19.12.1974
Neðri deild: 30. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Frsm. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar leiðrétta það hjá hv. 8. þm. Reykv., sem fram kom í framsöguræðu hans áðan, þar sem hann sagði, að að áliti meiri hl. sjútvn. stæðu 6 fulltrúar n. Þetta er ekki rétt. Undir nál. skrifa ekki 6 fulltrúar, heldur 5, þeir Pétur Sigurðsson, Sverrir Hermannsson, Tómas Árnason, Garðar Sigurðsson og Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir. 6. fulltrúinn í sjútvn. Nd., hv. þm. Guðlaugur Gíslason, skrifar ekki undir þetta álit og stendur því væntanlega ekki að því með meiri hl.

Ég hef flutt á þskj. 192 tvær brtt., sem ég mun víkja að nánar á eftir. En þau rök hafa m.a. verið færð fram fyrir þessu frv., að nauðsynlegt sé að unnt verði að koma við verndun á stofnum rækju og skelfisks til þess að komið verði í veg fyrir ofveiði. Ég vil henda á að sjútvrn. hefur nú þegar slíkar heimildir samkv. lögum, því að veiðar á þessum afurðum eru háðar sérstökum leyfum rn. og eru nú þegar í gildi ákveðnar reglur til takmörkunar bæði á afla og sókn. Þurfi frekari takmörkunar við til þess að auka á verndun í þessu skyni hefur sjútvrn. nú þegar lögum samkv. alla möguleika til að koma slíkum takmörkunum við, og bætir frv. þetta á engan hátt aðstöðu rn. til þess að sporna við hugsanlegri ofveiði á rækju og skelfiski. Tilgangur frv. er því ekki að auka á verndunarsjónarmið, heldur fyrst og fremst sá að samræma veiðiheimildirnar og vinnslu afurðanna í landi. Ég endurtek það, að hér er ekki um verndunarsjónarmið að ræða, heldur skipulagningu á vinnslu aflans með það fyrir augum að fjárfestingin í rækju- og skelfiskvinnslustöðvum verði sem hagkvæmust, bæði hvað arðsemissjónarmið varðar og frá sjónarmiði þeirra byggðarlaga þar sem vinnsla á rækju og skelfiski er mikilvægur þáttur í atvinnulífi. Auðvitað getur ekki verið um verndunarsjónarmið að ræða á fiskstofnum, eftir að búið er að setja fiskinn á land. Það er ekki um það að ræða í þessu frv., vænti ég, að vernda dauðan fisk, heldur þann sem í sjónum lifir. Frv. þetta er fyrst og fremst flutt til þess að samræma veiðar og vinnslu.

