12.11.1974
Sameinað þing: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

1. mál, fjárlög 1975

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Við gerð frv. til fjárl. fyrir árið 1975 hefur verið lögð áhersla á þrjú meginatriði:

1. Að sporna við útþenslu ríkisbúskaparins miðað við önnur svið efnahagsstarfseminnar í landinu.

2. Að stilla opinberum framkvæmdum svo í hóf að ekki leiði til óeðlilegrar samkeppni um vinnuafl, án þess að atvinnuöryggi sé stefnt í hættu eða það komi niður á þjóðhagslega mikilvægustu framkvæmdunum.

3. Að styrkja fjárhag ríkissjóðs og stuðla jafnframt að efnahagslegu jafnvægi í víðara skilningi, en það verður eitt meginviðfangsefnið á næsta ári.

Undanfarin ár hafa ríki og sveitarfélög ráðstafað um þriðjungi þjóðartekna. Hlutur hins opinbera hefur jafnframt farið vaxandi og hefur vöxtur ríkisútgjalda að undanförnu sætt gagnrýni. Eðlilegt er því að hugað sé að verkaskiptingu milli hins opinbera og einkaaðila og athugað hvaða almenn sjónarmið liggi að baki opinberri starfsemi. Almennt má því spyrja hver sé undirstaða hennar, hver séu markmið opinberrar starfsemi og hvernig megi best ná settum markmiðum.

Opinber starfsemi byggist einkum á tvennu. Annars vegar tekur hið opinbera, ríkið og sveitarfélög, að sér þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir og þjónustu, sem annars lægi niðri að einhverju eða öllu leyti eða væri miður borgið í höndum einkaaðila. Hins vegar grípur hið opinbera inn í rás efnahagslífsins, bæði til að jafna kjör almennings og tryggja almenna velferð svo og til þess að hafa áhrif á atvinnu- og athafnastigið í hagkerfinu í heild.

Ljóst er að sú verkaskipting hins opinbera og einstaklinga, sem best þykir þjóna almannahagsmunum, er engan veginn gefin, heldur í senn háð sögulegri þróun og stjórnmálalegu mati á hverjum tíma og oft getur verið umdeilanlegt hvaða verkefni sé best komið í forsjá hins opinbera. Opinberri starfsemi þarf jafnan að haga þannig að settu marki sé náð á sem hagkvæmastan hátt. Athuga þarf hverju sinni, hvort opinberar framkvæmdir svari kostnaði og séu þjóðhagslega arðbærar og enn fremur hver skuli vera forgangsröð þeirra, ef takmörkuðu fjármagni er varið til framkvæmda.

Um ráðstöfun ríkisútgjalda mætti að öðru leyti minnast sérstaklega á þau mál sem almennt varða lífskjör og almenna velferð, einkum í kjara- og tryggingamálum. Þar þarf stöðugt að huga að raunverulegum markmiðum tekju- og lífskjarajöfnunar af opinberri hálfu og athuga hvort ríkjandi trygginga- og skattakerfi samrýmist þeirri tekjustefnu, sem fylgt er. Sérstakt íhugunarefni er hvort þær gífurlegu niðurgreiðslur á verði vöru og þjónustu, sem nú eru tíðkaðar, komi neytendum og framleiðendum raunverulega að því gagni sem til er ætlast.

Við tekjuöflun ríkisins má einkum nefna þrjú meginsjónarmið: Í fyrsta lagi verður með heilsteyptu skattkerfi að jafna skattbyrðinni réttlátlega milli þjóðfélagsþegnanna. Ekki má gefa mönnum tækifæri til þess að varpa byrði sinni á aðra með undanbrögðum. Í öðru lagi er afar mikilvægt að skattar lami ekki athafnaþrá einstaklinga né dragi úr framtaki þeirra. Loks verða tekjustofnar að vera fáir og einfaldir, en skattheimta örugg og ódýr.

Umsvif ríkisins eru svo snar þáttur þjóðarbúskaparins að fjármálastjórn ríkisins hlýtur að hafa áhrif á efnahagsheildina hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Óstjórn eða stjórnleysi í meðferð ríkisfjármála getur orðið uppspretta örrar verðbólgu og valdið þrengingum í efnahagsmálum. Því ber jafnan að haga meðferð opinberra fjármála þannig að stutt sé að jafnvægi innanlands og utan.

Ríkisstj. hyggst sporna gegn vexti ríkisútgjalda, og að því er stefnt að þau vaxi ekki hraðar en þjóðartekjur, þannig að hlutdeild ríkisumsvifa í þjóðarbúskapnum aukist ekki frekar. Þess verður þó gætt að skapa svigrúm, svo að beita megi ríkisfjármálum til að jafna hagsveiflur, draga úr útgjöldum á tímum þenslu en auka þau á samdráttatímum.

Ríkisstarfsemin þarf að vera háð stöðugri gagnrýni og endurskoðun með það í huga að gera hana markvissari og skynsamlegri og laga hana að kröfum tímans. Einn þeirra málaflokka, sem þarfnast rækilegrar endurskoðunar, eru þær neyslu- og rekstrar til færslur, sem ríkið stendur að í því skyni að hafa áhrif á neyslu eða framleiðslu ákveðinna vörutegunda og á tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. Þessar tilfærslur eru mjög mikilvægur hluti ríkisútgjaldanna og nema nú um 45% af gjöldum fjárl. Oft kann þó að vera óskýrt hvert endanlegt markmið sumra þessara tilfærslna er og hverjum þær koma til góða. Tilfærslurnar, svo sem niðurgreiðsla á vöruverði, geta einnig haft ýmis önnur áhrif en beinlínis er að stefnt, t.d. á framleiðslustarfsemina eða á hegðun neytenda. Höfuðmarkmið tekjutilfærslna ríkisins hlýtur að vera réttlát jöfnun tekna og aðstöðu manna. Ríkisstj. mun því kanna hvort þær leiðir, sem nú eru farnar að því marki, séu skynsamlegar og hagkvæmar. Fyrirhuguð sameining helstu bóta almannatrygginga og tekjuskatts, sem nánar verður vikið að síðar, er liður í slíkri endurskoðun. Með sameiningunni væri unnt að minnka ríkisútgjöld verulega án þess að skerða hag þeirra sem velferðarþjóðfélagið ber fyrir brjósti. Öllu fremur gefst kostur á að sinna hagsmunamálum þeirra betur, enda mun hið sameinaða tekjujöfnunarkerfi stefna að því að tryggja öllum þjóðfélagsþegnum lágmarkstekjur.

Að venju mun verða gerð stutt grein fyrir ríkisfjármálum á liðnu ári með því að rekja atriði úr grg. ríkisbókhaldsins um afkomu ríkissjóðs samkv. A-hluta ríkisreiknings fyrir árið 1973. Grg. er með sama sniði og áður. Nokkrar niðurstöðutölur reiknings eru dregnar fram og samanburður gerður við fjárlög. Grg. sem þessi ásamt óendurskoðuðum ríkisreikningi í heild hefur síðustu ár verið afhent hv. alþm. við 1. umr. fjárlagafrv. og hefur það einnig verið gert nú. Vísa ég til þeirra gagna um nánari tölulegar upplýsingar, en meginefni þeirra er sem hér segir:

Afkoma ríkissjóðs samkv. rekstrarreikningi A-hluta ríkisreiknings fyrir árið 1973 reyndist óhagstæð um 253 millj. kr. Tekjur urðu 24 milljarðar 876 millj. kr., en gjöld 25 milljarðar 129 millj. kr., og eru þá fjárfestingarútgjöld meðtalin. Greiðslujöfnuður í heild reyndist hagstæður um 140 millj. kr., jöfnuður lánahreyfinga ásamt hlutabréfum og stofnfjárframlögum var óhagstæður um 364 millj. kr., endurmatsjöfnuður var hagstæður um 29 millj. kr.

Greiðslujöfnuður er skilgreindur á ýmsa vegu. Framangreind fjárhæð hagstæðs greiðslujafnaðar ríkissjóðs um 140 millj. kr. er reiknuð samkv. ákvæðum l. nr. 52 1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárl., og nær yfir breytingar á sjóði, bankareikningum, lausaskuldum og ýmsum inneignum. Jöfnuður sjóðs og óbundinna bankareikninga var hins vegar óhagstæður um 616 millj. Jöfnuður lausaskulda og ýmissa inneigna var aftur á móti hagstæður um 756 millj. kr. Sú fjárhæð fólst annars vegar í aukningu eftirstöðva ríkistekna um 830 millj. kr. og aukningu lausaskulda vegna markaðra tekna um 53 millj. kr. og annarra lausaskulda umfram hækkun ýmissa inneigna um 21 millj. kr. Ef jöfnuður lánareikninga við Seðlabankann, sem reyndist hagstæður um 315 millj. kr. á árinu, er hins vegar talinn með greiðslujöfnuði, eins og sumir telja að gefi réttari mynd, þá reyndist jöfnuður sjóðs óbundinna bankareikninga og lánareikninga við Seðlabankann óhagstæður um 301 millj. kr., en hagstæður um 455 millj. kr., ef ýmsar inneignir og lausaskuldir eru taldar með.

Lánajöfnuður reyndist óhagstæður, eins og áður segir, um 364 millj. kr. Lán við Seðlabankann eru þá talin með. Að þeim frátöldum reyndist hann hins vegar óhagstæður um 679 millj. kr. Jöfnuðurinn kemur þannig fram, að veitt lán lækkuðu á árinu um 21 millj. kr., eign í hlutabréfum og stofnfjárframlögum hækkaði um 52 millj., skuld í formi tekinna lána hjá Seðlabankanum lækkaði um 315 millj., en hækkaði gagnvart öðrum unn 710 millj. kr. Af þeirri fjárhæð má rekja 469 millj. kr. til endurlána ríkissjóðs, sem gerð er grein fyrir í B-hluta ríkisreiknings. Endurlán byggjast m.a. á sölu spariskírteina, erlendum lántökum og fyrirgreiðslu Seðlabankans. Nýjar lántökur á árinu voru samkv. framkvæmda- og fjáröflunaráætlun, heimildum fjárl. og sérstökum ákvörðunum ríkisstj. Meginhluti skuldaaukningar var vegna framkvæmdar Vegagerðarinnar, einkum til hringvegarins um Skeiðarársand. Lántaka til nota við fyrirgreiðslu til togarakaupa nam 112 millj. kr., vegna lögreglustöðvarbyggingar um 19 millj. kr., til kaupa á skipi fyrir Hafrannsóknastofnun 17 millj. kr. Heimildarákvæði fjárl. um allt að 100 millj. kr. lántöku til kaupa á nýju varðskipi var ekki notað, en umframgjöld Landhelgisgæslunnar greidd beint úr ríkissjóði. Ríkissjóður eignaðist hlutabréf í Norðurstjörnunni hf. að fjárhæð 24 millj. kr. Aukning í hlutabréfum Þormóðs ramma nam 4 millj. kr. og framlagt hlutafé í Þörungavinnslunni hf. nam 5 millj. kr.

