21.12.1974
Sameinað þing: 30. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

Snjóflóð í Neskaupsstað

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Áður en gengið er til dagskrár verður minnst þess atburðar, sem skeði í gær í Neskaupstað.

Sá hörmulegi atburður gerðist um kl. 2 eftir hádegi í gærdag, að snjóflóð féll yfir innsta hluta Neskaupstaðar með þeim afleiðingum, að síðast þegar fréttist höfðu 9 manns látið lífið, þar af 2 konur og 2 börn, fjögurra karlmanna er saknað og eru taldar litlar líkur á því að þeir hafi lifað af. Á sjúkrahúsi eru 5 manns. Atvinnulíf bæjarins er í rúst, þar sem snjóflóðið féll á síldarverksmiðjuna, lýsisgeyma hennar og frystihúsið. Þá eyðilagðist steypustöð, bifreiðaverkstæði og bílar ásamt íbúðarhúsum og fleiru. Ekki er vitað um, að þarna hafi fallið snjóflóð áður, en um aldamótin féll snjóflóð nokkru innan við bæinn.

Íslendingar hafa lengi háð baráttu við óblíð náttúruöfl, elda, ísa og veðurofsa. Þessi atburður í Neskaupstað, snjóflóðið, er eitt hið mesta sem komið hefur hér á landi. Íslenska þjóðin er fámenn, hvert mannslíf hjá fámennri þjóð vegur mikið. Við erum fátækari í dag en í gær. Hér á margur um sárt að binda, foreldrar, börn, eiginkonur, systkini og annað venslafólk. Öllu þessu fólki vottum við einlæga samúð og dýpstu hluttekningu. Minningin um látinn vin er huggun harmi gegn. Megi góður guð halda sinni verndarhendi yfir landi og þjóð.

Ég bið hv. þm. að taka undir orð mín með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]