13.11.1973
Sameinað þing: 19. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

74. mál, fiskiðnaðarnámskeið sjávarútvegsráðuneytisins

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég verð að lýsa undrun minni yfir því, að hér inn á Alþ. skuli hæstv. ráðh. koma með bréf frá einum af embættismönnum ríkisins, þar sem hann er hálfgert að kallsa okkur þm. fyrir að leggja fram fsp. og vogar sér að tala um, að þær séu villandi. Ég spyr hv. þm.: Hvað er villandi í fsp. þeim, sem eru á þskj. 80? Svona framkoma embættismanna er þess fyllilega virði, að í rass þeirra verði rekið, og það mun verða gert.

Það kemur fram hjá þessum embættismanni, að vegna þess að skólinn í Reykjavík er ekki nægur, þá ætlar hann að halda áfram að halda námskeið til þess að mennta fólk í þessari grundvallarframleiðslu- og atvinnugrein okkar Íslendinga, þvert ofan í vilja Alþingis, sem ákvað stofnun þessa skóla og svo annarra skóla víðs vegar um land til þess að koma á móti þessari þörf. Ég held, að eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., — og ég þakka honum fyrir að taka þannig á málinu, — verði að sjá um, að lögum um Fiskvinnsluskólann verði framfylgt og nú þegar verði gengið að því að stofna skóla á þeim stöðum, sem Alþ. ákvað að stofna þessa skóla á, og þannig munum við á nokkrum árum fá þann fjölda vel menntaðra manna og kvenna til að gegna þessum störfum, sem Alþ. taldi, að þjóðin þyrfti á að halda.

Ég vil leyfa mér að þakka ráðh. fyrir svar hans við þessari fsp. og þó sérstaklega fyrir hans persónulegu skoðanir, sem komu fram, og jafnframt ákvarðanir, sem hann hefur tekið í sambandi við þetta mál. Ég er fyllilega sammála honum um, að það er ekki hægt að snúa til baka nú með þetta námskeið, sem yfir stendur. Hins vegar vil ég mjög eindregið skora á hann að fylgjast vel með því, að réttur þessa skóla og annarra væntanlegra skóla á þessu sviði verði ekki fyrir borð borinn, og ég fæ ekki séð annað en hann hafi fullan hug á því að hafa í huga þá nemendur, sem við skólann stunda nám nú. Hann hefur ákveðið, að þeir skuli fá sömu námslán og námsstyrki og nemendur í sambærilegum skólum. Ég geri ráð fyrir því, að hann eigi þá við t. d. sjómannaskólana, Stýrimannaskólann og Vélskólann, og ég veit, að mér er óhætt að þakka honum fyrir þá ákvörðun fyrir hönd þeirra nemenda, sem í þessum skóla stunda nám.

Ég vil að lokum, um leið og ég þakka honum svör hans og þær ákvarðanir, sem hann hefur tekið vegna skólans, harma og fordæma slík svör og framkomu, eins og hefur komið fram frá embættismanni íslenska embættismannakerfisins.