14.11.1973
Neðri deild: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

85. mál, vísindaleg verndun fiskimiða landgrunnsins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Alþfl. hefur get nokkrar samþykktir þess efnis, að hann sé fylgjandi því, að Íslendingar stefni að 200 mílna auðlindalögsögu, og felst að sjálfsögðu í því, að flokkurinn fylgir þeirri skilgreiningu á landgrunninu, sem nemur ekki minna en 200 mílum.

Eins og hæstv. sjútvrh. hefur þegar nefnt, stendur ekki í l. um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, hvað Íslendingar telja, að landgrunnið sé eða hversu langt það nái. Hins vegar kom fram í grg. með frv. á sínum tíma sú skýring, að þá væri algengast að miða við 200 mílur, en höfundar frv. og ríkisstj., sem flutti það, bættu við í grg., að það mál þyrfti að athuga frekar.

Nú er vissulega tímabært að athuga þetta mál frekar, því að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er það til meðferðar í hafsbotnsnefnd og á væntanlegri Hafréttarráðstefnu, og eru uppi um það margar mismunandi skoðanir. Ég get nefnt það sem dæmi, að Mexíkó, Kólumbía og Venezúela hafa gert till. um, að landgrunnið skuli ná út að neðri mörkum landgrunnshallans, þar sem botn hafdjúpsins byrjar. Það kann að reynast erfitt í raun að draga slíka línu, en ég hygg, að menn skilji, hver hugmyndin er, og mundi þetta verða allmerkileg landgrunnsskýring, ef 2. d. ætti að framfylgja henni hér við Ísland, vegna þess, hvernig grunni er háttað. Svo að ég nefni aðrar hugmyndir, þá hafa Sovétríkin flutt formlega till. um það, að landgrunn skuli miðast við 500 metra dýpi, en þó aldrei minna en 100 mílur frá strönd. Þessari till. hefur ekki verið vel tekið í hafbotnsnefnd Sameinuðu þjóðanna, því að hún þykir ganga styttra en aðrar till., en mér virðist fljótt á litið, að það sé alls ekki víst, að hún mundi verða mjög óhagstæð fyrir íslenskar aðstæður, og væri fróðlegt að fá það athugað, enda þótt litlar líkur séu á því, að þessi till. verði samþ.

Enn eina till. get ég nefnt, sem fram kom í hafsbotnsnefndinni. Hún er frá Argentínu. Argentínumenn leggja til, að strandríki hafi yfirráð yfir landgrunni, sem nái 200 mílur út, eins og efnahagslögsagan, sem þeir vilja samþykkja, en þar fyrir utan öllum þeim hafsbotni, sem er á 200 metra dýpi eða minna. Úti fyrir Argentínu er eitthvert stærsta landgrunn jarðarinnar, og ég hygg, að þessi regla mundi þar ná mörg hundruð mílur út á stórum svæðum út af sunnanverðri Suður-Ameríku.

