29.11.1973
Sameinað þing: 27. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

43. mál, samgönguáætlun fyrir Norðurland

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan taka undir mest af því, sem kom fram hjá hv. frsm. fyrir þessari þáltill. Það er alveg rétt, að þau vinnubrögð, sem hér hafa verið viðhöfð í sambandi við samgönguáætlun fyrir Norðurland, eru óþolandi. Ég get hins vegar ekki tekið undir með honum, að það sé stjórnvöldum að kenna út af fyrir sig. Ég hygg a. m. k., að hv. 2, þm. Norðurl. e., sem hér talaði áðan, þekki þetta betur. Hann situr, eins og ég, í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, en þar hefur verið fjallað um þessar staðreyndir og lögð á það rík áhersla, að úr þyrfti að bæta. Og honum mun vera kunnugt um, að því hefur verið lofað, að þegar næst verður lögð fram áætlun um samgöngur á Norðurlandi, þá verði það fyrir þau tvö ár, sem eftir eru af áætlunartímabilinu.

Ástæðan fyrir þessum drætti, hygg ég, að sé fyrst og fremst sú, að við hér á hinu háa Alþ. höfum keppst við að samþykkja þál. um áætlanir fyrir næstum því hvað sem hugsast getur. Ég hygg, að það sé búið að samþykkja hér áætlanir fyrir alla landshlutana, nema þá kannske Reykjavík, og starfslið áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins er ekki meira en svo, bæði vegna þess, að fjárveitingar til hennar hafa verið takmarkaðar, og einnig vegna hins, að það hefur alls ekki reynst unnt að fá starfslið, sem reynslu hefur og getur unnið slík verk, eins og þörf væri, ef ætti að sinna öllum þeim áætlunum, sem hér hafa verið samþykktar. Þetta hefur reynst útilokað, og verður að viðurkenna, að þetta hefur valdið verulegum vandræðum. Sú spurning vaknar þá, hvort stofnunin eigi að ýta til hliðar ýmsum verkefnum, sem Alþ. hefur með samþykkt sinni falið áætlanadeildinni. Það er illt, en ljóst er, að svo verður raunar að gera, því að ég er sammála því, sem kom fram hér áðan, að það er ekki hægt að taka fyrir svo mörg verkefni, að ekkert fáist unnið til hlítar á viðunandi tíma. Á þetta vil ég fyrst og fremst leggja áherslu.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. gat þess, að Strandasýslan væri þarna með, og gat um arðsemis útreikning í því sambandi. Ég get ekki alveg tekið undir ágæti arðsemisútreikninga, eins og mér virtist hann gera. Þeir eru góðir til leiðbeiningar, en ákaflega hættulegir til samanburðar. Ég vil geta þess aðeins til gamans, að í arðsemisútreikningum kom fram, að einn spotti á veginum norður á Hólmavík kom út með arðsemina núll, og vakti það nokkra furðu, ef halda á við byggð og samgöngum þangað norður. Ég held, að arðsemisútreikningar verði að vera eingöngu til leiðbeiningar og verði raunar aðeins að vera til samanburðar innan ákveðins svæðis. Það er ekki hægt að gera arðsemisútreikninga á vegi til Hólmavíkur á sömu forsendu og arðsemiútreikninga í kringum Reykjavík eða Akureyri. En ég vil taka undir hitt með honum, að það er að sjálfsögðu ófært, að meginleiðin inn í þennan landshluta allan skuli ekki vera þarna með. Hana á að taka alveg sérstaklega, og ætti að sjálfsögðu að takast af óskiptu fé Norðurlandsáætlunar. Þetta er samgönguæð inn í þennan hluta allan. Þessi hluti er að vísu innan Strandasýslunnar, en kemur að sjálfsögðu öllum svæðum að notum.