24.10.1973
Efri deild: 4. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

27. mál, skipti á dánarbúum og félagsbúum

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv. um breyt. á 1. um skipti á dánarbúum og félagsbúum, nr. 3 frá 1878, sem hér er lagt fyrir hv. Ed., var lagt fram á síðustu þingdögum Alþ. á s. l. vori, en kom þá ekki til umræðu. Það þótti rétt, þó að svo stæði á, að leggja frv. þá fyrir þingið til þess að gefa mönnum kost á að kynna sér efni þess, þótt engum dytti þá í hug, að það gæti fengið efnislega meðferð, vegna þess, hversu seint það var á ferð.

Eins og greint er frá í aths. við frv., var Þór Vilhjálmssyni prófessor falið á miðju ári 1972 að vinna að endurskoðun á löggjöfinni um búskipti. Að höfuðstofni til er þessi löggjöf nú um 100 ára gömul, en efni hennar var þá algerlega sótt í hina nýju dönsku löggjöf þeirra ára, en eins og kunnugt er, þá fylgdi umfangsmikil endurnýjun á hinni almennu löggjöf í kjölfar dönsku stjórnarskrárinnar frá 1849 og þ. á m. endurskoðun á réttarfarslöggjöf og skiptalöggjöf og af þeirri dönsku löggjöf, sem þá var sett og að mörgu leyti var mjög vönduð, höfðum við Íslendingar góð not, og það á ekki hvað síst við um skiptalöggjöfina, sem var mjög vandað verk. Það er hins vegar löngu ljóst, að sú löggjöf þarfnast endurskoðunar, sem engan þarf að undra eftir svo langan tíma.

Að því hefur verið horfið eftir fyrstu athugun á þessu verkefni og í samráði við ráðuneytið að taka fyrst fyrir það efni, sem þetta frv. hefur að geyma, en það eru lagareglurnar um greiðsluröð krafna við skipti. Eru að þessu leyti viðhöfð hér sömu vinnubrögð og í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, en þar hefur við endurskoðun samsvarandi löggjafar á síðasta áratug fyrst verið unnið að breyt. á lagareglunum um skuldaröð. Til þess liggja augljósar hagkvæmniástæður. Þetta verkefni er nokkuð afmarkað, en hins vegar mjög brýnt, þar sem þeim reglum tengjast mikilsverð félagsleg sjónarmið, sem æskilegt er að komið verði fram fljótlega með breytingum á löggjöfinni á þessu takmarkaða sviði.

Heildarverkefnið, reglurnar um búskipti almennt, er hins vegar bæði mjög umfangsmikið og vandasamt, og mun óhjákvæmilega taka lengri tíma að ljúka því, eins og reynslan frá hinum Norðurlöndunum líka sýnir. Ætlunin er, að næsta verkefni, sem fyrir verður tekið, verði nýtt frv. að gjaldþrotaskiptalögum, en síðan hin almennu skiptalög, um skipti á dánarbúum og skipti á félagsbúum.

Ég vék hér að áðan að hinum mikilsverðu félagslegu sjónarmiðum, sem einkum hafa ráðið því, að hér eins og á öðrum Norðurlöndum hefur þótt rétt að taka þennan þátt efnisins sérstaklega til meðferðar. Breytingarnar eru fyrst og fremst í því fólgnar að fella niður röð forgangskrafna, ýmsar kröfur opinberra aðila, sem rík tilhneiging var til að tryggja sem best, þegar núgildandi löggjöf var sett á sínum tíma, eins og t. d. skattakröfur og aðrar gjaldakröfur opinberra aðila. Hin breyttu félagslegu viðhorf hafa valdið því, að nú þykir enn nauðsynlegra að tryggja hagsmuni þeirra aðila, sem síður mega verða við því að verða fyrir skakkaföllum vegna óhagstæðra skuldaraða, svo sem launþegar vegna launakrafna, svo sem kröfuhafar að ýmsum félagslegum framlögum, svo sem lífeyri og meðlögum. Það raskar ekki út af fyrir sig þörf fyrir þessar breytingar, þótt til hafi komið aðrar félagslegar ráðstafanir í löggjöf síðari ára, fyrst og fremst með almannatryggingunum og nú síðast hin nýja löggjöf um tryggingar launakrafna við gjaldþrot atvinnurekstrar, sem komið hefur verið á m. a. vegna áskorunar Norðurlandaráðs um stofnun kaupábyrgðasjóðs. Hinar nýju reglur þessa lagafrv. eiga að sjálfsögðu að haldast í hendur við samsvarandi þróun í margs konar félagslegri löggjöf.

Ég mun ekki, herra forseti, fara við þessa umr. að rekja eða lesa upp einstakar gr. þessa lagafrv., með því að frv. fylgja ítarlegar aths., og leyfi ég mér að vísa til þeirra.

Ég óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2, umr. og til hv. allshn.