12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef margt að athuga við þá bráðabirgðalausn á fiskveiðideilunni við Breta, sem hér er nú til umr.

Það hefur verið lögð áhersla á það af formælendum þessa samkomulags, að það leiði til samdráttar í aflamagni Breta hér við land, og manni skilst, að til þess sé leikurinn gerður. Til að tryggja slíkt, eftir því sem unnt er, hefði þurft að vera í samkomulaginu ákvæði um ákveðið aflahámark. Viðmiðunarreglan í inngangi samkomulagsins er óljós, enda segir það, að miðað sé við, að ársafli breskra skipa verði um 130 þús. lestir. Hvað merkir þetta „um“? Er það brot á samkomulaginu, ef Bretar veiddu t. d. um 140 þús. lestir á ári? Ætli það fari ekki eftir atvikum? Eða kemur nokkrum í hug, að núv. hæstv. ríkisstj. í þjónkun sinni við Breta rifti samkomulaginu af þessum sökum? Þessi viðmiðunarregla, um 130 þús. lestir, á eftir að verða gagnslítil eða gagnslaus. Möguleikar á takmörkunum á aflamagni Breta fara eftir því, hvaða áhrif efnisliðir samkomulagsins hafa, þ. e. fækkun breskra togara, lokun smábátasvæða, sérstök friðunarsvæði og skipting miðanna í sex hólf. Ég mun víkja að þessum atriðum síðar.

Þegar talað er um takmörkun á aflamagni Breta, gengur hæstv. ríkisstj. út frá því, að aflamagn þeirra hafi áður verið 185 þús. lestir. Eru þá lagðar til grundvallar aflatölur Alþjóðahafrannsóknaráðsins að meðaltali 10 s. l. ár. Svo reikna menn út, að árangurinn af þessu samkomulagi verði minnkun á ársafla Breta sem svarar mismuninum á 185 þús. lestum og 130 þús. lestum eða um 55 þús. lesta. Ég hef þegar vikið að, hve áreiðanleg 130 þús. talan er. En það er ekki nóg með það, heldur verður að taka líka 185 þús. töluna með fyrirvara, því að hún er miðuð við ársafla breskra skipa bæði fyrir innan og utan 50 mílna mörkin, þ. e. a. s. á öllu hafsvæðinu umhverfis Ísland, svonefndu 5 A svæði, sem samkv. reglum Alþjóðahafrannsóknaráðsins takmarkast af línum, sem eru alls staðar utan við 50 mílna mörkin og mundu sums staðar verða utan 200 mílna fiskveiðilögsögu, þegar við höfum tekið okkur hana. Vegna þess er ekki hægt að taka töluna 185 þús. til viðmiðunar, þegar reiknað er út, hvað aflamagn Breta drægist saman við hið fyrirhugaða samkomulag. Það verður að draga frá það aflamagn, sem fengið er utan við 50 mílna mörkin. Ekki get ég fullyrt, hve þetta nemur miklu, og þykir raunar líklegt, að engar tölur séu til um það. En hins vegar er augljóst, að um nokkurt aflamagn er að ræða og að ekki þurfi raunar að vera ýkjamikið til þess að lítið sem ekkert mark verði tekið á þeim fullyrðingum hæstv. ríkisstj., að samkomulagið feli í sér skerðingu á ársafla Breta innan íslenskrar landhelgi. Er þá einnig haft í huga það, sem ég áður hef sagt um haldleysi viðmiðunarreglunnar um 130 þús. lestir. Sannleikurinn er sá, að samkomulagið tryggir ekki, að ársafli Breta minnki frá því, sem hann var áður fyrr. Mestar líkur eru fyrir því, að ársafli þeirra minnki hverfandi lítið eða jafnvel ekkert.