Fleiri slíkar till. hafa komið fram og mætti telja upp, en ítarlegar umr., sem hafa orðið um málið í hafbotnsnefndinni, hafa þó þegar leitt í ljós, að langflestar þjóðir virðast telja, að það sé miklum erfiðleikum háð að miða skilgreiningu landgrunns við dýpi og því hyggilegra, raunhæfara og auðveldara í framkvæmd að miða landgrunnsyfirráð hvers strandríkis við ákveðna fjarlægð frá landi eða frá grunnlínum. Í því sambandi hafa langflest ríki, sem látið hafa í ljós skoðanir um þetta mál, nefnt 200 mílur. Mér þykir líklegt, að afgreiðsla á þessu máli muni fylgja afgreiðslu á hugmyndum manna um auðlindalögsögu og að niðurstaðan verði sú, sem lögð er til í þessu frv. ríkisstj., að landgrunn verði talið ná 204 mílur út, hvernig sem botninum háttar og hvað sem dýpi líður. Þó er rétt að geta þess, að á síðustu fundum hafsbotnsráðstefnunnar kom fram vaxandi hreyfing frá ýmsum þjóðum um það, að þetta væri þeim ekki nóg, og tilgreindu þær ástæður að þetta væri minna en gildandi lög, þ. e. a. s. sú regla, sem hæstv. ráðh. lýsti, að landgrunnið nái út að 200 metra dýpi og svo langt út fyrir sem hægt er að hagnýta botninn. Þetta þýðir með núverandi tækni: eins langt út og menn kæra sig um að fara, af því að það er vitað, að stórfyrirtæki í tveimur eða þremur ríkjum eru nú þegar tilbúin að senda út skip til þess að grafa málma upp af hafsbotni á mörg þúsund metra dýpi. Í trausti þessarar reglu, sem gilt hefur, hafa ýmis ríki selt eða veitt fyrirtækjum rétt til þess að leita málma og olíu á meira en 200 metra dýpi og lengra út en 200 mílur. Þessi ríki segja, að það sé ekki hægt að taka af þeim þennan rétt með einu pennastriki og þau muni þá verða fyrir miklum skaðabótakröfum frá þeim, sem þau hafa veitt leyfi til olíuborunar eða málmleitar utan 200 mílna. Í hópi þessara ríkja eru t. d. Kanada, Ástralía, Nýja-Sjáland og ýmis fleiri, og má vel vera, að þan komi einhverju fram á Hafréttarráðstefnunni. Þetta mun þó ekki hafa neina þýðingu fyrir okkur, því að ég tel víst, að verði að einhverju leyti farið út fyrir 200 mílur með yfirráð yfir hafsbotninum, þá verði yfirráð yfir hafinu ekki látin fylgja, heldur verði yfirráðin yfir sjálfu hafinu og lifandi endurnýjanlegum auðlindum þess takmarkað við 200 mílur.

Ég vil benda á einn annmarka við það, að við lögleiðum 200 mílna skilgreiningu á landgrunninu. Ég minni menn á, að þetta eru lög, sem fyrirskipa, að allar veiðar skuli háðar íslenskum reglum og eftirliti. Það er hægt að setja slíkar reglur með reglugerð. Annmarkinn við þetta er sá, að 200 mílur frá Íslandi ná langt upp á landgrunn Grænlands og inn á land. Finnst okkur, að við getum sett íslensk lög, sem þýða, að íslensk ríkisstj. geti með reglugerð skipað fiskveiðum töluvert upp á landgrunn Grænlands? Hæstv. ráðh. minntist á þetta og er rétt hjá honum, að í þessum efnum, þar sem minna en 400 mílur eru á milli landa, verður að fara um þessi mál eftir samkomulagi. Ég óttast því ekki, að það muni verða árekstrar. En spurningin er, hvort við teljum það kurteislegt og viðeigandi að setja slík lög.

Hið sama á við gagnvart Færeyingum. Við mundum með þessari breytingu á 1. gefa íslenskri ríkisstj. rétt til þess að gefa út reglugerðir um fiskveiðar miklu lengur heldur en hálfa leið til Færeyja. Þó hefur engum manni dottið í hug, að við teygðum yfirráð okkar svo langt.

Ég varpa fram til umhugsunar fyrir viðkomandi n., hvort við teljum rétt að hafa einhverja fyrirvara í l. að þessu leyti, hvort það verður talið nægjanlegt, að þeir fyrirvarar komi fram í skýringum, þannig að til þeirra mætti vísa, þegar um þessi mál er rætt við Grænlendinga og Færeyinga.

Í sambandi við þetta mál vil ég einnig benda á, að eyjar eru mikið vandamál á vettvangi Hafréttarráðstefnunnar, sem hefst á næsta ári. Spurningin er sú, ef ákveðin verður 200 mílna auðlindalögsaga, hvort óbyggðir klettar eða smáeyjar, þar sem engir íbúar eru, sem lifa á auðlindum eyjarinnar, fá 200 mílna belti umhverfis sig. Ef þetta er gert, fer verulegur hluti af heimshöfunum inn fyrir landamæri einstakra ríkja, með því að alls konar sker og hólmar fá þessi réttindi. Í hafsbotnsnefndinni hafa Afríkuríki fyrir tilstuðlan Túnis tekið upp þá stefnu, að þetta nái ekki nokkurri átt og réttindi 200 mílna lögsögunnar eigi ekki að ná til smáeyja, hólma og skerja, m. ö o. ekki til eyja, þar sem ekki er einhver hópur íbúa, sem lifir af gæðum lands og sjávar. Ástæðan til þess, að Túnismenn tóku þetta upp, er sú, að Ítalir eiga nokkrar smáeyjar alveg upp undir strönd Túnis.

