12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

298. mál, staða félagsheimilasjóðs

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. mjög ítarleg og góð svör við fsp. minni, sem var, eins og hann tók fram, í nokkuð mörgum líðum. Ég vil ekki síður þakka hæstv. ráðh. fyrir þau orð sem hann lét falla í upphafi um þá miklu þörf sem væri á nýjum átökum til þess að sjóðurinn geti gegnt hlutverki sínu á annan veg og betri en hann gerir greinilega í dag. Og ég vil einnig þakka hæstv. ráðh. fyrir hans góðu undirtektir við það að tekinn verði til endurskoðunar og athugunar allur rekstraraðbúnaður félagsheimilanna. Ég skoða það þá sem svo að þáltill., sem ég flutti á fyrsta þinginu sem ég sat og vísað var með mjög jákvæðri umsögn til ríkisstj., muni verða tekin upp úr skúffu hæstv. fyrrv. menntmrh., dustað af henni rykið og eitthvað raunhæft í málinu gert, því að umsögnin um till. úr n. var svo ákveðið jákvæð að ríkisstj. eða viðkomandi ráðh. hefði í raun átt að framkvæma þar eitthvað.

Ég hef vikið að því áður og þykir mér vægast sagt eftir að hafa heyrt þessar tölur, sem hér hafa verið ræddar, hafa gætt fullmikillar hlédrægni fyrir hönd þessa ágæta sjóðs af hálfu þeirra menntmrh. sem hér hafa setið á undanförnum árum og vænti þess að sama hlédrægni gildi ekki hjá hæstv. ráðh. eins og reyndar kom fram þegar í upphafi máls hans áðan. Það er sem sagt greinilegt að það, sem ég var hér fyrst og fremst að athuga með, þ.e.a.s. hvort þessi sjóður væri þess megnugur að taka þátt í erfiðu og kostnaðarsömu viðhaldi eldri húsanna, sá möguleiki er alls ekki fyrir hendi. Til þess skortir sjóðinn gjörsamlega allt afl. Skuldahalinn er miklu meiri og lengri en ég hefði vænst, miðað við t.d. þær upplýsingar sem ég hef áður fengið, þótt óbeinar væru, meira að segja hér á Alþ. Ég sé við þessa athugun að það er sennilega meiri þörf á einhverju öðru en flutningi lagabreyt. frá minni hálfu um þátttöku sjóðsins í viðhaldi félagsheimilanna. Það þarf hreinlega að efla þennan sjóð með öllum tiltækum ráðum svo að hann geti gegnt sínu upphaflega hlutverki og tekið svo hitt hlutverkið að sér siðar, þegar hann er þess megnugur.