19.12.1974
Efri deild: 33. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Þetta mál ber að í raun og veru, eins og hæstv. ráðh. drap á, á síðustu mínútum þingsins og því er ekkert svigrúm til að fjalla um það eins ítarlega og menn hefðu annars gjarnan viljað, auk þess sem við vorum kallaðir til fundar í gærkvöldi úr stjórnarráðinu ásamt nm. í hv. sjútvn. Nd. og málið rætt efnislega og um framgang þess, og við féllumst á að vera ekki með málaþras og miklar vífilengjur hér til þess að tryggja framgang málsins sem er nauðsyn úr því sem komið er. En ég tók þá strax fram að ef vissar yfirlýsingar kæmu hér fram af hálfu hæstv. ráðh. mundi ég virða þá beiðni, sem fram var borin, og stytta mjög mál mitt, þó að ég kæmist ekki hjá því að gagnrýna vissa þætti í frv. sem slíku, og er þar um að ræða algeran efniságreining.

Nú höfum við heyrt ræðu hæstv. ráðh. og ég skil orð hans afdráttarlaust þannig, enda reiknaði ég með því að svo mundi vera, miðað við þau kynni sem ég hafði af honum, að hann væri því hlynntur að málið yrði ekki eingöngu í hans rn., eins og hann sagði, það yrði mál allrar ríkisstj., og gaf í skyn, sem þó mætti vera ákveðnara, að möguleiki væri að hafa samráð við sjútvn. Byggt á því að ég skilji þetta rétt mun ég ekki hafa þessa ræðu langa.

Ég vil þakka fyrir að þetta er gert, vegna þess að ég tel hér um brýnt mál að ræða, bæði fyrir hann persónulega og fyrir þá aðila sem hlut eiga að máli. Þetta er alveg sérstakt, að setja þá kröfu fram að svona stórum upphæðum sé ráðstafað af einu rn. og utan við svigrúm Alþingis. Það er alveg sérstakt og ekki eðlilegt. Það hafa verið margar gengisfellingar áður hér á Íslandi og jafnan verið höfð viðtæk samráð um ráðstöfun á gengishagnaði og hafa allir aðilar talið það rökrétt og eðlilegt, og því verður að ganga út frá því að treysta megi þessari yfirlýsingu í hvívetna, að slíkt verði gert. Það er aðeins með eftirstöðvarnar, sem kom ekki beint fram að væri gripið til á breiðum grundvelli, og mætti þó hugsa sér, eins og drepið var á í ræðu hans undir b-lið, að líta yrði á sérstök byggðarlög þar sem smábátafloti hefði mikið gildi, það ætti að líta á þau byggðarlög sérstaklega og athuga úrlausn fyrir þau, þó að sú úrlausn gæti ekki komið þegar í stað.

Þegar hæstv. ráðh. flutti þetta mál, sem er 4. mál á Alþ., í haust, þá sagði hann í ræðu sinni orðrétt, með leyfi forseta:

„Áður en ég lýk máli mínu vil ég nefna það, að, með þessum brbl. er hvergi breytt hlutaskiptum sjómanna. En því er ekki að neita að allir þeir, sem vinna að sjávarútvegi, allt frá því að fiskur er dreginn úr sjó og þangað til hann er fluttur að landi, taka þátt í því að bjarga útgerðinni.“

Það er nú svo að ekki sé breytt hlutaskiptum sjómanna. Ekki er beint ráðist á samningsréttinn — og þó. í samningum segir ákveðið hvernig fara skuli um framlag í vátryggingaiðgjöld áður en gert er upp og einnig um Stofnfjársjóð. En báðum þessum liðum er breytt, og það er aðeins að deila um keisarans skegg að halda því fram að kjarasamningum sjómanna sé ekki breytt. Vitanlega er þeim breytt, og það kemur líka fram að það skiptir mörgum hundruðum þús. kr., sú breyting sem á sér stað, ef miðað er við sæmilega gott úthald, ég tala nú ekki um togaraúthald, sem hefur skilað mun hærri tekjum en almennt er á bátaflotanum á yfirstandandi ári þrátt fyrir þeirra mikla taprekstur. En það er viðurkennt af öllum, að staða togaraflotans sé mjög slæm.