Verður nú vikið að tekjum og gjöldum ársins 1973.

Heildartekjur námu, eins og áður segir, 24 milljörðum 876 millj. kr. samkv. rekstrarreikningi. Tekjuuppgjörið miðast við álagða skatta. Innheimta nam hins vegar 830 millj. kr. lægri fjárhæð eða 24 milljörðum og 46 millj. kr., 2 milljörðum og 76 millj. umfram áætlun fjárl. Sú hækkun er 9.4%. Tekjufærslan var hins vegar 13.2% umfram áætlun fjárlaga.

Innheimta varð hærri en fjárlög á flestum teknaliðum. Innheimt aðflutningsgjöld námu 724 millj. kr. umfram fjárlög eða 12.9%, söluskattur 480 millj. eða 9.6%, tekju- og eignarskattur ásamt erfðafjárskatti 300 millj. eða 6.1%, innflutningsgjald af bifreiðum 153 millj. eða 65.2%, hagnaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins 114 millj. kr. eða 5.5%, vaxtatekjur, einkum dráttarvextir af þinggjöldum, 92 millj. kr. eða rúmlega þreföld innheimta miðað við áætlun fjárl. Aðrir teknaliðir, sem reyndust fara fram úr fjárl., námu alls 293 millj. kr. Þessar fjárhæðir gera samtals 2 milljarða 156 millj. kr. Innheimta nokkurra teknaliða reyndist hins vegar 80 millj. kr. lægri en fjárlög áætluðu. Keflavíkurflugvöllur skilaði 35 millj. kr. lægri upphæð en fjárlög áætluðu eða um það bil helmingi. Fríhöfnin skilaði 13 millj. kr. minna eða sem svaraði fjórðungi áætlunar, sameign ríkisins 10 millj. kr. og aðrir liðir samtals 22 millj. kr. lægri fjárhæð en fjárlög gerðu ráð fyrir.

Eins og fram er komið jukust eftirstöðvar ríkissjóðstekna um 830 millj. kr. Af þeirri fjárhæð eru 471 millj. kr. í tekju- og eignarsköttum, 217 millj. í söluskatti, 84 millj. í launaskatti, 39 millj. kr. í persónusköttum til Tryggingastofnunar ríkisins og 25 millj. kr. í tekjum af sölu erlends gjaldeyris. Eftirstöðvar almannatryggingagjaldsins, sem var lagt niður á árinu 1972, lækkuðu um 28 millj. kr. Eftirstöðvar annarra teknaliða hækkuðu um samtals 22 millj. kr. Aukning e8tlrstöðva söluskatts og launaskatts eru að verulegum hluta sem ógjaldfallnar eftirstöðvar um áramót, þ.e. gjalddagi álagningar er ekki fyrr en árið eftir.

Innheimt hlutfall tekna á árinu 1973 reyndist svipað og á árinu 1972.

Gjöld A-hluta ríkisreiknings árið 1973 námu 25 milljörðum 129 millj. kr. eða 2 milljörðum 347 millj. kr. umfram fjárlög að fjárhæð 21 milljarður 457 millj. og sérstakar heimildir til gjalda að fjárhæð 1 milljarður 325 millj. kr. eða 10.3%. Gjöldin umfram sjálf fjárl. námu 3 milljörðum 672 millj. kr. eða 17.1%.

Framangreindar sérstakar gjaldaheimildir að fjárhæð 1 milljarður 325 millj. kr., sem tekið er tillit til við samanburð fjárl. og reiknings, eru í fyrsta lagi lántökur vegna gjalda, einkum vegagerðar, alls 710 millj. kr., í öðru lagi ný eða aukin framlög samkv. heimildarákvæðum fjárl. eða sérstakra laga, alls að fjárhæð 400 millj. kr., og í þriðja lagi áhrif hækkunar markaðra tekna ríkissjóðs að fjárhæð 215 millj. kr. sem renna til ákveðinna rétthafa og gjaldfærsla reiknings hækkar því sjálfkrafa að sama skapi.

Eigi verður hér gerð grein fyrir einstökum liðum þessarar sérstöku gjaldaheimildar, en vísað í sérstakt yfirlit í ríkisreikningi þar um svo og grg. ríkisbókhaldsins. Vakin skal þó athygli á því, að með þessum sérstöku gjaldaheimildum eru ekki tekin áhrif lagasetningar eða ákvarðana ríkisstj., sem ekki fólu í sér tiltekna fjárhæð til breytingar gjalda. Gildir það t.d. um ákvarðanir til aukinna niðurgreiðslna, aukinna framlaga til Tryggingastofnunar og heimildargr. fjárl. 1973 um lækkun fjárveitinga um allt að 15% á árinu 1973.

Gjöld reikningsins urðu, eins og áður er fram komið, 2 milljarðar 347 millj. kr. umfram fjárlög og tilgreindar sérstakar gjaldaheimildir. Umframgjöldin skiptast þannig í aðalatriðum: Framlög til Tryggingastofnunar ríkisins urðu 727 millj. umfram eða 10.3%, hækkun til niðurgreiðslna 457 millj. eða 27% hækkun, til uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir 190 millj. kr. eða 58% hækkun, til barna- og gagnfræðaskólastigs 168 millj. kr. eða 8.8% hækkun,tilaukinna vaxtagjalda 105 millj. kr. eða 30.4% hækkun, til landhelgisgæslu 92 millj. kr. eða 33.3% hækkun, gjöld Alþingis, forsetaskrifstofu og ríkisstj. og aðalskrifstofa rn. reyndist 165 millj. kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir eða 32.6%. Í þeirri fjárhæð eru innifaldar verulegar greiðslur vegna endurbóta á húsnæði Alþingis og stjórnarráðsskrifstofa. Framangreindar fjárhæðir umfram gjalda nema alls 1 milljarði 900 millj. kr. Það sem ótalið er, 447 millj. kr., .skiptíst á ýmsa liði, sem ekki verða taldir upp hér. Nokkrir þeirra reyndust lægri í reikningi en fjárl. gerðu ráð fyrir, en á flestum liðum urðu gjöldin umfram.

Um samanburð gjaldaliða í heild eftir tegundum er vísað í yfirliti í ríkisreikningi á bls. 66–67, en þar koma fram upplýsingar um skiptinguna eftir rn., bæði samkv. reikningi og fjárlögum.

Hér hefur verið fjallað um afkomu ríkissjóðs samkv. A-hluta ríkisreiknings fyrir árið 1973. Ekki hefur verið komið inn á afkomu fyrirtækja og sjóða ríkisins, sem reikningar eru birtir yfir í B-hluta ríkisreiknings, og hefur það eigi heldur verið gert a.m.k. síðustu ár þegar gerð hefur verið grein fyrir afkomu ríkissjóðs. Tel ég hins vegar rétt að huga að því í framtíðinni, hvort ekki væri rétt að gera einnig nokkra grein fyrir helstu niðurstöðu í B-hluta ríkisreiknings.

Ég mun þá víkja að áætlun um afkomu ríkissjóðs 1974.

Fjármál ríkisins eru samofin efnahagsmálum þjóðarinnar og hin almenna hagþróun endurspeglast einatt í þeim áætlunum um ríkisbúskapinn, sem settar eru fram á fjárlagafrv. Það frv., sem hér liggur fyrir, er engin undantekning frá þeirri reglu. Sú öra verðlagsþróun, sem ríkt hefur hér á landi að undanförnu, ásamt ýmsum félagslegum og efnahagslegum aðgerðum, sem gripið hefur verið til á árinu, koma í ríkum mæli fram í þessu frv. og eru reyndar höfuðorsök þeirrar hækkunar, sem fram kemur í samanburði við fjárlagatölur yfirstandandi árs. Við slíkar aðstæður er þess vart að vænta, að gefist það ráðrúm til að marka djúp spor í fjármálastefnu ríkisins á þeim skamma tíma sem verið hefur til að móta fjárlagafrv. Fjárlagafrv. ber það með sér engu að siður, að komið er í veg fyrir frekari útþenslu ríkisbúskaparins og dregið er úr ríkisframkvæmdum. Þetta er skref til að freista þess að hafa hemil á verðbólgunni, draga úr greiðsluhallanum við útlönd og tryggja sem best lífskjör almennings.

Þróun verðlags og kauplags ásamt ýmsum aðgerðum á sviði fjármála fyrr á þessu ári hafa leitt til þess, að tekjur og gjöld ríkissjóðs munu fara verulega fram úr áætlun fjárl. 1974. Fjárlagaáætlun var í aðalatriðum miðuð við kauplag og verðlag í des. 1973, en þá voru í gjaldahlið áætlaðar 400 millj. kr. upp í væntanlega kjarasamninga. Niðurstöður kjarasamninga ásamt hækkunum verðlagsbóta 1. mara s. 1. höfðu hins vegar í för með sér 800–900 millj. kr. launaútgjöld ríkissjóðs umfram fyrrgreindar 400 millj. kr.

Nú er áætlað, að almennt kauplag verði um 27–28% hærra að meðaltali á árinu 1974 en það var í des. s.l. ár og hefur slík hækkun kaupgjalds óhjákvæmileg áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs. Enn fremur má nefna, að í fjárlagaáætlun var gert ráð fyrir 17–18% verðmætisaukningu almennra þjóðarútgjalda sem í aðalatriðum ráða söluskattsveltu. Nú er hins vegar áætlað, að veltubreytingin nemi um 54% á árinu. Önnur mikilvæg veltustærð er almennur vöruinnflutningur, sem ræður tolltekjum ríkissjóðs. Í fjárlagaáætlunum var miðað við 16% aukningu innflutningsverðmætis án olíu milli áranna 1973 og 1974, en 22% aukningu að olíu meðtalinni. Nú er útlit fyrir að verðmæti almenns vöruinnflutnings án olíu aukist um 50%, en um 60% að olíuinnflutningi meðtöldum. Þessi mikla veltuaukning umfram forsendur fjárlaga er ásamt sérstökum skattbreytingum, svo sem hækkun launaskatts í apríl, hækkun áfengis og tóbaksverðs í mars og maí, hækkun innflutningsgjalds af bifreiðum í maí og hækkun söluskatts í okt., helsta ástæða þess að innheimtar tekjur ríkissjóðs í ár eru nú áætlaðar nálægt 36 milljörðum eða um 6.6 milljörðum hærri en í fjárl. 1974. Auk þess má nefna að tekjur einstaklinga hækkuðu mun meira á árinu 1973 en ætlað var í fjárlagaáætluninni.

