25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

21. mál, rannsókn á brúarstæðum yfir Dýrafjörð og Önundarfjörð

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa verið uppi hugmyndir um að gera þær samgöngubætur í Dýrafirði og Önundarfirði, að lagðar verði brýr yfir þessa firði. Hér er um stórmál að ræða. En þó að það sé almenn skoðun hjá þeim, sem staðhætti þekkja gleggst, að hér sé um sjálfsagt mál að ræða, þá er hér um svo mikla framkvæmd að ræða, að það þykir sjálfsagt, að fram fari vandleg athugun á málinu. Í samræmi við þetta féllst Alþ. á það að setja inn í vegáætlun 1972–1975 sérstaka fjárhæð á árunum 1972 og 1973, eða samtals 1 millj., til þess að láta framkvæma rannsókn á brúarstæðum yfir Dýrafjörð og Önundarfjörð. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. um það, hvort. þessari rannsókn sé lokið, og ef svo er, hver sé niðurstaða hennar, en ef rannsókninni er ekki lokið, hvar hún sé á vegi stödd.