20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

369. mál, breytingar á skattalögum

Fyrirspyrjandi (Karl St. Guðnason) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. hans svör, þó að ég verði að segja, að mér þyki lítið koma út úr þeim. Hins vegar vil ég óska eftir því, að verði eitthvað gert í þessum málum, þá verði það gert myndarlega, og ég hygg, að það sé rétt af ríkisstj. að gefa tóninn í þessum efnum. Við vitum það í gegnum árin, að það hefur verið ríkisvaldið, sem hefur haft meiri og minni áhrif á samninga, og hygg ég, að það hafi verið með hvað mestu móti nú í síðustu samningum, þar sem vissulega var gefinn tónninn.

Það er nú svo komið, að samningar ganga ekki neitt, og þeir ganga sjálfsagt ekki neitt, fyrr en ríkisstj. hefur gefið út, hvað hún getur gert í sambandi við þær kröfur, sem verkalýðshreyfingin hefur sett fram. Því legg ég áherslu á það, að ríkisstj. flýti sér í þessum efnum og geri þessa hluti þá myndarlega. Ég vil benda á í sambandi við undanþágur, að það, sem Alþýðusambandið hefur samþykkt í þeim efnum, er til komið vegna þess gífurlega ranglætis, sem viðgengst í þjóðfélaginu við álagningu skatta. Það má segja, að allir séu að forminu til jafnréttháir gagnvart skattalögunum, en við vitum það a. m. k, sem störfum fyrir verkalýðssamtökin, að svo er ekki í reynd.