22.11.1973
Neðri deild: 28. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir og flutt er af tveimur stjórnarþm., er auðvitað ekkert annað en beint og óbeint vantraust á hæstv. forsrh., hvað svo sem 1. flm. till. er að reyna að að draga í land í framsöguræðu sinni fyrir þessari till. Það er sagt í till., að skipa skuli n. samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka framkvæmd landhelgisgæslu frá 15. okt. s. 1., en í 39. gr. stjórnarskrárinnar segir, að hvor þd. geti skipað nefndir innandeildarþm. til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða. Þd. getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.

Ég veit ekki til, að stjórnarþm. hafi flutt till. um að skipa n. samkv. 39. gr., stjórnarskrárinnar fyrr en nú. Hins vegar hafa sumir stjórnarandstæðingar gert nokkuð að því á undanförnum árum að flytja till. um kosningu n. til þess að rannsaka tiltekin atriði, sem þeir hafa gert að umræðuefni hér í þingi áður eða í blöðum og allar eru á þann veg að gera tortryggilegar aðgerðir einstakra ráðh. í viðkomandi málum. Þannig minnist ég þess, að 1961 fluttu tveir þm. Alþb. till. um skipun rannsóknarnefndar til þess að rannsaka viðskipti fjmrn. við hf. Ásfjall og tiltekinn einstakling. 1963 var flutt sams konar till. til rannsóknar á verðbréfa- og víxlakaupum banka og annarra lánastofnana, einnig flutt af þm. Alþb. Þegar hér var komið máli, þurftu þm. Framsfl. að láta einnig til sín heyra, og ekki ómerkari maður en formaður þingflokksins flutti till. um rannsókn á ásökunum um trúnaðarbrot utanrmn., og nokkrir þm. Alþb. fluttu till. um n. til að rannsaka ýmis atriði herstöðvamálsins, og þar var meðal flm. hv. síðasti ræðumaður. Tveir þm. Alþb., annar nú hæstv. ráðh., fluttu till. um rannsóknarnefnd vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu í Reykjavík, fannst það mjög tortryggileg ráðstöfun. Sami maður flutti ásamt formanni þingflokks Framsfl., — nú eru þeir loksins komnir saman, en þá er ég kominn til ársins 1969, — þeir fluttu till. um rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar. Enn fremur var löngu áður flutt till. um að rannsaka fjárfestingu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna erlendis. Þá var einnig flutt till. um rannsókn á aðdraganda verðstöðvunar út af blaðafregnum. Og svo flutti núv. hæstv. fjmrh. ásamt tveimur flokksbræðrum sínum till. um rannsókn á verðhækkunum. — Það væri rannsóknarefni núna, fyndist mér.

En ég er ekki svo ósanngjarn að fara fram á það, að formaður þingflokks Framsfl., þó að hann hafi verið tillöguglaður maður, meðan hann var í stjórnarandstöðu, sé að flytja hér till. um rannsókn á hendur ráðh. sínum eða ráðh. samstarfsflokka sinna í ríkisstj. Ég vil því segja, að frá sjónarmiði þeirra þm., sem ekki standa að ríkisstj., þá verð ég að láta í ljós, að mér finnst þessi vinnubrögð ákaflega undarleg, vægast sagt. Og þá kem ég að því: Hafa ekki stjórnarsinnar í raun og veru annan aðgang að ráðh., ef koma upp tiltekin mál, þar sem þeir hafa grun um, að eitthvað sé óhreint í pokahorninu? Hafa þeir ekki alveg sérstaklega góðan aðgang að ráðh. og þeirri ríkisstj., sem þeir styðja, til þess að leita að því sanna í þessum málum? Mig langar til þess að spyrja hv. flm. þessarar till. að því, hvort þeir hafi, áður en þeir flytja þessa till., reynt að fá upplýsingar um þessi efni hjá hæstv. dómsmrh., og ef svo er, hvort hann hafi neitað að gefa þeim upplýsingar og sagt þeim, að þeir fengju ekkert að vita. Þá getur maður skilið, að þeim hafi hitnað í hamsi og skrifað þessa till. og flutt hana. Væntanlega talar hæstv. dómsmrh. í þessum umr. og að þá koma vonandi einhverjar upplýsingar fram um það.

