13.02.1975
Efri deild: 44. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Hannes Baldvinsson:

Herra forseti. Það er e.t.v. ekki ástæða til langra ræðuhalda um lagafrv. það sem hér liggur fyrir til afgreiðslu. Talsmenn Alþb. í umr., sem fram fóru í Nd. Alþingis í gærkvöld um efnahagsaðgerðir þær, sem eru undanfari þessa frv., þ.e.a.s. 20% gengisfellingu, gerðu þar mjög ítarlega grein fyrir afstöðu Alþb. og röktu ástæður fyrir andstöðu okkar við þá efnahagskollsteypu sem nú er lagt út í.

Í ræðum þeim, sem þar voru fluttar, voru taldar upp nokkrar þær leiðir sem Alþb. telur að átt hefði að fara til lausnar á þeim efnahagsvanda sem við er að etja. Og það hefur svo oft og rækilega verið rakið, bæði í ræðu og riti, að ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það hér.

En í þess stað vil ég leyfa mér að líta aðeins um öxl og rifja upp í stuttu máli aðdraganda og orsakir fyrir því, hversu nú er komið fyrir okkur í efnahagsmálum.

Í byrjun ársins 1974 fóru afleiðingar olíukreppunnar svokölluðu að segja til sín í nokkrum helstu viðskiptalöndum okkar. Þar sem áður hafði verið tiltölulega stöðugt verðlag gætti nú vaxandi verðbólgu, sem óhjákvæmilega hafði einnig töluverð áhrif hér á landi, og samtímis kom nokkur afturkippur í verðlag á helstu útflutningsvörum okkar. Vinstri stjórnin, sem ég álít að hafi verið í hópi betri stjórna sem setið hafa á Íslandi, riðaði til falls vegna óeiningar, sem upp hafði komið í SF, hana skorti bolmagn hér á þingi til að beita viðeigandi varúðarráðstöfunum, og óábyrg stjórnarandstaða neitaði meira að segja að ræða nokkrar aðgerðir til úrbóta. Þar við bætist að misvitrir menn töldu að allan vanda mætti rekja til nýafstaðinna kjarasamninga, þar sem nokkurs misræmis gætti í kauphækkunum milli stéttarfélaga. Það misræmi hefði verið hægt að leiðrétta á sársaukalítinn hátt. En efnahagsvandinn stafaði ekki af þessu misræmi. Orsakir hans voru annars eðlis. En þannig stóðu málin þegar þing var rofið, boðað til kosninga og beðið um dóm þjóðarinnar. Úrslitin eru öllum kunn og óþarft að minna á að Sjálfstfl. kom sem sigurvegari út úr kosningunum. Þeim hafði rétt eina ferðina tekist að telja fólki trú um að þeir einir kynnu ráð við öllum efnahagsvandamálum. En aðspurðir voru þeir reyndar hljóðir um náðarmeðulin sem nota átti til lækninga. Alþb. varaði þjóðina við og minnti á að íhaldsúrræðin hafa alltaf verið eins, þ.e. gengisfelling með tilheyrandi kjaraskerðingu og kaupbindingu. En þjóðin er fljót að gleyma og allt of margir létu þessi varnaðarorð sem vind um eyru þjóta. Og þó að Alþb. bætti stöðu sína í kosningunum og ynni umtalsverðan sigur, þá dugði það ekki til að vega upp á móti óförum SF. Þjóðin gekk því til hátíðarhalda í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar í fullkominni óvissu um hvað verða mundi um myndun nýrrar ríkisstj.

En eftir þjóðhátíðarhöldin kom að þeirri spilamennsku sem frægust hefur orðið á Íslandi, eftir því sem ég veit best. Hæstv. fyrrv. forsrh. dró spilapakka fram úr pússi sínu, og hann tók það fram að eftir að búið væri að gefa mundu engir sjá hvaða spil hann hefði á hendinni. Og þegar hann hafði talið mannspilin og velt þeim fyrir sér nokkra hríð, sló hann út trompgosanum og gerði Geir að forsrh.

