04.02.1975
Sameinað þing: 36. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

314. mál, virkjunarrannsóknir á Dettifosssvæðinu

Fyrirspyrjandi (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir skýr svör. Ég er þeirrar skoðunar að það varði miklu, hvar næstu stórvirkjun verður valinn staður í landinu. Ég tel að það skipti miklu máli að þessum virkjunum verði dreift um landið, og mér sýnist á ýmsu að Dettifossvirkjun sé eitt af þeim verkefnum sem líklegt er að næst komi til álita þegar valinn verður staður fyrir stórvirkjun. Ég held að það skipti miklu fyrir almenna byggðaþróun í landinu, að næsta stórvirkjun verði í öðrum landshluta en hér sunnanlands.

Ég vil láta í ljós þá skoðun mína, að það sé mjög nauðsynlegt, að rannsóknum verði flýtt svo sem fremst er kostur við Dettifoss. Okkur finnst sumum, sem úti um landið búum, að virkjanirnar á Þjórsársvæðinu komi næstum eins og á færibandi án þess að nokkur viti af, en öll tregða sé mun meiri á framkvæmdum þegar lengra dregur frá þessu svæði.

Ég endurtek þakklæti mitt til hæstv. iðnrh. fyrir svör hans.