi um lengd skólaskyldunnar, og Guðmundur Magnússon vildi, að tekið yrði fram í áliti n., að fulltrúi dreifbýlisins yrði kvaddur til ráða við endurskoðun grunnskólafrv. Hann taldi, að lenging skólaskyldu væri góðra gjalda verð, þegar hennar tími væri kominn, en svo væri ekki enn. Umr. urðu um lengingu skólaskyldunnar og kom fram, að menn töldu, að lenging hennar væri ekki tímabær við núv. aðstæður, en gæti verið æskileg, þegar margvíslegum skilyrðum hefði verið fullnægt“

Skoðanakönnun fór fram um eftirfarandi tillögur:

1. Með lengingu skólaskyldu, eins og fram kemur í frv., — 0 — þ.e. enginn meðmæltur lengingu skólaskyldunnar, eins og hún kemur fram í frv.

2. Með lengingu skólaskyldu, þegar ýmsum skilyrðum hefur verið fullnægt. Með því greiða. atkv. 10, en enginn eins og frv. gerir ráð fyrir.

3. Andvígir lengingu skólaskyldu 16 eða meiri hl.“ (Grípið fram í: Var Pálmi Jónsson á fundinum?) Pálmi Jónsson var ekki á þessum fundi, og ef hv. 2. þm. Sunnl. óskar eftir því, að ég lesi að nýju upp nöfn þeirra manna, sem sátu þennan fund, er það sjálfsagt, ef hann ber fram sérstaka ósk um það efni. En hér er um að ræða skólastjóra víðs vegar af landinu á gagnfræða-, mið- og héraðsskólastigi, þá menn, sem gerst þekkja til í sambandi við skólamál á því stigi fræðslumála, sem grunnskólafrv. fjallar um. Og held ég, að hv. 2. þm, Sunnl. gæti verið mér sammála um, að þessir menn þekki skólastarf á þessu skólastigi betur en allir aðrir menn og þeirra till. beri að meta umfram till. annarra manna. (ÁÞ: Þeir voru ekki sammála.) Enginn mælti með lengingu skólaskyldunnar, eins og frv. gerir ráð fyrir, 16 voru andvígir lengingu skólaskyldunnar, og með styttingu skólaskyldu mælti einn.

Brtt. voru gerðar við frv. Till. frá Magnúsi Jónssyni um breyt. á V. kafla, 4. mgr., var felld. Till. Guðmundar Magnússonar um breyt. á inngangi var samþ. shlj.“ Síðan er greint frá því, að till. n. hafi verið bornar upp í heilu lagi með áorðnum breyt. og samþ. shlj. Að því loknu er greint frá ávarpsorðum fræðslumálastjóra og Ólafs Þ. Kristjánssonar og fundarslitum.

Verður þá horfið að því að rekja álit þau, sem fram komu eftir þær umr., sem ég hef nú drepið á nokkra punkta úr hér að framan, en álit fundar skólastjóra gagnfræðastigsins á frv. til l. um grunnskóla er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Inngangur: Fundurinn telur, að margt í frv. þurfi nákvæmrar athugunar við og engin viðhlítandi úttekt verði á því gerð á svo skömmum tíma er hér var til umráða, og leggur áherslu á, að tilkallaðir verði starfandi skólamenn af viðkomandi skólastigum við endanlega mótun frv., bæði úr dreifbýli og þéttbýli. Fundurinn leyfir sér þó að gefa eftirfarandi ábendingar og vill í fyrsta lagi benda á, að nokkrar gr. eða hluti gr. í frv. ættu fremur að standa í reglugerðum en lögum, og má sem dæmi benda á 30. gr. og 91. gr.

I. kafli.

Fundurinn álítur, að 1. mgr. skuli hljóða svo: Grunnskólinn skal í samvinnu við heimilin veita nemendum siðgæðislegt og félagslegt uppeldi byggt á kristnum grunni, sem miði að því o.s.frv.