Hækkun óbeinna skatta, einkum söluskatts og tolltekna, umfram áætlun fjárl. er fyrst og fremst afleiðing hinnar miklu eftirspurnarþenslu, sem einkennt hefur efnahagsþróun líðandi árs og birtist í vaxandi verðbólgu og geigvænlegum halla í viðskiptum við útlönd. Nú er áætlað að þjóðarframleiðsla aukist um 3.5–4% og þjóðarútgjöld um 7–8% að magni frá síðasta ári, en hins vegar er búist við minnkun þjóðartekna vegna versnandi viðskiptakjara við útlönd. Þetta mun leiða til halla á viðskiptajöfnuði sem gæti numið 12–13 milljörðum kr. eða rúmlega 9% af þjóðarframleiðslunni. Að hluta er þessi halli vegna innflutnings varanlegra fjármuna sem innflutningur fjármagnsins fylgir, en gjaldeyrisstaðan gæti þó rýrnað um 6000–6500 millj. kr. á núv. gengi. Tolltekjur ríkissjóðs í ár eru af innflutningi sem er umfram það sem samrýmst getur traustri stöðu þjóðarbúsins út á við við núverandi aðstæður. Verðbólgan hefur farið vaxandi það sem af er árinu, bæði vegna óvenjumikillar hækkunar innflutningsverðs og einnig í kjölfar kjarasamninga á s.l. vetri. Benda síðustu áætlanir til að vísitala framfærslukostnaðar verði um 43% hærri að meðaltali í ár en í fyrra.

Hækkun kauplags og verðlags umfram forsendur fjárl. hefur að sjálfsögðu ýmis óbein áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram hækkun beinna launaútgjalda, sem áður var getið. Má þar nefna bætur lífeyristrygginga, sem beint eru tengdar almennu kauplagi, og útgjöld sjúkratrygginga, sem einnig fylgja almennri verðlagsþróun. Hækkun þessara líða í ár umfram fjárlög mun nema um 1400 millj. kr. Önnur óbein áhrif verðlagsbreytinga, m.a. vegna gengislækkunar og hækkunar söluskatts og áhrifa búvöruverðshækkunar á útflutningsuppbætur, má meta a.m.k. 700 millj. kr. á árinu.

Til viðbótar þessum áhrifum kauplags- og verðlagsbreytinga má nefna áhrif sérstakra ákvarðana, sem teknar voru á árinu. Munar þar mest um auknar niðurgreiðslur vöruverðs og í minna mæli fjölskyldubætur. Í fjárl. var miðað við að báðir þessir liðir yrðu lækkaðir frá því sem var um áramótin, en síðar var fallið frá þeirri ákvörðun. Í stað þess voru niðurgreiðslur stórauknar í maí s.l. í tengslum við setningu brbl. um viðnám gegn verðbólgu. Í stað þess voru niðurgreiðslur lækkaðar nokkuð, en jafnframt voru fjölskyldubætur hækkaðar, en á síðasta sumri var gerð kerfisbreyting á greiðslu fjölskyldubóta, sem fól í sér útgjaldalækkun fyrir ríkissjóð. Nú er ætlað, að niðurgreiðslur og fjölskyldubætur nemi í ár um 3000 millj. kr. hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir í fjárl.

Ýmsir markaðir tekjustofnar hækka frá fjárlagaáætlun og má þar minna á hækkun launaskatts um 1%, sem öll rennur í Byggingarsjóð ríkisins.

Útgjöld til vegamála munu einnig verða mun hærri en samkv. fjárl., ekki síst vegna mikilla verðlagshækkana á árinu. Samtals gætu markaðir tekjustofnar og útgjöld til vegamála farið um 1700–1800 millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga.

Af útgjöldum umfram fjárlög í ár er enn ótalin notkun fjárlagaheimilda og ýmsar umframgreiðslur, samtals að upphæð um 900 millj. kr.

Sú endurskoðaða áætlun um útgjöld ríkissjóðs á árinu 1974, sem hér hefur verið rakin, felur í sér nálægt 7600 millj. kr. hækkun eða 26% útgjaldaauka frá niðurstöðutölum fjárlaga ársins og verða heildarútgjöld í ár samkvæmt þeirri áætlun því um 37 milljarðar kr.

Við gerð fjárlagafrv.fyrir árið 1975 hafa eftirfarandi meginforsendur verið lagðar til grundvallar að því er varðar kaupgjald, verðlag og aðrar forsendur er máli skipta: Laun eru miðuð við gildandi kjarasamninga og þar með grunnlaunahækkanir, sem taka gildi 1. des. n. k. og 1. júní 1975. Einnig er tekið tillit til láglaunabóta í samræmi við brbl. frá sept. s.l. og gildandi kaupgreiðsluvísítölu 106.18 stig, Við ákvörðun annarra rekstrarliða hefur verið miðað við verðlag í lok sept., þannig að þar er tekið tillit til áhrifa gengisbreytingarinnar í byrjun sept., og einnig eru áhrif söluskattshækkunarinnar frá 1. okt. og annarra gjaldahækkana sem orðið hafa á árinu, svo sem á bensingjöldum og verðjöfnunargjaldi rafmagns, komin inn í útgjaldaáætlanir.

Tekjuáætlunin er í meginatriðum miðuð við sömu kaup- og verðlagsforsendur og hér hafa verið raktar. Skattvísitalan hækkar um 45%, en auk þess er tekjuskattur einstaklinga lækkaður um 500 millj. kr. og er það líður í endurskoðun skatta- og tryggingakerfisins. Gert er ráð fyrir lækkun tolla frá 1. jan. n.k. í samræmi við aðildarsamning við EFTA og viðskiptasamning við EBE og nokkurri aðlögun annarra tolla vegna þessara breytinga. Loks er reiknað með að þjóðarútgjöld aukist um 19–20% í peningum, en að þau verði óbreytt að magni frá 1974 og almennur vöruinnflutningur aukist um 20%.

Heildarútgjöld á rekstrarreikningi nema 44 milljöðrum 752 millj. kr., en voru 29 milljarðar 402 millj. kr. í fjárlögum 1974, og er hækkunin 15 milljarðar 350 millj. kr. eða 52.2%. Séu borin saman frv. áranna 1974 og 1975 verður hækkunin 17 milljarðar 315 millj. kr. eða 63.1%. Af tölu fjárlagafrv. nema markaðir tekjustofnar 6 milljörðum 190 millj. kr. á móti 3 milljörðum 295 millj. í fjárlögunum 1974. Er hækkun þessara stofna 2 milljarðar 895 millj. eða 87.9%. Hækkun ríkisútgjalda án markaðra tekjustofna er þannig 12 milljarðar 456 millj. kr. eða 47.7%. Af einstökum mörkuðum tekjustofnum hækka þessir mest: Vegasjóðsútgjöld um 963 millj. kr., launaskattur til Byggingarsjóðs ríkisins 767 millj. kr., atvinnurekendagjald til Tryggingastofnunar ríkisins 427 millj., verðjöfnunargjald rafmagns 370 millj., árgjald til Byggðasjóðs 284 millj., ýmsir aðrir markaðir tekjustofnar 84 millj. kr., samtals 2 milljarðar 895 millj. kr.

Hækkun eiginlegra ríkisútgjalda, þ.e. án markaðra tekjustofna, er sundurliðuð í yfirliti á bls. 152 í fjárlagafrv. og vísast til þess. Má vekja athygli á því að almannatryggingar, laun og niðurgreiðslur og markaðir tekjustofnar valda tæplega 70% heildarhækkunar ríkisútgjalda frá fjárl. 1974.

Sé litið á yfirlitið á bls. 152 má sjá að hækkun hinna ýmsu útgjaldaliða er ærið misjöfn. Sérstakar skýringar eru fyrir hendi varðandi hækkunarhlutföll, er víkja verulega frá meðalhækkuninni, sem er 52.2%, eins og áður var sagt. Þannig er 35% hækkun launaliðar ekki raunhæf, þar sem í fjárlögum 1974 voru veittar 400 millj. kr. til væntanlegra kjarasamninga, en hin raunverulega hækkun frá þeim töxtum, er giltu við afgreiðslu fjárlaga, er 43.8%.

Liðurinn önnur rekstrarútgjöld hækka nokkuð umfram verðhækkun eða um 86.2% miðað við 60–65% meðalverðhækkun þessa kostnaðarliðar. Helstu skýringar eru í því fólgnar, að í samræmi við reynslu fyrri ára var talið nauðsynlegt að hækka framlög vegna sérstakra laga og heimilda verulega á þessu fjárlfrv. Olíuverðhækkun, sem verið hefur langt umfram meðalhækkun verðlags, kemur á þennan lið. Leiðrétting á færslu í fjárl. 1974 vegna Orkustofnunar veldur umtalsverðri hækkun, sem er hreint bókhaldsatriði, og prentkostnaður, sem fólginn er í þessum kostnaðarlið, hefur hækkað mun meira en almennt verðlag. Séu þessir þættir frátaldir verður meðalhækkun annarra rekstrargjalda 65.7% eða lítillega umfram kostnaðaraukningu.

Viðhaldsliður hækkar um 89%, einkum vegna vegaviðhalds, sem í ár mun fara langt fram úr fjárlagaáætlun og er nálægt þeirri tölu, sem áætluð er í fjárlfrv. 1975, og ástæða hefur þótt til að gera nokkurt átak í viðhaldi skólamannvirkja af brýnni nauðsyn. Að þessu tvennu frátöldu verður hækkun viðhaldsliðar 62.6% eða í samræmi við kostnaðarhækkun.

Hin mikla hækkun á yfirfærslum til fyrirtækja og atvinnuvega eða 100% skýrist af aukningu niðurgreiðslna, og yfirfærslur til einstaklinga og samtaka, sem hækka um 113%, eiga rætur að rekja til sérstaks fjárlagaliðar til ráðstafana í kjara- og verðlagsmálum að upphæð 500 millj. kr., en óráðið er hvernig eða hvort þar verður um raunveruleg útgjöld að ræða.

Gjaldfærður stofnkostnaður hækkar um 29.6% sem er undir verðlagshækkun, og er það í samræmi við þá stefnu í fjármálum ríkisins að stilla framkvæmdum í hóf og forðast samkeppni um vinnuafl við útflutningsatvinnuvegina án þess að það komi niður á mikilvægustu framkvæmdunum eða atvinnuöryggi landsmanna sé stefnt í voða. Hér er um að ræða nokkra magnminnkun.

Loks hækka yfirfærslur til sveitarfélaga um 17.9%, en meginskýringin á svo lágri hlutfallshækkun er sú að sérstökum hafnarframkvæmdum í Grindavík og Höfn í Hornafirði verður lokið á yfirstandandi ári.

Ég mun þá víkja að skiptingu fjárveitinga skv. 4. gr. frv. til ráðuneyta og einstakra stofnana sem þeim tilheyra.

Æðsta stjórn ríkisins hækkar um samtals 54.7 millj. og er þar að mestu um eðlilegar launa- og verðlagshækkanir að ræða. Embætti forseta Íslands hækkar um 6.5 millj. kr., hækkun vegna Alþ. er 30.9 millj. kr., vegna ríkisstj. um 5.5 millj. og hæstaréttar 4.3 millj. kr. Undir liðnum ríkisstjórn eru nú laun bifreiðastjóra ráðh. og rekstrarkostnaður bifreiðanna, samtals 7.5 millj., en þessi útgjöld voru áður færð á einstök ráðuneyti.