Ég vil aðeins rifja upp að fyrir kosningarnar var því mjög dreift út af hendi Sjálfstfl. að staða togaraútgerðarinnar væri nú afar slæm og deilt á þáv. vinstri stjórn, og voru notuð til þess ýmis tækifæri sem buðust. Þ. á m. var tækifærið að tala á Sjómannadeginum. Þá var dreginn fram einn af þm. Sjálfstfl., hann talaði, og með þversíðufyrirsögn í Morgunblaðinu er sagt frá ræðu hans og er ekki verið að draga neitt úr því. Þar stendur í þversíðufyrirsögn: „Rekstrargrundvöllur togara verður ekki bættur með því að rýra kjör sjómanna.“ Þetta var rétt fyrir kosningarnar. Auðvitað mundi enginn maður eftir því eftir kosningarnar þegar var búið að mynda ríkisstj. og þurfti að takast á við vandann. Þá voru þessi orð gleymd og grafin. Það undarlega skeður að allar þessar ráðstafanir eru innbyrðis tilfærsla á milli sjómannastéttarinnar yfir til atvinnurekstrarins, svo undarlega vill til, aðeins sú litla breyting sem kemur fram í tveimur þáttum eftir meðferð Nd., annars vegar 15 millj. og hins vegar 11 millj. eru færðar í þágu sjómanna. Það er allt og sumt. En viðurkennt er að við erum að færa hér á milli upphæðir sem verða nálægt tveim milljörðum eða jafnvel meira, eftir því hvernig verðlag hreyfist, svo að vel er nú spýtt í lófa hér og sótt á þau mið sem síst skyldi vera.

Þetta undrar mig mjög, að menn skuli reyna að haga sér svo, á sama tíma og það er viðurkennt af bátaflotanum að það er sérstaklega erfitt að manna mikinn hluta bátaflotans, og kemur þar tvennt til: Afli hefur minnkað undanfarið og aflavon er lítil fram undan, og hafa fiskifræðingar spáð því að þorskafli muni reynast allt að 100 þús. tonnum minni á komandi ári en hann var fyrir þremur árum. Það er auðvitað afar alvarlegt mál ef svo er. En það sést best á því hvað Sjálfstfl. með sitt sterka málgagn er forhertur ef á þarf að halda, að ekkert er til sparað að slá upp slíkum yfirlýsingum þegar á þarf að halda, en grafa þær eins djúpt og unnt er þegar að því kemur að takast á við vandann.

Það er einnig annað ákvæði í þessum lögum sem hefur vakið óskipta athygli sjómanna, og það er það ákvæði að binda verðhækkunina, sem framkvæmd var í haust, því skilyrði að verð megi ekki hækka meira en 11%. Þetta er alveg einstakt ákvæði. Og því furðulegra er þetta ákvæði þegar það er staðreynd að fiskverð hafði ekkert hækkað allt árið, en kaup hafði hækkað verulega, eins og hæstv. ráðh. drap á. En svo ömurlega taldi hann stöðu fiskvinnslu að ekki væri hægt að hreyfa þetta með nokkru móti hærra. Ég dreg það í efa og margir aðrir, vegna þess að þar sem skynsamlega hefur verið haldið á hlutunum og aðgæslu gætt í hvívetna, t.d. um rekstur og fyrst og fremst á sameignargrundvelli, þar hefur afkoman verið góð. Hins vegar hefur afkoman viða verið erfið þar sem einstaklingar hafa átt sín frystihús aleinir, bæði fjárfest um of og einnig ráðstafað sínum fyrri ára ágóða sem af frystihúsi nam mörgum hundruðum millj., sem bæði kom fram í skattaálögum og viðurkennt af öðrum aðilum, eins og efnahagsstofnuninni, þá er hann skyndilega fjaraður út á andartaki. Þetta er ekki vegna ytri aðstæðna, þetta er vegna eigin aðgerða margra þessara manna. Þess vegna á þetta ekkert skylt við þann vanda, sem hefur komið upp hjá bátaflotanum og togaraflotanum. Það, sem er mjög erfitt fyrir marga af þessum mönnum, er að Fiskveiðasjóður hefur gersamlega brugðist að útvega eðlilegt stofnlán fyrir mörg þessara fyrirtækja, og frá því í vetur afgreiddi hann ekki neitt lán þangað til nú fyrir skömmu, að það er verið að vinna í lánafyrirgreiðslu fyrir tugi fyrirtækja úti um allt land. Aðeins þessi eini þáttur hefur kostað fjölda frystihúsa ósegjanlega erfiðleika og óþarfa vandræði sem ekki verða beint mæld í krónum fyrirvaralaust. Þrátt fyrir loforð hæstv. forsrh. hér á sumarþinginu eftir fsp. frá mér skeði ekkert í þessum lánsmálum fyrr en nú einmitt þessa dagana, svo að þau rök að þeir erfiðleikar, sem frystihúsin eru í, séu eingöngu verðfalli að kenna fá ekki staðist með nokkru móti. Og hið opinbera hefur gengið á eftir með ýmsu móti að setja stórar kröfur við frystihús og umhverfi, án þess að ríkisvaldið tryggði á sama tíma þessum fyrirtækjum eðlileg stofnlán. Þau hafa mörg hver neyðst þess vegna til að hirða, ef svo má segja, eðlilegt rekstrarfé í fjárfestingu og skapað með því móti mikil greiðsluvandræði, bæði til sjómanna og annarra viðskiptaaðila sem þau þurfa eðlilega að hafa viðskipti við.