II. kafli.

Í sambandi við skólaskyldu, sbr. 2. gr., leggur fundurinn til, að 2. mgr. hljóði svo:

Öllum ungmennum á aldrinum 7–15 ára er skylt að sækja skóla.

Hvað viðvíkur 5. gr. komi ljóst fram, að ef misbrestur verður á skólahaldi vegna vanrækslu eða vangetu sveitarfélags, sé menntmrn. skylt að sjá um nauðsynlegar úrbætur.

Þá fagnar fundurinn þeim úrbótum, sem felast í 9.–11. gr., en bendir jafnframt á, að þegar kannaðar eru þarfir nemenda til sérkennslu, sé ávallt leitað álits skólans.“

Í sambandi við þennan þátt ályktunarinnar vil ég leyfa mér að benda á, að niðurstaða skólastjórafundarins um lengingu skólaskyldu, lengd skólaskyldu og um fræðsluskyldu er nákvæmlega sú hin sama og gerðar eru till. um í þeim brtt., sem ég og þrír aðrir hv. þm. í þessari hv. d. höfum lagt fram.

„III. kafli.

Lögð er á það áhersla, að óheppilegt sé að lögfesta fjölda skólaumdæma. Þá telur fundurinn, að endurskoða þurfi form byggingardeildar rn., t.d. með tilliti til félagsaðstöðu nemenda, og einnig að þau brjóti ekki í bága við gildandi samþykktir, t.d. heilbrigðisyfirvalda. Þá er talið, að meta þurfi þátttökuhlutfall ríkissjóðs í byggingarframkvæmdum við skóla með tilliti til fjárhagslegrar getu viðkomandi sveitarfélags. Einnig skal við það miðað, að eldri deildir skólastigsins séu í einsettu húsnæði.

Í sambandi við 17., 18. og 58. gr. komi ætíð til álit skólastjóra.

IV. kafli.

Fundurinn álítur, að yfirkennarar skuli fastráðnir ríkisstarfsmenn og launaðir sem slíkir og starfssvið þeirra tilgreint með reglugerð. Að öðru leyti gildi ákvæði 31. gr. um ráðningu þeirra.

Nauðsynlegt er, að 30 gr. frv. verði endurskoðuð frá grunni, einkum með tilliti til hámarks reiknaðra stunda, og verði haft fullt samráð við skólastjóra við þá endurskoðun. Tekið verði þá sérstakt tillit til stærðar skóla og ýmissa ótilgreindra þarfa. Þó telur fundurinn, að fastara form verði að koma á framkvæmd á veitingu orlofa, þannig að ákvörðun berist ætíð viðkomandi kennara og skólastjóra það tímanlega, að tryggt sé, að viðkomandi geti nýtt orlof svo sem efni stóðu til.

V. kafli.

Fundurinn telur einsýnt, að skilgreina þurfi, við hvað er átt með því menntmrn., sem oft er nefnt í frv., og að tryggt verði, að yfirstjórn skólamála verði ætíð í höndum menntaðra og reyndra skólamanna, og á þetta ekki síður við um þá, er skipa fræðslustjóraembætti og önnur slík í tengslum við skólana.“

Sem innskot við þessa mgr. finnst mér, að okkur, sem ekki höfum starfað að skólamálum, sé vorkunn, þó að við rötum ekki ævinlega í gegnum þann frumskóg, sem hæstv. menntmrn. er, úr því að sjálfir skólastjórarnir, sem eru á þessum fundi, telja, að það þurfi að skilgreina það nákvæmar, hvað átt sé við, þegar talað er um menntmrn.

„Þá er og talið, að þau atriði, sem um er fjallað í 35. og 36. gr., verði kveðið á um í reglugerð og að 37. gr. falli niður sem lagagr. Einnig er talið nauðsynlegt, að ráðningu í skólastjóra- og kennarastöður verði lokið 1. júlí og einnig, að starfstími skólastjóra teljist allt að tveimur mánuðum lengri en starfstími skólans er. Talið er æskilegt, að fræðslustjóri verði ekki ráðinn nema til 6–8 ára í senn, enda sé honum að þeim tíma loknum gefinn kostur á öðru starfssviði innan skólakerfisins. Eðlilegt er talið, að fræðsluumdæmi hafi sem mest sjálfstæði og ekki sé ástæða fyrir annarri skipan mála í Reykjavík en öðrum fræðsluumdæmum. Varla getur talist ástæða til, að taka þurfi fram í lögum, að yfirstjórnendum fræðslumála sé heimiluð fundarseta á fundum fræðsluráðs, sbr. 52. gr.