Eftir þessa einstæðu spilamennsku tók hæstv. núv. ríkisstj. til við að framkvæma aðgerðir sínar í efnahagsmálum. Gengið var fellt um 17%, kaupgjald bundið, kjör sjómanna skert og vísitalan tekin úr sambandi, — allt sömu gömlu íhaldsúrræðin sem menn hefðu mátt muna frá valdatímabili viðreisnarstjórnarinnar. Láglaunabæturnar, sem áttu að rétta hlut þeirra sem verst voru settir í þjóðfélaginu, brunnu upp í verðbólgueldinum jafnóðum og þær komu til útborgunar.

Verkalýðshreyfingin og launþegar áttu ekki nema eitt svar við þessum harkalegu aðgerðum, sem óumdeilanlega bitnuðu af mestum þunga á þeim, sem minnst mega sin. Öllum samningum hefur verið sagt lausum og Alþýðusambandið og önnur samtök launþega hafa búið sig undir baráttu til að rétta hlut meðlima sinna.

En samningsaðilarnir voru varla sestir að samningaborðum til viðræðna um kjarabætur þegar hæstv. ríkisstj. sendi sitt innlegg í viðræðurnar á nýjan leik í formi nýrra og enn meiri gengislækkunar. Það fer svo sem ekkert á milli mála hvorum megin við samningaborðið hæstv. ríkisstj. kýs að sitja. Hún hefur þegar tekið greinilega afstöðu með öðrum aðilanum. Fari svo að verkalýðshreyfingin neyðist til að gripa til verkfallsvopnsins til að rétta hlut sinn, þá er það sök hæstv. ríkisstj. og hennar einnar. Hún ein kemur til með að bera ábyrgðina ef svo illa fer.

Herra forseti. Í skýrslu frá Þjóðhagsstofnun um afkomu þjóðarbúsins, sem dreift var hér á þinginu í gær, kemur greinilega fram að efnahagsvandinn, sem við er að etja, stafar ekki í jafnríkum mæli af verðfalli á útflutningsafurðum og útflutningsframleiðslu okkar eins og stuðningsflokkar ríkisstj. vilja vera láta, heldur þvert á móti. Útflutningsverðlagið hækkaði að meðaltali á árinu um 34% í krónum reiknað og 21–22% reiknað í erlendri mynt. Þó ber að hafa í huga að verðlækkun varð á nokkrum tegundum, eins og t.d. þorskblokk, en aðrar tegundir útflutningsvara okkar hækkuðu bara meira en sem þeim lækkunum nam. Hins vegar varð hækkun á innflutningsverðlagi og hún mun meiri eða 49% reiknað í kr. og 34–35% reiknað í erlendri mynt. Þær tölur, sem ég hef hér nú nefnt, eru teknar beint upp úr ritinu Úr þjóðarbúskapnum, sem er dags. 10. febr. 1975, og eiga við þróunina árið 1974. Þessi hækkun á innflutningsverðlagi veldur hinni óhagstæðu þróun viðskiptavísitölunnar og þaðan stafar aðalvandinn, þótt fleira komi auðvitað til. Það er t.d. bent á það hér á 1. síðu, að birgðasöfnun hjá álverinu sé ein af orsökum fyrir efnahagsvandanum, og það mættu þeir herrar athuga sem nú eygja það eitt hjálpræði fyrir íslenska atvinnuvegi að koma upp stóru fyrirtæki að hálfu í eign erlendra aðila í Hvalfirði sem á að vinna úr íslenskri orku á svipaðan hátt og álverið. Þar er ekki að finna lausnina í okkar efnahagsvandamálum, þó að byggingin kunni e.t.v. að skapa einhverja atvinnu hér, þar sem þó kannske minnst þarf á henni að halda. En eftir að búið er að rekja ástæðurnar fyrir þessari óhagstæðu þróun viðskiptavísitölunnar liggur það í augum uppi að gengisfelling leysir ekki þennan vanda, heldur þvert á móti magnar hann, eins og dæmi reyndar sanna.

