03.09.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

7. mál, sjónvarpsmál

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Í þessari till. á þskj. 17 er lagt til af hv. 12. þm. Reykv., að Alþingi álykti „að fela ríkisstj. að hefja nú þegar samninga við yfirstjórn Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli um að fresta um óákveðinn tíma takmörkunum á styrkleika“ o.s.frv., eins og þar segir, sem sagt lagt til, að haldið skuli áfram þeim sjónvarpsútsendingum, sem þar hafa tíðkast um langa hríð og allt of langa hríð.

Ég vil í þessu sambandi minna á, að í lögum nr. 19 frá 5. apríl 1971, 2. gr., segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisútvarpið hefur einkarétt á útvarpi, þ.e. útsendingu til viðtöku almennings á tali, tónum, myndum eða öðru efni, hvort sem er þráðlaust, með þræði eða á annan hátt“

Samkvæmt þessum lögum hefur Ríkisútvarpið einkarétt til slíkrar starfsemi á Íslandi eins og hér er verið að leggja til að fela ríkisstj. að athuga, hvort ekki megi fara þess á leit við Bandaríkjastjórn, að hún haldi nú áfram þessum ósóma. Sem sagt, hér er lagt til, að ríkisstj. sé falið að kanna og leita fyrir sér um að brjóta íslensk lög.

Ríkisstj. hefur samkv. þessum lögum, sem ég hef nú vitnað í, alls enga heimild til neinna undantekninga. Það eru engin ákvæði um það, að ríkisstj. sé heimilt að veita neinar tilslakanir frá því, sem kveðið er á í lögunum. Þess vegna er það, að mér er skapi næst að leggja til og fara fram á það við hæstv. forseta, að hann úrskurði þessa till. óþinglega og óumræðuhæfa og vísi henni frá með forsetaúrskurði. Á hinn bóginn er ég svo sem alveg reiðubúinn til að ræða þessa dæmalausu þáltill., sem hér um getur.