15.11.1973
Sameinað þing: 20. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

12. mál, útfærsla fiskveiðilandhelgi í 200 sjómílur

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þm. eru án efa sammála um það, að eitt af stærstu málum Alþ. sé á hverjum tíma stækkun landhelginnar, þegar það er til meðferðar hér í þingsölum. Frsm. hefur gert þessu máli allýtarleg skil, og mun ég því ekki verða margorður í þessu sambandi. En öllum mun okkur vera ljóst, að þróun mála á alþjóðavettvangi í sambandi við hagnýtingu hafsvæðis yfir landgrunni strandríkja er öll á þann veg, að mjög er eðlilegt, að Íslendingar stigi það skref, sem lagt er til í þeirri till., sem hér er til umr.

Í þessu sambandi er eðlilegt, að við í stórum dráttum gerum okkur grein fyrir þeirri þróun, sem orðið hefur í fiskveiðimálum okkar á undanförnum árum og kannske áratugum.

Lengst af hefur það verið svo, að Íslendingar hafa byggt sjávarútveg sinn á bátaflota, misjafnlega stórum, þó að þeir síðan laust eftir aldamót hafi einnig alltaf haft togaraútgerð með. Sú breyting er nú að verða á hjá okkur, að óðfluga er stefnt að stærri skipum, stærri bátum, þar sem þeir eiga við, og stærri togurum og nýrri gerð togara. Þetta þýðir auðvitað það, að Íslendingar verða að taka sér stærra hafsvæði til eigin afnota, ef fiskiðnaður og útgerð á að geta þróast hér á landi, eins og stefnir annars staðar og við verðum að telja eðlilegt að stefnt sé einnig að hjá okkur. Þó að margir sjái fram á það, að sú þróun, sem nú er að verða, svo ör sem hún er, kunni í bili að skapa vandamál. — á ég þar helst við vandamál fiskiðnaðarins í landi, ef bátaflotinn hverfur mjög snögglega af sjónarsviðinu og aðeins verður um útgerð stærri skipa að ræða, þá hygg ég, að við stöndum, e. t. v. áður en við gerum okkur grein fyrir, frammi fyrir því vandamáli, að fiskiðnaðurinn hafi ekki eins stöðugt og jafnt hráefni og hann hefur haft, meðan bátaflotinn hefur verið aðaluppistaðan í hráefnisöflun. Ég segi þetta vegna þess, að okkur hlýtur að vera það ljóst, að hin nýju og dýru skip, sem við erum að flytja inn í landið og stefnum að því að gera í auknum mæli, verða auðvitað á hverjum tíma að selja afla sinn þar, sem þau fá fyrir hann bæst verð. Jafnvel þó að stjórnvöld og eigendur skipa, útgerðarmenn, vildu hafa á þessu nokkurn annan hátt, þá ber að líta á það einnig, að það eru áhafnir skipanna, sem eiga verulegan hluta af aflaverðmætinu á hverjum tíma, og auðvitað hljóta þeir aðilar að krefjast þess að fá eins mikið út úr sinni vinnu og þeir sjá fram á, að hægt er að fá, hvort sem um er að ræða að selja afla skipanna innanlands eða erlendis. Ég er því nokkuð uggandi yfir því, að svo geti farið, að Íslendingar lendi þarna e. t. v. í nokkrum vanda, tímabundið, meðan skiptin ganga yfir, og að fiskiðnaðurinn fái ekki til vinnslu hráefni á þeim tíma, sem hann kannske helst þyrfti á að halda, yfir haustmánuðina og fyrri part vetrar, það hráefni, sem hann þyrfti á að halda til að halda uppi nægilegri atvinnu í hinum ýmsu sjávarplássum víðs vegar um landið. Það mun koma í ljós þegar á næstu vertíð, hvort vandamál af þessu tagi verða fyrir hendi eða ekki.

Margir bátaeigendur eru mjög uggandi um að svo geti fari, að útgerð báta, sem fram að þessu hafa verið taldir mjög góðir, heimanróðrarbáta eða báta, sem leggja úr landi að nóttu eða morgni til og koma aftur inn daginn eftir, muni ekki geta átt sér stað í vetur, vegna þess að ekki fáist sjómenn á flotann. Ég skal viðurkenna, að þetta sjónarmið hefur áður verið fyrir hendi, menn hafa verið uggandi í þessu sambandi. En fram að þessu hefur þetta sem betur fer ekki farið eins illa og menn óttuðust. En til kemur aftur nú þegar á næstu vetrarvertíð, að til landsins eru komin mun fleiri ný skip en áður hafa verið, og verkar það sjálfsagt á aðstöðu bátanna.

Þetta er auðvitað þróun, sem ekki þýðir annað en horfast í augu við. Þetta er sá tími, sem koma skal, að sjómenn af eðlilegum ástæðum og útgerðarmenn einnig vilja fá stærri, fullkomnari og betri atvinnutæki og fylgja þeir þar aðeins eftir þróun, sem annars staðar er að gerast.