Hvað er þá unnið við þetta samkomulag, ef við vinnum lítið sem ekkert í þessu efni? Kannske er rétt að spyrja, hvers vegna hæstv. ríkisstj. vilji bjóða upp á slíkt samkomulag við Breta, sem hér er um að ræða. Jú, þá segja þeir náttúrlega, að hvað sem líði öllum útreikningum, þá hafi það sýnt sig, að ársafli Breta hafi numið 165 þús. lestum, eftir að fiskveiðideilan hófst. Ef við semjum ekki upp á þau býti, sem hér um ræðir, þá séum við að gefa Bretunum 35 þús. lestir á ársgrundvelli. En hér er um staðleysu að ræða. Hæstv. ríkisstj. veit, að afli Breta á Íslandsmiðum er ekki allur fenginn innan 50 mílna markanna. Eða heldur hæstv. ríkisstj., að í aflaskýrslum Breta á Íslandsmiðum sé einungis það meðtalið, sem veitt er innan fiskveiðilögsögu okkar? Heldur ríkisstj. kannske, að Bretar hafi það eins og tíðkaðist á skakinu í gamla daga, að aflanum sé skipt í fjöru og sé kastað í eina kös því, sem tilheyrir landhelginni, og í aðra kös því, sem tilheyrir ekki landhelginni, síðan sé þetta sett á vigt? Nei, hæstv. ríkisstj. veit, að sú tala, sem Bretinn gefur nú upp um aflamagn á Íslandsmiðum, á jafnt við fiskinn, sem veiddur er utan sem innan landhelgismarkanna. Hæstv. ríkisstj. veit, að hluti af aflanum er fenginn utan landhelgi. Ekki getum við svo til viðbótar útilokað, að eitthvað sé innifalið í 165 þús. lesta ársaflanum frá öðrum miðum en Íslandsmiðum, svo sem Færeyjamiðum eða Grænlandsmiðum. Það er augljóst, að hæstv. ríkisstj. stoðar ekki að halda fram, að við gefum Bretum 35 þús. lesta ársafla umfram 130 þús. lestir, ef við samþykkjum ekki samkomulagið.

Sannleikurinn er sá, að hvernig sem við veltum fyrir okkur þessu máli, þá hefur viðmiðunarreglan, sem sett er fram í inngangi samkomulagsins um 130 þús. lesta ársafla Breta, enga eða sáralitla þýðingu til að takmarka aflamagn breskra skipa innan landhelginnar. Eftir hverju er þá verið að slægjast með þessu samkomulagi, sem ríkisstj. vill troða upp á okkur? (Gripið fram í: Það er verið að þóknast NATO.)

Hér er svo furðulega að farið, að maður hlýtur að spyrja, hvort ríkisstj. hafi þá ekki vaðið fyrir neðan sig í ákvæðunum í hinu fyrirhugaða samkomulagi um fjölda veiðiskipa samkv. 1. tölul. og skiptingu veiðisvæða og tímasetningu samkv. 4. tölul. Þar segir, að í togaraafla Breta verði eigi fleiri en 68 skip yfir 180 fet að lengd og 71 skip minna en 180 fet. Hér er samtals um að ræða 139 skip, sem er greinilega nægur fjöldi skipa til að gera Bretum kleift að ná eins miklum afla og viðmiðunarreglan um 130 þús. lestir á ári gerir ráð fyrir. í þessu ákvæði um leyfilega tölu skipa þurfa því ekki að felast neinar frekari takmarkanir á aflamagninu. Það er greinilegt, að í þessum efnum hefur ríkisstj. séð svo um, að Bretum er ekkert að vanbúnaði til að ná 130 þús. lesta ársafla eða meira.