Grikkir risu til harðvítugrar mótspyrnu gegn þessari hugmynd og sögðu: Eyja eða sker er land, svo framarlega sem það stendur upp úr sjó á háflæði. Landið nýtur fullveldisréttinda þess ríkis, sem það heyrir undir, og það er ekki hægt að skilja fullveldið í sundur. Það er ekki hægt að segja, að sumar eyjar eigi að njóta þessara hlunninda, en aðrar ekki. Hvar á þá að draga línuna? Á þá að flokka ríki eftir stærð, og ef það verður gert í þessu efni, í hvaða efni verður það þá gert næst? Er algerlega óljóst, hvernig þetta mikla deilumál muni enda.

Ég vil taka fram, að það dettur engum manni í hug að láta svona hugleiðingar ná til sjálfstæðra eyríkja, svo að hér er um að ræða miklu minni eyjar og fámennari en okkar land. Við þurfum því ekki að hafa áhyggjur. Ég vil minna á, að við eigum Kolbeinsey, sem er grunnlínupunktur í íslensku landhelginni, og hún kann að hafa einhver áhrif á það, hvaða afstöðu við tökum í málinu, þegar þar að kemur.

Ég nefni þetta mál hér vegna þess, að verði niðurstaðan sú, að smáeyjar, sem ekki hafa íbúa, sem lifa af gæðum þeirra, fái 200 mílna lögsögu, þá rekast á 200 mílur Jan Mayen og 200 mílum Íslendinga, einmitt á því svæði, þar sem loðnugöngur eru hvað mestar, þegar loðnuvertíð er að byrja út af Norðausturlandi. Sjálfstfl. hefur skrifað mikið um 200 mílna málið og barist fyrir því í seinni tíð, og Morgunblaðið hefur í því sambandi birt kort. Á því korti slær Morgunblaðið því föstu, að Jan Mayen muni fá 200 mílna efnahagslögsögu. Ég gerði tilraun til þess að spyrja norska fulltrúa um þetta á síðasta fundi hafsbotnsnefndar, en þeir virtust lítið hafa um þetta hugsað og fannst í fyrstu, að það væri mjög vafasamt, að þessi klettur með einu eldfjalli og einni veðurathuganastöð, þar sem engir menn hafa fasta varanlega búsetu, geti fengið 200 mílna svæði til einkanota hvað botn og hafsauðæfi snertir. Þetta atriði þarf því líka að athuga, því að fái eyjan Jan Mayen 200 mílur, verður þar annar árekstur, sem útheimtir samninga af okkar hálfu við annað ríki.

Herra forseti. Ég taldi rétt, að þessi sjónarmið kæmu fram á þessu stigi málsins, því að ég tel að hér sé um viðkvæm mál að ræða. Ég tel að við höfum slíka stöðu í landhelgismálinu og höfum barist þannig fyrir okkar eigin rétti og málstað, að okkur beri að sýna öðrum þjóðum fyllsta tillit og fyllsta réttlæti. Þess vegna vefst það dálítið fyrir mér að lögleiða að ríkisstj. Íslands geti með því að gefa út reglugerð teygt íslensk yfirráð upp á landgrunn Grænlands, töluvert meira en hálfa leið til Færeyja og e. t. v. meira en hálfa leið til Jan Mayen. Sannleikurinn er sá, að raunveruleg 200 mílna fiskveiðilögsaga verður ekki nema á tveim geirum út frá landinu. Yfirgnæfandi meiri hluti 200 mílna hringsins umhverfis landið snýr að öðrum löndum, þar sem minna en 400 mílur eru á milli.

Ég ítreka það, að Alþfl. styður grundvallarhugmyndir þessa máls og mun leggja sitt fram til þess, að það fái greiða afgreiðslu. En ég vænti þess, að þau atriði sem ég hef bent á, verði íhuguð, áður en málið heldur áfram í gegnum deildina.