08.08.1974
Neðri deild: 3. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal reyna að standa við það, sem ég sagði í minni framsöguræðu, að fara ekki að ræða þessi mál efnislega á þessu stigi.

Ég vil aðeins segja það út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það er auðvitað viðurkennt og öllum ljóst, að það er við vandamál að stríða í efnahagsmálum þjóðarinnar, og það á ekki að vera nýtt fyrir neinum. Hins vegar hika ég ekki við að segja það, að sá vandi væri í dag þó mun meiri, ef þessi brbl. hefðu ekki verið gefin út, enda komu ekki fram neinar aths. hjá honum við brbl. út af fyrir sig. Ég vil enn fremur minna á, að það lá ljóst fyrir í vor, að það var við mikinn efnahagsvanda að glíma þá og það var mikill efnahagsvandi í uppsiglingu. Þá tókst ekki að fá Alþingi til þess að horfast í augu við þann vanda og gera þær ráðstafanir, sem þá hefði þurft að gera. Það er alveg víst, að ef ráðstafanir hefðu verið gerðar þá og gerðar í tæka tíð, þá væri vandamálið minna nú, og var minna þá en það er orðið nú að ýmsu leyti. Þetta vil ég aðeins minna á, án þess að ég ætli að fara að deila um söguna í því efni.

Það er kannske rétt að geta þess í sambandi við gjaldeyrisstöðuna og það, sem minnst var á um stöðu bankanna, að það hefur verið sölutregða og tregða á útflutningi á vissum afurðum, og af því hefur leitt, að birgðir eru meiri en á sama tíma t.d. í fyrra í ýmsum efnum, og er ekki nema sanngjarnt, að það sé tekið með, þegar gjaldeyrisreikningurinn er gerður upp. Jafnframt hefur þessi birgðasöfnun auðvitað haft það í för með sér, að bankarnir hafa orðið að lána meira en ella út á þessar birgðir, og er staða þeirra gagnvart Seðlabankanum líka erfiðari af þessum sökum. Það er rétt að hafa þetta í huga í sambandi við þá mynd, sem dregin er upp af þeim efnahagsvandamálum, sem við er að glíma nú.

Viðvíkjandi spurningu hv. þm. Guðlaugs Gíslasonar varðandi vaxtalánin vil ég segja það, að það er alveg rétt tilvitnun, sem hann fór með í 4. gr. seðlabankalaganna, að Seðlabankinn á að fylgja þeirri efnahagsmálastefnu, sem ríkisstj. mótar. Það lágu fyrir í maí, síðari hluta maí, ef ég man rétt, tilmæli eða ósk frá Seðlabankanum til ríkisstj. um það, að ríkisstj. samþykkti vaxtahækkun. Þá var samkvæmt till. frá mér, sem ég flutti í ríkisstj. samþ., að ríkisstj. gæti ekki fallist á þessi tilmæli Seðlabankans um vaxtahækkun, og samkvæmt því, framkvæmdi Seðlabankinn ekki þessa vaxtahækkun þá, enda þótt það væri skoðun stjórnar hans, að hún væri nauðsynleg. En þó að þetta standi svona, eins og það stendur í 4. gr., þá stendur hins vegar skýrum stöfum í annarri grein í seðlabankalögunum, í 13. gr., að Seðlabankinn ákveði vexti, það er alveg skýrt tekið fram. Út af fyrir sig skilur stjórn Seðlabankans það ákvæði svo, að hún geti gert þetta án þess að fá til þess samþykki ríkisstj.

Eftir að ríkisstj. hafði sagt af sér, er auðvitað ekki hægt að gera kröfu til hennar um, að hún móti neina efnahagsmálastefnu. Það er ekki hægt að gera kröfu til ríkisstj., sem hefur sagt af sér og er aðeins „fungerandi,“ um það, að hún móti neina pólitíska stefnu. Þegar þannig stóð á, að ríkisstj. hafði sagt af sér og gegnir aðeins störfum samkvæmt beiðni forseta, þá taldi Seðlabankinn sig ekki þurfa að bíða og ekki þurfa að taka tillit til fyrri samþykktar ríkisstj. um það, að vaxtahækkun væri ekki framkvæmd, og ákvað vaxtahækkunina, að ég best til veit með öllum atkvæðum seðlabankastjóranna og atkvæðum bankaráðsins, nema hvað einn fulltrúi í bankaráði sat hjá við þá ákvörðun.

Það er þess vegna algjörlega rétt, sem hæstv. viðskrh. hefur sagt, að vaxtahækkunin, sem ákveðin hefur veríð af Seðlabankanum, er ekki gerð með samþykki ríkisstj. Um vaxtahækkunina sjálfa og réttmæti hennar ætla ég ekki að fara að ræða hér. Það var sjónarmið ríkisstj., á meðan hún var og hét, að það ætti ekki að grípa til þessa ráðs. En auðvitað verður að játa, að þetta hefur bæði kosti og galla. Það liggur í augum uppi, að þetta kemur þungt við þá, sem lánin taka. En það ætti líka að vera nokkur hagsbót fyrir sparifjáreigendur, sem lögð var áhersla á áðan, að þyrfti að líta til. Sannleikurinn er sá auðvitað, að það hefur ekki verið farið með neina eins illa í þjóðfélaginu og sparifjáreigendur. Það er ekki nema eðlilegt og sanngjarnt, að menn verði að greiða fyrir fjármagnið. Sparifjáreigendur verða að fá eitthvað í sinn hlut. Menn geta endalaust deilt um, hve mikið það á að vera eða hve litið. En þetta var mat seðlabankastjórnarinnar, og hefur sjálfsagt vakað fyrir henni það tvennt að reyna að örva til aukinnar sparifjármyndunar, sem og hitt að reyna að draga úr lánseftirspurn og þenslu. Hvort þetta hefur tekist eða ekki, held ég að sé ekki hægt að dæma um enn, vegna þess að reynslan af þessu er enn svo stutt.

Ég vona, að ég hafi með þessum fáu orðum svarað spurningu hv. fyrirspyrjanda, þannig að það sé ljóst, hvernig gangurinn var í þessu máli.