Kostnaður við forsrn. og stofnanir, er undir það heyra, hækkar um 741.7 millj. kr. og munar þar langmest um framlög í Byggðasjóð, sem hækka um 724.4 millj. og verða samtals 877 millj. kr. Hækkun á beinu framlagi ríkissjóðs er 440 millj. og hækkun álgjalds er 284.4 millj. kr. Þá er framlag til Þjóðhagsstofnunar 17.2 millj., en niður fellt framlag til Framkvæmdastofnunar ríkisins, sem var 11 millj. í fjárl. 1974, og er nettóhækkun þannig 6.2 milljarðar. Lög um Framkvæmdastofnun eru nú í endurskoðun. Hækkun á öðrum fjárlagaliðum forsrn. eru samtals 11.1 millj. kr., þ.e. aðalskrifstofa rn., embætti húsameistara ríkisins og þjóðgarðurinn á Þingvöllum og Þingvallanefnd.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. var því lýst yfir að Byggðasjóður skyldi efldur. Í samræmi við þessa stefnu eru framlög til Byggðasjóðs nú aukin, eins og áður er sagt, úr 153 millj. kr. á fjárl. 1974 í 877 millj. kr. með þessu frv. Framlög til sjóðsins nema 2% af útgjaldahlið frv. Verkefni Byggðasjóðs verða endurskoðuð á næstunni í því skyni að samræma aðgerðir í byggðamálum og til þess að tryggja sem besta nýtingu þess fjár, sem til þeirra er varið. Í framtíðinni er nauðsynlegt að með fjárlfrv. fylgi ítarleg greiðsluáætlun Byggðasjóðs fyrir næsta ár, þar sem grein sé gerð fyrir eigin ráðstöfunarfé sjóðsins og skýrt frá áformum um lántökur og lánveitingar hans á næsta ári eftir verkefnum og landssvæðum. Þessari grg. ætti að fylgja forgangsröð og rökstuðningur útlánafyrirætlana. Þessar upplýsingar eru mun mikilvægari fyrir Alþ. nú en áður þar sem framlög til sjóðsins hafa verið stóraukin og nauðsynlegt að fjárráðstöfun á vegum sjóðsins sé samræmd fjárlagaákvörðun í heild.

Ekki liggur ljóst fyrir enn hver skuli vera verkefni Byggðasjóðs. Sýnist ekki óeðlilegt að fé sjóðsins verði að verulegu leyti varið til landshlutaáætlana, jafnt til samgöngubóta sem til uppbyggingar atvinnulífsins, enda brýn nauðsyn á að slíkt haldist í hendur.

Fjárlagaliðir menntmrn. hækka um 2 milljarða og 19 millj. kr. Yfirstjórnin hækkar um 56 millj., einkum vegna aðalskrifstofu, 33.2 millj. kr., en þar verður nokkur starfsliðsaukning og innréttingakostnaður vegna nýs leiguhúsnæðis. Nettóhækkun við fræðsluskrifstofur samkvæmt nýju grunnskólal. nemur 13.3 millj. kr. og er þá gert ráð fyrir að 1/3 hluti kostnaðar skv. ákvæðum l. um fræðsluskrifstofur komi til framkvæmda á árinu 1975. Framkvæmd sundskyldu í skólum hækkar um 8.2 millj. kr. og nettóhækkun á öðrum liðum undir yfirstjórn er 1.3 millj. kr. Kostnaður við fræðslumál eykst um 1 milljarð 798.5 millj. kr.

Rekstrarkostnaður barna- og gagnfræðaskóla hækkar um 836.6 millj. kr., þar af kostnaðaraukning vegna nýju grunnskólalaganna 130.9 millj. kr. Byggingarframlög til þessara skóla hækkar um 141.6 millj. kr. og verður 800 millj. kr.

Framlag til háskólans hækkar um 174.9 millj. og verður í heild 560 millj. kr., þar af 490 millj. til rekstrar. Fjölgar þar starfsliði um 17. Framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna hækkar um 119.4 millj. og er það byggt á till. menntmrn., en till. sjóðsstjórnar bárust ekki í tæka tíð. Með þessu verður heildarframlag til Lánasjóðs 606 millj. kr. Lög um lánasjóð námsmanna eru nú í endurskoðun og koma væntanlega til afgreiðslu Alþ. fyrir 3. umr. fjárl. Sýnist full ástæða til þeirrar endurskoðunar og taka verður tillit til þeirrar afgreiðslu við endanlega ákvörðun fjárveitingar.

Kostnaður við menntaskóla eykst um 122.2 millj. kr. og við héraðsskóla um 72.9 millj. kr. Þá hækkar framlag til jöfnunar á námskostnaði um 25 millj. kr. og verður í heild 100 millj. kr. Önnur fræðslumálaútgjöld aukast um samtals 305.9 millj. kr.

Kostnaður við söfn, listir og aðra menningarstarfsemi eykst um 164.7 millj., þar af Þjóðleikhús 49.9 millj., listir, framlög 24.3 millj. Íþróttasjóður 20.6 millj. og aðrir liðir samtals 69.8 millj. kr.

Kostnaður við utanríkisþjónustuna hækkar um 204 millj. kr., þar af sendiráðin 84.8 millj., alþjóðastofnanir 56.3 millj., aðalskrifstofa utanrrn. 34.1 millj. og löggæsla á Keflavíkurflugvelli 28.8 millj. kr. Kostnaðaraukning við utanríkisþjónustuna skýrist að miklu leyti af verðlagshækkunum og þó einkum gengisfellingunni í byrjun september. Þó er um að ræða sérstaka aukningu á framlagi til Alþjóðaframfarastofnunarinnar, 42.7 millj., og gert er ráð fyrir að verja 13 millj. kr. til bygginga og viðgerða á sendiráðshúsinu í Bonn. Loks er gert ráð fyrir nokkurri fjölgun lögreglumanna og tollvarða á Keflavikurflugvelli.

Framlög til viðfangsefna á sviði landbrn. hækka um 849.6 millj. og eru þar þyngstir á metunum tveir líðir, þ.e.a.s. uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir 316 millj. kr., en þessar uppbætur hafa reynst vanmetnar á fjárl. 1974, og framlag til landgræðsluáætlunar 200 millj. skv. samþykkt Alþ. frá því í sumar. Framlag til Stofnlánadeildar landbúnaðarins hækkar um 81 millj. og jarðræktarframlög um 48.7 millj., en hvort tveggja byggist á sérstökum lögum. Kostnaður við önnur landbúnaðarmál hækkar um samtals 203.9 millj. kr. Kostnaður við málefni sjútvrn. eykst um 346 millj. kr., þar af vegna Hafrannsóknastofnunar 102 millj. kr., einkum vegna áhrifa kjarasamninga og hækkunar olíuverðs. Framlag til Fiskveiðasjóðs hækkar um 102 millj. kr. og er þar um að ræða mótframlög móti útflutningsgjaldi. Framlag til Aflatryggingasjóðs hækkar um 48.2 millj. Kostnaður við önnur viðfangsefni sjútvrn. hækkar um samtals 73.3 millj. kr.

Framlög til verkefna dóms- og kirkjumrn. hækka um alls 688.3 millj. kr. Munar þar mestu um kostnaðarhækkun við landhelgisgæslu, 227 millj. kr., og embætti lögreglustjórans í Reykjavik, 152.8 millj. kr. Áhrif kjarasamninga og aukinn útgerðarkostnaður af völdum olíuverðshækkunar eru meginorsök hækkunarinnar hjá Landhelgisgæslu, auk þess eykst skipakostur stofnunarinnar í byrjun næsta árs. Hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík er hækkunin, fyrir utan almennar kaup- og verðlagshækkanir, afleiðing fjölgunar í lögregluliði um 18 manns, en hefur ekki orðið þar í nokkur ár. Kostnaður við embætti sýslumanna og bæjarfógeta hækkar um samtals 129.4 millj. kr., einkum af völdum almennra kaup- og verðlagshækkana, og heildarhækkun á öðrum liðum á sviði dóms- og kirkjumrn. nemur 179.1 millj. kr.

Framlög til málefna á sviði félmrn. hækka um 873.1 millj. kr., að mestu vegna framlaga í Byggingarsjóð ríkisins af mörkuðum tekjustofnum eða um 786.3 millj. Er þar um að ræða hluta sjóðsins af launaskatti, sem var tvöfaldaður á árinu, og af tekju- og eignarskatti og aðflutningsgjöldum. Þar hækkar framlag til Byggingarsjóðs verkamanna um 50 millj. kr. og önnur framlög samtals um 36.8 millj.

Málefnaflokkur heilbr.- og trmrn. hækkar um 4 milljarða 107.6 millj., þar af framlög til almannatrygginga 3 milljarðar 791.6 millj., bygging sjúkrahúsa, læknisbústaða og heilsugæslustöðva 136.1 millj. og bygging ríkissjúkrahúsa 34.8 millj. kr. Aðrir liðir hækka um samtals 145.1 millj.

Framlög til almannatrygginga hækka mest einstakra liða í þessu fjárlfrv. og er þar um að ræða framlög til lífeyristrygginga, sjúkratrygginga, slysatrygginga, auk atvinnuleysistrygginga. Bætur lífeyristrygginga skulu samkv. lögum hækka til samræmis við kaupgjald, og sem kunnugt er ákvarðast framlög til sjúkratrygginga á grundvelli daggjalda á sjúkrahúsum. Verulegar hækkanir hafa orðið í báðum þessum flokkum síðan fjárlög 1974 voru afgreidd. Þess ber sérstaklega að geta að fjölskyldubætur eru hér áætlaðar 20. þús. kr. með hverju barni til 1. júní 1975 þegar gildistíma ákvæða brbl. frá 1. sept. lýkur en eftir það er miðað við að þær lækki til fyrra horfs, þ.e.a.s. 15 þús. kr. með hverju barni.

Með framangreindum hækkunum til sjúkrahúsbygginga verður varið til þeirra samtals 431.2 millj. kr. og eru elliheimili þá meðtalin. Auk þess verður varið 178 millj. kr. til byggingar ríkissjúkrahúsa, þar af 190 millj. kr. til geðdeildarbyggingar við Landsspítalann. Nákvæmur listi yfir fjárveitingar til einstakra sjúkrahúsa verður sendur fjvn.

Skv. fjárlfrv. hækka framlög til málefna á sviði fjmrn. um 309.5 millj. kr. Þess ber að geta við þennan samanburð, að vaxtagreiðslur af ríkissjóðslánum, sem voru 411.8 millj. kr. í fjárl. 1974, eru nú fluttar á fjárlaga- og hagskýrslustofnun og fjárveiting upp í væntanlega kjarasamninga, sem var 400.9 millj., er felldur niður. Að þessum liðum frátöldum er hækkunin 1 milljarður 122.2 millj., þar af 500 millj. kr. til ráðstafana í kjara- og verðlagsmálum skv. síðari ákvörðun, 149.3 millj. kr. vegna uppbótar á lífeyri og 145 millj. kr. vegna sérstakra laga og heimildarlaga, en reynslan hefur leitt í ljós eins og ég áður sagði að nauðsyn er á að hækka þennan líð verulega. Þá hækkar kostnaður við toll- og skattheimtu, þar með taldar skattstofur, samtals um 100.9 millj. kr. Gert er ráð fyrir 40 millj. kr. framlagi til byggingar skrifstofuhúsnæðis fyrir ýmsar ríkisstofnanir, sem nú eru í leiguhúsnæði. Og heildarhækkun á öðrum gjaldalíðum fjmrn. nemur 187 millj. kr.

