22.10.1973
Sameinað þing: 5. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

343. mál, Seðlabanki Íslands

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hóf Seðlabanki Íslands um mitt sumar byggingarframkvæmdir við Arnarhól, þar sem ætlunin var að reisa mikla höll undir starfsemi bankans. Kostnaðaráætlun var mjög óljós. Gaf bankinn upp, að kostnaður yrði 200–300 millj. kr., en kunnugir telja, að þetta mannvirki muni varla kosta undir 500 millj., þegar því verði að fullu lokið. Strax var sýnt, að þessar byggingarframkvæmdir mættu mikilli mótspyrnu meðal almennings, og urðu um þær mikil blaðaskrif, umr. í fjölmiðlum og manna á meðal. Hámarki náði þessi andspyrna með fjölmennum útifundi á Arnarhóli. Þeir, sem vildu fyrir alla muni koma í veg fyrir þessa byggingu, beittu að öllum jafnaði tvenns konar rökum. Annars vegar töldu þeir fráleitt að reisa hús þetta við Arnarhól, á þessum fornhelga stað borgarinnar, og skelltu allri sök á borgarstjórn Reykjavíkur, er hafði samþ. staðarvalið fyrir sitt leyti. Hins vegar töldu menn af og frá að reisa þessu miklu bankahöll við þær aðstæður, sem nú ríktu í efnahagsmálum þjóðarinnar, þá hefði og nóg verið byggt af bankahýsum undanfarin ár og full ástæða væri til að spyrna við fótum. Var bankamálaráðherra átalinn fyrir að láta þetta mál afskiptalaust í stað þess að grípa í taumana. Upphófst nú hin mesta revía, þar sem leikurinn barst frá einni stofnun til annarrar og enginn þóttist bera ábyrgð á byggingu bankans við Arnarhól. Verður sú skop- og raunasaga ekki rakin hér, en niðurstaðan varð sú, að Seðlabankinn lét undan óánægju alls þorra almennings og tilkynnti borgarstjórn, að hann væri fyrir sitt leyti reiðubúinn að taka upp viðræður við hana um annað staðarval, og munu nú fara fram viðræður milli bankans og borgarstjórnar um þetta mál.

.Afstaða bankamálaráðh. kom mönnum mest á óvart, en er hún tilefni þessara fsp. Hann margítrekaði, bæði í blöðum og sjónvarpi, að hann hefði ekki vald til að stöðva byggingarframkvæmdir Seðlabankans, þær væru einvörðungu mál bankans og bankaráðs. Í bréfi ráðh. til borgarstjóra Reykjavíkur, dags. 18. sept. s. l., segir orðrétt:

„Ráðuneytið hefur ekki með að gera húsbyggingar Seðlabankans, til þess hefur ekki verið leitað um neinar heimildir í því sambandi, og rn. hefur ekki átt í neinum samningaviðræðum við Reykjavíkurborg um það mál:

En margir eru á allt annarri skoðun en ráðh. Á fundi borgarráðs Reykjavíkur hinn 11. sept. s. l. kom fram, að allir borgarráðsmenn að Sigurjóni Péturssyni, fulltrúa Alþb., undanskyldum tóku skýrt fram, að ráðh. hefði vald til að grípa í taumana. Í grg. sjálfstæðismanna segir m. a.:

„Hins vegar er öðrum stjórnvöldum í lófa lagið að stöðva framkvæmdir, ef þeir kysu slíkt,“ og vitna þeir um leið í ofangreinda 24. gr. laga um Seðlabankann. Fulltrúi Framsfl., Kristján Benediktsson, segir orðrétt: „Mín skoðun er sú, að ráðherra bankamála beri tvímælalaust að beita valdi sínu og grípa í taumana, áður en lengra er haldið.“ Og fulltrúi Alþfl., Björgvin Guðmundsson, segir orðrétt: „En enda þótt borgaryfirvöld Reykjavíkur hafi ekki vald til að stöðva byggingarframkvæmdir Seðlabankans við Arnarhól, hefur ríkisstj. að sjálfsögðu vald til þess, þar eð hún hefur æðsta vald í málefnum Seðlabankans.“

Ljóst er því, að það er höfuðnauðsyn að fá úr því skorið, hvert sé raunverulegt vald ráðherra bankamála í Seðlabankanum. Hér er um grundvallaratriði að ræða. Þetta snertir einnig Landsbanka Íslands, þar sem í 8. gr. laga hans, nr. 11 frá 1961, er einnig kveðið svo að orði, að „yfirstjórn bankans er í höndum ráðherra þess, sem fer með bankamál“ o. s. frv. Spurningin varðar þetta: Geta bankar ráðist í mörg hundruð milljón króna fjárfestingar, án þess að æðsta framkvæmdavaldið geti ráðið þar nokkru um? Eru bankar ríki í ríkinu, óháðir Alþingi og framkvæmdavaldinu um fjármál og fjárfestingar? Ef sú skoðun bankamrh. er rétt, að hann hafi ekki vald til þess að blanda sér í það, hvort Seðlabanki eða Landsbanki fjárfesti 500 millj. kr. í byggingu, er bersýnilegt, að löggjafarvaldið getur ekki látið slíkt afskiptalaust. Þá rekur nauður til endurskoðunar á löggjöf þessara banka og e. t. v. fleiri banka, svo að ekki verði um það villst, að bankakerfið og þróun þess verði felld inn í þá heildarstjórn, sem verður að hafa í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Af þessu tilefni hef ég borið fram til hæstv. forsrh. þrjár fsp. varðandi Seðlabankann, og þær hljóða svo. (Forseti: Hv. þm. hefur lokið ræðu sinni, og þær eru prentaðar í þskj.) Ég lýk þá máli mínu.