20.11.1973
Sameinað þing: 22. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

6. mál, öryggismál Íslands

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Till. þessi var flutt hér á síðasta þingi, eins og fram hefur komið í þeim umr., sem þegar hafa átt sér stað nú í dag. Þá var gerð grein fyrir afstöðu sjálfstæðismanna í ýtarlegri ræðu hv. 1. þm. Reykv., Jóhanns Hafsteins, og get ég tekið undir þau orð, sem hann flutti þá. Aðstæður hafa ekki breyst svo mjög, frá því að till. var þá til umr. Við höfum þó þá skoðun, sjálfstæðismenn, að öryggismál landsins séu þess eðlis, að þau þurfi sífellt að vera í endurskoðun og endurmati og fylgjast verði með aðstæðum hverju sinni, ástandi heimsmála og horfum í þeim efnum. Á slíkum grundvelli verði síðan að taka ákvörðun um, hvaða ráðstafanir Íslendingar þurfi að gera til þess að tryggja öryggi landsins og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Við viljum leggja áherslu á það, að við Íslendingar þurfum. eins og allar fullvalda sjálfstæðar þjóðir, að tryggja öryggi lands vors og sjálfsákvörðunarrétt okkar.

Ég hygg, að afstaða okkar í þessum málum, — og þ. á m. er vikið að till. þeirri, sem hér er til umr., — komi fram í ályktun, er gerð var á flokksráðsfundi Sjálfstfl. um síðustu helgi. Þess vegna vil ég leyfa mér að greina frá þeirri ályktun, að því er öryggismálin snertir. Með leyfi forseta hljóðar ályktunin á þessa leið:

„Það er brýnasta mál íslensku þjóðarinnar að tryggja áfram öryggi landsins og sjálfstæði þjóðarinnar. Þar til samkomulag næst milli ríkja austurs og vesturs um afvopnun og viðunandi öryggi í Evrópu, er það nauðsynlegt vegna öryggis Íslands og hagsmuna bandalagsþjóða okkar, einkum Norðurlanda, að áfram verði um sinn varnir í landinu, þar sem ástand í alþjóðamálum er svo ótryggt sem raun ber vitni. Vegna hinna miklu og vaxandi umsvifa herskipaflota Sovétríkjanna á hafsvæðunum umhverfis Íslands er yfirvofandi hætta á, að Ísland lenti. innan sovésks áhrifasvæðis, ef Íslendingar drægju sig út úr varnarkeðju vestrænna ríkja. Ísland hefur vegna legu sinnar svo mikla hernaðarþýðingu, að landið hlyti að verða í verulegi hættu, ef spenna ykist í þessum heimshluta og hér væru engar varnir. Því fullnægir það ekki hagsmunum Íslendinga nú, að í landinu sé aðeins eftirlitsstöð án nokkurs varnarliðs. Varnarþörf landsins og tilhögun varnanna verður að meta með hliðsjón af ástandi heimsmála á hverjum tíma. Kanna ber til hlítar, hvort hagkvæmt sé að auka þátttöku Íslendinga í þeim störfum, sem unnin eru hér á landi vegna öryggis Íslands og annarra Atlantshafsbandalagsríkja.“

Eins og fram kemur í þessari ályktun, er það skoðun Sjálfstfl., að nú eins og stendur sé ekki aðeins nauðsyn á eftirliti frá Íslandi í þágu Atlantshafsbandalagsins, heldur og á vörnum. Með þessu er ekki sagt, að hér eigi að vera varnarlið um ófyrirsjáanlega framtíð, heldur hlýtur það að skoðast í ljósi ástandsins á hverjum tíma, hvort þörf er fyrir slíkt varnarlið eða ekki. Við byggjum vonir á því, að viðræður austurs og vesturs um gagnkvæma og samhliða afvopnun beri árangur. Að vísu eru þær viðræður aðeins um slíkan samdrátt í her í Mið-Evrópu op viðræðurnar um samdráttinn og afvopnun að hluta taka ekki á þessu stigi til norður- eða suðurhluta Evrópu. Í því er fólgin ákveðin hætta, ef þær viðræður bera árangur að því er Mið-Evrópu snertir, að enn frekari áhersla verði lögð á herbúnað í suðri eða í norðri. Við væntum, að sú verði ekki þróunin, heldur haldi hins vegar jákvæð þróun áfram og eftir samhliða samdrátt herafla í Mið-Evrópu takist viðræður um áframhaldandi samdrátt herafla, bæði í norðri og suðri. Ef slíkar viðræður bera árangur, þá teljum við vissulega tíma til kominn að endurmeta stöðuna og kanna, hvort hér sé þörf á varnarliði.

