19.12.1974
Neðri deild: 30. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Pétur Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil fyrst vegna ummæla, sem komu fram frá hv. 2. þm. Austurl. í ræðu hans hér áðan, mótmæla algerlega því að reynt hafi verið á nokkurn hátt að tefja fyrir afgreiðslu þessa máls. Þegar málíð kom til okkar í n. eftir 1. umr. hér í Nd. voru gefnir 8–9 dagar fyrir þá sem beðnir voru um umsagnir um málið eða til 10. des. Þegar við hófum fund í n. þann 11., að mig minnir, hafði aðeins ein umsögn borist, en alveg frá þeim degi og fram á daginn í gær, þegar nál. var skilað, voru nær stöðugir fundir í sjútvn. Nd. og oft sameiginlega með sjútvn. Ed. þannig að það fær ekki staðist. (Gripið fram í.) Það var í eitt skipti sem hv. þm., sem grípur fram í, mætti.

Það er aðeins eitt atriði sem ég vildi aðeins koma inn á í sambandi við röksemdarfærslu þeirra sem hér hafa rætt um hina illu meðferð á sjómönnum, og vissulega skal ég taka undir það að þetta er ákaflega slæm leið sem þarf að fara að manni finnst á nokkurra ára fresti til þess að bjarga þessum atvinnuvegi frá því að detta upp fyrir. Það er hárrétt, ég tek undir það heils hugar. Sýnist sumum að það mætti kannske fara að hrista frekar upp í ekki aðeins rekstri og rekstrarafkomu þessarar atvinnugreinar, heldur og einu og öðru sem við erum hér að leggja á, ekki sjómenn eina, heldur útveginn í heild og þá um leið þjóðina. Við þurfum að hrista þar upp í ýmsum hlutum og við skulum bara horfa á einn lið sem við erum að samþykkja núna sem er t.d. tryggingasjóðurinn. Við ráðum að sjálfsögðu ekki við olíukostnaðinn, og það þýðir ekkert fyrir okkur annað en horfast í augu við þá staðreynd að þetta er vandamál sem þjóðin og þá sérstaklega kannske atvinnuvegurinn, sem einn getur staðið undir þessu, verður að taka á sig og bera. Við getum rifist um það óendanlega hvernig skiptingin eigi að vera, en það er enginn vafi á því að þetta álag verður að koma á atvinnuveginn sjálfan. En það er ákaflega eftirtektarvert að þeir, sem nú mótmæla mest og hæst úr stéttum þeirra sem að sjómennsku vinna, mótmæltu ekki með einu einasta orði fyrri hluta ársins. En ef við skiptum dæmi þessa árs á milli tveggja sjútvrh., þá var fyrrv. ráðh. búinn að festa fiskverð í 7 mánuði, en það er þó ekki ætlað með lögum núv. sjútvrh. að festa það nema í 5 mánuði, og þar sem fyrrv. ráðh. bannaði að fiskverð hækkaði, er þó ákveðið að hækka það nú um 11%. Auk þess er hér um ákaflega mikinn misskilning að ræða. Það má auðvitað finna út, að það verði lækkun í krónutölu miðað við óbreyttan afla, en hins vegar held ég að menn ættu að gera sér ljósa grein fyrir því að það þarf líka færri kg nú til þess að ná sama verðmæti.