14.11.1973
Neðri deild: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

85. mál, vísindaleg verndun fiskimiða landgrunnsins

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Fyrir 4 vikum fluttu sjálfstæðismenn á Alþ. till. í SÞ. um útfærslu fiskveiðilandhelgi Íslands í 200 sjómílur. Till. hefur ekki komið enn til umr. á fundi Sþ. Í þessari till. segir, að Alþ. álykti, að fiskveiðilandhelgi Íslands verði stækkuð þannig, að hún verði 200 sjómílur frá grunnlínu allt í kringum landið og komi stækkunin til framkvæmda eigi síðar en 31. des. 1974. Enn fremur segir, að Alþ. fell ríkisstj. að leggja fyrir þingið frv. um þær breytingar á l., sem nauðsynlegar eru vegna útfærslu í 200 sjómílur.

Að sjálfsögðu verður gerð ítarleg grein fyrir þessari till., þegar hún kemur til umr. í Sþ., en ég vil taka fram nú í sambandi við þetta stjfrv., að til þess liggja ákaflega sterk rök, ekki aðeins að Íslendingar marki þá stefnu að taka sér 200 sjómílna fiskveiðilandhelgi, heldur einnig að gera það mjög skjótlega. Rökin eru fyrst og fremst þau, að það er lífsnauðsyn íslensku þjóðarinnar að vernda þau fiskimið, sem tilvera hennar byggist á, og að utan 50 mílna, milli 50 og 200 mílna, eru mörg dýrmæt, mikilvæg fiskimið, sem hafa verið og eru í verulegri hættu fyrir ofveiði og rányrkju. Þess vegna teljum við ábyrgðarhluta að bíða mjög lengi enn með frekari útfærslu. Við teljum einnig, að kominn sé all traustur stjórnmálalegur og lagalegur grundvöllur undir slíka útfærslu á næsta ári. Má m. a. nefna þá viðurkenndu þjóðréttarreglu, að strandríki eigi allar auðlindir í hafsbotni á landgrunni sínu, og full rök liggja til þess, að hið sama skuli gilda um verðmæti í sjónum yfir hafsbotninum. Má henda á samþykkt Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 18. des. 1972, að strandríki skuli eiga rétt til náttúruauðæfa einnig í hafinu yfir landgrunninu. Þá er einnig vitneskja um það, að meiri hluti þjóða heims muni á Hafréttarráðstefnunni styðja 200 mílna auðlinda- og efnahagslögsögu sem innifelur í sér fiskveiðilögsögu.

Það er vafalaust nauðsynlegt, eins og getið er í till., að gera vissar lagabreytingar, til þess að útfærsla í 200 mílur verði að veruleika. Það stjfrv., sem hér liggur nú fyrir, stefnir í þessa átt.

Við þetta stjfrv., sem að sjálfsögðu ber að athuga mjög vandlega í n., vil ég aðeins gera örfáar aths. á þessu stigi. Í fyrsta lagi eru til lög frá 1969 um yfirráðarétt íslenska ríkisins yfir landgrunninu umhverfis Ísland. Í þeim l. segir, að íslenska ríkið eigi fullan og óskoraðan yfirráðarétt yfir landgrunni Íslands að því er tekur til rannsókna á auðæfum landgrunnsins og vinnslu og nýtingar þeirra. Og í 3. gr. l. segir: „Íslenska landgrunnið telst í merkingu þessara laga ná svo langt út frá ströndum landsins sem unnt reynist að nýta auðæfi þess.“

Skýring þessara laga frá 1969 um yfirráðarétt Íslenska ríkisins yfir landgrunninu er því sú að miða við hagnýtingarmörkin. Nú má vera, að í sambandi við fiskveiðilögsöguna sé rétt að lögfesta það, eins og gert er ráð fyrir í stjfrv., að miða við 200 sjómílur. En mér finnst brýn nauðsyn að athuga þetta hvort tveggja í samhengi.

Í annan stað er það atriði, sem hv. 8. landsk. þm. nefndi, þegar skemmra er milli landa en 400 sjómílur, hversu þá skuli með fara. Í þáltill. sjálfstæðismanna er þetta orðað svo, að þar sem skemmra er milli Íslands og annarra landa en 400 sjómílur, skal í samræmi við alþjóðlegar venjur miðað við miðlínu milli landa. Það er auðvitað atriði, sem þarf mjög að hafa í huga, að við göngum ekki lengra en eðlilegt er, t. d. ekki inn á strendur Grænlands eða mjög nærri Færeyjum, það eru að sjálfsögðu fyrst og fremst Færeyjar og Grænland, sem höfð eru í huga í þessu tilliti.

Hv. 8. landsk. þm. nefndi Jan Mayen. Það þarf sérstakrar athugunar við, hvort að sjálfstæð 200 mílna landhelgi, þegar þar að kemur, eigi að fylgja þeirri eyju eða eyjum. Þegar hv. þm, vitnaði í kort, sem birt hafði verið í sambandi við till, sjálfstæðismanna, þar sem gert væri ráð fyrir miðlínu milli Íslands og Jan Mayen, þá er það kort gert af Sjómælingum Íslands til þess að sýna það, hvernig hugsanlegar miðlínur yrðu milli þessara landa. En ég vil taka það alveg skírt fram, að vitanlega er engu slegið föstu um það í till., hvort gagnvart Jan Mayen ætti að vera um slíka miðlínu að ræða. í till. okkar er aðeins gert ráð fyrir, að þetta yrði í samræmi við alþjóðlegar venjur, og má vel vera, að til þurfi að koma sérstakir samningar við þau lönd, sem hlut eiga að máli.

Það er einnig athugandi í sambandi við þetta frv., hvort ákvæði ætti að setja inn í það samsvarandi því, sem er í þáltill okkar um miðlinur, þar sem skemmra er milli Íslands og annarra landa en 400 sjómílur.

Ég skal ekki ræða á þessu stigi að öðru leyti um 200 mílna fiskveiðilögsögu. Til þess gefst tækifæri, þegar till. okkar sjálfstæðismanna kemur til umr. í Sþ. Ég vildi aðeins beina þessum aths. til þeirrar n., sem fær málið til meðferðar.