20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

1. mál, fjárlög 1975

Sverrir Bergmann:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. flutti ég á þskj. 150 brtt. við 4. gr. fjárl. Það er liður 55.a um byggingu sjúkrahúsa o.fl. Lagði ég til að þar kæmi inn nýr töluliður í undirlið, svo hljóðandi: „Reykjavík, til hönnunar B-álmu Borgarsjúkrahússins (langlegudeild) 33 millj. kr.“ Í ræðu minni með þessari brtt. vildi ég reyna að vekja athygli hv. þm. á því vandamáli, sem hefur skapast við það að ekki er nægjanlegt rými fyrir hendi fyrir langlegusjúklinga. Í fyrsta lagi veldur það því, að fjöldi sjúklinga á í miklum erfiðleikum, m. a. vegna þess að þeir verða að dveljast í heimahúsum við ófullkomnar aðstæður, hvað svo sem líður góðum vilja. Í öðru lagi skapar þetta verulegan vanda í starfi heimilislækna. Þeir koma þessum sjúklingum ekki á sjúkrahús, þeir langlegusjúklingar, sem þar eru fyrir, taka upp rúm eðlilega og af þeim orsökum dregst oft verulega og mjög svo úr hömlu að sjúklingar komist inn á sjúkrahús til rannsókna eða aðgerða. Ég vakti athygli á því að slíkt ástand gæti fælt unga menn frá heimilislækningum og mundi þannig hindra að nokkru leyti uppbyggingu þess þáttar heilbrigðisstarfseminnar, sem verið er að keppa að í samræmi við nefnda löggjöf, sem sett var um heilbrigðismál á síðasta ári, í tíð fyrrv. ríkisstj. Í þriðja lagi dregur þessi skortur á rými fyrir langlegusjúklinga mjög úr umsvifum sjúkrahúsanna og gerir það m.a. að verkum að sá vinnukraftur, sem er einna dýrastur á sjúkrahúsunum, nýtist ekki sem skyldi. Það er skoðun mín að stórátak í þessum málum gæti fært margt í senn í miklu betra horf, og þó að slíkt átak kosti auðvitað fé í bili horfir það raunverulega til sparnaðar.

Ég hafði vænst þess að hv. fjvn. gerði brtt. mína að sinni nú við 3. umr., en svo hefur ekki orðið og er ég heldur óhress yfir því. En ég hef rætt við hv. nm. og veit að þeir hafa sýnt þessu máli vinsemd og tekið það til rækilegrar athugunar, og ég þakka þeim fyrir það sem og hlýjan hug til þessarar till. Þótt ekki dugi þetta til framkvæmda, þá er það nú svo að orðin eru til alls fyrst, svo skilningurinn og þá erum við komnir á beinu brautina fyrr en varir.

Þótt ég harmi að till. mín skyldi ekki tekin upp í brtt. hv. fjvn. nú við 3. umr., þá fagna ég því að gert er ráð fyrir fjárveitingu að upphæð 25 millj. kr. til rekstrar langlegudeildar, 60–70 rúma, á vegum ríkisspítalanna í Hátúni hér í Reykjavík. Þetta er strax spor í rétta átt og kemur að verulegu gagni. Þess er að vænta og er ástæða að vænta þess og vona að málinu verði fylgt eftir og að því unnið áfram stig af stigi og megi vænta þess við næstu fjárl. að upphæðir verði teknar inn í því skyni að auka enn rými fyrir langlegusjúklinga.

Ég vil taka það skýrt fram, að með till. minni var á enga n hátt verið að koma inn upphæð, sem leysti allan vanda Borgarsjúkrahússins, þar er í miklu fleiri horn að líta. Ég vildi eingöngu vekja athygli á þessu sérstaka vandamáli og freista þess að það fengi framgang, vegna þess að það er trú mín, það er mín skoðun og það er ríkjandi skoðun okkar, sem störfum við sjúkt fólk, að einmitt með því að auka rými fyrir langlegusjúklingana megi bæta margt í senn. Ég fagna því að á þessu er skilningur, og ég trúi því að þessi mál muni fljótt þokast í betra horf og það horf sem nauðsynlegt er.

Ég hef nú um það að velja að flytja þessa till. aftur hér við 3. umr. eða endurflytja hana ekki. Ég hef valið þann kostinn að endurflytja hana ekki nú við þessa umr. Það er ekki bara af því að ég vilji leiða menn í þá freistni að gerast kaldrifjaðir rétt fyrir jólin. Það er vegna þess að ég trúi því að þetta mál muni ná fram að ganga, þótt það taki öllu lengri tíma, og ég hygg að allir hv. þm. hafi jafnmikinn áhuga á því og ég og jafnmikinn skilning á því og ég, að heilbrigðisþjónustan sé í sem bestu horfi, og þeir vilji af einlægni leysa þennan þátt eins og aðra. Mér finnst ég vera eiginlega of ungur í þessum háu sölum til þess að stilla mönnum upp við vegg og ætlast til þess rétt fyrir jólin að þeir geri ekki það góða sem þeir vilja, ef hugsanlega hefði komið til atkvgr. Ég endurtek því till. ekki herra forseti.