29.11.1973
Sameinað þing: 27. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

43. mál, samgönguáætlun fyrir Norðurland

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það virðist vera knappt um tímann. Hæstv. forsrh. talaði um, að menn væru að eyða dýrmætum tíma Alþ. Ég ætla að leyfa mér að vona, að hæstv. forsrh. komi ekki til hugar að ætla að beita Alþ. sömu brögðum og dagblaðið Tíminn segir, að hann beiti Möðruvallahreyfinguna, og hindra, að menn geti látið skoðanir sínar í ljós. (Gripið fram í: Ætlar hv. þm. að ganga í Möðruvallahreyfinguna?) Hæstv. forsrh. virðist algjörlega vera búinn að kúvenda í máli Möðruvallahreyfingarinnar, því að hann gengur eftir því, að ég gangi í hreyfinguna. En ég get ekki gert hæstv. forsrh. þá ánægju að lýsa því hér yfir.

Það eru nokkur atriði, sem mér finnst ástæða til að benda á eða víkja að, sem fram hafa komið í þessum umr. Og það er einkum þar sem þm. Vestf. hafa komið við sögu, þ. e. a. s. hv. 1. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Vestf.

Hv. 1. þm. Vestf. tók undir það, að það væri ýmislegt að athuga í sambandi við framkvæmd áætlunargerða Framkvæmdastofnunar ríkisins. Aðrir í þessum umr. bentu á það líka. M. a. heyrði ég, að hv. 2. þm. Norðurl. e. gerði það ítarlega. Því miður var ég ekki hér viðstaddur, þegar frummælandi talaði. En hv. 1. þm. Vestf. segir, að það, sem að er, sé ekki stjórnvöldum að kenna. Hverjum er það að kenna? Er það fólkinu á Norðurlandi að kenna, að einhverju er ábótavant í meðferð þessara mála? Er það Vestfirðingum að kenna? Ef það er einhverjum um að kenna, er það þá ekki þeim að kenna, sem fara með þessi mál? Hvers konar röksemdafærslur eru þetta? Þetta er allt dálítið þokukennt hjá þessum hv. þm., því að hann virðist a. m. k. ekki hafa lagt sér á minni það, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði. Hann lagði sérstaka áherslu á, að það væri hlaðið upp alls konar áætlanagerðum og plöggum í Framkvæmdastofnun ríkisins, án þess að það væri séð fyrir fjármagni til þess að koma áætlununum í framkvæmd. En hv. 1. þm. Vestf. kemst ekki lengra í þessu en svo, að hann segir, að ástæður fyrir því, hvað illa gangi, sé, að það vanti meira starfsfólk hjá Framkvæmdastofnun ríkisins. Hann gerir sér ekki grein fyrir því, að það er komið meira en nóg af áætlunum. Það vantar ekki starfsfólk til að gera áætlanir, það vantar skipuleg vinnubrögð og fjárframlög til þess að framkvæma áætlunina. Þetta er meginkjarni málsins.

Ég get nú snúið mér að 3. þm. Vestf., Hannibal Valdimarssyni. Það var margt furðulegt, sem kom fram í ræðu hans. Hann minntist á Vestfjarðaáætlunina, og auðvitað sagði hann, eins og honum er alltaf tamt, þegar hann minnist á Vestfjarðaáætlunina: „Hin svokallaða Vestfjarðaáætlun.“ Svo kom framhaldið, þ. e. talið um áætlunina, sem hann varð aldrei var við og gat aldrei fundið og var alltaf að leita að og er ekki búinn að finna enn þá. En hann segir þessa sögu hér, hann er löngu hættur að segja þessa sögu á Vestfjörðum, því að það er hlegið mikið að Hannibal, þegar hann ætlar að segja þessa sögu á Vestfjörðum. Vestfirðingar hafa orðið varir við Vestfjarðaáætlunina.

