27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

371. mál, móttökutækin sem fundust í Kleifarvatni

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Á þskj. 123,3. lið, er borin fram fsp. um rannsókn vegna móttökutækja, sem fundust í Kleifarvatni fyrri hluta septembermánaðar s. l.

Er tilkynnt hafði verið um þennan tækjafund til lögreglunnar, fór fram lögreglurannsókn um þetta efni við bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði, og voru teknar skýrslur af allmörgum aðilum, sem tekið höfðu þátt í fundi tækjanna og flutningi. En svo sem fram hefur komið í blaðafrásögnum, voru það menn að æfingum í svonefndum froskmannabúningum, sem fundu tækin á allmiklu dýpi í Kleifarvatni. Enn fremur sendi bæjarfógetaembættið tækin til skoðunar hjá Landssíma Íslands og fékk skýrslu sérfræðinga Landssímans um tækin.

Ekki kom fram við rannsóknina, með hverjum hætti tækin hefðu komist á þennan stað, er þau fundust, né heldur hverjir hefðu haft þau undir höndum.

Skýrslur þessar voru sendar saksóknara ríkisins og bæjarfógetanum í Hafnarfirði, en voru þaðan sendar dómsmrn., sem síðan sendi þær til skoðunar í utanrrn., og eru þær þar enn í athugun.

Segja má, að tilefni þess, að rn. hafa fengið skýrslurnar til skoðunar, séu blaðaskrif, þar sem fram hafa komið grunsemdir um það eða látið að því liggja, að tækin hafi komið úr vörslu erlends sendiráðs. Minna má á í þessu sambandi, að starfsmenn erlendra sendiráða verða samkv. alþjóðlegum reglum ekki kallaðir fyrir rétt í því ríki, þar sem þeir eru starfandi.

Eins og ég áðan sagði, voru tækin send til sérfræðinga Landssímans til skoðunar, og hafa þeir látið í té álitsgerð um þau, sem ég hef undir höndum. Þar kemur fram, að ætla megi, að flest tækin séu af rússneskri gerð, en þó einstök tæki frá Vestur-Evrópu. Um eitt þeirra tækja mun vera Upplýst frá framleiðanda, að það hafi verið selt til Rússlands frá framleiðandanum. Letur hefur verið máð af ýmsum tækjunum, en þau eru ýmist viðtæki fyrir ýmis tíðnisvið, örbylgjumóttökutæki eða segulbandstæki. Póstur og sími hefur ekki fjallað um innflutning tækjanna.

Það er rétt að taka fram, að það hefur til þessa ekkert verið leitt í ljós, sem tengir þetta neinu tilteknu sendiráði. Eins og sagt hefur verið, eru skýrslur þessar enn til skoðunar hjá dómsmálayfirvöldum og utanrrn., og tel ég ekki ástæðu til að ræða málið frekar, eins og það nú liggur fyrir.