22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil taka það skýrt fram, að það byggist á vanþekkingu og misskilningi, að í þessu efni hafi orðið einhver snögg stefnubreyting hjá Framkvæmdastofnuninni. Sú stefnubreyting, sem hefur orðið varðandi fiskiskipalánin, átti sér stað í ársbyrjun, en þá voru þessi sjálfvirku fiskiskipalán afnumin og ákveðið að meta hvert lán út af fyrir sig út frá byggðasjónarmiðum.

Ég vil taka það fram, að varðandi þau skip, sem nefnd voru hér áðan og fengu 6% lán, um þau var sótt, áður en sjálfvirka reglan var afnumin, og hið sama gilti um skip, sem kom til Reykjaness, eins og hér var nefnt áðan, að umsóknin var fram komin, áður en reglan var afnumin. Það er svo með síldar- og loðnuskip, að þau landa hér og hvar um landið og oft eru þau gerð út til þess að landa erlendis, og það gildir ekki alveg það sama um þessi skip og t. d. um skuttogarana, sem eru aðaluppistaðan í hráefnisöflun einstakra byggðarlaga. Við höfum ekki ætlað okkur að mismuna mönnum, eins og hér var tekið fram áðan. En við höfum fyllsta rétt til þess að meta það, hvenær veita skuli lán og hvenær ekki, og hér er ekki um neinar sjálfvirkar reglur að ræða lengur.

Ég vil taka það fram, að ég var flm. að þeirri till., sem samþ. var í stjórn stofnunarinnar, en ég greiddi ekki atkv. með þeirri afgreiðslu, sem átti sér stað hálfum mánuði áður, og ég tel ekki, að afstaða mín beri vott um neinn hringlandahátt í þessum efnum. En ég skildi aldrei þá samþykkt svo, að það væri meðmæli um að veita lán, heldur aðeins heimild til þess að athuga málið frekar, það var ekkert annað. Málið var síðan athugað frekar, en engin endanleg ákvörðun tekin, og tekið svo til lokaafgreiðslu á síðasta fundi.

Ég vil svo aðeins segja að lokum um dylgjur hv. þm. Sunnl., Guðlaugs Gíslasonar, um störf mín hjá Framkvæmdastofnun ríkisins, að ég tel, að þær dylgjur hafi verið fyrir neðan allt velsæmi, fyrst og fremst vegna þess, að þær voru algerlega órökstuddar, og ég tel, að slíkt eigi ekki að eiga sér stað, að menn komi með slíkan málflutning án þess að gera nokkra grein fyrir sínu máli.