27.01.1975
Sameinað þing: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

Umræður utan dagskrár

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Hér er raunar hreyft allmiklu máli. Á tveimur síðustu vertíðum var ástandið slíkt að skip lágu með mikinn afla og fengu ekki löndun. Það gekk svo langt á s.l. vertíð að henda varð þúsundum tonna í sjóinn aftur. Þó að sölutregða sé nokkur á mjöli í dag, gengur vel að selja lýsi. Og það nær ekki nokkurri átt þegar við eigum kost á því að veiða þennan fisk, sem er mjög tímabundið á Íslandi, að við nýtum ekki alla þá möguleika sem gefa okkur sem mesta veiði. Það hlýtur að vera eðlilegt að við veiðum eins mikið á Íslandi og hægt er. Annars hefur skapast eitthvert ástand í þjóðfélaginu sem er nauðsynlegt að athuga gaumgæfilega.

Ég vakti máls á þessu hér fyrir tæplega ári utan dagskrár, að ástandið í löndunarmálum okkar væri svo slæmt að það hefði átt sér stað að skip yrðu að henda miklum afla í sjóinn. Ég hef einnig tvívegis flutt um það þáltill., sem hefur ekki fengið hér hljómgrunn, að reist yrði verksmiðja í Grindavík til að mæta þeirri auknu afkastagetu flotans að bjarga afla á land. Hafa fáir þm. tekið undir þessa hugmynd, en sérstaklega vil ég þakka Oddi Ólafssyni, sem hefur stutt það bæði með fundarhöldum með mér og með ræðu í þingsölum að þessi verksmiðja kæmist upp. Til þess að láta ekki sitja við orðin tóm leitaði ég víða eftir hugmyndum um verð á slíkri verksmiðju sem bræddi um 1000 tonn. Var hægt að fá verksmiðju í fyrra afgreidda strax og hefði verið tilbúin í dag fyrir 350 millj. kr. á þeirra tíma gengisskráningu.

Það var athyglisvert í ræðu frummælanda hér, að hann talaði um að tvívegis hefði komið til tals, eftir því sem ég skildi hann, eða felldur úrskurður um efnisleg atriði um leigu á skipi. Ef ég man rétt leitaði hann hófanna við nokkra þm. á sínum tíma, a.m.k. gerði hann það við mig persónulega og ég tel fleiri, hvort rétt væri að taka á leigu erlent skip vegna mikils afla sem þá var á loðnu og tækifæri bauðst þá að bræða með stuttum fyrirvara um borð í skipi. Ég var heldur á móti því að gera það og taldi heppilegra að við ráðstöfuðum ákveðinni auratölu af kg í meiri flutninga, en flutningasjóðurinn svonefndi var allmikið tortryggður af ýmsum aðilum, þegar hann komst á fót, þó að það sé löngu liðinn tími nú.

Hins vegar hafa þau atvik átt sér stað nú að tvær verksmiðjur hafa eyðilagt af náttúruhamförum, og þess vegna er viðhorf nokkuð annað, þó að lögin nr. 33 frá 1922 fjalli auðvitað ekki um það hvað margar verksmiðjur í sjálfu sér eigi að vera í landinu, heldur er það grundvallaratriði sem þau fjalla um. Ég er efnislega sammála frummælanda, þar sem þessi lög hafa í langan tíma verið skýrð mjög þröngt af ráðh. úr öllum flokkum, um það að þegar undantekning frá þessum lögum er gerð, þá skuli um það fjallað á hv. Alþ. Ég er persónulega á þeirri skoðun, að Alþ. viti um það og lýsi a.m.k. yfir vilja sínum í því efni ef út af er brugðið þeim anda sem lögin boða. Og þó að ekki sé beinlínis tekið fram um leigu, þá þótti rétt að Alþ. lýsti vilja sínum hvort við tækjum hér skip á leigu undir dönsku flaggi þótt einn eigendanna væri íslenskur og með íslenskri áhöfn. Ég studdi það, vegna þess að ég taldi það til bóta fyrir þjóðarbúið, og efnislega styð ég þessa leigu vegna þess að ég tel þetta til bóta fyrir þjóðarbúið. Við fáum ekki tækifæri til að veiða loðnu nema í mjög stuttan tíma og okkur veitir sannarlega ekki af að draga björg í bú. Þess er mikil þörf og oft hefur verið minni þörf en í dag fyrir slík uppgrip.