Herra forseti. Er það svo, að hæstv. ráðh. geti ekki verið viðlátinn nema rétt við framsögu? Ef d. er sýnd þessi vanvirða á öllum sviðum sé ég ekki ástæðu til að standa við loforð mitt og mun því halda hér áfram í ótakmarkaðan tíma, ég hef nóg efni í það. Svo atvikaðist nú að aðeins einn stjórnarsinni er í d., þ.e. forsetinn sjálfur. Allir aðrir eru farnir af vettvangi, og er þá varla von að stjórnarandstaðan haldi áfram fundarstörfum, þó að samkomulag hafi verið gert að beiðni hæstv. forsrh. Ég hef nú setið hér átta þing, en ég hef aldrei kynnst öðru eins fyrr — aldrei nokkurn tíma.

Ég sé að hæstv. sjútvrh. er genginn í salinn. Ég var rétt að enda við að gera þá aths., hæstv. sjútvrh., að aðeins einn stjórnarsinni væri í salnum og myndi ég ekki á mínum stutta þingtíma eftir öðru eins þegar um stórmál væri að ræða. (Sjútvrh.: Ég get ekki verið í báðum d. samtímis, ég er bara ein persóna.) Þetta mun vera rétt athugað, að enginn maður sé á tveimur stólum samtímis. Hins vegar var gert samkomulag um að við værum ekki með óþarfa málaþras í stjórnarandstöðunni, og það var byggt á því að bæði framsaga mín og annarra yrði stutt, sem ég hef lofað og mun standa við, en þá auðvitað í trausti þess að einhver úr stjórnarliðinu sæti hér í d. því annars höfum við sama rétt að hætta og ganga út. Ef ekki þykir ástæða til að ræða málið eða hlusta á einn eða annan veg, þá sé ég ekki neina ástæðu til þess að við í stjórnarandstöðinni höldum hér fundi mögulegum — ekki með nokkru móti, og er þá brostin forsenda fyrir því að fara að beiðni hæstv. forsrh. og sjútvrh. að flýta fyrir málinu. En ég skil mætavel að það ber margt að núna á sama tíma og hæstv. ráðh. þurfi að hverfa úr d. um stund, enda gerði ég ekki aths. við það þegar hann fór, heldur hve lengi það dróst að hann kæmi til baka og enginn stjórnarsinni væri í d. nema hæstv. forseti d. (Gripið fram í: Og ritari.) Fyrirgefið, það var einn inni viðstaddur þá, En ég skal ekki hafa þetta mál svo langt að það tefji fyrir málinu.