Kostnaðarliðir á vegum samgrn. hækka samtals um 1 milljarð 478.1 millj. kr. og vegur vegagerð þar þyngst, en framlög til þessa málaflokks hækka um 1 milljarð 195.3 millj. kr. miðað við fjárlög 1974. Heildargjöld vegagerðar eru í samræmi við vegáætlun þá er lá fyrir síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu þá. Þess ber að gæta að kostnaður við vegagerð mun fara mjög fram úr áætlun í ár og má raunar ætla að heildarkostnaður verði svipaður í krónutölu og gert er ráð fyrir í frv. ársins 1975. Af heildarkostnaði við vegagerð, 3 milljörðum 240.2 millj. kr., eru 2 milljarðar 239.6 millj. eða 69.1% fjármagnað með föstum tekjustofnum, þ.e.a.s. bensíngjaldi, bifreiðaskatti og gúmmígjaldi, 618 millj. eða 19.1% með lántökum og 382.6 millj. eða 11.8% með beinu ríkissjóðsframlagi. Þessu til viðbótar stendur ríkissjóður undir endurgreiðslu lána vegna vegagerðar að fjárhæð 654 millj. kr. og er það nokkru meiri fjárhæð en ríkissjóður hefur í tekjur af innflutningsgjaldi af bifreiðum sem áætlaðar eru 635 millj. kr. á árinu 1975. Helstu hækkunarliðir aðrir hjá samgrn. eru vegna landshafna 132.6 millj. kr. þ.e. framkvæmdir 107 millj. og lánagreiðslur 29.2 millj., flugmálastjórn 109 millj. kr. og vegna almennra hafnarmannvirkja og lendingarbóta 89 millj. kr., en samtals verður varið 533 millj. kr. til þessa verkefnis. Af öðrum liðum kemur fram 51.7 millj. kr. nettólækkun, þar sem framlög til sérstakra hafnarframkvæmda í Grindavik og Höfn í Hornafirði falla niður eins og áður sagði .

Framlög til málefna iðnrn. hækka samtals um 749.2 millj. kr. Mest er hækkunin til orkumála eða 570.1 millj. kr. sem skiptast þannig að verðjöfnunargjaldið, sem er markaður tekjustofn, hækkar um 370 millj. kr. skv. nýjum lögum, framlög til Orkustofnunar um 106 millj. kr., eigin fjárframlag til Landsvirkjunar 62 millj. kr. og önnur framlög til orkumála hækka um 32.1 millj. Útgjöld vegna iðnaðarmála og yfirstjórnar aukast um 179.1 millj., þar af framlög til þangverksmiðju á Reykhólum 100 millj. og kostnaður við vélakaup og innréttingar búsnæðis prentsmiðjunnar Gutenberg hækkar um 27 millj. kr. Á öðrum fjárlagaliðum, sem tilheyra iðnrn., verður samtals 52.1 millj. kr. hækkun.

Kostnaður við málefnasvið viðskrn. hækkar um 2 milljarða 183.5 millj., að mestum hluta vegna niðurgreiðslna, en þær hækka um 2 milljarða 170 millj. kr. Samtals verða niðurgreiðslur á vöruverði innanlands 3 milljarðar 534 millj. kr. skv. þessu fjárlfrv. og er við það miðað að frá 1. júní 1975, þegar ákvæði brbl. frá 24. sept. falla úr gildi, verði þær lækkaðar um 12.5% af heildarkostnaði, en það nemur 350 millj. kr. það sem eftir er ársins. Aðrir liðir á sviði viðskrn. hækka samtals um 13.5 millj. kr.

Kostnaður við Hagstofu Íslands eykst um 13.2 millj. og við ríkisendurskoðun um 11.8 millj. kr., hvort tveggja að mestu vegna eðlilegra launa- og verðhækkana.

Loks kemur fram 721 millj. kr. hækkun á málefnum fjárlaga- og hagsýslustofnunar, en meginhluti þeirrar hækkunar stafar af tilfærslu vaxtagreiðslna af lánum ríkissjóðs á þessa stofnun eða 712.4 millj. Hækkar sá fjárlagaliður um 300.6 millj. kr. frá fjárlagatölu 1974. Kostnaður við fjárlaga- og hagskýrslustofnun hækkar að öðru leyti um 8.6 millj. í samræmi við hækkun kaups og verðlags.

Þær framkvæmdir, sem tilheyra A-hluta fjárlaganna og fjármagna skal með lántökum, ern innifaldar í þeim tölum, sem raktar hafa verið hér að framan, en rétt er að gefa heildarmynd af framkvæmdum í A- og B-hluta sem fjármagnaðar verða með lánum.

Lántökur til vegaframkvæmda eru áætlaðar 618 millj. kr., en voru 500 millj. á fjárlögum 1974. Til hafna eru áætlaðar lántökur 210 millj., voru 308 millj. í fjárl. yfirstandandi árs. Orkurannsóknir verða ekki gerðar fyrir lánsfé 1975, en 1974 var gert ráð fyrir 74 millj. kr. lántöku til þeirra verkefna. Engar lántökur voru til þangverksmiðju í fjárlfrv. 1974, en gert ráð fyrir að þær nemi 100 millj. kr. á næsta ári. Skv. fjárl. 1974 var gert ráð fyrir 680 millj. kr. lántöku til Rafmagnsveitna ríkisins og rafvæðingar í sveitum. Áætlun um lán til þessara viðfangsefna á árinu 1975 nemur 720 millj. kr. Lántökur til Jarðborana ríkisins eru fyrirhugaðar 313 millj. á árinu 1975, en voru 53 á árinu 1974. Gert er ráð fyrir 340 millj. kr. láni 1974 til stofnlínu milli Suður- og Norðurlands, en gert er ráð fyrir að lántaka 1975 nemi 250 millj. kr. Lántaka til Kröfluvirkjunar er áformuð 100 millj. kr. Ekki eru sérstakar lántökur áformaðar til Laxárvirkjunar á árinu 1975.

Fjárlagafrv. gerir því ráð fyrir að lántökur nemi 2 milljörðum 311 millj. kr. Í fjárl. 1974 var þessi tala 2 milljarðar og 15 millj. kr.

Þess ber að gæta, að lánsfjáröflun mun hækka allverulega á árinu 1974 frá tölum fjárlaga. Enda þótt ekki liggi fyrir nákvæm niðurstaða þeirra mála nú, m.a. vegna þess að framkvæmdartímabilinu er ekki lokið, er þó ljóst að þegar hefur verið tekið erlent lán að fjárhæð 500 millj. kr. til að standa undir hluta af umframgjöldum vegagerðar. Er því sýnilegt, að fjáröflun í ár mun fara fram úr tölum fjárlfrv. fyrir árið 1975.

Um skýringar á einstökum framkvæmdaliðum vísast að öðru leyti til aths. með fjárlfrv. Leitað er nauðsynlegra lántökuheimildar í 6.

gr. frv. Þá er í 6. gr. frv. leitað ýmissa heimilda til greiðslna og ábyrgða. Í flestum tilfellum er hér um að ræða heimildarákvæði, sem áður hafa verið í fjárlögum og því þm. kunn. Þess er þó að geta, að leitað er heimildar til að leggja 25 millj. kr. upp í hlut ríkissjóðs í væntanlegu félagi um hitaveitu á Suðurnesjum, en eins og fram hefur komið er áformað að ríkissjóður gerist aðili að hitaveitu Suðurnesja og mun væntanlegt frv. þar að lútandi. Þá er leitað heimilda þess að leggja fram 30 millj. kr. sem helming hlutafjár ríkissjóðs í Herjólfi hf. vegna kaupa á Vestmannaeyjaferju.

Tekjuáætlun fjárlfrv. er reist annars vegar á endurskoðaðri áætlun um tekjur ríkissjóðs á árinu 1974 og hins vegar á ákveðnum þjóðhagsforsendum fyrir árið 1975, aðallega þeirri forsendu að almenn þjóðarútgjöld, þ.e.a.s. neysla og fjárfesting án skipa og stórvirkjana, verði óbreytt að magni frá 1974.

Heildartekjur á rekstrarreikningi nema 45 milljörðum 265 millj. kr., en námu 29 milljörðum 180 millj. kr. á fjárl. ársins 1974 og er hækkun tekna þannig 16 milljarðar 85 millj. kr. eða 55.1%. Tekjuáætlun ársins 1975 er hins vegar byggð á endurskoðaðri áætlun um innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1974, en skv. þeirri áætlun verða tekjur ríkissjóðs í ár tæplega 35.8 milljarðar eða 49% meiri en á árinu 1973. Hækkun á næsta ári er þannig áætluð 26.5%, en rúmlega 23% ef markaðir tekjustofnar eru undanskildir. Á árinu 1974 hefur hlutur beinna skatta í tekjum ríkissjóðs lækkað verulega frá því sem ráðgert var í fjárl. ársins, aðallega vegna lækkunar tekjuskatts og hækkunar söluskatts, sem ákveðin var í tengslum við kjarasamningana á s.l. vetri. Á næsta ári er gert ráð fyrir, að hlutdeild beinna skatta verði svipuð og í ár eða um 18.7% af heildartekjum.

Verður nú vikið að helstu tekjuliðum. Persónuskattar, þ e. iðgjöld atvinnurekenda til almannatrygginga, nema í heild 1 milljarði 293.5 millj. kr. og hækka um 426.7 millj. kr. frá fjárl. 1974, fyrst og fremst vegna hækkunar tryggingabóta frá samþykkt síðustu fjárlaga.

Tekjur af eignarsköttun eru áætlaðar 469.2 millj. eða nær 75 millj. meira en í fjárl. 1974. Álagður eignarskattur í ár reyndist nokkru meiri en áætlað var og á næsta ári má búast við frekari hækkun álagningar, bæði vegna aukningar álagningarstofns og verðbreytinga.

Innheimtur tekjuskattur einstaklinga að frá dregnum skattafslætti er áætlaður 5 milljarðar 781 millj. kr. á næsta ári, en var 5 milljarðar 806 millj. kr. í fjárl. líðandi árs. Á s.l. vetri voru hins vegar gerðar veigamiklar breyt. til lækkunar á tekjuskatti einstaklinga. Álagður tekjuskattur í ár nam 4500 millj. kr. að teknu tilliti til útgreidds skattafsláttar, en var áætlaður nær 6300 millj. í fjárl. Í þeirri áætlun var reiknað með 25–26% hækkun nettótekna einstaklinga milli áranna 1972 og 1973, en hins vegar reyndist tekjuaukningin mun meiri eða um 33%. Álagður tekjuskattur einstaklinga 1975 er hér áætlaður 7 milljarðar 130 millj. kr. og er þá miðað við 45% hækkun meðaltekna til skatts, 2% fjölgun framteljenda og skattvísitölu 145 stig miðað við 1974 100 stig og enn fremur að tekjuskatturinn verði lækkaður sérstaklega um 500 millj. sem liður í endurskoðun skatta- og tryggingakerfisins. Útgreiddur skattafsláttur er áætlaður 600 millj. kr. Persónufrádráttur einstaklinga hækkar úr 238000 í 345100 kr. og skattafsláttur úr 11000 í 15950 kr. Verða þannig tekjur einstaklinga að upphæð 424850 kr. tekjuskattsfrjálsar á næsta ári í stað 293000 kr. tekna nú í ár. Skattfrjálsar tekjur hjóna verða nú 648925 kr. í stað 447504 og hjón með eitt barn þurfa ekki að greiða skatt af 741000 kr.tekjum í stað 611000 kr. árið 1974.

