21.11.1973
Neðri deild: 26. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

59. mál, félagsmálaskóli launþegasamtakanna

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. og ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. 2. landsk. þm. og hv. 4. þm. Austf., er gamall kunningi okkar hér í Nd. Alþ. En það má segja, að allt frá árinu 1960 hafi það verið flutt öðru hverju í lítið breyttri mynd, en á því ári minnist ég þess, að það var flutt fyrst í minni þingmannstíð af hv. þm. Hannibal Valdimarssyni, 3. þm. Vestf., sem þá var forseti Alþýðusambands Íslands. Frv. var svo flutt með nokkrum hléum allt fram að 1970, og síðustu árin var ég meðflm. að frv. með þeim virðulega þm., sem hafði flutt það áður fyrr.

Á þinginu 1971–1972 flutti ég þetta frv., með nokkrum breytingum þó, og voru breytingarnar helstar þær, að í stjórnina, sem að skólanum átti að standa, og í tölu aðila að skólanum voru tekin önnur launþegasamtök í landinu hin helstu, önnur en Alþýðusamband Íslands, og á ég þá að sjálfsögðu við svo sem kemur fram í frv. sjálfu, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.

Með hliðsjón af því, sem ég hef þegar sagt, að þetta frv. sé gamall kunningi okkar hér í d., sé ég ekki ástæðu til að fylgja því ítarlega úr hlaði, enda hefur það margoft verið gert. Hins vegar bendi ég á það, sem segir í grg., að tilgangurinn er auðvitað hinn sami og var frá byrjun, allt frá því að hv. 3. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, flutti þetta frv., að skapa starfandi og verðandi forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar, áhugamönnum um störf hennar og hverjum félaga hennar, sem njóta vill, möguleika til haldgóðrar fræðslu í þeim greinum, sem tengdastar eru starfi alþýðusamtakanna. Ég held, eins og áður kom fram í sambandi við þetta hið sama frv., að það sé skylda þjóðfélagsins við verkalýðsstéttina að veita henni tækifæri til þessarar fræðslu, sem henni er nauðsynleg og þjóðfélaginu líka, til þess að bægt sé fyrir hana að rækja sitt félagslega hlutverk, um leið og samtökin eru efld og þroskuð.

Ég hef áður minnst á það hér á hv. Alþ. í sambandi við annað mál, sem hér var þá til umr., en það var Háskóli Íslands og hans starf, að í sjálfu sér hefur Háskóli Íslands algerlega brugðist okkar þjóð í því að koma til hennar. Þeir, sem þar hafa stjórnað, hafa alltaf talið, að þjóðin ætti að koma til þess skóla, en við, sem þekkjum nokkuð til starfsemi verkalýðssamtaka í okkar nágrannalöndum, bæði austan hafs og vestan, vitum, að æðstu menntastofnanir þjóða hafa lagt mikið af mörkum til að uppfræða þá menn, sem vissulega bera mikla ábyrgð í þjóðfélaginu og þjóðfélagsstörfum öllum, og á ég þar að sjálfsögðu við þá, sem takast á hendur að vera í forsvari í hinum almennu verkalýðsfélögum. Þetta hefur verið gert í æðstu menntastofnunum okkar nágrannaþjóða, en hér hefur þetta algerlega brugðist hvað viðvíkur Háskóla Íslands.

Vera má, að slíkur skóli, þótt ekki verði í öðru formi en lagt er til í þessu frv., megi verða til þess, að starf þeirra manna, sem þarna eiga að njóta kennslu, geti orðið eftir á þjóðinni til frekara gagns en kannske talið er, að sé oft nú á tímum, og ef það gæti orðið, þá veit ég, að vel er að verið að samþykkt þessa frv.

Ég tel ekki, herra forseti, ástæðu til þess að hafa fleiri orð um frv. Eins og ég tók fram áðan, hefur það verið margrætt hér áður, og margir hafa haft góð orð um að koma slíkum skóla á stofn, þótt ekki hafi orðið enn. Ég vil leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og menntmn.