Ég er ekki sáttur við þá skilgreiningu hv. 8. landsk. þm., Benedikts Gröndal, að menn skiptist í þrjá flokka um afstöðuna til varnarmála, eins og hann þar greindi frá. A. m. k. felli ég mig ekki við þá skilgreiningu að öllu leyti, án þess að ég endurtaki orð hans þar um. Ég held, að fyrst og fremst greini okkur á um það, bæði hér í þingsölum og meðal þjóðarinnar, hvort unnt sé að tryggja öryggi Íslands með hlutleysi eða hvort við verðum að taka afstöðu og vera þátttakendur í varnarbandalaginu. Þetta er höfuðmunur á afstöðu Íslendinga og þm., að því er ég tel. Síðan má til sanns vegar færa, að þeir, sem vilja taka þátt í varnarsamtökum og telja, að hlutleysi komi Íslandi ekki að liði til að tryggja öryggi landsins, hafi mismunandi skoðanir á því, í hverju þátttaka í varnarhandalagi skuli vera fólgin.

Hlutleysi var einu sinni sú stefna, sem Íslendingar sameinuðust um til að tryggja öryggi sitt. Þegar Ísland varð fullvalda 1918, var ævarandi hlutleysi lýst yfir, eins og kunnugt er. En reynsla okkar síðan og lega landsins hefur sýnt fram á, að hlutleysið kemur okkur ekki að liði. Við erum ekki spurð um það, hvort við fáum í friði að lifa hér einir á þessu landi, ef til átaka kemur.

Táknræn um þennan ágreining eru e. t. v. orðin, sem birtust í leiðara Þjóðviljans 30. okt. s. l. og ég vil leyfa mér að vitna til, herra forseti, en þau eru svo hljóðandi:

„Það sér hvert mannsbarn, að þá fyrst yrði ráðist á eitthvert land í stríði, að það væri hernaðarlega mikilvægt, og það verður eitt land, um leið og það hefur her og herstöðvar.“

Þetta er tilvitnunin. Ég er alveg sammála Þjóðviljanum, að ráðist verður á land í stríði, sem er hernaðarlega mikilvægt, en ósammála Þjóðviljanum um það, að Ísland verði þá fyrst hernaðarlega mikilvægt, þegar hér dvelst her eða herstöðvar eru í landinu. Ísland er hernaðarlega mikilvægt, hvort sem okkur líkar betur eða verr, alveg burt séð frá því, hvort hér er her eða herstöðvar. Lega landsins veldur því.

Þegar rætt er um tilhögun varna á Íslandi, er auðvitað sjálfsagt að íhuga, með hvaða hætti við Íslendingar getum tekið þátt í því starfi, sem hér fer fram í þágu varnanna, í þágu varnarsamtaka Atlantshafsbandalagsins. Spurningunni um það hlýtur að verða svarað með tilliti til okkar eigin hagsmuna, bæði okkar öryggishagsmuna og annarra hagsmuna.

Ef við lítum á það, hve mikinn þátt við sjálfir viljum taka í þessum störfum, koma margar spurningar fram í hugann, sem sjálfsagt er að kanna og rannsaka til að finna bestu svörin.

Í fyrsta lagi t. d., hvort við Íslendingar viljum láta í té þann mannafla, sem nauðsynlegur er í þessu skyni, og draga þá þann mannafla frá öðrum störfum í þjóðfélaginu. Þetta kann e. t. v. að fara eftir atvikum, hvernig háttað er atvinnulífi landsmanna, og í spennuástandi, eins og nú er, kann að vera erfiðleikum bundið. Ég tel þó alveg sjálfsagt að hafa um það ákveðna áætlun, hvaða störf það eru, sem Íslendingar geta innt af hendi og vilja inna af hendi í þágu varna landsins. Ég er líka þeirrar skoðunar, að þetta sé til þess fallið, að Íslendingar geri sér grein fyrir því, að til þess að vernda sjálfstæði sitt og öryggi þurfa þeir að gæta þess og leggja eitthvað í sölurnar fyrir það, eins og aðrar þjóðir gera.