Álagður tekjuskattur félaga reyndist nokkru hærri í ár en áætlað var eða 1093 millj. kr. í stað 1 milljarðs. Með tilliti til versnandi afkomu sjávarútvegs og óvissu um afkomu annarra atvinnugreina er spáð um 300 millj. kr. minni álagningu á næsta ári, en skv. því gæti innheimtur tekjuskattur félaga alls numið um 850 millj. kr.

Gjöld af innflutningi hækka um 3 milljarða 606 millj. kr. frá síðustu fjárl. og munar þar mest um hækkun almennra tolltekna 2 milljarðar 586 millj. kr. Meiri hluti þessara hækkana tolltekna verður á árinu 1974 eða sennilega nálægt 2 milljörðum kr. Stafar þetta bæði af hinum gífurlega innflutningi á árinu og eins af hinu, að tollhlutfall af innflutningi öðrum en olíu er hærra en búist var við vegna hins mikla bílainnflutnings. Að öðru leyti er hækkunin í samræmi við spána um rúmlega 20% verðmætisaukningu innflutnings á næsta ári, en það felur í sér nokkra magnminnkun frá árinu í ár. Tolltekjutap vegna þriðja áfanga tolllækkunar skv. samningum við EFTA og Efnahagsbandalagið og aðlögunar ytri tolla er lauslega áætlað 400 millj. kr., en ekki er hér reiknað með frekari breytingu á tollskrá.

Eins og áður var minnst á hefur bílainnflutningur verið mjög mikill í ár, og verða því tekjur af hinu sérstaka innflutningsgjaldi af bifreiðum langt umfram fjárlagaáætlun auk þess sem gjaldið var hækkað í maí s.l. Á næsta ári má reikna með að dragi úr bílainnflutningi og er tekið tillit til þess. Eru tekjur leyfisgjalda áætlaðar 635 millj. kr. miðað við óbreytta gjaldskrá. Tekjur af bensíngjaldi eru áætlaðar hækka um 800 millj. kr. frá fjárl. 1974 til fjárlagafrv. 1975, fyrst og fremst vegna hækkunar gjaldsins um 6 kr. í sept. s.l. Talsverð óvissa ríkir hins vegar um það, hvaða áhrif hækkun bensínverðs að undanförnu mun hafa á bensínsölu á næsta ári.

Skattar af framleiðslu hækka um 281.4 millj. kr. frá fjárl. 1974 eða um 90 millj. frá endurskoðaðri áætlun 1974. Þessi hækkun verður öll á hluta Byggðasjóðs af álgjaldi vegna hækkunar álverðs á heimsmarkaði á þessu ári, en skv. samningi hækkar framleiðslugjald með hækkandi álverði. Miðað við núverandi markaðsskráningu óbreytta gæti hlutur Byggðasjóðs af álgjaldi numið um 337 millj. á næsta ári.

Skattar af seldum vörum og þjónustu nema nú 48% allra ríkistekna í stað 37.6% í fjárl. ársins 1974. Þetta er fyrst og fremst vegna skattkerfisbreytingar í mars s.l. í þá átt að draga úr skattlagningu tekna, en auka skattlagningu eyðslu. Í fjárlögum ársins 1974 var söluskattur áætlaður um 6 milljarðar og 700 millj. og var þá miðað við 11% almennan söluskatt. Vegna meiri veltuaukningar en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlagáætlunar og vegna 4% söluskattsaukans í mars og 2% hækkunar söluskatts í okt. er innheimta söluskatts á árinu nú áætluð 10 milljarðar og 900 millj. kr. Á grundvelli þjóðhagsforsendna fjárlfrv. er spáð 17–18% hækkun álagningarstofns en að auki komi svo tekjur af 2% söluskattshækkuninni á heilu ári og einnig af 4% söluskattsaukanum, þannig að í heild er gert ráð fyrir 15 milljarða 844 millj. kr. tekjum af söluskatti á næsta ári, sem er 4 milljarða 944 millj. kr. hækkun frá árinn í ár.

Launaskattur var hækkaður úr 2.5% í 3.5% í apríl s.l. og rennur öll hækkunin til Byggingarsjóðs ríkisins. Af þessum sökum og einnig vegna mikilla launahækkana á árinu 1974 hækka tekjur af launaskatti úr 1200 millj. kr. í fjárl. 1974 í 2 milljarða 214 millj. kr. skv. fjárlfrv.

Rekstrarhagnaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hækkar einnig nokkuð frá fjárl. 1974 eða um 542 millj. kr., fyrst og fremst vegna hækkunar áfengis- og tóbaksverðs fyrr á árinu.

Aðrir óbundnir skattar nema um 2 milljörðum 18 millj. kr. og hækka um nær 866 millj. frá síðustu fjárlögum. Munar þar mest um hækkun verðjöfnunargjalds af raforku í samræmi við ný lög um 13% gjald af smásöluverði. Er gjaldið áætlað 440 millj. á næsta ári, en var áður föst fjárhæð, 70 millj. kr. Bifreiðaskattur, þ.e.a.s. þungaskattur af dísilbifreiðum, hækkar til samræmis við hækkun bensingjalds. Af öðrum tekjum, sem hækka verulega frá síðustu fjárl., má nefna sölu erlends gjaldeyris, stimpilgjald og þinglýsingargjald, sem samtals hækka um 348 millj. kr., en þessi hækkun hefur að miklu leyti orðið þegar á árinu 1974.

Hér að framan hefur verið getið helstu skatttekna ríkissjóðs, en skatttekjur eru samtals um 99% af heildartekjunum. Afgangurinn eru m.a. arðgreiðslur frá ríkisfyrirtækjum, sem ætlað er að hækki nokkuð á næsta ári, aðallega vegna aukinna tekna af Fríhöfninni á Keflavikurflugvelli. Ýmsar tekjur aðrar hækka talsvert frá síðustu fjárlögum, aðallega vegna aukinna vaxtatekna.

Eins og fram kemur í grg. frv. er ekki reiknað með neinum verulegum breyt. á tekjuöflun ríkisins á næsta ári. Með tilliti til þess hve stutt er síðan núv. ríkisstj. var mynduð er þetta eðlileg forsenda fjárlagafrv. Gildandi skattalögum verður beitt eftir því sem kostur er í samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstj. í skattamálum. Þannig er reiknað með því, að skattvísitalan hækki um 45% eða jafnt og nú er spáð að nemi hækkun meðaltekna milli áranna 1973 og 1974. Auk þess eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga lækkaðar um 500 millj. Þessi lækkun er hugsuð til þess að greiða fyrir sameiningu algengustu bóta almannatrygginga og tekjuskattsins í einu tekjujöfnunarkerfi. En áformað er að undirbúa mikilvægt skref í þessa átt þegar á þessum vetri. Þessi ákvörðun auk 500 millj. kr. sérstakrar fjárveitingar til kjara- og verðlagsmála er að nokkru sprottin af samráði ríkisstj. við aðila vinnumarkaðarins í sept. s.l. til undirbúnings brbl. og l. um launajöfnunarbætur o.fl., en í 6. gr. þeirra laga er gefið fyrirheit þess efnis, að fjölskyldubætur skuli á gildistíma laganna vera kr. 20 þús. með barni að óbreyttum reglum eða samsvarandi ívilnun verði með öðrum hætti veitt barnmörgum fjölskyldum. Ákvarðanir um niðurgreiðslur ársins 1975 koma hér einnig til skoðunar.

Þessi atriði fjárlfrv. miða þannig að því að samræma stefnuna í skatta- og tryggingamálum ákvörðunum á sviði kjaramála og er mikilvægt að gott samkomulag náist um þessi málefni.

Með till. fjárlfrv. um tekjuskatt einstaklinga er einnig náð því marki að ekki sé lagður tekjuskattur á almennar launatekjur og raunar einnig að hlutfall beinna skatta einstaklinga af tekjum fyrra árs lækki nokkuð frá því sem er í ár eða úr 16.6% í 16.3% að óbreyttum forsendum. Vegna hinnar miklu tekjuhækkunar milli 1973 og 1974 er þó við því að búast að hlutfall beinna skatta á næsta ári af tekjum sama árs hækki nokkuð, en verði þó lægri en t.d. ársins 1973. Hér kemur ekki síst til nauðsyn þess, að hafa stjórn á eftirspurn og eyðslu á næsta ári. Með hækkun skattvísitölu um 45% verða 1100 þús. kr. brúttótekjur tveggja barna fjölskyldu í ár tekjuskattslausar, miðað við venjulegan frádrátt frá tekjum til skatts: nettótekjur 830 þús. kr. Þetta mark gæti svo enn hækkað verði 500 millj. kr. lækkuninni beitt þannig, en enn er óráðið í smáatriðum hvernig þeirri lækkun verði háttað.

Fjmrn. hefur leyst frá störfum nefnd þá, sem undanfarin ár hefur unnið að athugun á tekjuöflun hins opinbera og skilaði m.a. skýrslu í nóvembermánuði 1973 og hefur nú lokið störfum sínum. Verður þessari athugun haldið áfram og fyrsta verkefnið að gera till. um framkvæmd þeirrar 500 millj. kr. lækkunar tekjuskatts sem frv. gerir ráð fyrir auk 45% hækkunar skattvísitölu. Þá yrðu í samráði við trmrn. gerðar till. um sameiningu tekjuskatts og helstu bóta almannatrygginga. Meginröksemdir fyrir samhæfingu og samræmingu tekjuskatts og tryggingabóta eru tvær: Í fyrsta lagi er með einu samfelldu kerfi auðveldara að ná þeim tekjujöfnunarmarkmiðum sem að er stefnt. Í öðru lagi felur sameining í sér einföldun í framkvæmd bæði fyrir almenning og hið opinbera og gæti án efa leitt til sparnaðar í ríkisbúskapnum.

Hið nýja tekjujöfnunarkerfi mun tryggja þjóðfélagsþegnunum lágmarkstekjur. Fyrsta skrefið í þessa átt verður sameining fjölskyldubóta og tekjuskatts. Verður tekið til athugunar, hvort unnt er að framkvæma þá breytingu strax á þessum vetri. Með þessum hætti væri e.t.v. færður 1 milljarður króna úr millifærslu hins opinbera beint til heimilanna, sem hvort eð er ætlað að njóta þess fjár. Í kjölfar þessarar breytingar yrði sameining tekjuskatts og ýmissa bóta lífeyristrygginga könnuð.