VI. kafli.

Ekki er talið nauðsynlegt, að starfstími skóla sé í lögum einskorðaður við þær dagsetningar, sem í frv. eru, enda skili þeir þá tilskildum starfstíma. Þó skal þess í hvívetna gætt, að hvergi sé starfsorku nemenda né kenna~a ofboðið í óhóflegu daglegu álagi, og einnig verði að því stefnt, að dagleg starfsskylda kennari sé af hendi leyst í skólanum á föstum vinnutíma. Talið er æskilegt, að meðaltal nemenda í bekkjardeildum grunnskóla sé ekki yfir 25 og nemendafjöldi í bekkjardeild ekki yfir 30, sbr. 68. gr. Hvað varðar efni 72. gr., þá verði að jafnaði við það miðað, að meðalfjöldi nemenda í deild verði ekki minni en 10.

VII. kafli.

Fundurinn er í meginatriðum samþykkur áformum um námsmat og lýsir sig fylgjandi þeirri stefnu, að dregið sé úr prófum í grunnskóla og þætti prófdómara í slíkum störfum.“

Það eru hér engar aths. við VIII. og IX. kafla, en við X. kafla. — 91. gr. er talin óhæf í núv. formi og lagt til, að í gr. verði almenn ákvæði, sem gerðu hvort tveggja að tryggja rétt nemenda og eðlilega starfsemi skólans. Þá verði og tekið tillit til aldurs nemenda og mismunandi gerða skóla. Nánari ákvæði verði í reglugerð.

Þá er lýst ánægju með forskólaheimild og bókasöfn.

„XIV. kafli.

Í sambandi við 86. gr. leggur fundurinn áherslu á, að félagsráðgjafi og skólaráðgjafi verði starfsmenn skólans, en lýsir ánægju yfir aukinni sálfræði- og félagslegri þjónustu í skólunum.“

Þá eru lokaorð í þessum þætti ályktunarinnar: „Þá vill fundurinn vænta þess, að að lokinni afgreiðslu nýrra laga um skólamál verði þegar ákveðið, hvenær slík lög koma til fullnaðarframkvæmdar, og bendir á mikilvægi þess, að framkvæmd þeirra verði með þeim hætti, að verði uppvaxandi kynslóð til heilla og þroska og svo um búið, að starfsvettvangur innan skólakerfisins sé til þess líklegur að laða til hæfa menn og vel mennta.“

Þá er hér ógetið álits tveggja umræðuhópa, og vegna þess hvað þar er um stutt mál að ræða, vil ég — með leyfi hæstv. forseta — rekja meginþætti, sem fram koma í þeim álitum. Hér er um umræðuhóp I:

„Hópurinn álítur, að margt í frv. þurfi gagngerðrar endurskoðunar við og margt, sem þar er, eigi fremur heima í reglugerðum en lögum. Hópurinn ber ekki fram fastmótaðar brtt., heldur aðeins nokkrar ábendingar, sem af kunna að leiða frekari breyt. á l., þótt ekki sé út í þær farið nánar. Þó vill hópurinn taka sérstaklega fram, að þær ábendingar, sem hann kemur fram með, eru engan veginn tæmandi og þýða ekki það, að önnur ákvæði viðkomandi kafla þurfi ekki athugunar við. Loks tekur hópurinn fram, að vegna tímaskorts var ekki unnt að taka til meðferðar í hópnum nema fimm fyrstu kafla frv.“

Um I. kafla segir: „Í 1. gr. leggur hópurinn til, að tekin verði inn orðin „á kristilegum grundvelli“ á eftir orðunum „siðgæðislegt og félagslegt uppeldi.— Þetta hygg ég, að sé komið inn í frv. og ekki ástæða til að fjalla um það frekar.