Þegar við stöndum frammi fyrir því, að skipastóll landsmanna er að taka þessum breytingum, þá auðvitað hljótum við að gera okkur jafnhliða grein fyrir því, að hann þarf mun stærra svigrúm en bátaflotinn hefur áður þurft á að halda. Kemur þá auðvitað þar fyrst til. að Íslendingar verða að taka sér enn stærri fiskveiðilögsögu en við nú höfum ákveðið, þó að við vissulega höfum stigið þar stórt skref. Liggja til þess margar ástæður, og rakti hv. 1. flm. þessarar till. þær áðan. En það kemur þar til viðbótar einnig, að um það er vitað, að aðrar þjóðir eiga mjög stórvirk atvinnutæki, sem þær fram að þessu hafa ekki beitt hér við Íslandsstrendur. Á ég þar við hinn stóra flota t. d. Sovétríkjanna og Japans og fleiri þjóða, sem slík skip eiga. Þær hafa fram að þessu til þess að gera lítið stundað fiskveiðar hér við land. En verði sú breyting á, að þau fiskimið, sem þær áður hafa sótt, gefi ekki þann afla, sem þau áður hafa gefið, þá er auðvitað sú hætta fyrir hendi, að þessi floti sæki hingað á Íslandsmið. Þar er um það stórvirk tæki að ræða, að 50 mílurnar duga hvergi nærri til að hefta veiðar þeirra. Þeir geta með sama árangri stundað veiðar hér í kringum landið, jafnt utan 50 mílna sem innan, og það á vissum stöðum á svæðum langt fyrir utan 50 mílurnar, kannske allt að 200 mílna mörkunum. Það ber því allt að sama brunni með það, að Íslendingar hljóta að verða, strax og talinn er nokkur hugsanlegur möguleiki á, að stíga það skref, sem lagt er til í þessari till.

Það hefur einnig orðið sú þróun í fiskveiðum hér á landi á undanförnum árum og fer vaxandi, að farið er að veiða nýjar fisktegundir, sem áður hafa ekki verið veiddar hér. Þannig vill til, að þær fisktegundir, sem hér hefur verið getið um, bæði loðna, kolmunni og fleiri fisktegundir, haldi sig í mjög ríkum mæli á vissum tímum utan við 50 mílurnar og þá á beltinu milli 50 og 200 mílnanna. Einnig þetta kallar á það, að Íslendingar hljóti að stiga það skref, sem lagt er til í þeirri till., sem til umr. er. Spurningin er þá, hvaða mat hv. alþm. hafa á því, hvenær beri að stíga skrefið og lögfesta fiskveiðilögsöguna í 200 mílur? Hv. frms., sem mælti fyrir till., og síðasti ræðumaður röktu þetta mál nokkuð ítarlega hér. En okkur er öllum ljóst, að sú gleðilega staðreynd liggur fyrir, að hver sem niðurstaðan kann að verða, þá horfir allt í dag í þá átt, að víðtækt samkomulag muni vera fram undan um, að 200 mílurnar verði það mark, sem samkomulag næst um, að strandríki hafi rétt til að helga sér til fiskveiða. Þegar á það er litið, eins og hér var bent á af ræðumanni á undan mér, að fram undan er mikilvæg og sennilega og vonandi stefnumarkandi ráðstefna, þá verður að teljast mjög eðlilegt og sjálfsagt, að Alþ. notfæri sér alla þá möguleika til hins ítrasta, eða þau sjónarmið, sem þar kunna að koma fram og stigi það skref, sem hér er um að ræða. Það er einnig annað, sem er mjög mikilvægt í sambandi við útfærslu landhelginnar í 200 sjómílur, en það er, að Íslendingar verða á hverjum tíma einir og sjálfir að ráða þeim friðunaraðgerðum, sem þeir telja nauðsynlegar á hverjum tíma gagnvart hverri fisktegund fyrir sig. Nú er það svo, t. d. með síldveiðar, að ef við ekki ráðum hafsvæðinu kringum landið nema að 50 mílunum, þá getur vel svo farið, að síldarstofninum, þegar hann kann að koma upp á ný, verði gereytt á skömmum tíma og við fáum þar ekkert við ráðið, því að í sambandi við síldveiðar vita allir, að við erum þar mjög smáir miðað við bæði t. d. Sovétríkin og Norðmenn, þannig að veiðar þeirra skera úr um það, hvort síldarstofninum ef hann nær sér upp aftur, verður eytt á skömmum tíma eða ekki. Það má sennilega mjög það sama segja um bæði loðnu og kolmunna, að ef aðrar þjóðir, stórar fiskveiðiþjóðir, eins og Sovétríkin, Japan og Norðmenn, fá að ganga lausbeislaðar á miðunum kringum landið, þá getur vel svo farið, að einnig þessum fisktegundum verði eytt gersamlega hér á Íslandsmiðum.

Allt þetta ber að sjálfsögðu að hafa í huga, og Íslendingar hljóta að miða allar framtíðaraðgerðir sínar í landhelgismálinu og fiskveiðimálum okkar í samræmi við þetta. Hljótum við því að stiga það skref, sem hér er lagt til. eigi síðar en sagt er í till., en þau tímamörk eru sett fram í trausti þess, sem við trúum öll í dag, að það muni koma í ljós þegar á miðju þessu ári, að viðtækt samkomulag náist um þennan rétt til handa strandríkjum almennt.