04.09.1974
Neðri deild: 14. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

5. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. minni hl. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt nú öðru sinni. Á fyrra og þessu þingi, þegar það kom fram. bæði þessi skipti var höfuðröksemdin fyrir því að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins, og um það er út af fyrir sig enginn ágreiningur, hvorki þá né nú, að þess sé þörf. En frá því að frv. þetta var flutt, hafa orðið ýmsar breytingar og margt gerst, sem gerir það að verkum, að afstaða mín til frv. getur ekki verið hin sama.

Eftir að núv. ríkisstj., — hvað eigum við að segja? — var að verða til og varð til, var farið að fjalla um þetta frv. í iðnn. og komu fram ýmsar till. frá núv. stjórnarsinnum í n. Fyrst átti að lækka prósentutöluna úr 13 í 10, sem hér er um rædd, síðan að taka upp fast gjald, og átti það þá að vera kannske 1 kr. eða allt niður í 50 aura, sem ekki var komið á hreint, en síðast á fundi í morgun er þetta allt komið í gamla horfið aftur og er nú lagt til, að gjaldið verði óbreytt, 13%. Ég vil segja það, að ég tel út af fyrir sig mjög varhugavert að fara í þessu efni inn á prósentugjald. Það er þess eðlis, að verðjöfnunargjald getur tekið breytingum í raun og veru, sem eru óháðar þeim kostnaði, sem Rafmagnsveitur ríkisins kannske þurfa að standa undir. Ljóst er, að hvort tveggja gerist, að rafmagnsnotkunin fer vaxandi og raforkuverðið hefur hækkað allverulega, og sjáanlegt er, að fram undan eru nýjar hækkanir þar, og ég held, að þeir útreikningar, sem eru í grg. frv., útkoman á þessu gjaldi verði allt önnur en sú, sem þar er gert ráð fyrir. Mætti segja mér, að á næsta ári yrði þessi skattur, þetta verðjöfnunargjald, 13% gjaldið, áreiðanlega ekki undir 400–500 millj. kr.

Eins og ég sagði, hefur margt gerst á þessu bili, frá því að frv. var lagt fram og þar til það kemur nú til afgreiðslu, og þá fyrst og fremst það, að till. eru uppi, sem sjálfsagt verða afgreiddar, um það fara í stórfellda nýja skattheimtu til ríkissjóðs til viðbótar gengisfellingu, sem orðin er. Hér er náttúrlega um að ræða gerbreytingu fyrir ríkissjóð. Og það er eftirtektarvert, að einmitt ein af röksemdunum í frv. til hækkunar söluskattsins er sú, að jafna þurfi tekjuhallann eða hlaupa undir bagga með fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins. Það virðist sem sé, að hér sé á ferðinni alger tvísköttun: annars vegar þetta verðjöfnunargjald og hins vegar sú skattheimta, sem tekin er með hækkun söluskattsins.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál hér og þær breytingar, sem um er að ræða á frv. að öðru leyti. Það var talið útilokað, að mánaðarleg innheimta gæti orðið á þessu gjaldi. En ég hygg, að við að lesa þær brtt., sem fyrir liggja, og bera þær saman við frv., þurfi alveg sérstaka sérfræðinga til þess að lesa það út úr málinu, að ekki sé um mánaðarlega innheimtu að ræða. En samkv. umsögn þeirra fræðimanna, sem mættu á fundi hjá iðnn. í morgun, er það ekki ætlunin. Hins vegar virðist mér frv. alls ekki bera það með sér.

Þá eru hér einkanlega tvær breytingar, sem ég vil benda á. Það er í fyrsta lagi við 1. gr., þar sem ég fæ ekki betur séð en sé verið að færa aukið vald til ráðh. frá stjórn Orkusjóðs. Það virðist a.m.k. vera tilhneiging í þá átt. Hins vegar er sú breyting, sem felst í 7. brtt. við 16. gr., þ.e.a.s. að umboð núv. stjórnar rafmagnsveitnanna ætti að falla niður við gildistöku þessara laga. Var sagt á fundinum í morgun, að hér væri um till. hæstv. iðnrh. að ræða. En nú sé ég, að hann hefur flutt brtt. við þessa brtt., að í stað þess að leggja niður umboð stjórnarinnar og sjálfsagt að skipta þar um menn, verði fjölgað í stjórninni. Stjórn Rafmagnsveitna ríkisins var skipuð í sumar, og veit ég ekki betur en þetta sé mjög óvenjuleg aðferð, þó að mannaskipti verði í ráðherrastólum, og man ekki a.m.k. nein dæmi þess í bili. Sjálfsagt mildar síðari brtt. hæstv. ráðh. málið eitthvað, en mjög finnst mér þetta óviðkunnanlegt, svo að ekki sé meira sagt.

Niðurstaða okkar tveggja, sem erum í minni hl. iðnn., mín og Eyjólfs Sigurðssonar, er sú, að við leggjum til, að eins og málum er nú komið í allri skattlagningunni og eins og mál standa í allri þeirri óvissu, sem enn er um, hvað gera á, og þá ekki síst, með hvaða hætti almennu launafólki yrðu bætt þau áföll, sem það verður fyrir, bæði vegna gengisfellingarinnar og nýrrar skattheimtu og aukinnar dýrtíðar, verulega aukinnar dýrtíðar, — meðan mál standa svo og eins hitt, að engin heildarmynd er af, hvað gera eigi í raun og veru til þess að leysa þann efnahagsvanda, sem svo mjög er fjölyrt um nú, að fyrir höndum sé, þá er það álit okkar, að ekki eigi að afgreiða þetta frv., ekki eigi að samþykkja það. Það er þess vegna till. okkar, að málinu verði vísað til ríkisstj. til meðferðar með öðrum heildarlausnum í efnahagsvandamálunum, en verði það hins vegar ekki gert, fái sú till. ekki nægan stuðning, þá verði frv. fellt.

Of skammt var liðið frá 2. umr. — Afbrigði samþ. með 28 shlj. atkv.