Ég tek undir það meginsjónarmið sem í frv. felst. Ég tel eðlilegt að skipulega verði unnið að fjárfestingu í rækju- og skelfiskvinnslustöðvum með almennum reglum er þó tryggi jafnræði hagsmunaaðila innbyrðis eftir því sem við verður komið. Ég tel hins vegar, að frv., eins og það er, tryggi ekki eðlilega framkvæmd slíkrar skipulagningar, og bendi m.a. á í því sambandi að ákaflega varasamt er, að sjútvrn. fái heimild eins og þá sem um getur í 1. gr. frv., en þar er sagt að sjútvrn. geti samkv. l. þessum sett almennar svæðisbundnar reglur er stuðli að samræmingu milli veiðiheimilda samkv. sérstökum leyfum rn. til rækju- og skelfiskveiða og vinnslugetu þessara greina fiskiðnaðarins, m.a. með skiptingu afla milli vinnslustöðva. Þetta tel ég stórháskalegt fordæmi því að þessa grein mætti túlka á þann veg, ef samþ. yrði, að sjútvrn. teldi sig hafa heimild til að skipa bátum á einstökum veiðisvæðum fyrir um það hjá hvaða vinnslustöð þeir ættu að landa. Ég vil vekja athygli á því að mjög sambærileg! ákvæði hefur verið í gildi hvað varðar löndun á loðnu. Þar hefur loðnunefnd getað sett loðnuveiðiskipum fyrirmæli um hvert þau eigi að fara til þess að landa afla sínum. Nú er það svo, eins og menn vita, að mjög viða hefur borið við upp á síðkastið að á þeim stað, sem loðnuskip hefur verið sent til með afla sinn, hefur það ekki getað fengið uppgert, þ.e.a.s. vinnslustöðvarnar standa mjög misjafnlega traustum fótum. Sumar þeirra hafa ekki getað gert upp við bátana sem hafa landað hjá þeim, þó hefur loðnunefnd skipað bátunum að landa hjá þessum vinnslustöðvum, og spurningin er: Hver á að tryggja sjómönnunum og útgerðarmönnunum að þeir fái greiðslu fyrir slíkan afla? Mér er kunnugt um að sama máli gegnir um hinar einstöku vinnslustöðvar, sérstaklega varðandi rækjuna. Þær eru misjafnlega fjársterkar, þær hafa misjafnlega staðið við sina samninga við þá sem til þeirra hafa selt, og hafa komið upp vandræði um einstakar vinnslustöðvar, þannig að þær skulda nú þegar einstökum bátum jafnvel hundruð þús. kr. Og spurningin er þá: Eigum við að heimila rn. að gefa fiskiskipstjórunum á rækjubátunum fyrirmæli um það, hvar þeir eigi að landa afla sínum, sem jafnvel gætu orðið á þann veg að þeim yrði skipað að selja afla sinn til vinnslustöðva sem síðar gætu ekki greitt fyrir þann afla? Ég tel mjög óeðlilegt að 1. gr. sé orðuð á þann hátt að sjútvrn. fái þar heimild sem hægt er að túlka á þá lund að það hafi leyfi til þess að fyrirskipa bátunum hvert þeir eigi að sigla með afla sinn, til hvaða vinnslustöðva þeir eigi að selja, án tillits til þess hvort önnur vinnslustöð kunni að bjóða betri kjör, annað hvort varðandi verð, sem vel er hugsanlegt, eða hvað varðar skil á gjaldi fyrir seldan afla.

Ég flyt á þskj. 192 brtt. varðandi 1. gr. þar sem ég reyni að koma í veg fyrir að þessi mistök geti átt sér stað. Ég legg til að 1. gr. orðist óbreytt fram að orðunum „m. a. með skiptingu afla milli vinnslustöðva“ o.s.frv., þau orð falli niður og gr. orðist sem sagt svo:

Sjútvrn. getur samkv. l. þessum sett almennar og svæðisbundnar reglur, er stuðli að samræmingu milli veiðiheimilda samkv. sérstökum leyfum rn. til rækju- og skelfiskveiða og vinnslugetu þessara greina fiskiðnaðarins.“

Niður falli sem sagt ákvæðið um að sjútvrn. geti skipt afla til vinnslustöðva o.s.frv.

Þá tel ég það einnig mjög óæskilegt og óeðlilegt, sem fram kemur í 2. gr. frv., að sjútvrn. geti upp á eindæmi synjað eða heimilað byggingu nýrra vinnslustöðva eða aukningu á afkastagetu þeirra sem fyrir eru án þess að byggja í því efni á umsögnum aðila, svo sem opinberra fjárfestingarlánasjóða, sem meta eiga hagkvæmni og arðsemi slíkra framkvæmda, Hafrannsóknastofnunarinnar, sem fylgjast á með veiðum á svæðunum og segja til um hvort um ofveiði sé að ræða eða ekki, og hagsmunaaðila í sjávarútvegi, svo sem Fiskifélags Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna. Það gefur auðvitað auga leið að ef á að setja takmarkanir á veiðar og vinnslu, þá verður fyrst að liggja fyrir umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar um hvort hætta sé á því að um ofveiði sé að ræða. Ef á að framkvæma áætlunarbúskap eða skipulagningu í atvinnuvegi verður sá, sem leyfisveitingarnar á að hafa með höndum, að sjálfsögðu að hafa mjög náið og traust samstarf við þá fjárfestingarlánasjóði sem eiga að lána til uppbyggingar fyrirtækja. Ef það er ekki gert, þá er auðvitað ekki um áætlunarbúskap eða skipulagningu að ræða, heldur einberar leyfisveitingar pólitísks ráðh. sem hann hefur þá leyfi til þess að framkvæma án þess að hafa samráð við einn eða neinn.

