12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

298. mál, staða félagsheimilasjóðs

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Áður en ég svara fsp. beint vil ég segja þetta:

Í fyrsta lagi vil ég minna á að fyrir fáum missirum var gert átak til þess að rétta nokkuð hag Félagsheimilasjóðs. Þrátt fyrir þetta átak er áreiðanlega full þörf á nýjum aðgerðum til að tryggja að þessi sjóður geti starfað með eðlilegum hætti. Ég vil einnig lýsa þeirri skoðun minni að ég tel fulla þörf á því að endurskoða löggjöfina um félagsheimilin, bæði með tilliti til þess að tryggja rekstur þeirra fjárhagslega og til þess að greiða fyrir því að þau geti staðið með eðlilegum hætti að sínu verkefnavali og sinnt í ríkum mæli menningarlegum viðfangsefnum. Ég held líka að það væri ástæða til þess að huga að því í löggjöf, forma það í löggjöf, sem komist hefur á í framkvæmd á ýmsum stöðum í hinum fámennari byggðarlögum, að félagsheimilastarfið og skólastarfið hefur tengst saman með ýmsum hætti. Og í þriðja lagi álit ég að það væri full þörf á því að taka til ítarlegrar meðferðar á hvern hátt haganlegast verður unnið að því að koma félagsheimilunum upp, þ.e.a.s. á hvern hátt þau verði byggð sem allra ódýrust, og þó um leið auðvitað hentug. Það er augljóst, að fyrir hin fámennari sveitarfélög er mjög miklum erfiðleikum bundið að koma þessum bráðnauðsynlegu framkvæmdum, byggingu félagsheimilanna, áleiðis.

Ég vil þá snúa mér að því að svara fsp., sem er að vísu ekki nema í þremur töluliðum, en tekur til miklu fleiri atriða, eins og kemur fram í svörunum, en 1. liður fsp. hefur verið greindur í 5 liði:

1. Hve mörg félagsheimili hafa notið framlaga úr sjóðnum frá upphafi? — Þau eru 154.

2. Hve mörg munu njóta framlaga á þessu ári? — Svarið er 60.

3. Hve mörg eru í smíðum? — 24 eru í smíðum og þar af 3 sem hafa ekki áður hlotið framlög.

4. Hve mörg eru þau félagsheimili sem fyrirhuguð er smíði á? — Svarið er 7 sem eru ófullgerð en í notkun og einhver framlög greidd, 15 fyrirhuguð en hafa ekki enn verið samþykkt svo að framkvæmdir eru ekki hafnar.

5. Hve mörg sem ekki hafa hlotið framlög? — Svarið er 3 sem framkvæmdir hófust við á þessu ári.

Þá er 2. tölul. fsp., en svarið er greint í þrjá hluta.

1. Hver er staða sjóðsins nú gagnvart félagsheimilunum? — Ógreiddar 4 millj. kr. og síðasta greiðsla innstæðna vegna bygginga frá 1.1. 1971 13.4 millj.

2. Afborganir og vextir skuldabréfa útgefinna 1.12. 1974 til lækkunar innstæðna 13.5 millj. kr.

3. Innstæður, sem myndast hafa á tímabilinu 1.1. 1971 til 1.1. 1974, 51 millj. kr. Staða sjóðsins er því 1.1. 1974 gagnvart eigendum félagsheimila 77.9 millj. kr.

Þá er einnig undir 2. lið fsp. spurt: Ef um vangoldin skylduframlög er að ræða hverju nema þau þá? Og svarið er: Til viðbótar þeim 77.9 millj. kr., sem þegar er getið, er væntanleg þátttaka í kostnaði við framkvæmdir við félagsheimilin á árinu í ár, þ.e. 1974. Þessi þátttaka er áætluð 35 millj. kr. Því eru áætluð ógreidd framlög í des. 1974 112.9 millj. kr.

Þá er 3. tölul. fsp. Þar er spurt: „Hefur sjóðurinn tekið þátt í viðhaldi og endurbótum eldri félagsheimila, og ef svo er ekki hverjir möguleikar eru þá á slíkri þátttöku?“

Svarið er þannig: Sjóðurinn hefur ekki tekið þátt í viðhaldi eldri félagsheimila eða samkomuhúsa, en hafi verið um stækkun eldri húsa að ræða hefur sjóðurinn tekið þátt í þeim kostnaði og hefur þá komið til álita þátttaka í kostnaði þeirra endurbóta hins gamla húshluta sem beinlínis hefur leitt af stækkuninni. Á starfstíma sjóðsins, þ.e.a.s. frá 1948–1974, hefur hann tekið þátt í viðbótum eða stækkunum 28 félagsheimila eða samkomuhúsa.

Þá hef ég, eftir því sem næst verður komist, svarað þessum fsp.