„Í 2, gr. leggur hópurinn til, að niður falli orðin „á þessum aldri“ og í staðinn komi: á aldrinum 7–15 ára“ — nákvæmlega eins og gert er í 2. brtt. þeirri, sem ég hef hér mælt fyrir og flutt er ásamt mér af þremur öðrum hv. þm. og var flutt í Ed. af 6 hv. nm. menntmn., en dregin til haka af óskiljanlegum orsökum.

„Við 5. gr. Síðasta ákvæði gr. sé orðað þannig: „Að menntmrn. beri skylda til að sjá um, að l. verði fullnægt.“

Nokkrar orðalagsbreytingar fleiri eru gerðar till. um við II. kafla. Sé ég þó ekki ástæðu til að rekja þær til hlítar.

Við III. kafla eru þessar ábendingar helstar: „14. gr. Ekki er talin ástæða til að binda fjölda fræðsluumdæma við töluna 8 hið mesta.

17. gr. Á eftir 1. mgr. komi: samkv. till. skólastjóra.

18. gr. í gr. séu tryggð umráð skólastjóra yfir skólamannvirkjum.“

Þarna kemur fram sá vilji þessara skólamanna, að tryggð séu aukin áhrif skólastjóranna miðað við það, sem frv. gerði ráð fyrir, og það þarf síst að undra, þar sem frv. dregur verulega úr valdsviði og ábyrgð skólastjóra í sambandi við skólastarfið allt.

Þá taldi hópurinn, að í sambandi við þennan kafla l. þurfi að koma ákvæði um, að séð sé fyrir það miklu húsnæði, að unnt sé að halda einsetnum skóla, a.m.k. í eldri bekkjum.

Um IV. kafla eru hér allmargar ábendingar, sem ég tel ekki ástæðu til þess að rekja. Þær fjalla að sumu leyti um starfskjör kennara, og orkar að mínu mati tvímælis, hvort eigi að fjalla um þau í l. sem þessum, heldur í öðrum lögum og reglugerð.

Um V. kafla. Bent er á, að vald menntmrn. er samkv. l. þessum mjög mikið og því brýn nauðsyn á, að ráðuneytisstjóri og þeir, sem með þessi mál fara í rn., séu allir þrautreyndir skólamenn. Bent er á m.a., að vald fræðslustjóra sé mjög mikið og þurfi að tryggja, að í það starf sé ávallt valinn þrautreyndur skólamaður. Þá var talið æskilegt, að starfstími hans yrði takmarkaður við 6–8 ár á hverjum stað, að þeim tíma liðnum sé honum tryggt annað starf. Þá var og nokkuð rætt um sérstöðu Reykjavíkur í sambandi við 49.–51. gr. og ekki talið æskilegt, að önnur skipan gildi þar en úti á landi.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja fleiri þætti úr áliti þessa umræðuhóps, en þá er hér ógetið III. og IV. umræðuhóps.

Það er í fyrsta lagi:

„Hópurinn gagnrýnir skipan n. og undirbúning að samningu grunnskólafrv. og bendir á eftirfarandi atriði“ — eins og aðrir hafa gert: „Enginn fulltrúi dreifbýlisins á sæti í n. og enginn starfandi skólamaður úr gagnfræðaskóla. Raunhæf úttekt fari fram á gildandi fræðslulögum, áður en samið er frv. að nýju“ — og þótti engum mikið. Frv. var aðeins sent flestum skólamönnum til kynningar, en ekki til umsagnar, eins og sjálfsagt hefði verið. „Mjög skiptar skoðanir voru um lengingu skólaskyldunnar. Meiri hl. telur hana ekki tímabæra og bendir m.a. á, að enn sé 8 ára skólaskylda ekki að fullu komin til framkvæmda. Þeir, sem ákveðnast gagnrýndu þetta ákvæði, töldu það mannréttindi að það yrði ekki að lögum, — þar ætti fræðsluskylda að nægja. Minni hl., einkum fulltrúar úr dreifbýli, taldi hins vegar, að verulegur fjöldi unglinga nyti ekki framhaldsmenntunar vegna ónógra lagaákvæða og ónógrar hvatningar til náms. Það væri því nánast mannréttindamál að koma þessum ungmennum til aðstoða“. Niðurstaða umr. í þessum umræðuhópi varð því sú, að æskilegt og raunar nauðsynlegt væri að framkvæma fyrst 8 ára skólaskyldu til fulls og að skólarnir væru ekki nú viðbúnir lengingu skólaskyldunnar af ýmsum ástæðum.“