En enn þá greinilegra er, hvernig látið hefur verið undan kröfum Breta, þegar litið er á 4. tölul. samkomulagsins, sem fjallar um veiðisvæðin og lokunardagsetningarnar. Er þar fyrst til að taka, að það hafði verið krafa íslendinga, að tvö svæði af hinum sex veiðisvæðum væru lokuð samtímis. Frá þessu er nú fallið, þannig að samkomulagið gerir ráð fyrir, að eitt svæði af 6 svæðum verði lokað í einu, eins og fram hefur verið tekið hér margoft áður. Hér er um meir en stigmun að ræða, eins og hæstv. ríkisstj. virðist ætla. Í raun og veru er hér um grundvallarmun að ræða. Það hefur grundvallarþýðingu, hvort hvert veiðihólf er lokað aðeins tvo mánuði á ári eða í helmingi lengri tíma, þ. e. a. s. í 4 mánuði. En ekki er nóg með, að um fullkomna uppgjöf sé að ræða gagnvart Bretum í sambandi við lokun veiðisvæðanna, heldur virðist greinilegt, að Bretum sé gefið algert sjálfræði um allt, er viðkemur veiðihólfunum. Þegar hæstv. forsrh. kemur heim frá fundinum í Downing Street 10, segir hann eða gefur a. m. k. í skyn, að Íslendingar hafi það í eigin hendi að ráða tímasetningu á lokun hvers veiðihólfs. Á grundvelli þessa ritar Landssamband ísl. útvegsmanna forsrh. bréf, þar sem settar eru fram till. Landssambandsins um þessa tímasetningu miðað við það hvað hagkvæmast væri fyrir Íslendinga. Boðað er einnig til stjórnarfundar Landssambandsins, þar sem hið fyrirhugaða samkomulag eða samningsgrundvöllur frá Downing Street er lagður fyrir fundarmenn með þeim dagsetningum á lokunartíma veiðihólfa, sem gerð hafði verið till. um til forsrh. Á þessari forsendu, — ég endurtek: á þessari forsendu féllst meiri hl. stjórnarmanna á fundi þessum á að mæla með samþykkt samningsgrundvallarins.

Lokunartími hólfanna er eitt af veigamestu atriðum þessa máls. En hvað kemur nú í ljós? Þegar hæstv. ríkisstj. leggur hinn fyrirhugaða samning fyrir hv. Alþ., stendur ekki steinn yfir steini varðandi lokunartíma veiðihólfanna, ekki steinn yfir steini. Öllu er umturnað frá því, sem útvegsmenn gerðu ráð fyrir. Lokunartíma veiðihólfanna er gerbreytt. Öll veiðihólfin eru nú með öðrum lokunartíma en Íslendingar töldu hagkvæmast, nema eitt veiðihólf, sem er með sama lokunartíma, og það er veiðihólfið úti fyrir kjördæmi hæstv. sjútvrh. Tilviljun eða ekki tilviljun. Og hvers vegna er þessi breyting orðin hér á? (Gripið fram í.) Ég sagði tilviljun eða ekki tilviljun. Auðvitað hefur hæstv. sjútvrh. ekki ráðið þessu, ég meinti það ekki. Það var tilviljun bara hjá Bretunum, auðvitað höfðu þeir ráðið því. Og hvers vegna er þessi breyting orðin hér á? Hér er um að ræða enn eitt dæmið um þjónkun hæstv. ríkisstj. við Breta. Þessar breytingar, sem hér eru gerðar, eru miðaðar við hagsmuni Breta. Þetta þýðir, að svæðaskiptingin í veiðihólf, sem var alltaf hugsuð Íslendingum til varnar gegn hættulegustu afleiðingum af því að hleypa Bretum inn í landhelgina, er nú orðin að heita einskis nýt. Bretum má vera nokkurn veginn sama, hvort þeir hafa svæðaskiptingu sem þeir mæla fyrir um, eða er hleypt inn í landhelgina lausum af allri svæðaskiptingu.

Þessi ósvinna, sem hér hefur skeð, keyrir um þverbak, þegar haft er í huga, hvenær þetta hefur átt sér stað. Þessi þjónkun hæstv, ríkisstj. við Breta á sér stað, eftir að hæstv. forsrh. kemur heim frá London, eftir að Alþb. lýsir andstöðu við samningsgrundvöllinn sem óaðgengilegum úrslitakostum og á meðan ríkisstj. þykist vera að leita hófanna hjá Bretum um að bæta hlut Íslendinga. M. ö. o., í staðinn fyrir, að ríkisstj. tækist að vinna hagsbætur Íslendingum til handa á þeim fresti, sem hún tók sér til afgreiðslu málsins, tókst henni að ganga enn eitt óheillasporið í þjónkun sinni við Breta. Hverju breytir þetta fyrir þá, sem lýstu samningsgrundvellinum í upphafi sem óaðgengilegum úrslitakostum? Hverju breytir það? Engu. Alls engu. Hæstv. sjútvrh. virðist hugsa sem svo: Ja, lengi getur vont versnað.

