04.02.1975
Sameinað þing: 37. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

119. mál, lagning byggðalínu fyrir árslok 1975

Flm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Sú þáltill., sem við hv. 3. þm. Norðurl. v. flytjum hér í Sþ., hljóðar á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að vinna að því eftir fremsta megni að lokið verði lagningu byggðalínunnar svokölluðu norður í Varmahlíð í Skagafirði fyrir árslok 1975. Jafnframt heimilar Alþ. ríkisstj. að taka nauðsynleg lán, erlendis og innanlands, til að framkvæma þetta verk.“

Einhverjum kann að finnast að ekki sé gott í ári nú til að hraða framkvæmdum sem þessari. Satt er það að í mörg horn er að líta og þörfin er víða brýn. Ég hygg þó að færa megi sterk rök fyrir því, að af því hlytist mjög umtalsverður sparnaður fyrir þjóðfélagið ef hægt yrði að flýta þessu verki svo sem hér er gert ráð fyrir. Fram hefur komið að gert er ráð fyrir að lögð verði háspennulína frá Andakílsárvirkjun norður að Laxárvatnsvirkjun í Húnavatnssýslu á árinu 1975. Til þess að flutningsgeta þeirrar háspennulínu gagnist Norðurlandi öllu þarf að leggja línuna áfram frá Laxárvatnsvirkjun að Varmahlíð í Skagafirði. Sú leið er um 41 km. Það, sem farið er fram á í þáltill., er því í reynd lagning þessarar línu umfram það verk sem fyrirhugað er.

Ef þess er einhver kostur að þessi lína verði lögð, álít ég að fá eða engin verk, sem við eigum kost á að framkvæma á árinu, mundu svo fljótt skila arði sem þetta. Áætlað er, að á árinu 1976 þurfi að framleiða um 40 millj. kwst. með dísilolíu á Norðurlandi. Fram hefur komið af hálfu Rafmagnsveitna ríkisins að kostnaður við framleiðslu hverrar kwst. sé um eða yfir 10 kr., þar af um 6 kr. olíukostnaður. Ekki sparast þessi kostnaður allur þótt byggðalínan komi í Skagafjörð, en meginhluti olíukostnaðarins ætti að sparast og einhver hluti annars rekstrarkostnaðar. Áætlaður heildarkostnaður við lagningu byggðalínunnar sjálfrar, þ.e.a.s. staura og lagningu víra á þá, er um 750 millj. kr. og vegalengdin öll frá Hvalfirði norður í Varmahlíð um 226 km. Hvort að því er stefnt að ljúka lagningu byggðalínunnar í einum áfanga eða skilja eftir kaflann frá Laxárvatnsvirkjun að Varmahlíð, virðist því ekki skipta meginmáli kostnaðarlega. En meginhluti þess vanda, sem byggðalínan á að leysa, leysist ekki fyrr en samband er komið í Skagafjörð. Þar og á austanverðu Norðurlandi notast mestur hluti þeirrar raforku sem nú er framleidd með dísilvélum.

Samkv. þeim tölum, sem ég áður nefndi, er kostnaður við lagningu sjálfrar línunnar frá Laxárvatnsvirkjun að Varmahlíð innan við 140 millj. kr. á núgildandi verðlagi. Gert er ráð fyrir að kostnaður við spennuvirki á byggðalínunni allri verði um 270 millj. Þegar annars vegar er hafður í huga sá gífurlegi kostnaður sem framleiðsla rafmagns með dísilorku hefur í för með sér, og hins vegar áætlaður kostnaður við lagningu byggðalínu, kemur í ljós að lagning byggðalínunnar hlýtur að vera hagkvæm framkvæmd frá fjárhagslegu sjónarmiði, miðað við að ástandið væri látið óbreytt uns Kröfluvirkjun kemur í gagnið. En hagkvæmni byggðalínunnar byggist þó fyrst og fremst á því að hún verði reist fljótt og komist sem fyrst í gagn. Olíusparnaður árin 1976 og 1977 ætti að geta greitt stóran hluta stofnkostnaðar línunnar. Séu hins vegar fyrir hendi önnur úrræði til að leysa orkuvanda norðlendinga fljótt og vel, er sjálfsagt að athuga þau gaumgæfilega. Þó verður að leggja áherslu á að allt hik í lausn þessara mála virðist sama og tap. En sé þess kostur að fá á þessu ári ódýra orku á Norðurlandi til að leysa dísilorkuna af hólmi, er sú lausn auðvitað álitlegust.