Enn ber að sama brunni, að enn er mælt gegn lengingu skólaskyldunnar.

Til þess að tefja ekki tímann um of, vil ég sleppa hér að lesa nokkra þætti úr þessu áliti, enda þótt það sýnist ástæða til þess, að meginhluti þess a.m.k. komist inn í þingtíðindin.

Um V. kafla var talið eðlilegt, að reglugerð fjallaði um atriðin í greinum nr. 35, 36 og 37, og spurning, hvort 37. gr. ætti ekki alveg að hverfa. Vegna ákvæða í 43. gr. var hent á, að ráða hefði þurft skólastjóra fyrr en áður var gert ráð fyrir og starfstími hans miðaður við 11 mánuði.

Við VI. kafla:

„Ákveða skal kennslustundafjölda á ári, en hverjum skóla síðan gefið nokkurt frelsi til að ráða starfstímanum með tilliti til árstíða og sérstakra aðstæðna, sem kynnu að skapast í sumum byggðarlögum. Var bent á sem dæmi, að eðlilegra væri að fella niður kennslu í svartasta skammdeginu, en kenna heldur fram í júní. Einnig er þar hent á, að í sumum verstöðvum þurfi stundum að gefa nemendum leyfi frá skólastarfi til að bjarga miklum verðmætum frá glötun, það sannaði reynslan.“

Ég vil taka það fram í sambandi við þessar till., að þær eru nokkuð í samræmi við það, sem fram kom í ræðu hv. 4. þm. Austf. hér áðan, að hann taldi, sem ég tek undir, að ástæða kunni að vera til að hafa heimild til að haga starfstíma skóla með mismunandi hætti eftir árstíðum í hinum einstöku skólahverfum og með hliðsjón af öðrum ástæðum. Ég lít þó svo á, að nauðsynlegt sé sem aðalregla að nota veturinn sem best til skólastarfsins og þar með svartasta skammdegið, sem hér er nefnt, og stytta heldur skólatímann bæði að hausti og vori. En þar kunna að gilda mismunandi aðstæður eftir byggðarlögum og eftir þeirri þörf, sem atvinnulíf þjóðarinnar á hverjum stað hefur fyrir þá vinnu, sem skólanemendur geta af mörkum lagt.

VII, kafla var það sameiginlegt álit hópsins, að draga bæri úr prófum og endurskoða frá grunni ákvæðin um prófdómara. Talið var, að kostnaður við störf prófdómara væri allt of mikill. Því fé ætti að verja til nytsamlegri hluta í skólastarfinu.

Um X. kafla: „Endurskoða þarf 91. gr. frv. frá grunni. Hún er of löng og óljós, og flest ákvæði hennar ættu fremur heima í reglugerð.“

Um XIV. kafla: „86. gr. Félagsráðgjafar og skólaráðgjafar verði starfsmenn skólanna og heyri beint undir skólastjóra. Nauðsynlegt var talið, að þeir sem og skólasálfræðingar hefðu nokkra kennarareynslu, áður en þeir komi til starfa sem sérfræðilegir ráðunautar, enda þurfi hvort tveggja að fara saman, a.m.k. í smærri skólum. Umræðuhópurinn tekur skýrt fram, að tímans vegna var aðeins hægt að taka fyrir fáein atriði.“