Með 17% gengislækkuninni s.l. haust átti að leysa vandann að dómi hæstv. ríkisstj. en það þveröfuga gerðist. Óheillaáhrifin af þessari ráðstöfun eru ekki einu sinni að fullu komin inn í verðlagið þegar aftur þarf að gera ráðstafanir, og það er gripið til sömu vandræðaúrræðanna, bara í stærri stíl en fyrr. Það veit hver einasti heimilisfaðir, sem á síðasta ári þurfti að greiða upp undir 100 þús. kr. fyrir olíu til upphitunar á meðalstórri íbúð, að gengisfelling lækkar ekki kyndingarkostnað hans heldur hækkar hann. Og það veit hver einasta húsmóðir að gengisfelling lækkar ekki sykurverð, heldur þvert á móti hækkar það. Og hækkunin kemur ekki bara fram á innfluttu vörutegundunum, áhrifanna gætir ekki síður á innlendum framleiðsluvörum, hvort heldur um er að ræða brýnustu lífsnauðsynjar eða ekki. Þannig virðist allur almenningur landsins bera betra skynbragð á afleiðingar þeirra efnahagsráðstafana en sá aðili sem beitir þeim. Alþýðuheimilin í landinu hafa þó ekkert bolmagn til að taka á sig þessar auknu álögur sem nú er stefnt að, eins og málum er komið. Kaupmáttur hjá verkafólki er óviðunandi í dag, og það verður ekki með nokkru móti ætlast til þess að þeir verst settu axli enn auknar byrðar. Hæstv. ríkisstj. verður að gera sér ljóst að það er ósanngjarnt og ódrengilegt og leysir á engan hátt neinn vanda að höggva þannig í sífellu í sama knérunn.

Herra forseti. Í umr. um efnahagsmálin að undanförnu hafa menn tíðum gripið til þeirrar líkingar, að ástandið í efnahagsmálum okkar minnti á sjúkling sem þarfnaðist læknisaðgerða, og má þá líkingu til sanns vegar færa. Og í umr. um verðbólguna hefur að undanförnu gjarnan verið gripið til samlíkinga við eld. Menn tala t.d. um það að kjarabætur og kauphækkanir brenni jafnóðum í eldi óðaverðbólgunnar. En nú er svo komið að margra dómi, að íslensk tunga á ekkert nógu sterkt heiti um eldsvoða sem nota mætti til að skilgreina afleiðingarnar af aðgerðum hæstv. ríkisstj. í sambandi við verðbólguna. Nú virðist ekkert minna duga en orðið eldgos. Og það er ekki að ástæðulausu að kvíða setur að mörgum mönnum er þeir heyra það orð. En varðandi lækninguna á sjúklingnum, sem ég minntist á hér áðan, minna vinnubrögðin hins vegar á hómópata þá eða skottulækna sem gengu milli bæja með blóðtökuhorn og bíld og kváðust bæta alla kvilla með nægilega stórum blóðtökum. En því eru takmörk sett hve missa má af blóði svo að lifi sjúklingsins sé ekki hætta búin af hendi þeirra kuklara sem vita varla hvað þeir eru að gera. Ég tel að hæstv. ríkisstj. hafi með sambærilegum aðgerðum sínum teflt á of tæpt vað. Vandi efnahagsmálanna verður ekki lengur leystur með þeim ráðum að hlaða í sífellu auknum byrðum á bognar herðar launþega, þó að í þeim herðum einum eigi Ísland þá orku sem allan vanda mun leysa þegar þjóðinni lærist að skilja sinn vitjunartíma.

Varðandi það frv., sem hér liggur fyrir, má segja á ný að það sá afleiðing af þeirri ákvörðun ríkisstj. og stjórnar Seðlabankans að fella gengi íslensku krónunnar um 20%. Með því að greiða atkv. gegn þessu frv. erum við þm. Alþb. að mótmæla gengisfellingunni sem efnahagsaðgerð og þar af leiðandi þeim ráðstöfunum sem í frv. eru fólgnar.