Hæstv. sjútvrh. greindi hér vel frá þessu máli og þarf ég ekki að hafa orðalengingar um það. Ég harma hvatvíslegar ályktanir frá Siglufirði. Hið ágæta bæjarráð þar hefði aðeins átt að hugleiða, með hvaða hætti loðnan veiðist á Íslandi og hversu langt er að sigla með hana þangað, og einnig það, eins og öllum þingheimi má vera ljóst og allri þjóðinni hefur verið ljóst, að þegar ríkir hvöss norðanátt og norðaustanátt, þá sigla skip ekki norður fyrir Langanes vegna hættu, bæði ísingarhættu og annarrar áhættu. En þegar við lítum á skýrslu loðnuveiðinefndar kemur mjög rækilega í ljós að megnið af loðnunni aflast vestan við Hornafjörð og sáralítið austan við. Það er því óhemju tímasóun sem fer í að flytja loðnuna á veiðiskipunum sjálfum norður fyrir.

Og þegar tvær mikilvægar verksmiðjur detta út, eins og Neskaupstaður hefur verið sérstaklega mikilvægur þáttur undanfarin ár, þá er komið upp sérstakt og alvarlegt ástand. Þess vegna eru full rök fyrir því að leita hófanna að bjarga með skjótum hætti úr þessu erfiða ástandi.

Efnislega er ég samþykkur því að skipið sé tekið á leigu, en ég tel rökrétt vegna laganna frá 1922, eins og hér hefur verið rætt um, að um málið sé fjallað á Alþ., allir þættir þess liggi ljóst fyrir og það sé staðfest hvers vegna út í þetta er farið. Að vísu hefur það átt sér stað nú með yfirlýsingu eða greinargerð ráðh., en engu að síður tel ég rökrétt að viljayfirlýsing Alþ. lægi fyrir í þessu efni. Sjálfsagt geta hálærðir lögfræðingar og prófessorar um það deilt, hvort við þurfum á einn eða annan veg að fjalla um málið. En ég tel það eðlilegt og rökrétt, vegna þess að það mun vera rétt frá skýrt að allan tímann hefur bókstafur þessara laga verið skýrður mjög þröngt af öllum ráðh., og hafa þeir verið úr öllum stjórnmálaflokkum sem hér hafa átt hlut að máli. En ég lýsi stuðningi við að taka skipið á leigu og tel að það muni bjarga miklum verðmætum í land og verða til eflingar þjóðarbúinu og sérstaklega þeim sem fást við að afla loðnunnar núna, og sannarlega þurfum við á því að halda. Ráðstöfun á þessu skipi mun falla undir þau lög sem við höfum um loðnunefnd. Þess vegna er þetta undir góðri stjórn og ég held að það hljóti að vera hægt að skipuleggja flutninga viða um landið eins og verið hefur þrátt fyrir tilkomu þessa skips. Svo blessunarlega stendur á að fiskifræðingar hafa margsinnis lýst yfir að von sé á miklum afla af loðnu, en þar mun um ráða veður og vindar hvernig til takist. Það er því aðeins spurning um að geta bjargað góðum afla á land og undirbúa það sem best, og við megum ekki vera hikandi við að tryggja það að bátarnir komi með sem mestan afla að landi. Það nær ekki nokkurri átt að þurfa að lifa það ár eftir ár, að bátar liggi í höfn drekkhlaðnir og jafnvel verði að henda aflanum frá borði.