Í þessum síðustu ábendingum um skólasálfræðinga og félagsráðgjafa kemur það mjög sterklega fram hjá skólastjórunum, sem þarna sátu á fundi, að þessir starfsmenn eigi að vera starfsmenn skólans og starfa undir hans stjórn og vera ábyrgir í skólastarfi. Þetta hefur ekki hlotið hljómgrunn þeirra, sem um þetta mál hafa fjallað hér á hv. Alþ., heldur sitja þessir sérfræðingar á fræðsluskrifstofunum, eftir því sem frv. gerir ráð fyrir, og geta haft þar náðuga daga, svo fremi sem skólastjórar, kennarar, fræðsluráð og skólanefndir kveðja þá ekki til starfa. En ég hygg, að fjarlægð þeirra við skólana sé óheppileg og ekki líkleg til þess að af starfi þeirra megi vænta árangurs eins og ef þeir væru bundnir við það að hlíta þeim reglum og taka þátt í þeim störfum, sem í skólanum sjálfum fara fram.

Í áliti síðasta umræðuhóps segir enn: „Meiri hl. er andvigur lengingu skólaskyldu, mest vegna breyttra viðhorfa nemenda til skólastarfsins, þegar um skólaskyldu er að ræða, en rödd kom þó fram andstæð þessu, m.a. með tilliti til dreifbýlisins.“ Ein rödd í þessum umræðuhópi var andstæð þessari skoðun yfirgnæfandi meiri hl. allra þessara skólamanna. Hins vegar taldi hópurinn, að ríkinu ætti að vera skylt að sjá unglingum til 16 ára aldurs fyrir fræðslu. Þá segir og: „E.t.v. mætti orða 2. mgr. í 2. gr. þannig: Öllum ungmennum 7–15 ára er skylt að sækja skóla.“ — Skólaskylda í frv. ætti þá við þennan aldur. Hér er enn nákvæmlega vikið að því að færa þessa gr. frv., sem fjallar um skólaskylduna, í það horf, sem gert er í þeirri brtt., sem ég ásamt þremur öðrum hv. þm. í þessari d. höfum lagt fram við þessa umr.

Ef hv. þdm. hafa lítt hlustað eftir því, sem ég hef haft um þessi mál að segja við umr. um þetta mál fyrr á þessu þingi og á síðasta Alþ., þá vænti ég þess, að þeir leggi nú eyrun við og gefi því nokkurn gaum, sem hinir fjölmörgu reyndu skólamenn á miðskóla- og gagnfræðaskólastigi segja um þetta í þeim umsögnum, sem hér hafa verið raktar. Og ég ítreka: Það er sannarlega ástæða til þess, að umsagnir þessara manna komist inn í þingtíðindi og að þær séu raktar nokkuð í umr. á hv. Alþ., vegna þess að engir eru kunnugri þessum málum og engir eru betur til þess fallnir að veita umsögn um þessi efni heldur en einmitt þessir menn, sem hér hafa talað, þessir menn, sem besta þekkingu hafa á starfi skóla og þeim uppeldisáhrifum, sem skólaskyldan hefur á nemendur í skólum.

Í áliti þessa umræðuhóps koma fram allmargar fleiri ábendingar, þ. á m. um, að samkomusalur verði tekinn gildur í normi á skólabyggingum, og kemur þar fram sem víðar gagnrýni á þær reglur, sem gilda um norm á skólabyggingum, sem nú er starfað eftir í menntmrn.

Við IV kafla, 30, gr., um skólakostnað, segir: „Hópurinn vill láta taka gr. alla til endurskoðunar, því að hann óttast, að stundafjöldinn, sem skólunum er þar ætlaður, nægi þeim hvergi nærri til nauðsynlegrar og eðlilegrar starfsemi, þótt hann hins vegar skorti gögn til að leggja fram þá útreikninga, og stundirnar, sem ætlaðar væru til starfrækslu bókasafns, væru sjáanlega of fáar. Einnig kom fram, að óhjákvæmilegt væri, að skólastjóra væru ætlaðar allmargar stundir aukalega til ráðstöfunar vegna breytilegra þarfa skólans. Fram kom rödd um, að réttara væri að miða tölu reiknaðra stunda við tölu deilda í skólanum, en ekki við höfðatölu nemenda.“ Eðlilegt er talið sem fyrr, að yfirkennarar verði teknir inn í launakerfið sem fastir launþegar líkt og skólastjórar.

