03.09.1974
Neðri deild: 12. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

3. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 3 er frv. til l. um breyt. á l. um happdrættislán til að fullgera Djúpveg og koma þannig hringvegi um Vestfirði. En eins og kunnugt er, hefur þjóðin hælt sér mjög af því á þessu ári að hafa komið hringvegi á í kringum landið með opnun vegar á Skeiðarársandi, Hér er þó spotti eftir, sem þarf einnig að tengja, svo að hring verði hægt að fara, og þetta frv. er flutt í því skyni að reyna að leggja því máli lið.

Ég gerði í hv. Ed. grein fyrir ástæðunni til þess, að frv. er flutt, en það var vegna þess, að lög, sem samþ. voru á síðasta Alþ., voru fyrst og fremst það seint á ferðinni, að þau gerðu ráð fyrir útgáfu happdrættisskuldabréfanna, áður en gildistaka þeirra hafði verið staðfest, í öðru lagi gerðu þau ráð fyrir því að gefa öll happdrættisskuldabréfin út í einu lagi og í þriðja lagi, að vextir voru bundnir og þeir voru taldir það lágir, að litlar líkur væru til, að bréfin mundu seljast. Hins vegar er gert ráð fyrir því í þessu frv., að það verði heildarfjárhæðin, sem þar er ákveðin, en fjmrn. geti ákveðið, hve stór hluti sé gefinn út hverju sinni, og enn fremur að vöxtum sé þannig háttað, að þeir séu í samræmi við gildandi vexti á hverjum tíma miðað við önnur kjör, sem láninu fylgja.

Til þess að koma í veg fyrir, að tjón hlytist af, þannig að verk þetta stöðvaðist vegna þessara formgalla, sem á l. voru, var ákveðið að láta halda verkinu áfram og fjármagna það með fé úr ríkissjóði, enda kæmu síðar möguleikar til að afla fjár með happdrættislánum þessum.

Hér er fyrst og fremst treyst á það, að Vestfirðingar leggi málinu lið; en þeim er mikið áhugamál, að það nái fram að ganga. Hins vegar er í frv. því, sem liggur fyrir hv. d., gert ráð fyrir almennri heimild til að gefa út happdrættisskuldabréf vegna vegagerðar í landinu, og munu þá verða teknir fyrir vissir áfangar í hvert sinn, sem til slíkrar útgáfu kemur, m.a. til þess að glæða þann áhuga, sem fyrir slíkum vega- eða samgöngubótum er sem nauðsyn ber til að hraða. Þegar ég ræddi um það mál hér, nefndi ég m.a. Vestur- og Norðurlandsveginn auk þess að halda áfram með Suðurlandsveginn austur, en hér er um fjölfarna vegi að ræða, sem brýna nauðsyn ber til að útvega fjármagn til framkvæmda á.

Ég treysti því, að þetta litla frv. fái skjótan framgang hér í hv. d. og nái fram að ganga og einnig hitt frv., sem á að vera meira framtíðarmál vegagerðar í landinu í heild.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta, en legg til, herra forseti, að að umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.