Í öðru lagi er það spurning, hvort og að hve miklu leyti við Íslendingar viljum þjálfa mannafla úr okkar eigin hópi til starfa, sem eru sérstaks eðlis og ekki er þörf fyrir í þjóðlífinu, atvinnulífinu almennt. Við vonumst til þess, að sum þessi störf séu ekki ævarandi og þess vegna séu e. t. v. aðeins tímabundin not fyrir þau. Ef svo skyldi fara, væri æskilegt, að þeir menn, sem veldust til slíkrar þjálfunar, ættu möguleika á því að notfæra sér þá þjálfun í almennum störfum í þágu landsins, eftir að þörfum fyrir hin sérstöku störf er lokið. Það er ekki víst, að svo geti verið um öll þessi störf, og að því ber að hyggja.

Í þriðja lagi er svo á það að líta, að allir þeir, sem teljast til varnarliðs á Íslandi í dag, að svo miklu leyti sem mér er kunnugt um, en það getur vel verið, að ég hafi ekki nægilega kunnáttu í þessum efnum, sem ég vonast þó til, — allir þeir, sem teljast til varnarliðsins, eru meira eða minna þjálfaðir sem hermenn og í því skyni að geta tekið þátt í fyrstu vörnum hér á landi, ef þörf krefur, sem við vonumst til, að komi aldrei til.

Þá er ég einmitt kominn að því, sem ég tel mjög mikilvægt atriði og mér finnst till. þeirra þm. Alþfl. e. t. v. líta fram hjá, og það er sú aðvörun, sem felst í veru varnarliðsins á Íslandi gagnvart þeim þjóðum, sem ásælast vilja landið, mundu vilja reyna að hafa áhrif á það eða beita okkur Íslendinga þrýstingi í einu eða öðru formi til þess að beina ákvörðunum okkar á annan veg en við mundum vilja, ef við þyrftum ekki að búa við slíkan þrýsting.

Í þeirri till., sem 34. þing Alþfl. gerði 22. okt. 1972 og er upphaf þessarar þáltill., er komist svo að orði, með leyfi forseta:

„Öryggi Íslands hefur verið og mun verða best tryggt með aðild að varnarsamtökum, en vopnað varnarlið hefur verið hér aðallega til eftirlits og aðvörunar.“

Ég er mjög sammála þessum orðum í þessari till. Með því að Íslendingar taki að sér eftirlitsstörfin, skulum við segja, að eftirlitsþörf sé fullnægt, en þá er eftir að fullnægja hlutverki aðvörunar, sem varnarliðið óneitanlega gegnir og nauðsynlegt er, meðan viðsjár eru eins miklar í heiminum og raun ber vitni. Hv. 8. landsk. þm. nefndi það sem dæmi, að auðvitað þyrftum við Íslendingar að gæta öryggis okkar, t. d. þyrftum við sjálfir að vera þess umkomnir að koma í veg fyrir það, að Arabar sendi hingað flugvél eða flugvélar með landgöngusveitir og tækju landið. Þessu er ég alveg sammála. Og í ljósi síðustu atburða, átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs, getum við líka vel hugsað okkur, að þau átök hefðu leitt til víðtækari spennu og áframhaldandi hernaðaraðgerða en raun varð á, sem betur fer. Það er vel hugsanlegt í framhaldi af bréfi Bresnevs um það, að Sovétríkin ætluðu sér að senda herlið til landanna fyrir botni Miðjarðarhafs, hefði því áformi verið haldið til streitu og komist til framkvæmda, að Sovétríkin hefðu talið sér ávinning í því, ef ekkert varnarlið hefði verið hér til staðar, að tryggja sér fótfestu á norðurslóðum í leiðinni. Þetta er sagt sem hugleiðing undir ákveðnum kringumstæðum, sem ég hygg, að hafi ekki verið mjög fjarlægar um nokkurra daga bil fyrir örfáum dögum eða vikum.