En víkjum þá að fleiri atriðum samningsins. Samkv. 2. tölul. samningsins er að sjálfsögðu tekið fram, að breskir togarar muni ekki stunda veiðar á tilgreindum tímabilum á friðunarsvæðunum fyrir Norðurvesturlandi, Suðurlandi og Norðausturlandi. Hins vegar eru engin ákvæði um það að finna í samningnum, að sama gildi um önnur friðunarsvæði, sem Íslendingar kynnu að telja nauðsynlegt að setja á samningstímabilinu. Hér er um að ræða einn af alvarlegustu ágöllum samningsins. Í raun og veru er það algerlega óviðunandi, að þessi samningur við Breta geti hindrað aðgerðir Íslendinga á samningstímabilinu til að gera þær ráðstafanir í friðunarmálunum, sem kunna að reynast óumflýjanlegar til verndar fiskstofnunum. Slíkar ráðstafanir verða ekki gerðar, nema þær nái til allra þjóða, en samkv. samningnum eru Bretar ekki skuldbundnir til að hlíta slíkum aðgerðum í fiskveiðilögsögu Íslands. Jafnvel rétti okkar til að vernda það, sem okkur er dýrmætast, sjálfa fiskstofnana, skal fórnað á altari Breta.

Í 6. tölul. samningsins eru ákvæði um framkvæmd hans. Þar er að finna eitt það alvarlegasta í þessu samkomulagi. Það er lögð sú kvöð á íslenskt varðskip sem stöðvar breskan landhelgisbrjót, að það skuli kveðja til það aðstoðarskip breskt, sem næst er, til að sannreyna málsatvik. Ýmsar spurningar rísa út af framkvæmd þessa ákvæðis. En það alvarlega við þetta er, að hér er skertur réttur fullvalda ríkis til að fara eitt með óskoraða löggæslu á sínu yfirráðasvæði.

Það héldu sumir, að okkur Íslendingum stoðaði ekki á sínum tíma að flytja æðsta dómsvaldið inn í landið með stofnun hæstaréttar, vegna þess að Bretar mundu ekki vilja hlíta dómsniðurstöðum í landhelgismálum, ef réttargæslan væri algerlega í höndum þjóðar, sem var að kasta nýlendufjötrunum, og án þátttöku herraþjóðar. En Bretum til verðugs hróss beittu þeir ekki Íslendinga slíkri rangsleitni og lítilsvirðingu. Þeir viðurkenndu dómsvald hins íslenska hæstaréttar og óhlutdrægni og réttsýni íslenskrar réttargæslu. Hins vegar eru Bretar kunnir fyrir að hafa leikið sínar eigin nýlenduþjóðir grátt í þessum efnum, hafa ekki talið þær hafa náð nægum þroska til að fara óskorað með dóms- og réttargæslu í landi sínu og talið sig, herraþjóðina, þurfa að hafa íhlutun í þeim efnum. Það er kaldhæðni örlaganna, að einmitt nú, þegar nýlenduveldi Breta er komið að fótum fram, þá skuli þeir vilja bjóða Íslendingum forsjá herraþjóðarinnar í þessum efnum. Nú treysta þeir ekki íslenskri löggæslu til að gera staðarákvörðun á landhelgisbrjóti, en það hafa þeir aldrei áður vogað sér að bera á borð.

