27.01.1975
Sameinað þing: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það er í tilefni af því að hæstv. sjútvrh. lagði fyrir mig tvær spurningar.

Í fyrsta lagi spurði hann hvernig stæði á því að samið hefði verið á sínum tíma við Belgíumenn og Breta og Norðmenn og fleiri aðila um veiðiheimildir á landhelginni áður en lög hefðu verið sett um það hér á Alþ. Þetta mál hefur æðioft verið athugað og við höfum ævinlega fengið þá skýringu á því, að það er skýrt tekið fram, bæði í þessum margumtöluðu lögum frá 1922, um veiðar í landhelgi, og eins í landgrunnslögunum frá 1948, sem við miðum okkar landhelgisútfærslu við, að framkvæmd á þessum lögum skuli ekki á neinn hátt raska milliríkjasamningum eða samningum Íslands við önnur ríki, eins og þeir eru á hverjum tíma. Þannig hefur verið staðið að þessum málum allan tímann, að milliríkjasamningar hafa verið gerðir og síðan hefur verið leitað eftir staðfestingu Alþ. á þeim. Það hefur ekki verið talið hægt að ætla að setja lög um slíkt áður, enda gert beinlínis ráð fyrir því í þessum lögum að þau eigi ekki að raska milliríkjasamningum sem Ísland kann að gera á hverjum tíma. Þetta er skýringin á þessu atriði. Menn geta því ekki skotið sér neitt á bak við þessa starfsaðferð með það sem er verið að gera í þessum efnum.

Þá spurði hæstv. sjútvrh. mig hvernig hefði staðið á því að ég lét kanna það á árinu 1973 hvort rétt væri að taka á leigu þetta sama skip til loðnubræðslu þá. Ástæðan var sú, að þá gerðist það, sem oft hefur gerst áður, að innlendir aðilar sóttu á um þetta og komu með tilboð og þessi tilboð voru gaumgæfilega athuguð. Ég sagði einnig í umr. um þetta mál í dag, að ég tel vissulega geta komið upp þær aðstæður að við eigum að víkja frá þessum meginlagaákvæðum okkar með sérstökum lagabreytingum. Ef þær aðstæður hafa komið upp, að við þurfum á einhverju slíku að halda, á vitanlega að setja lög um það. Það sem gerðist við eldgosið í Vestmannaeyjum var vissulega þess eðlis að að var sjálfsagt að kanna málið og það gaumgæfilega. Niðurstaðan varð hins vegar sú þá að það væri ekki rétt. Og tel ég enn að þá hafi þó verið miklu meiri ástæður til þess að víkja frá þessu meginlagaákvæði og taka skip á leigu heldur en þær ástæður sem liggja fyrir í dag. Það er m.a. þannig, eins og kom fram hjá hv. 1. landsk. þm., Jóni Árm. Héðinssyni. að hætti loðnuveiðarnar á þessu ári á þeim tíma sem allar líkur benda til að veiðarnar hætti vegna verðákvörðunar, þá minnkar heildaraflinn, sem við er að fást í landi, um 100 þús. tonn, og þó má búast við að aflinn minnki enn meir vegna þess að það verða miklu færri skip sem stunda veiðarnar.

Ég vil svo aðeins segja það, að það er rétt, sem hér hefur komið fram, að við erum algjörlega sammála um þau atriði sem hér hafa verið rædd, ég og hv. 1. landsk. þm., varðandi meginatriði málsins, það sem ég hef fyrst og fremst rætt um, þ.e.a.s. hina lagalegu hlið þess. En við erum hins vegar ósammála um það, hvort hafi verið þörf á því að heimila leigu á þessu skipi nú eða ekki. Ég sagði strax að ég skil mætavel að sumir aðilar geri mikið úr okkar vanda í þessum efnum og telji að við hefðum átt að leigja ekki aðeins eitt skip, heldur jafnvel fleiri, en aðrir mótmæli því. Þetta er ekki höfuðatriði málsins. En ég taldi sjálfsagt að greina frá minni skoðun, að ég tel þessar breyttu aðstæður ekki svo miklar að þetta sé réttmætt. Hitt er ég fyrst og fremst hræddur um, að hér séu menn að renna sér inn á þá hálu braut varðandi okkar landhelgismál sem kom fram á þinginu fyrir jól, að þá var samþ. að veita erlendu skipi, sem leigt er af innlendum aðilum, rétt til fiskverkunar í landhelgi. Hvenær kemur næsta skriðan? Hvenær kemur að því að það kemur eitt ágætt erlent skip sem verður leigt af íslendingum og því verður lagt einhvers staðar úti fyrir Vestfjörðum og það tekur að sér að vinna þar úr afla togaranna sem þar veiða og þeir þurfa þá ekki að vera að hrekjast inn á firði með aflann. Þegar menn eru komnir út á þessa braut, þá býður eitt öðru heim og ég tel að það beri að gjalda varhuga við þessari stefnu. Við eigum að vera íhaldssamir í þessum efnum eins og við höfum verið, varast að láta erlenda aðila komast bæði inn í okkar fiskverkun, okkar fiskveiðar á allan hátt, og varast það líka að þeir geti smeygt sér inn bakdyramegin með einhverjum leigusamningum. Það er þetta, sem ég tel vera höfuðatriði málsins.