22.11.1973
Efri deild: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

89. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið af Verðlagsráði sjávarútvegsins og flutt samkv. ósk þess. Í því felast nokkrar breytingar, sem eru byggðar á 12 ára reynslu ráðsins í störfum og eiga að vera til hagræðingar.

Helstu breytingarnar eru þær, að lagt er til, að síldardeildir ráðsins verði lagðar niður í því formi sem nú er, en í staðinn komi tvær deildir. Önnur er síldarsöltunardeild, sem annist um alla verðlagningu á síld til söltunar, hvort sem síldin veiðist við Suður-, Vestur-, Norður- eða Austurland eða á fjarlægum miðum og er landað hérlendis. En undanfarið hefur það verið svo í framkvæmd, að báðar deildir verðlagsráðsins hafa verið kallaðar til verðlagningar, þegar um hefur verið að ræða síld frá fjarlægum miðum. Þetta hefur þótt nokkuð þungt í vöfum, og hefur því verið horfið að því ráði að færa þetta í þá átt, sem gert er ráð fyrir í frv. Í öðru lagi er bræðsludeild, sem á að annast alla verðlagningu á þeim fiski, sem fer til bræðslu, eða til mjöl- og lýsisvinnslu, og að verðlagning sé ákveðin í einni og sömu deildinni. Áður var hér aðeins um síld að ræða í þessu sambandi, en síðan lög um verðlagsráð voru sett á, hafa ýmsar fleiri fisktegundir komið til, svo sem spærlingur, kolmunni, makríll og loðna, svo að nokkuð sé nefnt.

Frá því að lög um verðlagsráð voru sett, hafa þessar veiðar hafist, og hefur því þótt þurfa að breyta ákvæðunum, vegna þess að ekki er talað um aðrar fisktegundir en síld í sambandi við verðlagningu í gildandi l. Þessar breytingar eru því, eins og ég sagði áðan, byggðar á þeirri reynslu, sem ráðið hefur fengið í störfum á undanförnum árum.

Það má gera ráð fyrir, að einhver sparnaður verði af þeim breytingum, sem frv. gerir ráð fyrir.

Einni breytingu enn er gert ráð fyrir í frv., og það er, að verðlagning á síld til frystingar fari fram í fiskdeildinni en ekki síldardeildinni, sem leiðir af því að fulltrúar frystiiðnaðarins eiga ekki aðild að síldarsöltunar- eða bræðsludeildinni.

Sjútvn. d. hefur athugað þetta frv. og mælir einróma með samþykkt þess óbreytts.