06.12.1973
Efri deild: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Því miður tókst mér ekki að komast á fund, er n. afgreiddi sitt nál. en fundurinn mun hafa verið haldinn hér í hliðarherbergi og fór fram hjá mér. Ég leyfi mér þess vegna að gera smávegis fsp.

Í fyrsta lagi vil ég forvitnast um kaupverð skipanna. Er um raðsmíði að ræða? Var boðin út smíði á skipunum í fleiru en einu landi, eða var bara leitað til einnar skipasmíðastöðvar? Var leitað fyrir sér innanlands um getu íslenskra skipasmiðastöðva í þessu sambandi? Og hvernig er fyrirkomulagið í skipunum? Er hér um athyglisverðar nýjungar að ræða? Hér er brugðið gersamlega út af þeirri venju, sem hefur ríkt um margra ára bil, því slík skip hafa aldrei fengið slíka fyrirgreiðslu, þannig að það hlýtur eitthvað sérstakt að vera á bak við þessa fyrirgreiðslu núna og sérstakar þarfir, sem ég tel rétt, að komi fram, því að mér segir svo hugur um, að það geti komið ýmsir fleiri á eftir og þeir geti orðið fleiri en 10, sem fari fram á hliðstæða fyrirgreiðslu. Á þá að binda þetta aðeins við 10 menn eða á að taka hér upp nýtt fyrirkomulag í framtíðinni varðandi þessi skip?

Ég styð frv., vil taka það skýrt fram, en ég vil samt sem áður, að það liggi ljóst fyrir, að fleiri eigi möguleika á að njóta slíkra kjara, það verði ekki farið í að úthluta þessu eins og dýrmætum gjöfum. Þess vegna leyfi ég mér að koma með þetta nú á þessu stigi, ef hægt er að gefa um það upplýsingar. En það kemur fram í nál., að n. hefur athugað frv., og ég vænti þess, að form eða einhver nm. geti sagt mér eitthvað varðandi þessi atriði.