Hv. fyrri flm. þessarar till. sagði, að till. væri ekki beint að neinum ákveðnum aðila eða aðilum, og dró þá í raun og veru úr frá því, sem till. sjálf segir til um. Auðvitað eru hér mjög ákveðnar ásakanir uppi, ásakanir frá skipstjórnarmönnum um það, að Landhelgisgæslan hafi ekki sinnt sínum skyldum, og ef það kemur í ljós, að þeir hafa farið með rétt mál, þá liggur það fyrir, að Landhelgisgæslan hefur ekki sinnt sínum skyldum. Og þá kemur að því, að einhver hlýtur að vera sekur. Eru það skipherrar varðskipanna, sem eru sekir? Eða eru það einhverjir skrifstofumenn á skrifstofu Landhelgisgæslunnar eða forstjóri Landhelgisgæslunnar, sem hefur gefið fyrirskipun um að hafa mjög lélega gæslu, a. m. k. á þessum tíma? Ef svo er, hefur þá hæstv. dómsmrh. ekki gefið þessum mönnum áminningu? Hann er yfirmaður þessara mála. Ef það er ekki, telur hann þá, að þessir starfsmenn, þessir undirmenn sínir, hafi farið eftir skipunum? Hafa skipanirnar komið ofan frá?

Hv. 5. þm. Vesturl. var sérstaklega hógvær og prúður í sínum málflutningi. Hann tók undir orð 10. þm. Reykv., að þessi till. væri engan veginn nógu víðtæk. Ég tek alveg undir þau orð hjá þessum þm. báðum. Auðvitað á þessi rannsókn að ná til gæslu landhelgisgæslunnar umhverfis landið, en ekki á einhverjum tilteknum miðum, þó að athyglin hafi aðallega beinst þessa dagana að Vestfjarðamiðum. Sömuleiðis tek ég undir það, að auðvitað á slík rannsóknarnefnd, ef kosin verður og þetta mál nær fram að ganga, að vera kjörin eftir þingstyrk flokkanna, og jafnvel ganga lengra, þannig að sjónarmið allra þingflokka fái að koma fram, og gæti ég vel fallist á slíka breytingu. — Hins vegar fannst mér á hv. 5. þm. Vesturl., að hann væri óvenjulega bljúgur í málflutningi núna. Hann var afskaplega sætur og „penn“ við hæstv. forsrh. Ég ætla nú ekki að taka undir hamingjuóskir til ráðh. í sambandi við togara, það hefur 5. þm. Vesturl. svo rækilega gert. En ég vil alveg sérstaklega óska hæstv. forsrh. til hamingju, hvað honum hefur vel tekist að aga hv. 5. þm. Vesturl. og það er út af fyrir sig töluvert mikið afrek, sem verður að hafa í huga.

Það liggur fyrir í þessu máli, eins og hv. flm. þessarar till. vék réttilega að, að 22. okt. báðum við, hann og ég, um orðið utan dagskrár og gerðum að umræðuefni þær ásakanir, sem þá voru bornar á Landhelgisgæsluna. Þá skýrði hæstv. dómsmrh. frá því, að það hefði verið allan þennan tíma eitt stórt varðskip við gæslu við Vestfirði og síðustu dagana á undan annað minna. „Og eftir daginn í dag,“ sagði hann, „verða á þessum slóðum 2 stór varðskip til eftirlits.“ Og hann bætti svo við: „Það stendur auðvitað, sem ég hef sagt, að landhelgisgæslan verður með eðlilegum hætti og hefur verið með eðlilegum hætti. Það hefur verið reynt að stugga togurum út fyrir. Það má vera, að þeir hafi misjafnlega hlýtt fyrirmælum, en ég hygg þó, að í flestum tilfellum hafi þeir híft upp, þegar þeir sáu varðskip eða þegar varðskip skipaði þeim að gera það. En það er mjög mikilsvert um svona kvartanir, að þær séu fyllilega rökstuddar. Og ég vil mælast til þess við hv. þm., að þeir kynni sér þetta betur og safni gögnum um þetta, svo að sé hægt að ganga úr skugga um, hvað rétt sé í þessu efni.“

