28.01.1975
Sameinað þing: 32. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

309. mál, þjóðhátíðarmynt

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Varðandi þetta mál um almennan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn þá er það rétt, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að allmikið hefur verið um það hugsað, rætt og ritað. Ég vil bæta því við, að allmikið hefur verið að því unnið, eins og grg. Guðjóns Hansens, tryggingafræðings ber með sér, en að henni var unnið skv. ósk þeirrar n. sem hér hefur verið minnst á, sem annaðist endurskoðun almannatryggingalaga, og það sýnir að sú n. taldi það hlutverk sitt að vinna að þessu máli og það gerði hún.

Tillögur Guðjóns Hansens, tryggingafræðings voru fengnar og eftir var að velja úr þeim. Næsti þáttur í starfi endurskoðunarnefndarinnar var einmitt að kanna þessar till. Guðjóns Hansens, frekar og vinna endanlegar till. úr þeim til hæstv. þáv. ríkisstj. Þegar þessum áfanga hafði verið náð urðu stjórnarskipti, og ég taldi rétt að það kæmi til kasta núv, hæstv. ríkisstj. hvort þessi n., sem skipuð var af fyrrv. ríkisstj., ætti að vinna áfram að þessum málum. Ég taldi þarna hafa orðið grundvallarbreytingu á. Og ég ræddi um þessi mál við núv. hæstv. heilbrrh. og kom fram hjá honum að ætlunin væri jafnvel að ný n. yrði sett í að endurskoða almannatryggingalögin, án þess að ég vissi hversu víðtækt verkefni hún ætti að fá. Ég hef síðar átt viðræður við skrifstofustjóra rn. í fjarveru ráðuneytisstjóra út af öðru máli, sem til n. hefur borist, og ítrekað það við hann að ég fyrir mitt leyti mundi óska eftir því að boðaður yrði fundur í n. þegar er lægi fyrir ósk núv. hæstv. ráðh. um að þessi n. starfaði áfram. Sú ósk hefur ekki komið fram og ég lít þannig á á meðan, að ekki sé eðlilegt að þessi n. fjalli frekar um þetta mál, á sama hátt og ég þekki það frá annari n. sem ég á sæti í og fjallar um endurskoðun laga um sveitarstjórnarmál, skipan sveitarstjórnarmála, að hún hefur ekki starfað heldur síðan stjórnarskiptin urðu.