28.01.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. trmrh. fyrir yfirlit hans um lífeyrissjóðsmál og afskipti rn. og Alþ. af þeim málum. Einnig hlýt ég að lýsa ánægju minni yfir því að svo almennur áhugi skuli vera á þessum málum hér á þingi sem hv. 3. þm. Reykv, lýsti hér áðan. En ég vil af því tilefni benda á það, að hv. þm. er búinn að sitja hér í áratugi á Alþ. og virðist aldrei hafa getað tekið þessi mál föstum tökum.

Hann sagði í ræðu sinni áðan, hv. þm., að það væri búið að kanna þetta mál til hlítar og fyrir lægi álitsgerð Guðjóns Hansens, tryggingafræðings. Ég vil leyfa mér að lýsa eftir þessari álitsgerð. Ég sem þm. hef ekki séð hana og því síður hef ég séð þessa álitsgerð sem fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar sem m.a. hefur fjallað u.m þetta mál.

Hv. þm. talaði um að það væri búið að kanna þessi mál það vel og rannsaka að ástæðulaust væri að bíða öllu lengur, nú lægi fyrir að semja frv. Ég vil vekja athygli hv. 3. þm. Reykv. á því, að málið er ekki alveg svona einfalt, vegna þess að verkalýðshreyfingin samdi á sínum tíma í frjálsum samningum árið 1969 um frjálsa lífeyrissjóði sem að vísu höfðu ekki verðtryggingarákvæði, þannig að það þarf að semja bæði við verkalýðshreyfinguna og vinnuveitendur um það hvernig beri að haga þessum málum. Það getur verið að það sé einfalt mál fyrir suma hv. alþm. að ætla sér að svipta bæði verkalýðshreyfinguna og vinnuveitendur þeim sjálfsagða rétti að hafa afskipti af þróun þessara mála og skipan, en ég held og læt í ljós þá skoðun að svo einfalt er málið ekki.

Í þáltill., sem ég lagði fyrir Alþ. á s.l. ári, lagði ég til að ríkisstj. væri falið að kanna þetta mál til hlítar. Ég undirstrika það; að fyrir utanaðkomandi hv. þm., sem ekki hafa kynnt sér þessi mál nægilega, virðist lausnin einföld. En svo er ekki gagnvart okkur sem erum úti í atvinnulífinu. Við gerum okkur grein fyrir að það þarf að gera meira en semja eitt lagafrv.