Vestfjarðaáætlunin, samgönguáætlunin, var ekki í rauninni smásmíði, eins og hv. 3. þm. Vestf. lætur í skina. Hann segir orðrétt: „Það voru tveir flugvellir og nokkrar hafnargerðir, og annað var það ekki.“ Það voru hafnir svo að segja á öllum Vestfjörðum nema í þremur smæstu kauptúnunum. Það voru flugvellirnir. Svo gleymir hann algjörlega vegunum. Hann gleymir líka að geta þess, að þegar Vestfjarðaáætlunin var ákveðin, en hún hljóðar upp á 200 millj., þá voru ríkisútgjöldin um 2000 millj. Ef nú ætti að vera jafnmyndarlegt framtak í framhaldi Vestfjarðaáætlunarinnar eins og var í fyrsta áfanga, þá ætti, miðað við ríkisútgjöldin, að verja til Vestfjarðaáætlunarinnar á næstu fjórum árum 2000 millj. kr., 2 milljörðum.

Þetta er það, sem hv. 3. þm. Vestf. gerir lítið úr. Hann gerir lítið úr því, og mér kemur það í raun og veru ekkert á óvart. (Forseti: Ég vil benda hv. þm. á, að þetta er þáltill, um samgönguáætlun Norðurlands.) Ég vil leyfa mér að taka fram, að ég hóf ekki umræður um Vestfjarðaáætlunina, ég er að svara beinum ummælum hv. 3. þm. Vestf. um Vestfjarðaáætlunina, og ég mun hvergi fara út fyrir það tilefni, sem þessi hv. þm. hefur gefið mér, og virða að því leyti að fullu óskir hv. forseta. Ég geri ekki ráð fyrir, að hann fari fram á annað né meira.

Ég held, að hv. 3. þm. Vestf. ætti að tala með öðrum hætti um Vestfjarðaáætlunina heldur en hann gerði hér áðan. Þó er það ekki aðalatriðið, hvernig þessi hv. þm. talar um Vestfjarðaáætlunina. Auðvitað er það aðalatriðið, hvað þessi hv. þm. gerir, hver eru verk hans og framkvæmdir? Hvað gerði þessi hv. þm., meðan hann sat í ríkisstj., til þess að hindra í framkvæmd framhaldi Vestfjarðaáætlunarinnar? Hann hefði átt að gefa hv. Alþ. upplýsingar um slíkt. Ætli hann hafi gert mikið? Ætli það séu ekki vanefndirnar, sem hann var að tala um áðan? Ætli það sé ekki ein af vanefndunum, sem hv. þm. sagði, að nú þyrfti að ganga á, eins og hann orðaði það. „Ganga á röð vanefndanna til þess að bæta úr,“ sagði hann, ganga á röð vanefnda þessa hv. þm., sem er búinn að vera samgrh. í tvö ár. Þetta eru ágæt ráð. Auðvitað göngum við á röð vanefndanna. En ég hygg, að það skipti litlu máli, hvort hv. 3. þm. Vestf. gefur þau ráð eða segir, að það skuli gert. Ég hygg, að það verði gert án hans atbeina, a. m. k. sýna verk hans ekki, að það sé nokkurs að vænta í þessu efni.

Þessi hv. þm. talaði um „flóttamannasjóðinn“, sem er gert í háðungarskyni við það fjármagn, sem fengið var á sínum tíma til Vestfjarðaáætlunarinnar. Það var af hans líkum aldrei kennt við annað en „flóttamannasjóðinn“, aldrei. Nú er það, að meðan þessi hv. þm. var ráðh., hefur það skeð, að „allir vildu Lilju kveðið hafa“, og nú er búið að taka lán bæði í Norðurlandsáætlun og Austurlandsáætlun úr Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, þeim lánasjóði, sem þessi hv. þm. hefur haft að athlægi og spéi og spotti, síðan peningarnir komu úr honum til Vestfjarða. En þetta er nú þess eðlis, að hann hefur ekki séð önnur ráð, þegar hann var í ráðherrastóli, heldur en að leita til þessa sjóðs.

Hv. 3. þm. Vestf. getur að sjálfsögðu áfram bæði skemmt sér og mönnum hér í sölum Alþ. með þessu ábyrgðarlausa fleipri sínu um Vestfjarðaáætlun og mál, sem henni eru skyld, en ég hygg, að hann muni lítið gera að því á Vestfjörðum.