En svo furðulegt sem þetta er, þá er hitt furðulegra að engu er líkara en formælendur þessa samnings telji þetta frekar Íslendingum til vinnings en Bretum. Hvernig á að skýra þetta fyrirbæri? Ég held, að það verði best með því að gefa hv. formanni utanrmn., Þórarni Þórarinssyni, sem snöggvast orðið. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðherrarnir hafa hreykt sér mjög af því, að Bretar telji samkomulagið óhagstætt fyrir sig. Þekkja þeir ekki þá grundvallarreglu enskra utanríkismála, að Bretar reyna jafnan að tefla þannig, að andstæðingurinn álíti sig vera að vinna, þegar hann er raunverulega að tapa. Ríkisstjórn Elísabetar leikur nú sömu listina við íslensku ríkisstj. og Viktoría lék við negrahöfðingjana í Afríku á öldinni sem leið. Bretar töldu negrahöfðingjunum trú um, að Viktoría væri þeim undirgefin, á sama tíma og stjórn hennar hátignar var að hneppa þá í nauðungarfjötra.“

Þetta voru orð hv. formanns utanrmn., Þórarins Þórarinssonar. Við þetta þarf engu að bæta. Að vísu eru þessi orð mælt á hinu háa Alþ. í umr. 2. mars 1961 um þáltill. til lausnar fiskveiðideilunnar þá við Breta. Það er huggun harmi gegn fyrir hv. formann utanrmn., að þótt þessi orð hans féllu þá dauð og ómerk og enginn hafi munað raunar eftir þeim síðan, hefur hann reynst hafa forsagnargáfu til að gefa trúverðuga lýsingu á því, sem nú er að gerast. Verður framferði hv. formanns utanrmn, og auðvitað hæstv. ráðh. nú naumast betur lýst en að jafna því við undirgefni negrahöfðingja í Afríku á öldinni sem leið gagnvart Bretum.

Ég hef hér vikið að atriðum, sem samningurinn kveður á um. En hvað er um þau efni, sem samningurinn fjallar ekki um? Hvað verður að loknu samningstímabilinu eftir tvö ár? Gera Bretar þá enn á ný herskipainnrás í íslenska landhelgi, ef þeim þykir þurfa við. Var þess krafist af hálfu Íslands, að Bretar létu framvegis af slíkum ofbeldisaðgerðum, hvað sem liði lagaskoðunum aðila varðandi efnisatriði deilunnar? Þýðir þögn samkomulagsins um þetta örlagaríka atriði, að Bretar hafi neitað að gefa tryggingu fyrir því, að ekki yrði aftur gripið til hernaðaraðgerða gegn Íslendingum vegna 50 mílna landhelginnar og siðar vegna 200 mílna landhelginnar, sem vonandi er ekki langt í land að tekin verði? Komu þessi mikilsverðu atriði til álita, þegar ákveðið var að gera það samkomulag, sem hér er til umræðu? Þessum spurningum er beint til hæstv. forsrh. Ég þykist vita, að hann heyrir orð mín. Þetta mikilvæga mál er ekki lagt með eðlilegum hætti fyrir hv. Alþ., fyrr en spurningum þessum er svarað.

Ég ræddi hér áðan um veiðihólfin. Ég vil víkja lítið eitt að einu þeirra, því, sem er úti fyrir Vestfjörðum, veiðihólfi A, en ég get verið stuttorður um þetta, því að hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, hefur þegar gert þessu atriði skil. En ég vil minna á, að Vestfirðingar hafa landfræðilega sérstöðu varðandi þetta mál. Þeir eru eini landshlutinn, sem ekki hefur stóra flóa og eyjar, þannig að þeim nýtast ekki reglur um grunnlínupunkta og grunnlínur eins og öðrum landshlutum, sem fá stór hafsvæði innan fiskveiðilögsögunnar vegna sinna flóa og eyja. Þessi sérstaða Vestfjarða var viðurkennd í samningunum við Breta árið 1961 um lausn fiskveiðideilunnar þá. Bretum voru þá ekki leyfðar neinar undanþágur til veiða innan landhelginnar út af Vestfjörðum. Nú er öldin önnur. Nú gengur sama yfir Vestfirði og aðra landshluta, þó að landfræðileg aðstaða Vestfjarða hafi að sjálfsögðu ekkert breyst. Ég verð að mótmæla þessu framferði gagnvart Vestfirðingum harðlega. Ég minni á, að Vestfirðir eru sá landshluti, sem er með einhæfustu atvinnuuppbygginguna og byggir hlutfallslega langmest allra á útgerð og fiskvinnslu. Ég minni á, að fiskútflutningur frá Vestfjörðum nálgast nú um 30% af heildarfiskútflutningi landsmanna, að undanskilinni loðnu.