Helsta vandamálið vað undirbúning hins nýja samræmda skatta- og tryggingakerfis er hvernig haga skuli endurgreiðslum til þeirra, sem hafa lægri tekjur til skatts en hækkaðri persónuívilnun nemur. Réttmæt gagnrýni hefur komið fram vegna skattafsláttarkerfisins, sem tekið var upp við álagningu skatta á þessu ári, og þarf að ráða bót á þeim annmörkum. Ástæðulaust er að þeir njóti endurgreiðslna sem hafa lágar tekjur til skatts vegna afskrifta og annarra hliðstæðra ástæðna. Eins þarf að hafa framkvæmdarsjónarmið í huga. Vafalaust virðist, að með því að stefna í þá átt að fækka frádráttarliðum til skatts og einfalda tekjuhugtakið mætti í senn ná einfaldari framkvæmd og umfram allt lægri skatti af viðbótartekjum. Þessum efnum hefur nefndin, sem unnið hefur að athugun á tekjuöflun ríkisins, þegar gert nokkur skil og verður unnið áfram á þeim grundvelli. Við það verður miðað í þessu starfi, að ný heildarlöggjöf um tekjuöflun hins opinbera komi til framkvæmda á kjörtímabilinu.

Auk þeirra verkefna á sviði skattamála, sem þegar hafa verið nefnd, verður undirbúin ákvörðun Alþingis um, hvort taka skuli upp almennan virðisaukaskatt í stað söluskatts. Er þá sérstaklega haft í huga að skattar á íslenskri framleiðslu bæði til útflutnings og innlendrar sölu beint og óbeint séu ekki óhagstæðari en gerist í nágrannalöndum okkar. En það má heita helsta viðfangsefnið á sviði skattamálanna að finna sanngjarna og hagkvæma skattstofna í staðinn fyrir verndartollana sem hverfa smám saman úr ríkistekjunum fram til ársins 1980 samkv. samningum okkar við EFTA og Efnahagsbandalagið.

Nauðsynlegt virðist að huga náið að söluskattskerfinu, þegar söluskatturinn er orðinn jafnhár og raun ber vitni. Við hækkun skattsins eykst hætta á undandrætti. Jafnframt gætir í sívaxandi mæli áhrifa frá uppsöfnun skatts af fjárfestingu og aðföngum til óhagræðis innlendri framleiðslu í samkeppni við innflutning eða á mörkuðum erlendis. Verður nú þegar að taka til athugunar hvort til greina komi sem bráðabirgðalausn að innheimta t.d. aðeins hluta söluskatts af vélum. Uppsöfnun skatts má losna við með því að koma á virðisaukaskatti. Virðisaukaskattur er hins vegar ekkert töfraorð til lausnar öllum vanda. Þessi skattur hefur sína kosti og galla og er nauðsynlegt að fyrir Alþingi verði lagðar viðtækar upplýsingar um skattinn jafnhliða mótuðum till. um hvernig á málum skuli haldið.

Unnið verður að umbótum á innheimtukerfi skatta og stefnt í átt til staðgreiðslu skatta án þess að fyrir fram sé talið víst að staðgreiðsluskattkerfi að erlendri fyrirmynd henti hér að öllu leyti. Meginstefna við endurskoðun skattkerfisins er að tekjustofnum ríkisins verði fækkað og álagning og innheimta gjalda gerð einfaldari og umstangsminni bæði fyrir skattþegnana og ríkið. Þannig má minna á að sameining launaskatts og tryggingagjalda atvinnurekenda ætti ekki að vera erfitt viðfangsefni né hafa íþyngjandi áhrif á atvinnuvegina. Hins vegar fækkaði tekjustofnum nokkuð við slíka sameiningu og losna mætti við miklar skriftir bókhald og pappírsfargan.

Í framhaldi af samþykkt Alþ. nú í sumar á lögum um fjáröflun til vegagerðar er eðlilegt að slysatryggingariðgjald ökumanna verði fellt niður svo og skoðunargjöld bifreiða, en innheimta þessara tveggja gjalda hefur nú í för með sér að út verður að senda 70 þús. gjaldseðla.

Ötullega verður unnið að því að tryggja réttláta skatta með auknu skatteftirliti.

Á sviði skattamála skiptir og miklu að skýrari línur séu dregnar í fjárhagsmálum sveitarfélaga. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. segir: „Réttarstaða landshlutasamtaka verði ákveðin og sveitarstjórnarlög endurskoðuð. Sveitarfélögum séu falin aukin verkefni og fjárhagslegur grundvöllur þeirra endurskoðaður til þess að tryggja sjálfstæði þeirra og framkvæmdagetu.“ Þessi sjónarmið munu að sjálfsögðu móta starfið við áframhaldandi endurskoðun tekjuöflunar hins opinbera í heild.

Skattakerfið þarf í senn að skila nægjanlegu fé til almenningsþarfa og ásamt almannatryggingakerfinu hafa áhrif á tekjuskiptingu þjóðarinnar í réttlætisátt án þess að verka lamandi á framtakssemi og vinnuvilja manna eða valda ósanngjarnri mismunun milli manna eða atvinnugreina. En skattkerfið á líka að geta gegnt hagstjórnarhlutverki. Það þarf að vera unnt að beita því, opinskátt til að hafa áhrif á eftirspurnar og athafnastigið í landinu. Til þess að þessu marki megi ná virðist athugandi hvort ekki sé rétt að skapa svigrúm í fjárlögum ár hvert til þess að breyta mikilvægum sköttum til lækkunar innan fjárlagaársins í hagstjórnarskyni. Forsenda þess, að þetta kæmi að gagni, er að sjálfsögðu sú, að slíkar skattbreytingar hefðu ekki áhrif á kaupgjaldsvísitölu. Svipaðar hugmyndir mætti og kanna á útgjaldahlið fjárlaga. Þetta verður athugunarefni næstu ára.

Fjármálastjórn ríkisins verður efld og yfirsýn tryggð yfir útgjöld og tekjur hins opinbera í heild og yfir lántökur og lánveitingar opinberra aðila og sjóða. Fjmrn. hlýtur að gegna forustuhlutverki á þessum vettvangi. Enn þarf að auka aðhald og eftirlit með útgjaldaáformum og útgjaldaþróun ríkisfyrirtækja, sérstaklega þarf að bæta gerð framkvæmdaáætlunar með fjárlögum. Vegáætlun þarf að falla með raunhæfum hætti inn í þann ramma og allar fjárfestingarákvarðanir ríkisfyrirtækja. Koma þarf á samræmdri skýrslugerð um framgang allra ríkisframkvæmda innan fjárhagsársins ekki sjaldnar en ársfjórðungslega.

Í stefnuræðu forsrh. kom fram að ríkisstj. hyggist beita sér fyrir því að binda innlenda lánastarfsemi og notkun erlends lánsfjár innan ramma heildaráætlunar um fjármagnsmarkaðinn. Hér væri um að ræða frekari útfærslu þeirra áætlana um útlán fjárfestingarlánasjóða og fjáröflun til þeirra sem gerðar hafa verið árlega undanfarin ár, en æskilegt er að slík áætlun fyrir 1975 verði gerð hið fyrsta. Hugmyndin að baki þessari áætlunargerð er að sjálfsögðu sú að fá með skipulögðum hætti yfirsýn yfir alla lánastarfsemina í landinu og freista þess að tryggja að þróun lánamarkaðarins sé í samræmi við heildarstefnuna í efnahagsmálum. Lántökur og lánveitingar ríkisins sjálfs gegna hér lykilhlutverki. Á næsta ári þarf að liggja fyrir um líkt leyti og fjárlagafrv. áætlun af þessu tagi. Til þess að koma þessu verki áleiðis þarf samvinnu og samráð yfirvalda og stofnana á sviði peninga- og lánamála og efnahagsmála. Markmiðið er að tryggja sem hagfelldasta nýtingu lánamarkaðarins innanlands og utan.

Í þessu sambandi er ástæða til þess að nefna lífeyrissjóðina sérstaklega. Lífeyrissjóðir hafa á síðustu árum orðið ein mikilvægasta uppspretta lánsfjár í landinu. Það er aðkallandi að hið ört vaxandi fjármagn sjóðanna beinist í auknum mæli til mikilvægra framkvæmda atvinnufyrirtækja og opinberra aðila og til félagslegra forgangsframkvæmda á sviði húsnæðismála. Jafnframt þarf að tryggja viðunandi ávöxtun þessa sparifjár almennings og getu sjóðannatilgreiðslu lífeyris þegar að því kemur. Ríkisstj. vill vinna að lausn þessara vandamála í samvinnu við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna og treystir því að finna megi samkomulagsleiðir sem allir aðilar geta sætt sig við.

Ríkisstj. hefur í dag lagt fram á Alþingi frv. til laga um lántökur ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja. Í frv. þessu er kveðið svo á, að ríkisfyrirtækjum, sjóðum og stofnunum sé óheimilt að stofna til skulda, taka lán eða taka ábyrgð á skuld eða láni nema til þess sé heimild í lögum eða fjárl. eða fyrir liggi sérstakt samþykki viðkomandi ráðuneytis og fjmrn. Frv. þetta er gagngert flutt til að veita þeirri óhæfu viðnám að einstök fyrirtæki ríkisins geti hlaðið upp skuldum án þess að viðkomandi ráðuneytum sé gert slíkt ljóst fyrr en í hreint óefni er komið. Veruleg skuldasöfnun fyrirtækja ríkisins án skýrrar lagaheimildar getur ekki talist í samræmi við heilbrigða fjármálastjórn. Jafnframt verður með þessum hætti betur tryggt að stjórnvöld sinni vandamálum þessara fyrirtækja fyrr en raun hefur orðið á að undanförnu. Traust fjármálastjórn ríkisins byggist m.a. á haldgóðum upplýsingum um hina ýmsu þætti ríkisfjármálanna bæði hjá ríkissjóði sjálfum og einstökum stofnunum og fyrirtækjum ríkisins. Þessar upplýsingar þurfa ekki aðeins að vera haldgóðar, heldur er einnig nauðsynlegt að þær séu aðgengilegar fyrirvaralítið allan ársins hring. Í þessu felast engin ný sannindi. Markmið lagabreyt. á árinu 1966 um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga mótaðist einmitt að verulegu leyti af þeim sjónarmiðum, eins og segir í grg. með frv., að fjárlög og ríkisreikningur væru þannig úr garði gerð að þau þjónuðu sem best þörfum fjárveitingavalds og fjármálastjórnar, almennrar stjórnsýslu og hagstjórnar, þjóðhagsreikninga og hagsýslugerðar yfirleitt. Þessari stefnu mun verða fylgt fast eftir bæði við gerð fjárlaga og ríkisreiknings. Ríkisbókhaldið hefur á undanförnum árum dokið við A-hluta ríkisreiknings það snemma árs að unnt hefur verið að fá þm. hann í hendur fyrir þinglausnir. Jafnframt hefur ríkisbókhaldið lokið við B-hluta ríkisreiknings það tímanlega að unnt hefur verið að leggja fram ríkisreikning í heild fyrir fjárlagaumr. Ríkisbókhaldið hefur því nú þegar náð þeim árangri í starfi að á næsta ári ætti tölulegur samanburður milli fjárlagafrv. 1976 og ríkisreiknings 1974 að geta fylgt fjárlagafrv. Ríkisbókhaldið stefnir hins vegar að því að ríkisreikningur undanfarins árs geti verið fullbúinn í apríl. Til þess að ná þessum árangri er það mat ríkisbókara að vinna verði bókhaldsgögn í vaxandi mæli í skýrsluvélum og jafnframt að úrvinnsla fyrir einstaka ríkisaðila fari eftir sömu meginreglum. Fullyrða má að þessi stefna ríkisbókhaldsins mun skila mjög jákvæðum árangri, ekki aðeins við stjórn fjármála, peninga- og efnahagsmála, heldur einnig við þann eftirlitsþátt sem ríkisendurskoðunin annast. Með þessu skipulagi verður mun auðveldara að koma við samtíma endurskoðun bókhaldsgagna, en það verður að telja mikilvægt skref í átt til meira aðhalds í meðferð fjármuna ríkisins.