Hér eru fleiri ábendingar, sem ég tel ekki þörf á að rekja, vegna þess að þær falla nokkuð í sama farveg og þær, sem annars staðar hafa komið fram.

Við 62. gr. „Þarf nánari athugunar við, hvort daglegur skóladagur nemenda geti ekki orðið óhóflega langur. Föst ákvæði um fjölda daga til annarra þarfa skólans geta reynst óheppileg eðlilegri starfsemi skólans.“

Um 91. gr. segir enn, að gr. sé talin þurfa gagngerðrar endursamningar við. Sumir starfshópar hafa lagt til, að hún verði með öllu felld niður eða samin að nýju, og er það hér enn ítrekað. Þá segir og: „Látin er í ljós ósk um, að þegar ný fræðslulög hafa verið samþ. á Alþ., verði framkvæmd þeirra ekki látin dragast lengi.“ Hópurinn tók ekki frv. í heild til umr. frekar en fram kemur í því, sem að framan greinir.

Þá hef ég lokið við að rekja umsögn þá, sem horist hefur frá fundi skólastjóra gagnfræða-, héraðs- og miðskóla, sem haldinn var að Reykjaskóla í Hrútafirði dagana 24.–26. júlí 1971. Í heild má segja um þessa umsögn, að hún feli í sér nokkrar mjög veigamiklar ábendingar:

Í fyrsta lagi eindregin mótmæli gegn lengingu skólaskyldu og tillögur um, að komið verði á þeirri skipan, sem gert er ráð fyrir í þeim brtt., sem fyrir liggja á þskj. 909 um skólaskyldu á 7–15 ára aldri, en fræðsluskylda gildi á 9. ári grunnskóla.

Í öðru lagi kemur fram, að starfsábyrgð og starfsvettvangur skólastjóra eru skert í þessu frv. Umráð og stjórnun skóla er í of miklum mæli falin öðrum aðilum en skólastjórunum sjálfum, sem þar eiga eftir gildandi l. að bera fulla ábyrgð gagnvart skólanefndum og fræðsluyfirvöldum. Þessi ábyrgð er felld niður, og það er engin furða, þó að skólastjórunum finnist það harla óeðlilegt.

Í þriðja lagi kemur fram, að mjög margar gr. frv. eru með því marki brenndar, að þær þurfa gagngerðrar endursamningar við eða þá verði felldar niður og ýmis atriði, sem þar er að finna, verði tekin upp í reglugerð, en numin

úr löggjöf. Þetta kemur nákvæmlega heim við þá gagnrýni, sem ég og aðrir höfum haldið uppi hér á gerð þessa frv., að það sé langtum of langt og ítarlegt og fjölmörg atriði þess mætti fella niður og færu betur í reglugerð.

Í fjórða lagi er margháttaðar ábendingar að finna í þessari veigamiklu umsögn í sambandi við afskipti menntmrn. af skólastarfi og aðra uppbyggingu stjórnunarkerfisins í frv. og enn fremur um ýmis atriði, er varða starfskjör yfirkennara og skólastjóra.

Því skal ekki leynt, að nokkur af hinum veigaminni atriðum, sem bent er á í þessari umsögn, hafa verið tekin til greina við meðferð þessa máls, frá því að þessi fundur var l:aldinn. Eigi að síður standa eftir í frv., eins og það er nú, þeir megingallar frv., sem hvað hörðust gagnrýni kemur fram við í þessu áliti, hörðust gagnrýni hefur beinst að af hálfu hv. alþm. hér á Alþ. og sterkust óánægja er ríkjandi með meðal hina ýmsu hópa í þjóðfélaginu. Þar á ég við lengingu skólaskyldunnar, lengingu skólaársins, uppsetningu hins viðamikla stjórnkerfis, rýrða ábyrgð skólastjóra og flókna meðferá skólamála í heild og eins og áður er getið, óhæfilega ítarlega og smásmugulega gerð þessa frv. Þetta er allt til viðbótar við þá sterku gagnrýni, sem ég lýsti hér áðan í sambandi við þann mikla kostnað, sem af því mundi hljótast, ef frv. þetta yrði afgreitt í því formi, sem það er.