Það fer því saman, að bæði er um að ræða hróplegt ranglæti gegn Vestfirðingum og þjóðhagsleg mistök að opna Vestfjarðamiðin fyrir Bretum. Það er svo bætt gráu ofan á svart að ákveða lokunartíma Vestfjarðahólfsins í september og október, sem er sennilega óhagkvæmasti tími ársins með tilliti til fiskigangna.

Af þeirri gagnrýni, sem ég hef hér borið fram, getur ekki annað leitt en að ég verði á móti þáltill. þeirri, sem hér er til umr. Ég mun greiða atkv. gegn fyrirhuguðu samkomulagi við Breta, vegna þess að það felur í sér enga tryggingu fyrir því, að dragi úr ársafla þeirra, svo að nokkru nemi. Það hindrar, að Íslendingar geti á samningstímabilinu gert ráðstafanir til aukinnar friðunar fiskstofnanna. Það felur í sér skerðingu á íslenskri lögsögu.

Herra forseti. Ég hef verið fylgjandi því, að leitað væri samkomulags í fiskveiðideilu okkar við Breta. Ég tel, að við eigum að kappkosta að leysa öll okkar deilumál við aðrar þjóðir með friðsamlegum hætti. Það hvorki sæmir okkur sem þjóð né höfum við til þess bolmagn að fara með ofbeldi gegn nokkurri erlendri þjóð. Hins vegar höfum við Íslendingar orðið nú enn á ný að þola hernaðar- og ofbeldisaðgerðir Breta í landhelgismálinu. Í þessu lífshagsmunamáli okkar, landhelgismálinu, verðum við á hverjum tíma að fara bæði að með gát og með festu. Þess vegna lagði ég áherslu á, eins og aðrir þm. Sjálfstfl. gerðu á sínum tíma, að einskis yrði látið ófreistað til að ná samkomulagi við Breta, áður en fiskveiðilögsagan yrði færð út í 50 mílur. Mér hefur alltaf fundist, að nokkuð skorti á, að núv. ríkisstj. færi að með fullri gát í landhelgismálinu, og þá fyrst og fremst að því leyti, að hún hafi ekki lagt nægilega áherslu á að ná samkomulagi við Breta, áður en landhelgin var færð út. Aftur á móti hef ég viljað gera mér vonir um, að ríkisstj. sýndi festu í málinu og mér virðist, að hún hafi viljað skapa það almenningsálit, að svo væri. Nú hefur það samt komið á daginn, að þeir, sem hafa haldið slíkt, hafa farið villu vegar. Það kemur nú í ljós, að ríkisstj. hefur hvorki sýnt af sér aðgát né festu í þessu mesta lífshagsmunamáli íslensku þjóðarinnar. Þegar hún hefur svo stefnt málum í mikinn vanda, fallast henni raunverulega hendur, og hún eygir enga aðra leið en að gefast upp fyrir Bretum. Skárri er það nú festan í Ég kalla þetta samkomulag, sem hér er boðið upp á, uppgjöf af hálfu íslendinga. Þetta er ósamboðið Íslendingum. Okkur rekur ekki nauðir til að gera þetta, og þetta er hættulegt fyrir framgang landhelgismálsins í þeim áföngum, sem eftir eru og á ég þá ekki síst við 200 mílna landhelgina, því að þetta sannar Bretum, að það borgi sig að beita Íslendinga bolabrögðum og ofbeldi.