Nýir kjarasamningar við starfsmenn ríkisins tóku gildi 1. jan. s.l. Samningar þessir vorn gerðir í samræmi við ákvæði laga um kjarasamninga starfsmanna ríkisins, nr. 46 1973. Sú meginbreyt. varð á tilhögun samninga, að áður var samið við einn aðila, þ.e.a.s. BSRB, en nú er samið við þrjú heildarsamtök starfsmanna og 35 einstök félög. Samningsgerð er tvíþætt. Annars vegar verður að semja við heildarsamtök starfsmanna og var þeim samningum lokið eða dómsniðurstaða í kjaradómi fengin fyrir l5. febr. Hins vegar þarf að semja við einstök félög innan heildarsamtakanna. Þeim samningum var að mestu lokið um miðjan júní. Samningar þessir gilda til 30. júní 1976. Auk þessara samninga þurfti að semja við fjölmarga hópa innan hinna einstöku félaga. Fyrir hönd ríkisins annaðist samninganefnd ríkisins í kjaramálum gerð samninganna og að auki sérstök vinnumálanefnd fyrir atvinnufyrirtækin undir forustu deildarstjóra launadeildar fjmrn. Öll þessi viðamikla samningagerð hafði að sjálfsögðu í för með sér gífurlegt vinnuálag í fjmrn. og þó sérstaklega hjá launadeild þess. Sérstökum vandkvæðum hafa og valdið þau ákvæði kjarasamningalaganna að samningarnir skyldu vera afturvirkir, þannig að endurreikna varð kjör starfsmanna um marga mánuði aftur í tímann.

Nokkrar umr. og jafnvel blaðaskrif hafa orðið um störf launadeildar og þann drátt sem orðið hefur á afgreiðslu launa samkv. samningum. Ná er það svo að afgreiðsla launa er mjög sérhæft starf og verður tímabundinni aukningu verkefna illa mætt með því einu að fjölga starfsliði. Launadeildin afgreiðir um 12% allra launagreiðslna í landinu og jafnframt hefur deildin það verkefni að túlka alla kjarasamninga ríkisins gagnvart viðsemjendum þess. Þegar litið er á þau verkefni sem deildin hefur haft til úrlausnar í sumar og nú á haustmánuðum verður að telja það nær undravert hve miklu þeir 8 einstaklingar, sem þar hafa starfað að undanförnu, hafa komið í verk. Langflestir starfsmanna ríkisins fengu umsamdar kjarabreyt. sínar í hendur skömmu eftir gerð samninga. Þær tafir, sem orðið hafa, ber að harma. Þau samtök, sem hlut eiga að máli, hafa tekið þeim með stillingu og skilningi og ber að þakka slíkt.

Sú umfangsmikla samningagerð, sem ég hef nú greint frá, hlýtur að beina að því athygli, hve ríkið er orðinn umfangsmikill vinnuveitandi í landinn. Láta mun nærri að um 17 þús. einstaklingar fái nú í ár einhver laun greidd hjá launadeild ráðuneytisins, en auk þess fá margir starfsmenn ríkisins laun sín greidd annars staðar, t.d. allir starfsmenn Landsspítalanna. Starfsmenn á föstum mánaðarlaunum samkvæmt launakerfi ríkisins eru að sjálfsögðu miklu færri eða um 7500. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að starfsmönnum fjölgi um 113. Eru 53 þessara starfsmanna þegar í störfum hjá ríkinu. Það er ekkert álitamál að marka verður ákveðna stefnu um starfsmannahald ríkisins með það fyrir augum að draga úr kostnaði ríkisins og hafa hemil á starfsmannafjölgun. Jafnframt er eðlilegt og nauðsynlegt að ljóst sé hvaða skuldbindingar ríkið gengst undir gagnvart starfsmönnum sínum. Ríkisstj. mun því í dag leggja fram frv. til l. um eftirlit með ráðningu starfsmanna þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að fjölga starfsmönnum í þjónustu ríkisins nema að fengnu samþykki sérstakra trúnaðarmanna þings og ríkisstj. svo og að óheimilt sé að hafa menn að störfum á vegum ríkisins nema tilskildar greiðsluheimildir séu fyrir hendi. Þá er enn fremur gerð sú krafa að jafnan sé ljóst við ráðningu hvaða réttindi starfsmaður nýtur. Ákvæði eru um það í frv. að semja skuli árlega skrá um starfsmenn ríkisins sem birt verði með fjárlagafrv. Ég vil taka það fram að frv. þetta felur ekki í sér neina breyt. á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þau lög, svo og lög um lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eru nú í endurskoðun. Nánar verður að sjálfsögðu gerð grein fyrir frv. við 1. umr. þess.

Eins og áður greinir miðast tekjuáætlun fjárlagafrv. 1975 í aðalatriðum við óbreytt kauplag og verðlag í sept. s.l., en þó er reiknað með áætluðum verðlagsáhrifum gengislækkunarinnar í ágústlok. Á næstu missirum eru fyrirsjáanlegar ýmsar frekari verðhækkanir auk þess sem þegar eru þekktar ýmsar verðhækkanir frá því í lok ágúst s.l. Hinn 1. okt. s.l. komu til greiðslu sérstakar launajöfnunarbætur, sem taldar voru jafngilda 6–61/2% almennri kauphækkun, og á næsta ári gæti komið til frekari greiðslna slíkra uppbóta. Þessi atriði verða tekin til athugunar þegar tekjuáætlunin verður endurmetin í des. svo sem venja hefur verið. Vert er að hafa í huga að horfur um viðskiptajöfnuð á næsta ári eru mjög tvísýnar og ekki rétt að tefla á tæpasta vað. Verði niðurstaðan sú að hækkun tekna við endurskoðun nemi meiru en hækkun gjalda hlýtur að teljast eðlilegt að auka endurgreiðslu fyrstu spariskírteinanna úr ríkissjóði og greiðslu á væntanlegri yfirdráttarskuld ríkissjóðs í Seðlabankanum.

Að lokum er rétt að leggja á það áherslu að tekjuhlið fjárlaga er reist á þeirri meginforsendu að á árinu 1975 verði ekki aukning almennra þjóðarútgjalda að raunverulegu verðgildi og að ná þurfi traustu jafnvægi í fjárhag ríkissjóðs við þessi skilyrði og að leiðrétta reyndar jafnfram2 að nokkru þann halla, sem útlit er fyrir að verði hjá ríkissjóði í ár. Fari svo að þjóðarútgjöldin aukist meira en þessu nemur er hiklaust nauðsynlegt að hjá ríkissjóði myndist greiðsluafgangur. Fari hins vegar svo að um magnminnkun almennra þjóðarútgjalda yrði að ræða á næsta ári, sem þó er ekki gert ráð fyrir, hlýtur fjárhagsstaða ríkissjóðs að veikjast, enda virðist þá eðlilegt að beita ríkisfjármálum með þeim hætti, að svo miklu leyti sem greiðslustaðan við útlönd gerir það kleift.

Í heild er fjárlögum ársins 1975 ætlað að vera líður í þeirri heildarstefnu í efnahagsmálum að tryggja jafnvægi í þjóðarbúskapnum inn á við og út á við og varanlegt atvinnuöryggi í landinu. Í þjóðhagsforsendum frv. felst að nást ætti viðunandi jöfnuður í viðskiptunum við útlönd á árinu 1975, jafnframt því sem full atvinna héldist þótt dregið verði úr þeirri miklu spennu sem ríkt hefur um skeið.

Þær ráðstafanir í efnahagsmálum, sem ríkisstj. beitti sér fyrir á s.l. sumri og hausti, beindust að þeim geigvænlega vanda sem hér var fyrir hendi. Þær stefna að því að tryggja atvinnuöryggi og treysta stöðu þjóðarinnar til þess að standa við skuldbindingar sínar erlendis. Í þessu skyni varð að bæta afkomu atvinnuveganna, stöðva sjálfvirkar víxlhækkanir verðlags og kaupgjalds, minnka almennan eftirspurnaþrýsting og styrkja stöðu ríkissjóðs og sveitarfélaga og hvers konar opinberra stofnana. Þetta þurfti jafnframt að gerast á þann hátt að það hefði sem minnst áhrif á kjör þeirra sem lakast voru settir.

Þær aðgerðir, er nú hafa verið framkvæmdar í efnahagsmálum, megna að .sjálfsögðu ekki að ná að fullu þeim árangri sem að er stefnt. Sá árangur getur aðeins náðst á lengra tímabili og þá því aðeins að fylgt verði samræmdri heildarstefnu í efnahagsmálum sem miðar að viðtæku aðhaldi í öllum greinum. Fjárlögin eru eitt meginatriði slíkrar stefnu og það frv. sem hér er lagt fram er við það miðað.

Við eigum nú eins og margar aðrar þjóðir við tímabundna örðugleika í efnahagsmálum að etja, sem taka þarf á með festu og raunsæi. Fátt er þó svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Þannig stóreykur orkuverðshækkunin í heiminum framtíðarverðgildi íslenskra orkulinda, þótt um sinn valdi hún okkur búskelli. Íslenska þjóðin er vel menntuð og kann vel til verka og er rík af vinnuvilja og trú á framtíðina. Forsendur eru því góðar til þess að við getum haldið stöðu okkar eð'a jafnvel bætt hana í hópi þeirra þjóða, sem best eru settar í heiminum, þrátt fyrir harðnandi alþjóðasamkeppni. En við þurfum að kunna okkur hóf á líðandi stund.

Herra forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég mega færa undirnefnd fjvn. þakkir fyrir störf hennar áður en til þings var komið og vonast til þess að þau störf fjvn. nú verði með þeim hætti eins og að undanförnu að afgreiðslu þessa máls gæti lokíð fyrir jól. Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til fjvn. og 2. umr.