09.05.1974
Sameinað þing: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4444 í B-deild Alþingistíðinda. (4010)

Tilkynning frá forsætisráðherra

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég les hér fyrst forsetabréf um þingrof:

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Forsrh. hefur tjáð mér, að þar sem einn stuðningsflokkur ríkisstj. hafi slitið samstarfi á Alþingi og engar horfur séu á því, að unnt sé að mynda meirihluta, sem staðið geti að starfhæfri ríkisstj., málefni í algerri sjálfheldu á Alþ. og stjórnarandstaðan fáist eigi til að afgreiða aðkallandi og mikilvægar efnahagsráðstafanir og stjórnmálaflokkarnir almennt óski auk þess eftir kosningum, beri brýna nauðsyn til að rjúfa Alþingi.

Samkv. þessu er Alþingi hér með rofið nú þegar.

Gjört í Reykjavík, 8. maí 1974.

Kristján Eldjárn.

Ólafur Jóhannesson.“ Ég les hér næst forsetabréf um almennar þingkosningar til Alþingis 1974:

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Almennar kosningar til Alþingis skulu fara fram sunnudaginn 30. júní 1974.

Gjört í Reykjavík, 8. maí 1974.

Kristján Eldjárn.

Ólafur Jóhannesson.“ Þá les ég forsetabréf um umboð til forsrh. til þess að rjúfa Alþingi:

„Forseti Íslands gerir kunnugt: Að ég veiti forsrh, umboð til þess að rjúfa Alþingi, 94. löggjafarþing, nú þegar.

Gjört í Reykjavík, 8. maí 1974.

Kristján Eldjárn.

Ólafur Jóhannesson“ Samkv. þessu umboði lýsi ég því yfir, að Alþingi Íslendinga, 94. löggjafarþing, er frá og með þessari stundu rofið og störfum þess lokið.

Var síðan af þingi gengið.