Ég vil taka það sérstaklega fram í þessu sambandi, að sjútvn. bárust umsagnir þriggja aðila: Framkvæmdastofnunar ríkisins, Landssambands ísl. útvegsmanna og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Allir þessir umsagnaraðilar ýmist leggja til að frv. verði breytt á þann veg sem ég hef flutt brtt. um eða þá að það verði fellt í núverandi mynd þess.

Ég vil fyrst vitna í umsögn Framkvæmdastofnunar ríkisins frá 2. des. 1974, með leyfi forseta. Þar segir m. a. á þann veg, að Framkvæmdastofnunin hafi áður gefið umsagnir um frv. Steingríms Hermannssonar, hv. þm., um sama efni. Vísar Framkvæmdastofnunin í fyrri umsögn sina hvað varðar þau atriði, sem eru efnislega samhljóða í þessum tveimur frv. Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Þó hefur á orðið sú breyting að ekki er nú gert ráð fyrir sérstakri n. sem í eigi sæti fulltrúar tilnefndir af Fiskveiðasjóði og Framkvæmdastofnun þ.e.a.s. til að annast þessar leyfisveitingar. Þessir aðilar eiga af opinberri hálfu mikið undir því fjárhagslega að uppbygging sjávarútvegsins sé traust, og þeir framkvæma athuganir og áætlunargerðir á þessum efnum, m. a. byggðaáætlanir, sem óhjákvæmilega verður að hafa hliðsjón af. Miðað við fyrri starfshætti er engin trygging fyrir því“, — ég endurtek: „er engin trygging fyrir því að sjútvrn. hafi samráð við þessa aðila um veitingu leyfa nema því sé gert að skyldu að leita umsagnar þeirra í einhverju formi. Er lagt til að þannig verði frá málunum gengið.“

Þetta er umsögn Framkvæmdastofnunar ríkisins sem telur ástæðu til þess að benda á það að miðað víð fyrri starfshætti sé engin trygging fyrir því að sjútvrn. hafi samráð við aðila, sem eiga að fjalla um fjárfestingarmál í veiðum og vinnslu sjávarafurða, um veitingu leyfa nema því sé gert að skyldu að leita umsagnar þeirra. Leggur Framkvæmdastofnun ríkisins til að þannig verði frá málunum gengið. Þannig legg ég einnig til að frá málunum verði gengið, vegna þess að á síðari brtt. minni á þskj. 192 legg ég til að 2. gr. í frv. umorðist og orðist svo, með leyfi forseta:

„Í þeim greinum veiða, sem háðar eru sérstökum leyfum samkv. 1. gr., skal leita leyfis sjútvrn. til þess að koma á fót vinnslustöðvum eða til aukningar á afkastagetu þeirra sem fyrir eru.“ Þessi setning er óbreytt. Síðan kemur breytingin, sem ég legg til að verði gerð á 2. gr.: „Við slíkar leyfisveitingar skal rn. styðjast við umsagnir Hafrannsóknastofnunarinnar, Framkvæmdastofnunar ríkisins, Fiskveiðasjóðs, Fiskifélags Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna.“ Síðustu setningu legg ég einnig til að verði breytt og hún orðist svo: „Opinberum fjárfestingarlánasjóðum skal tilkynnt um afgreiðslu rn. á umsóknum um leyfisveitingar samkv. þessari gr.