Ég skal nú, herra forseti, stytta mál mitt. Enda þótt ærin ástæða væri til þess að vekja athygli á ýmsum af þeim fjölmörgu umsögnum um grunnskólafrv., sem er að finna í þessari möppu, þá skal ég láta það kyrrt liggja. Þar er þó hvort tveggja um að ræða sterka gagnrýni frá félagssamtökum af hinum ýmsu gerðum og einstaklingum, sem víðs vegar um land hafa starfað að skólamálum og bera hag skólaæskunnar og þar með menntun þjóðarinnar mjög fyrir brjósti, Öll sú gagnrýni, sem flutt hefur verið á þetta frv., á að skoðast í því ljósi, að þeir, sem hana flytja, bæði þeir, sem veitt hafa umsagnir um frv., sem hér kemur fram, og eins við þm., sem gagnrýnt höfum þetta frv., gerum það í þeim tilgangi einum að fá að lokum fram þá niðurstöðu við setningu nýrra grunnskólalaga, sem megi leiða til sem mestra heilla fyrir æskulýð þjóðarinnar og verða þannig til þess að móta umgjörð um það starf, sem geti byggt upp heilladrjúga kennsluhætti og aukið þroska og nám nemenda í meiri mæli en gert hefur verið til þessa.

Sú er niðurstaða mín að þessu sinni sem og fyrr, að ég vil í fyrsta lagi freista þess að bera fram brtt., sem mundu nokkuð bæta þetta frv., þó að stórkostlegir gallar liggi þá eftir. Ég vil samt sem áður vænta þess, að hæstv, ráðh. og hæstv. forseti þessarar hv. d. sjái, að það er ekki ástæða til þess að hrapa nú að því á síðustu klukkustundum, sem þessu þingi er ætlað að standa, að afgreiða frv., eins og rakið hefur verið. Það mundi ekki flýta fyrir því, að ákvæði þess kæmu til framkvæmda. Það mundi einungis verða til þess að knýja fram umdeilda löggjöf, sem hefur þau ákvæði inni að halda, að enginn veit, hvenær hún kemur að fullu til framkvæmda, vegna þess að það er kveðið svo á í frv. sjálfu, að aðlögunartími þess sé allt að 10 árum. Ef þau vinnubrögð væru tekin upp að hverfa nú frá afgreiðslu málsins og að því horfið að kveðja til nefnd 7 þm., eins og við nokkrir þm. lögðum til í dagskrártill. við 3. umr., þá vænti ég þess og treysti, að takast mætti samkomulag um að breyta þessu frv. svo, að allir mættu vel við una. Ég hygg, að það hafi meira gildi að ná fram þeirri bestu niðurstöðu, sem hugsanleg er, og friði um afgreiðslu þessa máls heldur en þótt hæstv. ráðh. telji sig með því að knýja fram afgreiðslu þess geta hengt í sitt hnappagat rós, sem mér sýnist nú mjög föl orðin.

Þetta er sú niðurstaða, sem mér sýnist liggja fyrir, og ég skora enn á hæstv. ráðh, og hæstv. forseta d. að ljúka umr. þessari og taka málin út af dagskrá, þegar þeir hafa lokið máli sínu, sem nú hafa kvatt sér hljóðs, og hverfa að því að taka málið enn til nýrrar endurskoðunar með þann tilgang í huga, sem ég hef þegar lýst, — tilgang, sem í engu mundi fresta framkvæmd þeirra ákvæða, sem telja má, að betur megi fara með tilliti til hins langa aðlögunartíma frv.