Málið er þannig vaxið; að það er búið að velkjast hér fyrir Alþ. í margar vikur og í hugsanlegu samráði við sjútvn. þessarar hv. d., sem einu sinni var lofað, — það brast af einhverjum ástæðum sem ég skal ekki vera með neinar sérstakar vangaveltur um, — en það sýnir að við í stjórnarandstöðu erum ekki mikils metnir á einn eða annan veg, eða ég tek það þannig. Og það er út af fyrir sig hrein smáu. En þar sem margir menn, tugir manna um allt land hafa beðið eftir því að fá þótt ekki væri nema lítiIs háttar fyrirgreiðslu, sérstaklega bátarnir, út úr þessu, viljum við gera allt sem hægt er og í okkar valdi stendur til þess að flýta fyrir málinu þótt við séum ekki efnislega samþykkir því.

Hæstv. ráðh. kom eðlilega viða við í sinni framsöguræðu fyrir málinu, drap á olíusjóðinn og drap á vátryggingasjóðinn. Það getur vel verið að þetta sé orðið svona stórt mál með vátryggingasjóðinn, en þetta er gamalt vandamál kringum vátryggingasjóðinn sem hann þekkir mætavel af fyrri störfum í þágu Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum, en hann hefur starfað þar um margra ára bil sem stjórnarformaður. Ég tel að þetta vandamál sé orðið það stórt, ef það fer að nálgast mikið á annan milljarð, að sérstök grg. þurfi að koma fyrir hv. Alþ. um þetta mál og hvernig útlitið er, því að það verður með engu móti þolað lengur, eins og komið hefur í ljós viða um land, að sérstakir skussar séu verðlaunaðir með greiðslum frá hendi annarra manna sem fara vel með sina hluti. Þetta er allt annað en þótt við viljum leggja í verðjöfnunarsjóð fyrir olíu og ýmislegt annað, — það er allt annað sjónarmið frá mínum bæjardyrum séð að verðlauna þá, sem illa fara með sín tæki, með því að veita þeim hjálp í hvaða formi sem vera skal í gegnum vátryggingakerfið. En það er staðreynd að veruleg misnotkun á sér stað á þeim vettvangi. Séu þessar tölur komnar upp í 1.3–1.4 milljarða á næsta ári; er þetta orðið svo stórt og alvarlegt mál, að það er útilokað annað en Alþ. hlýtur að láta þessa þróun til sín taka.

Um ráðstöfun á þessu fé má sjálfsagt endalaust deila. En ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir að þessar 250 millj., sem mikið hefur verið fjallað um í röðum útvegsmanna, hafa þó fengið þá myndbreytingu að að hluta er tekið tillit til úthaldstíma og að hluta eftir reglum Aflatryggingasjóðs, og finnst mér ekki ósanngjarnt að þetta, eins og hæstv. ráð drap á, yrði 64% og 40%. Ég tel að bæði sjónarmiðin eigi rétt á sér og heilbrigt að skipa því með þessu móti.

Ég sagði í upphafi að ég fagnaði yfirlýsingu hæstv. ráðh. um að 400 millj. yrði ráðstafað með samþykki allrar hæstv. ríkisstj., og einnig legg ég á það áherslu að nokkur samráð séu höfð við sjávarútvegsnefndir, eftir því sem tök eru á. Þetta eru það stórar upphæðir, að það er ekki verjandi annað en um þær náist viðtækt samkomulag. Og eðlilega ættu samtök þeirra aðila, sem fá að njóta þessa fjár og raunverulega standa að því, eitthvað um málið að fjalla einnig.

Þá er eftir afgangur sem kann að reynast frá 70–100 millj., eftir því hvernig tekst til um sölu afurðanna, og væri þá ekki um að sakast eða aths. við að gera, þó að hæstv. ráðh. eða hans rn. hefði það til nánari hjálpar vissum svæðum og vissum bátastærðum sem erfitt er að koma auga á hvað þurfa fyrr en dæmið allt liggur ljósara fyrir, og mun ég gera sérstaka aths. varðandi þá tölu. Ég vil aðeins ítreka það að víss svæði á landinu eru verulega háð smábátaflota og þar starfa sjómenn allt árið um kring sem róa á sínum fleytum og hafa ekki verið þiggjendur né kvaðavaldandi aðilar fyrir sjávarútveginn né þjóðfélagið í heild, heldur yfirleitt veitendur, svo að það mætti muna eftir þeim nú við lokauppgjör í þessu dæmi.