Ég tók eftir því, að hv. 8. landsk, þm., Benedikt Gröndal, taldi sjálfsagt, að sú þróun, sem að væri stefnt með tillöguflutningi þeirra Alþfl.-manna, mundi taka langan tíma, a. m. k. rúman tíma, og sömuleiðis minntist hann á, að nauðsynlegt væri, að íslensk yfirvöld gætu í framtíðinni leitað aðstoðar í varnar- og öryggismálum sínum hjá Dönum og Norðmönnum eins og stórveldunum. Ég er sammála því, að það er ekkert sjálfsagðara en að við höfum tengsl við önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins en Bandaríkin í sambandi við öryggismál okkar og eflum sérstaklega nána samvinnu í þeim efnum við Norðurlönd. Og ég vil eindregið beina því til hæstv. utanrrh., að sérstakar viðræður fari fram einmitt við Norðurlöndin og fulltrúa þeirra, sem þátt taka í Atlantshafsbandalaginu, um nánara samstarf Norðurlanda innan Atlantshafsbandalagsins til þess að tryggja öryggi hvert annars. Við Íslendingar ætlumst til mikils af öðrum þjóðum, þegar við teljum hagsmuni okkar í húfi. Þessi tilætlunarsemi til aðgerða og áhrifa Norðurlanda er sérstaklega mikil af okkar hálfu, og því er ekki óeðlilegt, að við tökum einnig tillit til þeirra, þegar þeirra hagsmunir eru í veði.

Ég vil svo aðeins, herra forseti, víkja nokkrum orðum að ræðu hæstv. utanrrh. Hann gat réttilega um það, að 25. des. n. k. verði liðinn sá 6 mánaða frestur, sem Atlantshafsbandalagið hefur og raunar aðilar að varnarsamningnum, Ísland og Bandaríkin, til þess að kanna, hvort rétt sé að endurnýja samninginn og þá í hvaða formi. A. m. k. er möguleiki eftir þann tíma fyrir hvorn aðilann sem er að segja varnarsamningnum upp. Ég vil skilja orð hæstv. utanrrh. þannig, að hann hafi aðeins átt við þetta, þegar hann sagði, ég hygg orðrétt, að „25. des. n. k. verður hægt að segja til um, hvort til uppsagnar kemur eða ekki“. Það er búið að lofa okkur alþm., að þessi ákvörðun verði ákvörðun Alþ. og alþm., en ekki tekin án þess, að málið sé fyrst rætt hér í þingi. Þá gat hann nokkuð um þær skýrslur, sem liggja fyrir hjá utanrmn. og bann hefur greint þar frá. Ég verð að segja það eins og er, að þessar skýrslur eru mjög fátæklegar að flestu leyti, þær sem ég hef séð. Það getur verið, að ég hafi ekki séð þær allar. Það er helst sú skýrsla, sem sænski hermálasérfræðingurinn lét í té og ég hygg vera opinbera, sem nokkuð er á að byggja. Ég á von á því, að viðræðurnar í síðustu viku hafi leitt í ljós frekari upplýsingar, sem unnt er að byggja á, og fagna því, að utanrmn. fær skýrslu um þær viðræður.

Ég verð að leggja áherslu á það, að nauðsynlegt er að ætla bæði utanrmn. og Alþ. nægan tíma til þess að fjalla um þessi mál, svo örlagarík sem þau kunna að verða. Og ég tel nauðsynlegt, að málið sé tekið fyrir í utanrmn. hið allra fyrsta. Eðlilegt er og sjálfsagt, að þessari till. verði vísað til utanrmn., og að því leyti vil ég taka undir orð hv. 8. landsk. þm., Benedikts Gröndals, að ég tel nauðsynlegt, að íslensk stjórnvöld hafi frumkvæði sjálf að mismunandi áætlunargerð um, hvernig haga skuli vörnum landsins, tryggja öryggi þess, miðað við mismunandi aðstæður. Ég tel óviðunandi, að við séum sjálf óvirk í því helsta viðfangsefni sjálfstæðra þjóða að tryggja öryggi landsins og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Við þurfum að eiga sjálf frumkvæði í þessum efnum og á hverjum tíma meta stöðu okkar eftir ástandi heimsmála.

Eins og stendur er það skoðun Sjálfstfl., að það væri mikið ábyrgðarleysi, ef hér væru ekki varnir í landinu. Við teljum eftirlitsstörf ein ekki fullnægjandi. En vonandi verður þróun heimsmála þannig, að gagnkvæmur skilningur vaxi og tortryggni eyðist á tryggum grundvelli, þannig að engin þjóð geti hneppt aðrar þjóðir í fjötra.