20.08.1974
Neðri deild: 6. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

2. mál, viðnám gegn verðbólgu

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fjh: ok viðskn. hefur fjallað um þetta frv. Á fundi n. í gær mættu þeir Klemens Tryggvason hagstofustjóri og Jón Sigurðsson forstöðumaður Þjóðhagsstofnunarinnar og gáfu nefndinni ýmsar upplýsingar.

Frv. er um staðfestingu á brbl. frá 21. maí s.l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu. Eins og hv. þdm. er kunnugt, var þessum brbl. ætlað að gilda til 31. ágúst, eða þar til 2 mánuðir væru liðnir frá því, að kosningar hefðu farið fram. Nú fóru kosningar þannig, eins og allir vita, að stjórnarsinnar hlutu 30 þingsæti, en stjórnarandstaðan 30, og því hefur farið sem vænta mátti, miðað við þau úrslit, að það hefur orðið nokkuð tafsöm stjórnarmyndum að þessu sinni og ný ríkisstjórn er enn ekki til komin. Menn virðast því nokkuð sammála um það, að nú engu síður en í vor sé þörf þeirrar hemlunar, sem í brbl. felst. Þegar fjh.- og viðskn. ræddi þetta á fundi sínum í gær, urðu nm. ásáttir um að mæla með samþykkt frv. með þeirri breytingu, að ákvæði brbl. skyldi framlengja til 30. sept. Brtt. þar að lútandi liggur hér fyrir á þskj. 10. En í henni felast eingöngu breytingar á dagsetningum í 1., 2., 3. og 4. gr. frv. til samræmis við þetta markmið, að lögin framlengist um einn mánuð.

Ég vil geta þess, að tveir nm., þeir Karvel Pálmason og Karl G. Sigurbergsson, undirrituðu þetta nál. með fyrirvara.