03.09.1974
Neðri deild: 12. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

8. mál, söluskattur

Jón Skaftason:

Herra forseti. Mig langar til þess að segja örfá orð um það frv., sem nú er verið að ræða, áður en það fer til n. Frv. þetta hefur að geyma nýjar skattaálögur, sem á ársgrundvelli munu nema um 1800–2000 millj. kr., og ætlunin er að leggja þá auknu skattbyrði á þjóðfélagsþegnanna á tímum, þar sem að mínu viti verður að fara mjög gætilega í alla nýja skattlagningu vegna þeirrar hættu, sem vissulega er til staðar á, að komið geti upp meiri háttar órói á vinnumarkaðinum. En að sjálfsögðu erum við allir hv. þm. væntanlega sammála um, að slíkt væri, miðað við þær aðstæður, sem fyrir hendi eru, ákaflega óæskilegt fyrir hagsmuni Íslendinga.

Ég verð að segja, að miðað við þær upplýsingar, sem hér hafa komið fram af hálfu tveggja hæstv. ráðh., þá er ég á þessari stundu ekki nægilega sannfærður um, að þörf sé á þessari skattlagningu, og vil því nota þetta tækifæri til þess að fara þess ákveðið á leit við þá n., sem frv. þetta fær til athugunar, að hún geri meiri og betri grein fyrir þörfinni á þessum nýju skattaálögum, en gert var t.d. í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. Ég tel, að þm. hafi þá skyldu gagnvart umbjóðendum sínum og raunar þjóðinni allri að ganga fyrst úr skugga um, að þær forsendur séu réttar, sem slík skattlagning byggist á. Ég verð að segja, að það fannst mér dálítið skrýtið, að ég gat ekki skilið það öðruvísi en að hæstv. núv. samgrh., en fyrrv. fjmrh. héldi því fram rétt áðan, að ef ekki kæmu til neinar nýjar útgjaldaálögur á ríkissjóð á þessu ári, mundi hann geta bjargast. En núv. hæstv. fjmrh. hélt því hins vegar fram, að vandi ríkissjóðs, eins og ég held, að hann hafi orðað það, á þessu ári næmi nálægt 3 milljörðum kr. Mér finnst, að hér beri það mikið á milli yfirlýsinga frá hæstv. fyrrv. fjmrh. og hæstv. núv. fjmrh., að við þm. eigum kröfu á því að fá betri upplýsingar um, hver sé hin raunverulega staða ríkissjóðs í dag, svo að við þurfum ekki að ganga að því gruflandi, hvort við séum að samþykkja nýjar og stórfelldar skattaálögur. sem e.t.v. er ekki þörf fyrir. Ég tel ekki eðlilegt á þessum tíma, þegar lítið er vitað um þá almennu stefnu í meginatriðum, sem hæstv. ríkisstj. ætlar að fylgja í efnahagsmálum og þá ekki síst í skattamálum og peningamálum, að fara að samþykkja nú stórfellda hækkun á söluskatti, sem að sjálfsögðu verður til frambúðar, gildir ekki aðeins fyrir þetta ár, heldur mun væntanlega gilda áfram, því að reynslan hefur verið sú á Íslandi, hvaða ríkisstjórnir sem setið hafa, að álagðir skattar hafa næstum aldrei verið lagðir niður. Mér finnst ástæða til þess, að þetta komi fram hjá mér nú þegar, áður en þetta mál fer til athugunar í n. Ég vil undirstrika það og geri raunar kröfu til þess, ef á að reikna með atkv. mínu til stuðnings við þessa söluskattshækkun, að þá fái ég betri upplýsingar um þörf ríkissjóðs fyrir þessar nýju tekjur.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til þess að lýsa því yfir, af því að hér hafa tveir ræðumenn minnt á, að hæstv. fyrrv. fjmrh. hafi hvatt núv. fjmrh. til þess að leggja á sem mest af nýjum sköttum, að til þess hefur hann ekki umboð frá mér sem þm. í Framsfl. Hann hefur sennilega gefið þessa yfirlýsingu fyrir sjálfs sín hönd. En ég segi fyrir mig, að ég mun meta í framtíðinni þær nýju skattaálögur, sem hæstv. ríkisstj. kann að leggja fyrir þingið, með hliðsjón af því, hvort þörfin fyrir þá nýju skatta sé það brýn, að hún vegi meira í mínum huga heldur en það, sem ég tel, að eigi að vera númer eitt á stefnuskrá þessarar hæstv. ríkisstj., en það er baráttan gegn dýrtíðinni. Ég mun því aðeins fylgja nýjum skattaálögum, að í mínum huga sé ljóst, að þörfin fyrir nýju tekjurnar sé svo mikil, að það sé réttlætanlegt að leggja á nýja skatta, jafnvel þótt þeir kunni að auka eitthvað á dýrtíðina, sem er að mínu viti langmesta vandamál, sem Íslendingar nú búa við og hafa búið við í mörg ár. — Ég tel rétt, að þetta komi fram nú þegar, áður en málið fer til nefndar.