Í frv. er aðeins gert ráð fyrir því að sjútvrn. tilkynni opinberum fjárfestingarlánasjóðum um það ef það synjar um slíkar leyfisveitingar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því, að sjútvrn. láti nokkuð frá sér heyra til opinberra fjárfestingarlánasjóða ef það samþykkir slíkar leyfisveitingar. Þetta tel ég mjög óeðlilegt vegna þess að ég er á þeirri skoðun að opinberir fjárfestingarlánasjóðir þurfi ekki siður að fá að vita um það þegar sjútvrn. ákveður að heimila slíka fjárfestingu heldur en þegar það ákveður að heimila hana ekki. Því legg ég til að gr. sé breytt á þennan veg.

Það er rétt að víkja nokkrum orðum að þeim tveimur umsögnum í viðbót sem n. hafa borist á meðan hún hélt fundi um þetta mál. Önnur umsögnin er frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, dags. 13. des. 1974. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Á fundi í stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna, sem haldinn var í gær, var frv. þetta til umr.“ — þ.e.a.s. frv. það til l. um samræmda vinnslu sjávarafla o.s.frv. sem hér er til umr. nú. „Á fundinum kom fram mikil gagnrýni á frv. og var stjórnin sammála um, að frv. gengi of langt í því að takmarka atvinnufrelsi og ákvörðunartöku einstaklinga í sjávarútvegi, og lýsir sig því mótfallna frv. í þeirri mynd sem það er í nú.“

Þá barst n. einnig umsögn frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, dags. 9. des. 1974. Þar segir svo — með leyfi forseta — um þetta mál:

„Vér höfum kynnt oss efni frv. ásamt aths. við það. Niðurstaða vor er, að verði umrætt frv. samþ. sem lög frá Alþ. sé skapað óæskilegt fordæmi er geti skert mjög athafnafrelsi manna við fiskvinnslu í framtíðinni. Með tilliti til þessa getum vér ekki mælt með umræddu frv. og væntum þess að það verði annaðhvort dregið til baka eða fellt af hv. Alþ.“

Þeir umsagnaraðilar, sem sent hafa sjútvn. erindi um þetta mál, hafa sem sagt annaðhvort lagt til að frv. verði hreinlega fellt í þeirri mynd sem það liggur fyrir hér, eða því verði breytt í þá átt, sem ég geri ráð fyrir í brtt. mínum.

Ég vil ekki að svo stöddu taka undir það álit sem fram kemur í umsögn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Landssambands ísl. útvegsmanna, að leggja til að frv. verði fellt. Ég tel, að í meginatriðum sé stefnt í rétta átt með frv., að taka upp áætlunarbúskap, taka upp skipulagningu á veiðum og vinnslu. Hins vegar vil ég reyna að leitast við að frv. verði lagfært þannig af þessari hv. d. og raunar báðum deildum þingsins að það sé möguleiki á því að það nái tilgangi sinum, þ.e.a.s. að aðgerðir hjá annars vegar sjútvrn. sem leyfin á að veita, hins vegar hjá Hafrannsóknastofnuninni, sem á að segja til um hvort hætta er á ofveiði eða ekki, og varðandi fjárfestingarlánasjóðina sem eiga að meta arðsemi fjárfestingarinnar og framkvæmdanna, svo og hjá aðilum eins og LÍÚ og Fiskifélagi Íslands, sem hafa hagsmuna að gæta, sé reynt að samræma, þannig að sjútvrn. sé gert að skyldu að leita eftir umsögnum þeirra áður en það afgreiðir slík leyfi frá sér.

Ég tel líka rétt og vil ljúka máli mínu með því, að verði frv. þetta samþ. óbreytt, þá nái það alls ekki tilgangi sinum þar eð afkoma vinnslustöðva fyrir rækju og skelfisk byggist að sjálfsögðu á nákvæmlega sömu forsendum og afkoma annarra vinnslustöðva í sjávarútvegi, þ.e.a.s. á aflabrögðum, hagkvæmni í rekstri hvers fyrirtækis og á markaðsástandi erlendis.