Og hann bætir síðan við: „Ég hef auðvitað enga ástæðu til að vefengja orð þessara skipstjóra. En hitt veit ég, að við höfum áður fengið fregnir frá skipstjórnarmönnum, m. a. gegnum útvarp, en þegar þeir hafa verið teknir fyrir sakadóm og átt að gera nánari grein fyrir þessu, þá hefur reynslan a. m. k. stundum verið sú, að þeir hafa farið eftir sögusögnum annarra í þessu efni, en ekki sjálfir séð þá hluti, sem þeir voru að segja frá.“

Hæstv. dómsmrh. beitti sér svo fyrir því, að það voru teknar skýrslur af þó nokkuð mörgum skipstjórum á þessu svæði, og vafalaust kemur hann til með að skýra frá því, sem þar kom fram. En ég get ekki látið hjá líða að skýra frá því, sem sá skipstjóri sagði og tilefni varð til þeirra umræðna, sem ég var hér að vitna í frá 22. okt., en það var skipstjórinn á Páli Pálssyni frá Hnífsdal, en hann segir ásamt Hermanni Skúlasyni, sem er skipstjóri á öðrum skuttogara þar vestra, — eftir að þessar umr. fóru fram, þeir segja:

„Við verðum að láta í ljós undrun okkar á þessum ummælum hæstv. forsrh., sem sýnilega eru byggð á alröngum upplýsingum. Viljum við af þessu tilefni taka fram eftirfarandi : 16. okt., eða 6 dögum áður en þessar umr. fóru fram hér á hv. Alþingi, voru nokkrir breskir togarar byrjaðir veiðar í friðaða hólfinu norður af Kögri og tilkynnti Guðjón A. Kristjánsson Landhelgisgæslunni strax um það. Ekkert var gert. Dagana 18. og 19. okt. voru svo 35–40 breskir togarar að veiðum á áðurnefndu friðlýstu svæði, en ekkert varðskip virtist þá vera á svæðinu. Kl. 15 þann 19. október tilkynnir svo Björgúlfur frá Dalvík Landhelgisgæslunni, hvernig ástandið sé á miðunum, en varðskipsmaðurinn svarar, að fyrir okkur sé ekkert að gera annað en að koma þessu á framfæri við fjölmiðla, því að þeir megi ekkert gera. Síðar kom í ljós, að varðskipið var að fara með 103 lesta togbát til hafnar, þar sem honum höfðu orðið á mistök að setja veiðihólfið út af Barða ranglega út í kortið hjá sér. Var það greinilega álitið þýðingarmeira en að stugga við 35–40 breskum togurum, sem voru á veiðum á friðlýstu svæði innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.“

Og þeir segja enn fremur: „Síðustu viku höfum við verið að veiðum á Strandagrunni innan um fjölda breskra togara, án þess að verða varir við, að varðskip kæmi á þetta veiðisvæði.“

Og þeir enda svo þessa yfirlýsingu sína með því að segja:

„Við undirritaðir skipstjórnarmenn staðfestum hér með, að þær upplýsingar, sem hafðar voru eftir áðurnefndum skipstjórum, voru síst af öllu orðum auknar, og teljum, að ráðamenn geri sér alls ekki grein fyrir, hvernig ástandið á miðunum er raunverulega.“

Þessi ummæli eru mjög ákveðið sýnishorn um það ástand, sem var ríkjandi. Nú hafa þessir menn verið látnir staðfesta þessar skýrslur sínar, og þá er ekki óeðlilegt, að enn fremur komi skýrsla frá þeim aðilum, sem er verið að sakast við. Hitt er svo annað mál, hvort það hefði ekki mátt fá þá skýrslu og þær upplýsingar með friðsamlegri hætti en þessi stríðsyfirlýsing gefur tilefni til, þar sem hér er lagt til, eins og áður hefur komið fram, að skipa sérstaka rannsóknarnefnd samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. Það er kannske ekkert við því að segja, þó að stjórnarandstæðingar flytji slíka till., en hitt er nokkuð öðruvísi og hlýtur að vera hvaða ráðh. sem er sársaukafyllra, þegar stuðningsmenn ríkisstj. flytja slíka till. En þetta er mál, sem ég ætla ekki að skipta mér af. Þessi till. er fram komin frá tveimur þm. úr stjórnarliðinu, sem eru 50% af einum stjórnarflokknum, og er auðvitað algert fjölskyldumál stjórnarliðsins, hvaða hátt þeir telja að eigi að hafa á til þess að fá upplýsingar frá þeim ráðh., sem þeir styðja.