04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

136. mál, lánasjóðir iðnaðarins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það var eðlilegt að hv. þm. Jón Árm. Héðinsson vekti hér máls á erfiðleikum ýmissa iðnfyrirtækja, þjónustufyrirtækja, einkum þeirra sem vinna fyrir sjávarútveginn, því að þeir erfiðleikar eru ákaflega alvarlegir. Þeir erfiðleikar stafa, eins og hann gat um, að verulegu leyti af fjárhagsörðugleikum sjávarútvegsins, sem hafa gert það að verkum að bátar og togarar hafa að undanförnu ekki getað staðið fyllilega í skilum gagnvart viðgerðarverkstæðum og öðrum þjónustufyrirtækjum.

Það verður að viðurkenna, að um leið og sú nauðsynlega ákvörðun var gerð að láta fara fram úttekt á sjávarútveginum á s.l. hausti, hafði sú ákvörðun og sú rannsókn á afkomu sjávarútvegsins óhjákvæmilega m.a. þær afleiðingar að dró úr greiðslum af hendi útgerðarfyrirtækja til verkstæðanna. Töldu flestir slíkir aðilar rétt að halda að sér höndum um greiðslur meðan þessi athugun stæði yfir. Um leið og slík úttekt á sjávarútveginum var nauðsynleg hafði hún þó þessar afleiðingar. Það er staðreynd sem ekki er hægt að neita. Það er því ljóst, að iðnaðarþjónustufyrirtækin fyrir sjávarútveginn eiga við geysilega greiðsluörðugleika að etja og hafa átt nú að undanförnu.

Varðandi sameiningu eða samræmingu lánastofnana iðnaðarins, þá er réttilega fram tekið hjá hv. þm. Gunnari J. Friðrikssyni, að hér er ekki aðeins um að ræða þá lánasjóði, sem ég nefndi í svari mínu, heldur einnig bankana, og er það fyrst og fremst Iðnaðarbankinn sem hefur það sérstaka verkefni að sinna iðnaðinum, en auk þess Landsbankinn, sem vitað er að er mjög stór og væntanlega stærsti aðilinn hér. Nú er það eitt af því, sem að er unnið, að kanna með hverjum hætti sé hyggilegt að sameina eitthvað af þessum stofnunum eða sjóðum og samræma starfsemi þeirra.

Í því sambandi er rétt að geta þess, að fyrir tveimur árum var stigið spor í þveröfuga átt við það sem flestir telja rétt nú. Þá var flutt og samþ. frv. um að koma á fót einni nýrri lánastofnun fyrir iðnaðinn, Iðnrekstrarsjóði. Nú var auðvitað ágætt að fá það fjármagn til iðnaðarins sem ákveðið var í þeim lögum. En í umr. hér á þingi og við meðferð málsins í iðnn. var ákveðið á það bent, bæði af mér og öðrum, að það væri ekki rétt leið að bæta nú við einni dánarstofnun enn fyrir iðnaðinn, heldur þyrfti fremur að endurskoða þær, sem fyrir væru, og stefna að samræmingu og sameiningu, m.a. til þess að betri þjónusta fengist og í sparnaðarskyni. Þess vegna lögðum við til. að í stað þess að stofna sérstakan Iðnrekstrarsjóð með stjórn og starfsliði væri þetta fé og þessi væntanlega starfsemi lögð undir Iðnlánasjóð sem fyrir var. Sú till. fékk ekki hljómgrunn og var frv. samþ. og gert að lögum, þó að allir viðurkenndu í rauninni að hitt væri æskilegra, að stefna að sameiningu.

Inn í mat og skoðun á lánastofnunum iðnaðarins koma bæði bankarnir og þessir sjóðir, sem hér hefur verið getið. Ég er sannfærður um að hér má vinna gott verk og gagnlegt fyrir iðnaðinn með meiri sameiningu og samræmingu en nú er. En þess er þá rétt að geta einnig, að á sviði iðnaðarins eru einnig ýmsar stofnanir sem þarf að skoða hvort ekki sé rétt að sameina eða samræma þeirra starfsemi, og er það mál einnig til athugunar.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta að sinni, en þessi mál koma að sjálfsögðu til kasta Alþ. áður en langt um líður.