22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

36. mál, fiskeldi í sjó

Flm. (Sverrir Hermannsson) :

Herra forseti. Ég ætla litlu við framsögu mína að bæta og ekki að hætta mér út í langar umr. um fiskeldi í sjó af þeirri ástæðu eingöngu, að um það skortir mig alla fræðilega þekkingu að ræða það, og sama hygg ég, að sé uppi á teningnum hjá hv. 4. þ m. Norðurl. e., sem talaði áðan. Okkur skortir allar upplýsingar, að ég ekki tali um reynslu í þessum efnum. Fyrir því er það, að ég get ekki blandað mér í umr. um það, með hvaða hætti þetta getur orðið arðbært, hvort fóður, sem til þarf að ala fisk í sjó á, verður of dýrt, til þess að það borgi sig. Um það liggur ekkert fyrir enn í dag. Þó hefur reynsla annarra þjóða, eftir því sem lesa má í fræðiritum og tímaritum, orðið sú, að þeir telja, að það sé ómaksins vert að halda þessum tilraunum áfram og rannsaka málið til hlítar, enda hefur þetta gefið hina bestu raun.

Hv. þm., sem hér talaði áðan, hv. 4. þm. Norðl. e., tók fram, að um þetta mál ætti ekki að verða metingur, og ég er honum sammála. Hann áleit, að e. t. v. væri eðlilegra, að þetta heyrði undir Hafrannsóknastofnunina. Ég vil aðeins benda á, að hún hefur ærnu verkefni að sinna. Hana þarf að stórefla. Enn fremur er hið nánasta samstarf á milli Fiskifélags Íslands og Hafrannsóknastofnunar, og mætti mín vegna breyta till. í þá veru, að Fiskifélagi og Hafrannsóknastofnun yrði falið þetta verkefni.

En hv. þm. gat réttilega um það, að Veiðimálastofnunin hefur að vísu mikilvægu hlutverki að gegna, og þá ræddi hann sérstaklega um lagfiskinn. Ég gerði það af ráðnum hug, eins og ég þóttist hafa tekið fram í minni framsögu, að hafa laxfiskinn ekki sem sérstakt dæmi um sjávarbúskapinn, heldur einvörðungu að fjalla um þá möguleika, sem kynnu að vera á ræktun annarra fisktegunda og sjávardýra almennt. Ég hygg, að Veiðimálastofnunin hafi ærið á sinni könnu einnig, og ætla ekki að orðfæra það hér, enda brestur mig þekkingu til þess, hver árangur hefur orðið af hennar starfi í gegnum tíðina. Ýmsum markverðum árangri hefur hún náð, og sjálfsagt er að efla hana til sinna verka, sérstaklega með það í huga, og það er sannfæring mín, að miklu meira mætti gera. Við eigum ótrúlega möguleika á sviði eldis vatnafiska. Fróðir menn álíta, að þeir séu ómælanlegir, þeir möguleikar, sem við eigum hér á landi í ræktun nytjafiska í okkar fjölmörgu vötnum. Og því hefur verið haldið fram við mig, að mjög víða hátti þann veg til, að bændur gætu stundað þetta sem aukabúgrein til búdrýginda sér.

Ég held, að við ættum nú að sameinast um það, að þessi till. nái fram að ganga, og ég hvika ekki frá því, að það sé rétt málsmeðferð, að framkvæmd þessarar till. eða þál., ef samþykkt verður, verði í höndum þessa aðila, þar sem hér er eingöngu verið að fjalla um fiskeldi í sjó. Ég þykist þess fullviss, að ef við berum gæfu til að stuðla að slíkum framkvæmdum, eftir því sem efni standa til, þá muni það óðar en líður gefa hinn besta arð í aðra hönd.