Afkoma togaranna er sögð afar slæm. Ég hef áður lýst því hér yfir og lýsti því yfir í ræðu um fjárlagafrv. í fyrra að það væri sérstakt vandamál sem þyrfti að fá nákvæma skýrslu um. Ég vil skora á hæstv. sjútvrh. að birta Alþ., eins fljótt og unnt er þegar það kemur saman á næsta ári, skýrslu um stöðu togaraflotans á landinu. Ég hef reyndar lagt fram þáltill. um það efni, að gera athuganir á því hvað raunverulega kostar að veiða hvert fiskkg. hér við land eftir mismunandi skipastærðum og mismunandi svæðum, til þess að gera okkur betur grein fyrir því hvernig við eigum að byggja upp okkar fiskveiðiflota. Landið er það misjafnlega sett eða öll ströndin gagnvart fiskimiðum hringinn í kringum landið, að eðlilegt er að floti okkar sé, eins og raun ber vitni um, mjög misjafn. En engu að síður verðum víð að gera okkur grein fyrir hvað það kostar að fiska hvert veitt kg á þessi nýju og dýru skip, þegar mjög mikil ásókn er í að kaupa skipin, vegna þess hversu lánakerfið er hagkvæmt við þessa stóru togara. Þegar gengisfellingar eru gerðar til þess að bjarga þessum aðilum verðum við að fá að vita hvernig staða þeirra er. Ég tel það alveg óhjákvæmilegt. Og þessi skip eru keypt með svo miklu erlendu láni að ég trúi því ekki, eins og verðbólga er hér innanlands, að þessar ráðstafanir dugi þeim til lengdar, þær dugi þeim því miður ekki til lengdar. Ég hef haldið fram að við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, vegna þess að hinn mikli og vaxandi kostnaður við gerð þessara skipa er það mikill, að aflaaukning og tekjumöguleikar eru ekki í nægilegu hlutfalli á móti þeim kostnaði sem þessi skip taka til sín. Því hef ég haldið því fram að fyrr eða siðar yrði ríkissjóður neyddur til þess og þjóðfélagið í heild auðvitað neytt til þess að greiða niður ákveðinn hluta af stofnkostnaði, en menn yrðu hins vegar að vera ábyrgir fyrir sínum rekstri. Það fer ekkert leynt að mjög margir eigendur togara bjóða yfirmönnum og jafnvel öðrum ýmiss konar bakgreiðslur og fríðindi, en síðan er heildarreikningurinn sendur þjóðarbúinu eða innbyrðis í sjávarútveginum, eins og gert er í þessu tilfelli. Ég tel þetta óheilbrigt og óeðlilegt. Hér eiga menn að sitja við sama borð og vera ábyrgir gerða sinna.