Annað atriði, sem við flm. þáltill. teljum mikilvægt í sambandi við skjóta lausn raforkumálanna eða raforkuvandans á Norðurlandi, snýr að húsbyggjendum. Eins og er hefur að mestu eða öllu leyti verið lokað fyrir ný leyfi til rafhitunar húsa. Allir eru þó sammála um að sjálfsagt sé að stefna að rafhitun húsa á þeim svæðum landsins sem ekki geta notið jarðvarma í framtíðinni. Nú er viða byggt mikið af íbúðarhúsnæði á Norðurlandi, og mjög óheppilegt er að húsbyggjendum sé meinað að nota rafmagn til hitunar húsa sinna. Ef byggðalínan kemur alla leið í Varmahlíð á þessu ári eða önnur skjót lausn fæst á orkuskortinum ætti strax að mega leyfa rafhitun húsa að nýju.

Ástæða er til að taka það fram hér að lagning byggðalínu frá Suðvesturlandi norður er engin frambúðarlausn á orkuskorti norðlendinga, enda eru nú aðrar framkvæmdir áætlaðar til þess. Svo löng lína sem byggðalínan fyrirhugaða verður seint svo úr garði gerð að bilanahætta verði ekki mikil. Þess má geta að háspennulínan frá Akureyri vestur í Varmahlíð bilaði tvisvar á árinu 1974 vegna þess að snjóflóð féllu á línuna. Samt sem áður hefur sú lína gegnt mikilsverðu hlutverki í orkukerfi Norðurlands síðan hún var reist og sparað mikla dísilorku. Með nýrri 7 mw. dísilstöð á Akureyri, sem verið er að byggja, er allvel fyrir varaafli séð á austanverðu Norðurlandi að öðru en því að dreifa þyrfti varaaflsstöðvunum um þéttbýlisstaði meira en nú er. Þess vegna skal það enn tekið fram að byggðalínan leysir að vísu úr bráðasta vanda, en felur aðeins í sér einn þátt í framtíðarlausn orkuvandamálsins.

Enn er rétt að geta þess að ekki er fyrir hendi ótakmörkuð raforka sunnanlands. Að því er fróðir menn telja er þó nægileg afgangsorka flesta daga ársins til að mæta þörfinni á Norðurlandi. Nokkra daga, en fáa, fæst þessi orka ekki. Þörfin fyrir varaafl er því fyrir hendi jafnt eftir sem áður. Hinn almenni olíusparnaður er því mest virði af því sem vinnst ef byggðalínan verður lögð á skömmum tíma.

Ég geri ráð fyrir að nokkrir örðugleikar séu á því að fá efni til byggðalínunnar á svo stuttum tíma sem hér er gert ráð fyrir. Afgreiðslufrestur mun vera alllangur á ýmsum efnisvörum til háspennulínulagna. Hinu er erfitt að trúa, að miklu muni hvort við er bætt efni í 41 km milli Laxárvatnsvirkjunar og Varmahlíðar eða ekki. Slíkt veldur naumast úrslitum um efnisútvegun, en ræður úrslitum um notagildi byggðalínunnar, eins og reynt hefur verið að sýna fram á.

Herra forseti. Ég læt nú máli mínu lokið og leyfi mér að leggja til að till. verði vísað til hv. fjvn.