Svo kemur að saltfiskinum. Það var treyst mjög á loðnu í vetur, og nú er treyst á saltfiskinn og mismunun gerð í útflutningsgjöldum. Þetta er ekki nýtt. En það er annað sem má minna á, og það hefur oft verið reynt hér á Íslandi í fjöldamörg ár að mismuna með útflutningsgjöldum og álögum á vissa þætti, eftir því hvernig þeir standa í augnablikinn, þegar lög eru sett. En jafnan breytist þetta, eins og hæstv. ráðh. þekkir manna best, forsendan breytist og þá hrynur sú viðmiðun eða sá grundvöllur sem þessi gjöld eru byggð á. Ég tel þetta ekki æskilegt og hef oft sagt það áður. Ég tel, að þorskurinn, hráefniskg. af honum, eigi að bera sama grunngjald, — hvort það á að vera hærra eða lægra, það má deila um það, það fer eftir nauðsyn í sameiginlega skattheimtu. En ég tel óeðlilegt að það liggi fyrir að mismuna svona. Við höfum reyndar mismunað á síldinni, við höfum áður mismunað á saltfiski, við höfum áður mismunað á freðfiski og jafnvel eftir pakkningum og ýmislegu, og þetta er eilífðarvandamál að gera þennan mismun á. Vátryggingasjóðurinn þarf lágmarkstekjur, það er alveg pottþétt og rétt. En það er mjög slæmt, að ef við leggjum upp 5 eða 10 fiska, þá beri hvert hráefniskg. mjög misjöfn gjöld eftir því hvernig verkstjóri eða eigandi fisksins ráðstafar honum, og þetta gerir allt þetta mál óeðlilegt og leiðinlegt í framkvæmd. Auk þess er staðreynd í dag, því miður, að sú verðhækkun sem kom fram á saltfiski og góð eftirspurn er nú brostin, því miður, og höfum við orðið að sæta verulegri verðlækkun og geysilegri sölutregðu svo að það er ekki séð fyrir endann á því. Samt sem áður þykir rétt, byggt á einhverju mati og forsendum, sem eru liðnar og enginn veit hvort koma aftur, — samt sem áður er byggt á þessari forsendu og gerður mismunur á útflutningsgjaldi. En það er búið að skila þessum afurðum sem seldust vel í vetur, sem var blautfiskur, og borga það og verður ekki aftur snúið með það.

Ég tók svo eftir að hæstv. ráðh. fjallaði lítils háttar um erfiðleika með saltfiskinn. Ég held að honum hljóti að vera kunnugt um það að ufsinn er svo illa settur að um hreina meðgjöf þarf að vera að ræða til þess að hann komist á markað — hreina meðgjöf. Og þannig er nú ástatt í mínu kjördæmi, á Reykjanesinu, að vissir framleiðendur þar eru í geysilegum erfiðleikum nema fá hreina meðgjöf eða eftirgjöf á gjöldum á verkaðan ufsa vegna erfiðleika í sölu og verðfalls. Það getur vel verið að það sé rétt staðhæfing út af fyrir sig að nauðsyn sé að hafa þetta og ná öllu sem hugsanlegt er í þennan vátryggingasjóð og mismuna svona í útflutningsgjöldum. En ég álít að fyrr eða síðar náist þetta ekki og það verði ekki langt í land uns við verðum að breyta þessu aftur. Síldveiðin er undanþegin að hluta núna, sem eðlilegt er, á í sérstaklegum erfiðleikum og vandræðum, og þótt ekki væri nema vegna umbúðanna, sem eru orðnar það dýrar að útflutningsgjald af tunnunni nemur orðið hundruðum kr., þá er eðlilegt að ekki sé seilst til fanga á því sviði, svo að hér er úr allmiklum vanda að ráða. En ég er viss um að sú von í saltfiskinum, sem þarna er sett fram, rætist ekki, sú tekjuöflun, því miður.

Það væri auðvitað ánægjulegt ef bæði skreið og saltfiskur gætu uppfyllt vonir manna, en sérstakt vandamál er nú komið upp í skreiðinni. Það er ekki aðeins að það er verðhrun, heldur selst hún alls ekki í bili, alls ekki. Vörusendingar, sem liggja úti á Ítalíu, veit enginn hvað verður um að sinni. Það eru þá alveg nýjar fréttir ef úr hefur ræst með verðið, og svo hart var dæmið um tíma, að hæstv. viðskrh. sá sig til neyddan eða sjútvrh., ég veit ekki hvor þeirra það var, að senda sérstakan fulltrúa til Ítalíu til að reyna að leysa úr þessum vanda. Veit ég ekki hvert erindi hann átti þangað, en hann var sendur vegna vanda við sölu á skreið. Þannig sjáum við, að forsendurnar fyrir mismunandi útflutningsgjöldum geta brostið með litlum eða engum fyrirvara. Þess vegna væri langeðlilegast að á hráefniskg. af fiskinum væri í upphafi sameiginlegt álag, svo að menn vissu nákvæmlega hvað það væri og þyrfti ekki að vera að mismuna þessu og millifæra endalaust, — það er mín persónulega skoðun.

Sjómönnum er mætt lítilsháttar eftir meðför frv. í Nd. Það gat ekki minna verið fyrst menn voru að muna eftir þeim á annað borð. En eins og ég tók fram í upphafi ræðu minnar mundi hæstv. ríkisstj. alls ekki eftir þeim og millifærði eingöngu á þeirra kostnað. Allar þessar ráðstafanir byggjast á því, að eingöngu er millifært frá þeim, svo stórar sem tölurnar annars eru, og eru það alveg sérstök vinnubrögð.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að fara miklu nánar út í vissa þætti í kringum þetta og alla þessa erfiðleika, þar sem við í stjórnarandstöðunni höfum lofað því að vera fremur stuttorðir og málið þarf að komast í höfn. En ég fellst ekki á þetta frv. eins og það er. Það er byggt á slíkri forsendu að það get ég ekki gert og allri tilhögun í kringum það. Hins vegar voru sett um þetta brbl. þegar gengið var fellt til að bjarga hlutunum. Skuldir þessara manna voru hækkaðar um 3 milljarða. Fiskveiðasjóði hefur ekki verið úthlutað nægilegu lánsfé og verður að skera niður lánsumsóknir í stórum stíl nema eitthvað óvænt sé að koma upp í því efni, og gjaldeyrisstaða okkar er mjög erfið og allt er þungt fyrir fæti, því miður. En ég verð enn einu sinni að ítreka það, að ég sé ekki neina snilldarlausn við gengisfellingar. Þegar erlendi þátturinn er svona stór í rekstri þessara skipa sé ég ekki að svona gengisfellingar bjargi við. Samkv. minni reynslu er það alls ekki. Það, sem ég hefði viljað að hefði verið gert, var e.t.v. nokkur gengisfelling til að mynda vissan gengismun, en óhjákvæmilegt var að gera það strax og hafa það undirbúið að tryggja eðlileg stofnlán hjá fjölda fyrirtækja, bæði bátaútvegsmönnum og fiskvinnslunni, til þess að tryggja eðlilegan rekstur, því að ég drap á það áðan, þegar hæstv. ráðh. var ekki viðlátinn, að tugir fyrirtækja eru búin að bíða í marga mánuði eftir eðlilegum stofnlánum og nú er verið að leysa að nokkru úr þeim vanda, en hvergi nærri nægjanlega, Margir hverjir voru neyddir út í stórkostlegar breytingar á sínum fyrirtækjum vegna aukinna krafna um hreinlæti og ytri aðbúnað, og samtímis sem þetta var gert af hálfu ríkisvaldsins var ekki séð fyrir eðlilegum stofnlánum. Aðeins þessi þáttur einn út af fyrir sig hefur skapað mikið vandamál út um allt land og fjöldi fyrirtækja er í sérstökum greiðsluerfiðleikum vegna þessara atriða, og það á ekkert skylt við það hvort reksturinn er góður eða vondur. Þetta er séraðstaða sem kom upp og að mínu viti óháð því hvort um eðlilegan rekstur hefur verið að ræða eða ekki. Hér eru skyndilega settar fram miklar kröfur, og þeim var meira að segja svo hart fylgt eftir á vissum stöðum að loka varð húsum ef ekki var gert í tæka tíð fyrir vissa daga, jafnvel þó að húsin sjálf væru ágæt, vegna þess að það vantaði einhver smáatriði sem ekki var hægt að fullnægja vegna ýmissa annarra atvika, hlutirnir voru ekki til í landinu eða þar fram eftir götunum. Samt sem áður var húsunum lokað. Ekki langt frá Reykjavík vestur um var fyrirtæki sem var búið að fjárfesta á 8, tug millj. núna í haust, en hafði fengið tæpa 2 milljónatugi í fyrirgreiðslu, og þeir voru í algerum greiðsluvandræðum og höfðu fengið viðskiptareikninga hingað og þangað um landið og leitað viða fanga og skuldað sjómönnum, skuldað þeim hráefni. Það eru svona erfiðleikar sem koma þessum mönnum gersamlega í vandræði við sinn rekstur. Þetta hefði sannarlega átt að athuga í tæka tíð og leysa úr jafnhliða því sem gengisfelling var gerð og einhliða tekið af sjómönnum.